Hvers vegna? Bróðir drepur bróður. Faðir fórnar dóttur í hendur kynferðisofbeldismanna. Sifjaspell og heimilisofbeldi. Framhjáhald og sálarmorð. Þetta er allt að finna í nokkrum sögum í Biblíunni.
Karlmaður fannst myrtur á heimili sínu. Maður er dæmdur fyrir að drepa eiginkonu sína og níu mánaða gamalt barn. Kona grýtt til dauða. Maður misnotaði dóttur sína. Konur sökuðu biskup um kynferðisofbeldi. Sögur um þessa hluti hefur verið hægt að lesa í fjölmiðlum síðast liðna viku.
Ég skil hvers vegna þessar sögur eru í fjölmiðlunum. Þar er verið að upplýsa almenning um það sem gerst hefur í samfélaginu.
En hvers vegna eru þessar sögur í Biblíunni?
Hvers vegna eru þær ekki teknar út úr hinni helgu bók?
Kain og Abel Sagan um Kain og Abel, um bróðurmorðið er helgisaga. Hún er ein þessara ljótu sagna Biblíunni. Hún er hryllilegur fjölskylduharmleikur sem fjallar um afbrýðisemi systkina, um reiði, öfundsýki og tilfinningalega fötlun. Um morð. Það virðist vera framið af yfirlögðu ráði og með köldu blóði. En hvað vitum við svo sem hvað raunverulega hefur gengið á. Við fáum ekki að vita mikið meira en svo að Guði líkar betur kjötfórn Abels en ávaxtafórn Kains. Sagan hlýtur þó að vera lengri. Mun lengri og mun dýpri. Við vitum ekkert um uppvöxt og aðstæður bræðranna.
Þessa sögu er að finna í Fyrstu Mósesbók í Gamla testamentinu en flestar ljótu sögurnar eru einmitt í Gamla testamentinu.
Mörg þekkjum við söguna um bræðurna Kain og Abel sem hefur verið sögð í sunnudagaskólanum. Hún er með svo skýrann og einfaldan boðskap að minnsta barn getur skilið hana. Ég hef þó ákveðnar efasemdir um að besta leiðin til þess að boða elsku Guðs, góða siði og náungakærleika, sé að segja börnum sögu um morð. Þó að sagan sé helgisaga.
Ljótar sögur Það eru margar ljótar sögur í Biblíunni. Nokkrar þeirra segja frá ofbeldi karla á körlum en margar þeirra segja frá hryllilegum ofbeldisverkum valdamikilla karla á konum.
Í þessum sögum Gamla testamentisins kemur Guð yfirleitt fyrir sem mjög mannleg/ur Guð og jafnvel breysk/ur. Guð sýnir svipaðar tilfinningar og mannfólkið. Guð verður afbrýðisöm/samur. Guð verður reið/ur. Guð refsar og prófar fólk. Þetta er sannarlega ekki sú mynd af Guði sem Jesús Kristur birtir okkur í Nýja testamentinu. Guð sem elskar okkur eins og við erum, þjáist með okkur, reiðist öllu óréttlæti og fyrirgefur allt.
Það sem er svo erfitt við margar þessar ljótu sögur í Gamla testamentinu er að þær hafa ekki góðan boðskap. Þær enda ekki vel að lokum eins og góð ævintýri. Þær enda bara skelfilega. Oft er hreinlega erfitt að skilja hvers vegna þær eru í okkar helgu bók. Dæmi um þetta er sagan um Tamar sem er að finna í Jósúabók 13. kafla. Tamar er konungsdóttir sem er nauðgað af bróður sínum. Við það verður skömm hennar svo mikil að hún flýr að heiman og býr ein og yfirgefin upp frá því. Seinna kemur reyndar að því að annar bróðir hennar lætur drepa þann er nauðgaði henni. Staða hennar batnar þó ekkert fyrir það. Þetta er klassísk sifjaspellssaga sem gæti alveg eins átt sér stað í Grafarvoginum í dag. Bróðir nauðgar. Fórnarlambið finnur til sektar og er refsað með útskúfun.
Annað dæmi um þetta sagan um ónefndu konuna í Dómarabókinni (Dóm. 19.1-30). Þessi kona kemur frá Betlehem og er hjákona Levíta nokkurs. Hún heldur fram hjá hjámanni sínum. Hann fer og sækir hana heim til föður hennar þar sem hann sest að margra daga drykkju með karlinum. Á heimleiðinni fá þau gistingu í þorpi nokkru og þar er henni fórnað til þess að bjarga skinni hjámannsins. Kærasti hennar kastar henni í hendur ofbeldismanna sem nauðga henni og misþyrma heila nótt. Daginn eftir fer maðurinn heim með hana illa slasaða og þegar þangað er komið, drepur hann hana, bútar líkama hennar niður í tólf hluta og sendir þá út um allar byggðir Ísraels. Þetta eru ekki einu sögurnar um hryllilegt ofbeldi gegn konum sem eru að finna í heilagri ritningu. Þær eru fleiri.
Hvers vegna eru þessar ljótu sögur í Biblíunni?
Ljótar sögur í nútímanum Ef við skoðum þessar sögur í ljósi samtímans þá sjáum við að þær gætu allar gerst í dag. Ljótar sögur gerast enn. Raunverulegar sögur. Það þarf ekki annað en að lesa eða hlýða á fjölmiðla til þess að áta sig á því.
Fyrir mörg okkar eru þetta ekki sögur heldur raunveruleikinn.
Nauðganir, sifjaspell, morð og ofbeldi á sér ekki síður stað í dag en á tímum Gamla testamentisins.
Í mörgum löndum er leyfilegt að beita konur ofbeldi.
En það er ekki leyfilegt í vestrænum ríkjum og það er ekki leyfilegt á Íslandi. Samt gerist það.
Í dag er þó ofbeldismönnum refsað og morðingjum stungið í fangelsi. Eða hvað?
Margt hefur breyst frá því ljótu sögur Gamla testamentisins áttu sér stað.
Það sem hefur þó ekki breyst nægilega mikið er að enn eru konur sem verða fyrir ofbeldi að kenna sjálfum sér um verknaðinn. Að telja sér trú um að þær hafi átt þetta skilið. Að telja sér og öðrum trú um að þær hafi beðið um þetta með því að ögra.
Það sem hefur ekki breyst nægilega mikið er að sönnunarbyrðin er oft meiri hjá fórnarlambinu en ofbeldismanninum þegar um kynbundið ofbeldi er að ræða. Að fórnarlambinu er ekki alltaf trúað. Að enn er reynt að þagga óþægileg mál niður því þau snerta svo marga. Þau eru of hræðileg.
Ljótu sögurnar í kirkjunni Við höfum undanfarið heyrt nokkrar sögur kvenna sem saka fyrrverandi biskup kirkjunnar okkar um tilraunir til nauðgana, ofbeldi og sifjaspell. Ég geri ráð fyrir því að við þekkjum öll eitthvað til þessara mála sem hafa haldið fjölmiðlafólki við efnið síðast liðna viku.
Gamlar sögur og ásakanir á hendur fyrrum biskupi eru að koma upp á yfirborðið á ný vegna þess að kirkjan sinnti fórnarlömbum biskupsins aldrei og vegna þess að kirkjan tók þátt í að þagga þessi mál niður með og fyrir biskupinn.
Nú þegar Ólafur Skúlason heitinn hefur einnig verið sakaður um sifjaspell gagnvart dóttur sinni, eru hinar sögurnar að koma upp á yfirborðið á ný.
Kirkjan hefur að mörgu leyti lært af þessu og ég trú því ekki að það hvarfli að nokkrum presti í dag að leita sátta á milli ofbeldismanns og fórnarlamba hans.
Í dag eru til leiðir til þess að setja kynferðisofbeldismál í ákveðinn farveg og allir prestar eiga að þekkja þær leiðir.
Einmitt nú er verið að setja sannleiksnefnd á laggirnar til þess að skoða hlut kirkjunnar í þessum málum.
Þrátt fyrir þetta á kirkjan í nokkrum erfiðleikum með að takast á við þessi gömlu mál enn í dag. Kannski er einhverja skýringu að finna í því að svo margir prestar eru særðir vegna þess er gerðist þegar þetta mál kom upp síðast. Nokkrir prestar vitna um að þeir hafi verið hálfpartinn þvingaðir til þess að skrifa undir stuðningsyfirlýsingar við biskupinn. Aðrir segjast hafa reynt að fá hann til að segja af sér sem ekki gekk. Enn aðrir voru fórnarlömb meðvirkni með þessum sterka manni og meðvirkni sem aldrei er unnið með hverfur ekki að sjálfu sér og getur því haft afleiðingar enn í dag.
Ég hitti Sigrúnu Pálínu Ingvarsdóttur í gær. Hún er konan sem var fyrst til þess að ásaka Ólaf Skúlason heitinn um nauðgunartilraun. Sigrún Pálína hefur verið að hitta presta sem hafa óskað eftir því og það var mér mikill heiður að fá að hitta hana og horfast í augu við fórnarlamb embættismannsins sem barist hefur fyrir sannleikanum í öll þessi ár.
Þessi heilsteypta kona hefur unnið vel úr reynslu sinni en sláandi er kærleikur hennar til kirkjunnar þrátt fyrir allt.
Í mínum huga er ekki nokkur efi um að Sigrún Pálína segir satt og hefur alltaf gert. Hvers vegna ætti það ekki að vera?
Á þessum fundi fann ég til mikillar reiði í garð kirkju sem ekki gat staðið með fórnarlambinu fyrir fjórtán árum og er ekki að höndla þetta mál nógu vel í dag. Ég fylltist líka skömm. Ég skammaðist mín fyrir það að kirkjan skyldi velja sér ofbeldismann sem biskup og ekki þora að standa í lappirnar og verja fórnarlambið eins og kirkja Krists hlýtur að eiga að gera. Ég fann líka mikla sorg. Ég varð svo sorgmædd yfir því að kirkjan, valdaklíkur og fólk úti í bæ skyldi leifa sér að leggja þessa konu (sem hafði reynt meira en nóg), manninn hennar og börn í einelti. Þær sögur eru ekki síður ljótar.
Mér þykir svo leitt að enn sé vandræðagangur í kirkjunni vegna þessa máls. Ég vil að við í kirkjunni, ekki síst prestar og yfirstjórn hennar, getum komið fram sem iðrandi og sjálfsgagnrýnin kirkja. Við verðum að geta viðurkennt mistök og sýnt yfirbót.
Ég er þakklát Sigrúnu Pálínu og öðrum fórnarlömbum fyrrverandi biskups sem komið hafa fram því þær hafa komið því til leiðar að kirkjan mun nú taka sig í gegn og rannsaka aðkomu sína að þessum máum fyrir fjórtán árum. Ég bind miklar vonir við þá vinnu. Barátta þeirra forðum var þrátt fyrir alls ekki til einskis því það er vegna hennar sem kirkjan setti fram þau úrræði sem eru til í dag og eru góð ef þau eru nýtt sem skildi.
Saga Sigrúnar Pálínu er saga svo margra kvenna. Hún er saga fjölda kvenna um allan heim og eitt af því sem gerist þegar farið er að segja svona sögur opinberlega er að þá eru fórnarlömb annarra manna minnt á sinn sársauka.
Það eru svo margar konur og svo mörg börn hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi og meiri hluti þeirra er framinn af mönnum sem þær þekkja vel. Ég hef hitt konur síðustu daga sem hafa orðið fyrir nauðgunum og sifjaspelli sem hafa sagt mér frá þeirri sorg og reiði sem blossar upp í þeim þessa dagana í garð kirkjunnar og allra þeirra er halda hlífðarskildi yfir ofbeldismönnum.
Kirkjan má aldrei aftur verða þannig staður!
Ljótu sögurnar í Biblíunni Hvers vegna eru þessar ljótu sögur með í heilagri ritningu?
Ég held að stór hluti þessara sagna hafi í raun meira sagnfræðilegt gildi en nokkurn tíma guðfræðilegt. Þær segja okkur að ljótir hlutir gerast og við eigum aldrei að fela þá.
Ég held að þessar sögur úr Gamla testamentinu sem ég hef sagt frá hér segi okkur mun fremur frá hugmyndum fólks, á þessum tímum og á þessum stöðum, um Guð en um það hver Guð raunverulega er.
Sá/sú Guð er Jesús Kristur sýnir okkur er um flest ólík/ur þeim Guði sem krefst brenni- og sláturfórna og lætur það gott heita að karlar beiti konur sínar, dætur og systur ofbeldi.
Sú/sá Guð er Jesús Kristur kynnir okkur fyrir tekur sér alltaf stöðu með fórnarlambinu og trúir því. Þannig trúi ég að Guð sé.
Kannski eru ljótu sögurnar með í Biblíunni vegna þess að þetta eru lífssögurnar. Ef þeim væri haldið í burtu og aðeins fallegu og góðu sögurnar fengju að standa þá væri Biblían ekki bók lífsins. Þá væri hún ekki bókin sem segir frá sambandi Guðs og manneskjunnar og samskiptum fólks við hvert annað.
Kannski eru ljótu sögurnar með í Biblíunni til þess að minna okkur á að við eigum ekki að þagga þær niður. Þær verða að vera sagðar svo við getum lært af þeim. Svo við gerum okkur grein fyrir því að manneskjan er breysk og að svona sögur munu halda áfram að gerast.
Þær minna okkur á að við eigum að trúa fórnarlambinu og standa með því. Að við eigum alltaf að gæta bróður okkar og systur. Amen.