En það bar til um þessar mundir, að boð kom frá Ágústus keisara, að skrásetja skyldi alla heimsbyggðina. Þetta var fyrsta skrásetningin og var gjörð þá er Kýreníus var landstjóri á Sýrlandi. Fóru þá allir til að láta skrásetja sig, hver til sinnar borgar. Þá fór og Jósef úr Galíleu frá borginni Nasaret upp til Júdeu, til borgar Davíðs, sem heitir Betlehem, en hann var af ætt og kyni Davíðs,að láta skrásetja sig ásamt Maríu heitkonu sinni, sem var þunguð. En meðan þau voru þar, kom sá tími, er hún skyldi verða léttari. Fæddi hún þá son sinn frumgetinn, vafði hann reifum og lagði hann í jötu, af því að eigi var rúm handa þeim í gistihúsi. En í sömu byggð voru hirðar úti í haga og gættu um nóttina hjarðar sinnar.Og engill Drottins stóð hjá þeim, og dýrð Drottins ljómaði kringum þá. Þeir urðu mjög hræddir, en engillinn sagði við þá: Verið óhræddir, því sjá, ég boða yður mikinn fögnuð, sem veitast mun öllum lýðnum: Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs.Og hafið þetta til marks: Þér munuð finna ungbarn reifað og lagt í jötu. Og í sömu svipan var með englinum fjöldi himneskra hersveita, sem lofuðu Guð og sögðu: Dýrð sé Guði í upphæðum, og friður á jörðu með mönnum, sem hann hefur velþóknun á. Lúk 2.1-14
Algóði Guð og Drottinn, blessa þú okkur hátíðina sem nú gengur í garð og veit okkur öllum frið og fögnuð í hjarta, og helga þú sorgir og söknuð okkar allra þessi jól. Í Jesú nafni. Amen.
Guð gefi þér gleðileg jól á þessu helga kvöldi!
Á aðfangadagskvöldi fyrir rúmum níutíu árum orti Stefán frá Hvítadal, eitt okkar ágætasta skáld, eftirfarandi:
Gleð þig, særða sál, lífsins þrautum þyngd. Flutt er munamál. Inn er helgi hringd. Minnstu komu Krists, hér er skuggaskil. Fagna komu Krists, flýt þér tíða til.
Guð er eilíf ást, engu hjarta er hætt. Ríkir eilíf ást, sérhvert böl skal bætt. Lofið guð, sem gaf, þakkið hjálp og hlíf. Tæmt er húmsins haf, allt er ljós og líf.
Í nótt verður allt ljós og líf! Það er boðskapur jólanna.
Ljós og líf.
Í nótt munu englarnir tala og við fáum að hlýða á. Þeir munu segja okkur frá því sem gerðist í Betlehem og frá ljósinu sem stafar þaðan og við okkur skín þar, frá litlu fjárhúsi, úr láreistri jötu þar sem lítið barn liggur vafið reifum, barn sem er ljós heimsins og líf mannanna, eins og segir í jólaguðspjalli Jóhannesar. Ekkert kvöld er jafn fagurt og kvöld jólanna. Og engin nótt er jafn yndisleg og sú nótt sem framundan er, jólanóttin. Hún er töfrum fyllt. Við finnum það innra með okkur. Sú helgi sem umvefur okkur núna segir það.
Jólanóttin vekur með okkur vonir og drauma og djúpstæða þrá sem er falin í því sem dýpst er innra með okkur.
Hverjar eru þær væntingar?
Hvaða vonir vekja jólin með þér?
Von um frið í heiminum og kærleika milli fólks? – Já, vafalaust. En eitthvað sem stendur þér nær en það? Von um frið og ró í hjarta og gleði í sál; von um sefun söknuðar og sorgar. Jólin eiga auðvelt með að vekja með okkur minningar, leiða okkur fyrir sjónir horfnar stundir, kannski frá liðnum jólum úr barnæsku; bros á andliti þegar fallegur jólapakki var tekinn upp, skemmtilegar samræður við matarborðið, aðstoð í eldhúsinu á eftir, rólegheit í faðmi fjölskyldunnar undir lok kvöldsins, uns þreytan sækir að með nóttinni, helgu jólanóttin, með frið sinn og fögnuð.
Það er margt sem jólin vekja innra með okkur en því er misjafnt farið hjá okkur hvað það nákvæmlega er og hvers vegna. Þó hefðir séu þær sömu eða svipaðar hjá okkur flestum þá eru jólin okkar alltaf sérstök og ólík frá einum til annars. Jólin tala til okkar með sínum hætti og við upplifum tíma þeirra á ólíkan hátt. Jólin eru aldrei haldin óháð tilfinningum okkar og líðan. Jól geta ýmist verið haldin í björtu ljósi gleði og hamingju, eða í skuggum sorgar og missis, kannski einhvers staðar þar á milli. Aðdragandi jólanna þinna getur verið annar en hjá þeim sem situr nærri þér hér í kvöld– og hann er það eflaust. En hér erum við öll í sömu kirkjunni og hlýðum saman á falleg jólalög. Jólahelgin sem sækir núna að hjörtum okkar er eins og hins sama.
Helgi jólanna lætur ekkert okkar ósnortið, hún nær til innstu hugsanna og tilfinninga, hún snertir innstu sálarstrengi. Jólin kallast á við það sem við geymum innst í hjarta okkar og sálu. Það finnum við hér í kvöld, kannski á ljúfsáran hátt. En við munum fá að njóta þeirrar helgi áfram og inn í nóttina.
Hvers vegna er það svo?
Hvað er það sem veldur því að þetta kvöld er svona ólíkt öllum öðrum?
Undanfarnir dagar hafa verið erilsamir. Við höfum haft mikið að gera við að ljúka öllu sem þurfti að gera. Og það hefur tekið á. Sumir slóu af þessi jól, aðrir ekki. Við þurftum sum að hlaupa til, oft í miklum flýti. Yfirleitt er eitthvað sem gleymist. En alltaf næst þetta einhvern veginn undir lokin þó það sé stundum lýjandi fyrir sálartetrið. En það er algjörlega gleymt núna. Jólin koma og þau eru komin. Við hugsum ekki lengur um búðarápið, um stressið og álagið. Við erum upptekin við annað. Sú helgi sem jólin færa getur vikið flestu öðru frá, þreytu og kvíða, jafnvel linað ótta og sorgir, fái hún að koma að með frið og gleði sem nær okkur inn að hjarta. Ef við viljum! Ef við viljum þiggja!
Hvað er það sem gerir það að verkum? Hvers vegna á helgi jólanna jafn greiðan aðgang að okkur og raun ber vitni?
Er það vegna þess hve vel við höfum búið um jólin heima? Er það vegna þess hve fagurt er um að lítast í stofunni núna; vegna allra ljósanna sem glitra og sindra í rökkrinu og lýsa allt upp með svo indælum hætti, eins og hér núna í kvöld? Eða er það vegna veislunnar sem er framundan, ánægjunnar sem er fólgin í augum barnanna sem sitja við jólatréð og eiga ekkert í hjarta sér á þeirri stundu en einlæga gleði? Er það gleðin yfir því að gleðja aðra og gleðjast með öðrum?
Já, það er vegna alls þessa. Allt þetta gerir vissulega jólin að því sem þau eru í okkar huga. En þetta er samt ekki út af neinu. Jólin eru meira en svo, miklu meira. Við getum gert okkur dagamun á öðrum tíma ársins og glatt sjálf okkur og aðra um leið, og við ættum að gera það við hvert tækifæri. En jólin eru aðeins einu sinni á ári. Jólin eru ekki eitthvað sem við getum sniðið að okkar þörfum eða vilja. Við getum ekki kallað fram jólin heldur koma þau til okkar. Gleðin sem jólin vekur með okkur, sá friður og sú blessun, sem er sest að í hjarta okkar núna er djúpstæðari en allt það sem við getum sjálf veitt okkur í kvöld eða á nokkrum öðrum tíma. Það kemur annars staðar frá.
Hvaðan kemur þá helgi jólanna?
Jú, nú eru englarnir að tala til þín.
Þeir eru að tala til þín á þessari stundu. Þeir hvísla að hjarta þínu. Og þeir munu halda áfram að tala til þín í kvöld og þeir munu að lokum leiða þig inn í hvíld jólanæturinnar með þeim sömu orðum og þeir tala til þín núna: Vertu óhræddur. Í dag er þér frelsari fæddur, Kristur sjálfur, Drottinn þinn.
Þetta er sá fögnuður sem þér er boðaður hér, núna á þessari stundu. Þessi orð vekja með okkur frið og ró og bera uppi hátíðleikann sem við upplifum nú.
„Yður er í dag frelsari fæddur.“
Sú dýrð sem ljómar í kringum okkur á þessari stundu er fólgin í þeirri staðreynd sem þessi orð boða. Þetta er Jesús frá Betlehem. Hann er kominn á ný. Hann vill gefast þér nú í kvöld. Frá honum stafar sú helgi sem lýsir upp jólin þín. Hann var það barn sem fæddist í fjárkofa, inn í eymd og fátækt. Hann kynntist frá fyrstu stund lífs síns þeim erfiðleikum og sorgum sem maðurinn á við að etja í sínu lífi – þú og ég. Hann tók það allt á sig fyrir okkur. Og þess vegna rúmast hjá honum allt það sem mannlegt hjarta geymir í fylgsnum sínum. Þess vegna máttu treysta honum og trúa.
Og nú hvíslar engillinn að hjarta þínu: Hann er kominn að finna þig. Hann kallar á þig og er hingað kominn þín vegna. Jólin eru gengin í garð.
Í þriðja erindi áðurnefnds ljóðs Stefáns frá Hvítadal segir svo:
Kveikt er ljós við ljós, burt er sortans svið. Angar rós við rós, opnast himins hlið. Niður stjörnum stráð, engill framhjá fer. Drottins nægð og náð boðin alþjóð er.
Engill fer framhjá og boðar heiminum náð Guðs.
Og núna er hann hér.
Þetta segja jólin þér. Hann er kominn hingað. Jesús Kristur er það ljós sem lýsir upp skammdegi lífs og sálar. Hann er það ljós sem lýsir í vetrarmyrkrinu. Og ég, af öllu fólki, fæ að taka á móti honum, tala við hann, finna hann, krjúpa frammi fyrir honum og horfast í augu við hann. Ekki aðeins í gegnum bjart skin fallegra kertaljósa, ekki aðeins í gegnum söng englanna, ekki aðeins í gegnum gleði og hamingju, heldur einnig í gegnum sorg og erfiðleika; vegna þess að hann vill gefa mér jól í hjarta mínu og í sálu minni, og kasta ljóma sínum, sem stafar frá jötunni hans, yfir líf mitt – og yfir þitt líf, þína gleði, þínar sorgir.
Lítum í huga okkar til Betlehems þessi jól. Lítum í anda inn í fjárhúsið lága til að sjá barnið sem þar liggur í jötu. Förum og veitum því lotningu okkar. Og finnum því í hjarta okkar litla jötu að hvílast í þessi jólin. Ég veit ekki hvernig um er að lítast hjá þér þessi jól, ég veit ekki hvernig þínum jólum er háttað. Ég veit að það er misjafnt borðið sem fólk sest við í kvöld um víða veröld og misjafnt er það sem á það er lagt. En eitt er víst. Jesús Kristur er öllum nærri, hvar sem er og hvernig sem er, í gleði og hamingju, í sorg og erfiði. Þú færð að sjá hann í þeirri jötu sem geymir lífið, fyrirheitin og framtíðina, eins og þú sérð hana besta fyrir þig og þína.
Dýrð sé Guði í upphæðum. Hann er kominn. Hann er fæddur. Hann blessi þig og varðveiti á lífi og sálu og gefi þér frið og fögnuð í hjarta og gleðileg jól.