„Farið út um allan heim og prédikið fagnaðarerindið öllu mannkyni!“ segir hinn upprisni Kristur í lok Markúsarguðspjalls. Við erum afleiðing þessara fyrirmæla, kirkja Krists hér á landi og um gjörvalla heimsbyggðina. Kirkjan hans er send með fagnaðarerindið, við erum send til að bera honum vitni, láta orð hans og anda berast út meðal manna og þjóða.
„Farið út um allan heim og prédikið fagnaðarerindið öllu mannkyni!“
Um þessar mundir er þess minnst að Samband íslenskra kristniboðsfélaga er áttatíu ára. Kristniboðsfélögin hafa gegnt því mikilvæga hlutverki að minna kristni landsins á kristniboðsköllun sína. Við stöndum í þakkarskuld við þá vökumenn og konur sem borið hafa starfið uppi í áranna rás og minnt þjóð og kirkju á hlutverk sitt.
Annar sunnudagur í nóvember er kristniboðsdagur þjóðkirkjunnar.
Ég bið presta að minnast kristniboðsins við guðsþjónustur dagsins og hvetja söfnuði sína til að láta fé af hendi rakna til íslenska kristniboðsins í Kenýu og Eþíópíu.
Kristnir söfnuðir í fjarlægum álfum eru til komnir vegan fórna og framkvæmda íslenskra kristniboða og kristniboðsvina. Gleymum þeim ekki! Þeir treysta á okkur að við bregðumst þeim ekki. Tökum undir með kristniboðsvinum hér heima með fjármunum okkar og fyrirbænum! Sýnum þannig þakkarhug og samstöðu í verki.
Drottinn blessi kristniboðið og varðveiti þjóna sína alla.