Ég man þegar ég var drengur og horfði á fósturafa minn í Ameríku opna niðursuðudós með fleski og bökuðum baunum. - Hugsaðu þér! sagði hann í hrifningu. Hér getur maður setið og opnað eina svona dós og í henni er bara veisla. Hér í þessari dós er allt sem þarf! Ég hreifst með og starði hugfanginn ofan í baunajukkið sannfærður um að einmitt þarna væri saman komin hin rétta summa alls sem maðurinn í heiminum þarfnast. Fósturafi minn var þýskur að uppruna, hafði ungur kynnst hörmungum Nasismans, flúið úr her Hitlers og ýmsa fjöruna sopið og þarna sat hann og leiddi ungviðið inn í undur hinna amerísku nægta. Aldrei fékk hann heldur nógsamlega lofað auglýsingahléin í sjónvarpinu. - Hugsaðu þér bara! Sagði hann við mig þegar enn eitt hléið var gert á þættinum sem við vorum að fylgjast með, - hér situr maður og horfir á skemmtilega dagskrá úr þessum kassa og það er eitthvert fólk sem maður þekkir ekki sem borgar brúsann fyrir það eitt að fá að gefa manni upplýsingar um það sem það langar að selja manni þótt maður kaupi ekkert. Svo hristi hann höfuðið í undrun og ánægju. Þannig laukst upp fyrir mér barnungum dásemd markaðarins og niðursuðudósarinnar.
Heimili Aðalheiðar föðurömmu minnar og Carls fósturafa var í San Diego í Californíu og það var mikil reynsla fyrir 8 ára dreng að dvelja einn vetur fjarri hraglandanum og hafragrautunum hér heima í sólarlandinu Californíu þar sem sælgætisbíllinn ók reglubundið um hverfið og staðnæmdist ef í hann var hóað, og svo kom ísbíllinn og hafði sama ökulag. En þegar ég hugsa um húshald ömmu og afa þá man ég hvað þau höfðu mikið fyrir því að spara. Óþarfi var óþarfi hjá þeim. Þar heyrði ég hugtakið “kúpong” sem ég skildi fljótt að táknaði afsláttarmiða af einhverri sort. Þessu safnaði amma skipulega úr blöðum sem bárust í hús og þegar farið var að versla var þetta allt saman skilvíslega notað. Í stóru frystikistunni var fiskur sem afi veiddi og endur sem hann skaut og svo voru í búrinu blessaðar niðursuðudósirnar og af þessu öllu stafaði ljóma ráðsnilldar og fyrirheit um örugga framtíð í sólarlandinu.
„Himinn og jörð munu líða undir lok” segir í guðspjalli dagsins. (Mark. 13.31-37)
Svo var það einmitt þarna um árið þegar dollarinn var 59 kr. að ég renndi ásamt fjölskyldu minni upp að gamla húsinu þar sem amma og afi höfðu átt heimili sitt og lagði bílnum við tréð sem ég hafði klifrað í sem drengur búandi í þessu húsi. Ókunnug kona var að fara út með ruslið og horfði á okkur með tortryggni í augum.
„Himinn og jörð munu líða undir lok” Allt hreyfist, ekkert stendur kyrrt og dag einn býr einhver ókunnugur í húsi bernsku þinnar. Skyldi þessi kona safna kúpnoum? Hugsaði ég.
Amma mín og fósturafi voru ungt fólk í heimskreppunni hvort í sínu landi og svo mættust þau í hörmungum stríðsins í Kaupmannahöfn og það er mögnuð saga. Hann var strokuhermaður úr sveitum Hitlers og var í tengslum við dönsku andspyrnuhreyfinguna, hún var á flótta frá fátæktarbasli íslenskrar einstæðrar móður með lausaleikskróa. Sameinuð eignuðust þau ameríska drauminn. - Þú átt bara eitt líf! Sagði afi þegar hann var að sannfæra mig rúmlega tvítugan um að flytja til Bandaríkjanna. - Þú átt bara eitt líf, hvers vegna viltu eyða því í vondu veðri?
Svo stóð ég yfir gröf þeirra árið 2007 í þessum fallega kirkjugarði og dollarinn var í 59 krónum, það hefði afa líkað að heyra. Sjálfur var ég kominn á fimmtugsaldur og mér þótti sem tíminn þyti í laufum blaðríkra trjánna.
„Himinn og jörð munu líða undir lok.”
Ekkert er augljósara, engin staðreynd verður gleggri því lengur sem maður lifir en sú að þessu lýkur öllu saman. Hversu margar dósir sem maður opnar, hversu vel sem raðað er í frystikistuna og innkaupin vönduð þá mun tilvera þín og mín líða undir lok í þeirri mynd sem við þekkjum hana. - „En mín orð munu aldrei undir lok líða.” segir Jesús í guðspjalli dagsins. „Gætið yðar, vakið! Þér vitið ekki nær tíminn er kominn. Svo er þetta sem maður fari úr landi, skilji við hús sitt og feli þjónum sínum umráðin, hverjum sitt verk. Dyraverðinum býður hann að vaka. Vakið því, þér vitið ekki nær húsbóndinn kemur, að kveldi, á miðnætti, í óttu eða dögun. Látið hann ekki finna yður sofandi þegar hann kemur allt í einu. Það sem ég segi yður, það segi ég öllum: Vakið!” (Mark. 13.31-37)
Ég held að svefndrunginn sem Jesús er að vara okkur við birtist með margvíslegu móti, þótt hann eigi eina rót. Pétur Gunnarsson rithöfundur hitt hóp presta um daginn á málstofu sem haldin var og fullyrti þar á þessa leið: Það er eyðandi afl í magninu. Magnið eyðir sagði hann.
Það er eitthvað varðandi afstöðu okkar til efnislegra gæða sem gerir það að verkum að magnið vex og vex að þarflausu. Hraðinn eykst, rásum og vefsíðum fjölgar, upplýsingaflæðið er löngu komið fram úr mannlegri bandvídd að ógleymdu öllu dótinu og draslinu sem okkur finnst við þurfa að hafa við höndina. Meira er betra höldum við, einmitt þegar sannleikurinn er sá að minna er bæði betra og meira.
Doði fylgir magninu. Um þessar mundir er verið að ganga frá útreikingum á hóflegu neysluviðmiði fyrir Íslendinga. Það eru starfsmenn félagsmálaráðuneytisins sem vinna verkið og vegna þess að ég er að rannsaka umfang og eðli fátæktar í landinu sem fulltrúi í velferðarráði borgarinnar þá reyni ég að fylgjast með. Það mun vera staðreynd að ef allir jarðarbúar hefðu sömu neyslu og við Íslendingar í orku, efni og úrgangi þá þyrftum við níu jarðkringlur til þess að fæða og klæða mannkyn. Níu jarðir ef bara væru til Íslendingar í heiminum!
Þessa daga er íslensk þjóð að gera upp við sig hvort hún hafi lyst á lífinu. Viljum við að vera þjóðfélag? Það er spurningin sem við erum að svara. Orkum við að tala saman og gera þær ráðstafanir sem þarf svo að sameiginlegir hagsmunir okkar séu í eðlilegum farvegi? Við vitum það ekki fyllilega enn. Neysludoðinn er yfir okkur við erum magnþrota þjóð í nýjum skilningi þess orðs. Fátæktin sem við erum alltaf að tala um horfandi á plastpokaraðir Fjölskylduhjálparinnar og Mæðrastyrksnefndar stafar ekki af efnislegum skorti heldur af magndoða. Við megnum ekki að deila með okkur því sem við höfum, við orkum ekki sanngirninni, bifum ekki réttlætinu, andvaraleysið liggur á okkur eins og mara.
Þú átt bara eitt líf sagði fósturafi minn. Sjálfur hafði hann haft nokkuð fyrir því að bjarga lífi sínu sem ungur strokuhermaður og e.t.v. var það þess vegna sem hann kunni svo vel að meta bakaðar baunir og fleskbita í dós. Hér er allt sem þarf! sagði hann og horfði af innlifun á tinlokið brettast upp.
Hér hafa ekki orðið mannskæðar náttúruhamfarir. Hér er ekki aflabrestur og hungursneyð. Hér er ekki styrjöld. Hér er ekki mannfall vegna sjúkdómsfaraldra. Hér er bara magnþrota þjóð sem ekki hefur vakað yfir auðæfum sínum. Sökum þess að við höfum ekki lært að þakka og gleðjast og horfa hugfangin á gæði hins einfalda lífs þá hefur þjóðin verið svipt ýmsu því sem hún taldi sig hafa. – Það hlaut að gerast.
„Þeim sem hefur mun gefið verða” sagði Jesús, og það á við í þessu samhengi. “Þeim sem hefur mun gefið verða og hann mun hafa gnægð en frá þeim sem eigi hefur mun tekið verða jafnvel það sem hann hefur.” Vangetan sem við köllum kreppu, aulaskapurinn sem við erum að bíta úr nálinni með, andvaraleysið sem rænt hefur okkur ýmsu sem við vel máttum vera án og skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis er ævarandi áminning um mun reynast afkomendum okkar betra veganesti en við gerum okkur nokkra grein fyrir.
Það sem ég segi yður, það segi ég öllum: Vakið!
Ég held að hann fósturafi minn hafi ekkert verið meðvitaður um þá kennslu sem afstaða hans til niðursuðudósarinnar reyndist mér. Ég trúi því að Guð hafi lagt þau lögmál inn í tilveruna að afkomendur draga til sín það besta, fleygja hratinu en læra það sem læra þarf. Núna eru merkir tímar sem færa munu afkomendum okkar innsæi og vakandi vitund. Góður Guð er að starfi í sögunni, hann hefur ekki skilið okkur ein eftir. “Styrkið máttvana hendur, styðjið magnþrota hné,” las hún Auður hér áðan úr lexíu dagsins: “Styrkið máttvana hendur, styðjið magnþrota hné, segið við þá sem brestur kjark: ‘Verið hughraustir, óttist ekki, sjáið, hér er Guð yðar, hefndin kemur, endurgjald frá Guði, hann kemur sjálfur og bjargar yður.’ Þá munu augu blindra ljúkast upp og eyru daufra opnast. Þá stekkur hinn halti sem hjörtur og tunga hins mállausa fagnar. Já, vantslindir spretta upp í eyðimörkinni og lækir í auðninni.” (Jes. 35.3-6)
Í stað magndrungans, í stað neysludoðans sem lagst hefur á menningu okkar og rænt okkur meðvitund svo að við eigum bágt með að kannast við náunga okkar og vitum ekki hvort við viljum vera samferða, í stað þess andlega tóms sem lengi hefur þjakað þjóð okkar og vestræna menningu almennt og valdið firringu frá eðli lífsins og framandleika manna í millum, - þess í stað boðar góður Guð nálægð sína. Hann nálgast heiminn ekki í magni heldur í gæðum. Hann kemur sem barn. Hann kemur til þess að gráta í heiminum. Ekkert vekur okkur fremur en grátur ungabarnsins. Ekkert kveikir í frumkenndum mennskunnar fremur en ilmurinn af reifabarninu. Þannig kemur Guð til þess að vekja.
Eigum nú góða aðventu.