Í leit að lútherskri sjálfsmynd

Í leit að lútherskri sjálfsmynd

Fyrirvaralaust og án undirbúnings hljóp ég í skarðið fyrir tvo fulltrúa Íslands á fundi Lútherska heimssambandsins um viðfangsefnið Lutheran Identity in Ecumenical Relationships (sjálfsmynd lútherskra kirkna í samkikjulegu starfi) sem haldinn var í Ósló 26.-27. febrúar síðastliðinn.
fullname - andlitsmynd Hjalti Hugason
10. apríl 2002

Fyrirvaralaust og án undirbúnings hljóp ég í skarðið fyrir tvo fulltrúa Íslands á fundi Lútherska heimssambandsins um viðfangsefnið Lutheran Identity in Ecumenical Relationships (sjálfsmynd lútherskra kirkna í samkikjulegu starfi) sem haldinn var í Ósló 26.-27. febrúar síðastliðinn.

Það er deginum ljósara að heimssamband lútherskra kirkna sem eru eins ólíkar innbyrðis og raun ber vitni verður á hverjum tíma að geta svarað spurningum bæði aðildarkirkna sinna og viðmælenda á samkirkjulegum vettvangi um hvað felist í hinu lútherska sjálfi eða hver samnefnari lútherskra kirkna sé.

Hér skal undirstrikað að ekki er átt við „hinn minnsta mögulega samnefnara“ kristinna kirkna en þess verður stundum vart að samkirkjustarf sé talið felast í leit að honum. Á fundinum kom fram sá sameiginlegi skilningur að slík leit væri í hæsta máta „akademísk“ í neikvæðri merkingu þess orðs.

Engin kirkja einkennist af slíkri naumhyggju að hún vilji rækta með sér hugsanlegt lágmark kristinnar trúar. Sérhver kirkja myndar flókna samslungna heild sem torvelt er að greina niður í frumparta sína og Lútherska heimssambandið verður að rúma þær í fjölbreytileika sínum.

Auk þessarar sístæðu ástæðu Heimssambandsins til sjálfsskoðunar nálgast nú allsherjarþing þess í Winnipeg á næsta ári. Þar er ætlunin að leggja fram skýrslu sem m.a. dregur upp útlínur sjálfsmyndarinnar eins og hún hefur verið skilgreind innan þessa verkefnis og freista þess að fá fulltrúa kirknanna til að formgera hana - að svo miklu leyti sem slíkt verður gert.

Hvaða „svæði“ tilheyrum við?

Spurningum sem lúta að sjálfsmynd lútherskra kirkna verður ekki svarað án þess að fyrst sé unnið svæðisbundið. Vegna þeirrar breiddar og fjölbreytileika sem ella yrði við að glíma yrði um of víðtækar alhæfingar að ræða.

Eflaust gætu aðildarkirkjur Heimssambandsins auðveldlega staðsett sig einhvers staðar innan lútherskrar sjálfsskilgreiningar sem gerð væri á alþjóðlegum grundvelli. Það yrði þó alls ekki skuldbindandi á neinn hátt. Fyrir viðmælendur af öðrum kirkjudeildum yrði líka óhjákvæmilega um merkingarlaus slagorð að ræða. En hvaða svæði (region) tilheyrir Ísland í samkirkjulegu starfi?

Svarið kann að virðast einfalt: „Hinu lútherska!“ Það svar er of vítækt og hér er ekki um svæði í neinum eiginlegum skilningi að ræða. „Hinu evrópska þá!“ Rangt, Evrópa myndar ekki kirkjudeildarlega heild og lútherskar kirkjur í Evrópu eru ótrúlega ólíkar. Þannig mætti halda áfram að láta reyna á nýjar og nýjar afmarkanir sem eiga líka misvel við eftir því við hvaða tíma er miðað.

Með tilliti til siðaskiptasögunnar má segja að Ísland hafi tilheyrt norður-þýsku - dönsku svæði. Í tíð hinna hátimbruðu lúthersku ríkis- og síðan þjóðkirkna var oftast litið svo á að Ísland væri á hinu norræna svæði. Þá var oftast horft framhjá því að það hefur alltaf verið tvískipt: austur-norrænt (Svíþjóð og Finnland) og vestur-norrænt (Danmörk, Noregur og Ísland).

Eftir að Porvoo-umræðan hófst myndaðist svo nýtt samkirkjusvæði í Norður-Evrópu, þ.e. hið anglíkansk-lútherska Porvoo-svæði sem nær yfir Norðurlönd, Eystrasaltslöndin og Bretlandseyjar.

Fundurinn í Ósló á dögunum leiddi í ljós að enn eitt svæði er að myndast í samkirkjulegri landafræði Evrópu. Danir töldu ekki merkingarbært að koma til fundarins án þess að fulltrúar lútherskra kirkna í Þýskalandi (nánar tiltekið VELKD) væru á staðnum. Sú grunsemd vaknar sem sé að Danir séu á leið suður á bóginn. Skýringar þess kunna að vera margar. Þeir hafa verið lengi í Evrópusambandinu og eru án efa evrópskastir allra Norðurlandabúa. Þá hafa þeir (e.t.v. einmitt þess vegna) undirritað Leuenberg-samþykktina ásamt Norðmönnum en Svíar og Finnar hafa hafnað henni. Loks undirritaði danska þjóðkirkjan ekki Porvoo-samþykktina og fótar sig því ekki sem best á því svæði og þannig mætti lengi telja.

Einhverjum kann því að virðast að Porvoo-samþykktin hafi reynst klofningsvaldur er rekið hafi fleyg í fjölskyldu norrænna kirkna. Þar væri þó um einföldun að ræða. Á fundinum um daginn kom vel fram að mikilvægir áfangar í samkirkjustarfi verka oft eins og hvatar sem koma af stað nýjum hræringum sem ekki verða alltaf séðar fyrir: Ný tengsl myndast, nýjar spurningar vakna, óróleiki magnast um skeið sem vonandi leiðir þó að lokum til dýpri skilnings - bæði sjálfsskilnings og skilnings á öðrum. Þessi misserin upplifum við sem sé ekúmeníska eftirskjálfta í kjölfar Porvoo. Ef ég má grípa til þjóðlegs líkingamáls.

Vinnuaðferðin

Stefnan í Ósló var einn af nokkrum svæðisbundnum samráðsfundum innan verkefnisins Lutheran Identity in Ecumenical Relationships sem haldnir verða á næstunni. Í nóvember verður látið reyna á þann afrakstur sem þá liggur fyrir á fundi með ýmsum viðmælendum af öðrum kirkjudeildum og loks lögð fram skýrsla til umræðu og e.t.v. afgreiðslu í Winnipeg.

Til að afmarka viðfangsefnið betur og leggja þar með grunn að afdráttarlausari niðurstöðu fjallaði samræðan í Ósló eins og innan verkefnisins í heild einkum og sér í lagi um tilsjónarhlutverkið (episcopé) og biskupsembættið (episcopacy) í kirkjunni. Rætt var um hvað væri frumlægt í þessu sambandi og hvað afleitt, hvað væri hluti af guðlegri skipan (iure divino) og hvað væri mannlegt skipulag (iure humano). Þá var og tekist á við þá grundvallarspurningu hvort mögulegt væri að greina á milli eðlis eða grundvallaratriða (Grund) og ytri forma (Gestalt) t.d. þegar um tilsjónina og embætti tilsjónarinnar væri að ræða.

Fyrir fundinn hafði m.a. verið sendur út texti eftir Eric W. Gritsch sem tekinn hafði verið saman í tengslum við svæðisfund þessa sama verkefnis fyrir Norður-Ameríku. Þar var greint mjög afdráttarlaust á milli þess sem kirkjunni væri eiginlegt eða eðlislægt (þ.e. ómissandi þátta) og þess sem væri breytilegt og/eða ónauðsynlegt (adiaphoron).

Með tilliti til hins sérstaka viðfangefnis komst Gritsch að þeirri niðurstöðu að tilsjónarhlutverkið og hið kirkjulega embætti (ministry) væru hluti af hinu eðlislæga (Grund) en biskupsembættið sem slíkt eins og það hefur t.d. þróast á Norðurlöndum væri ónauðsynlegt (adiaphoron).

Fyrir fulltrúa kirkju þar sem „hið sögulega biskupsembætti“ hefur jafn sterka stöðu og raun ber vitni hér á landi var þetta bæði súrt og sætt. Hin hnífskarpa aðgreining í Grund og Gestalt virðist einfalda hlutina um of, svifta söguna og þar með starf Guðs í sögunni bæði merkingu og markmiði.

Þá virðist niðurstaðan allt of klæðskerasaumuð fyrir kirkjur sem þróað hafa tilsjónarhlutverkið á annan hátt. Á hinn bóginn felst léttir í því að til hins samkirkjulega starfs lútherskra kirkna skuli vera mögulegt að sækja gild mótrök gegn biskupsembætti sem hefur tilhneigingu til að verða alls-staðar-nálægt í kirkjunni en leiðir m.a. til þess að kirkjan verður óþarflega toppstýrð.

Með umræðu um „hið sögulega biskupsembætti“ virðist annars farið inn á frjóa leið í samkirkjulegri samræðu. Sú var tíðin að ákveðnar kirkjur gerðu tilkall til að búa að órofinni vígsluröð biskupa (successio apostolicum) frá postullegum til póst-móderns tíma. Á þessu skeiði var t.d. litið svo á að sænska kirkjan væri vegna órofinnar vígsluraðar á siðaskiptatímanum brú á milli lútherskra og anglíkanskra kirkna og gegndi hún raunar mikilvægu hlutverki í því sambandi.

Nú er almennt litið svo á að hinn postullegi arfur, hefð, samhengi eða successio kirkjunnar lifi, varðveitist og komi fram í boðun kirkjunnar á fagnaðarerindinu almennt og að kirkjurnar kannist við hlutdeild hverrar annarrar í þessum arfi í fleiri atriðum en vígsluröð biskupanna einni.

Hins vegar er þá jafnframt viðurkennt að vígsluröðin geti sem slík verið merkingarbært og virkt tákn um einingu kirkjunnar í heiminum sem einstakar kirkjur með rofna vígsluröð geti tekið upp að nýju án þess að í því felist viðurkenning á að biskupsembætti þeirra hafi í einhverju verið ábótavant frá því að vígsluröðin rofnaði (t.d. við siðaskipti) og þar til hún var endurnýjuð. Þessi endurskilgreining á vígsluröðinni er vissulega mikilvægt skref í samkirkjustarfi og á henni byggir m.a. Porvoo-samþykktin.

Gefið og þegið

Svo vill til að við Íslendingar höfum bæði mikið að gefa og þiggja þegar um hið „sögulega biskupsembætti“ er að ræða. Það sem við getum gefið er aukin innsýn í það af hve fjölþættum og furðulegum ástæðum vígsluröðin rofnaði stundum á siðaskiptatímanum og hve biskupsembættið hélst stundum óraskað gegnum það mikla umbrotatímabil.

Viðmælendur okkar í samkirkjustarfinu þurfa t.d. aftur og aftur að heyra (1) að hér héldust sömu biskupsdæmi eftir siðaskipti og verið höfðu fyrir þann tíma, (2) að fyrsti lútherski biskupinn var valinn af fyrirrennara sínum og valið staðfest af kaþólsku biskupsdæmi, (3) að leitað var eftir vígslu hans hjá kaþólskum erkibiskupi en hún fékkst ekki vegna aðstæðna í Noregi en ekki á Íslandi, (4) að biskupsembættið breyttist hér ekki í superintendentsstarf með siðaskiptunum heldur hélt embættið að mestu fyrri stöðu sinni lengi eftir siðaskipti og e.t.v. allt til þessa og (5) að það tók langan tíma fyrir ríkiskirkju að komast á í landinu.

Sú staðreynd að kirkja okkar varðveitti hina biskupslegu (episkópölu) skipan sína og biskupsembættið svo órofið að siðaskiptatímanum loknum hefur mikið gildi í augum kirkna sem leggja mikla rækt við hið sögulega biskupsembætti og hjálpar þeim til að skilja að siðaskiptin fólu í sér fjölgreinda þróun og þau lutu ekki alltaf fyrirfram gefnum guðfræðilegum markmiðum. Það er t.d. ekki mögulegt að líta svo á að Íslendingar hafi haft þá „intension“ að slíta tengsl sín við þann arf sem hið „sögulega biskupsembætti“ felur í sér heldur þvert á móti.

Ef til vill hefur samkirkjuumræðan hingað til farið um of fram á forsendum samstæðilegrar guðfræði. Það er a.m.k. skoðun þessa skýrsluhöfundar hér að ekúmenísk guðfræði hafi mikið af kirkjusögunni að læra og þeim flóknu tengslum sem hún álítur vera milli Grund og Gestalt.

Það sem við getum aftur á móti þegið í þeirri umræðu sem fram fer um biskupsembættið er t.d. sú áhersla sem nú er lögð á að biskupsembættið í lútherskum kirkjum sé ætíð persónulegt, sameiginlegt, og samfélagslegt (personal, communal, collegial).

Í þessu felst að embættið er falið ákveðnum einstaklingi sem setur óhjákvæmilega mark sitt á framkvæmd þess og mótun. Hann verður þó ætíð að rækja það í samfélagi við aðra þá sem því gegna og í samhljómi við kirkjuna í heild. Þessu markmiði er e.t.v. ekki einfallt að ná í kirkju sem sögulega séð býr að eins sterku biskupsembætti og íslenska þjóðkirkjan og starfar auk þess í einu biskupsdæmi.

Málin horfa öðru vísi við þar sem biskupsdæmi eru mörg og biskupafundir hafa sterka stöðu. Fyrir okkur er þetta þó áminning um að þróa vígslubiskupsembættin áfram og nýta þá möguleika til fulls sem í þeim felast. Þá felst og í hinni kommúnölu og kollegíölu áherslu að biskupsembættið hlýtur að vega salt í kirkjunni ekki á móti heldur í samspili við kirkjuráð, kirkjuþing, prestastefnu og söfnuði kirkjunnar. með þeim hætti verður biskupsembættið og tilsjónarhlutverkið í kirkjunni ekki að valdastöðu (sem siðbótarmenn voru á móti) heldur hlutverk sem rækt er í samfélagi kirkjunnar allar þótt einhver ein persóna beri hins vegar sérstaka ábyrgð vegna hinnar persónulegu víddar embættisins.

Aftur til Ósló

Ef vikið er að fundinum í Ósló að nýju var dagskrá hans þríþætt. Nokkur tími fór í skýrslur frá hverri kirkju fyrir sig þar sem sérstaklega var reynt að varpa ljósi á stöðu tilsjónarhlutverksins og embættis tilsjónarinnar. Þá var sá hluti skýrslunnar Ministry - Women - Bishops (LWF Studies, Genenva, LWF. 1993) sem fjallar um biskupsembættið ræddur en hluti verkefnisins Lutheran Identity in Ecumenical Relationships felst í því að endurskoða hann. Loks óskuðu fundarboðendur svara við nokkrum vinnuspurningum sem lagðar verða fyrir alla svæðisfundina sem fram fara á vegum verkefnisins (a.m.k. 4).

Fundurinn var gefandi og áhugaverður en hafði sínar takmarkanir. Sumar aðildarkirkjur gagnrýndu að undirbúningsfrestur hafði verið of skammur og að of lítið samráð hefði verið haft við þær. Mikið tillit hafði þó verið tekið til sjónarmiða þeirra. T.d. var „svæðið“ skilgreint upp á nýtt að ósk Dana þar sem fallið var frá norrænum fundi og opnað fyrir þátttöku frá VELKD (Evangelíska-Lútherska kirkjan í Þýskalandi).

Loks var þátttakan ekki nægilega breið. Enginn kom frá Finnlandi, héðan kom forfallamaður á síðustu stundu, frá Svíum kom (virkur) áheyrnarfulltrúi, einn fulltrúi kom frá Danmörku. Heimamenn höfðu hins vegar 3-4 manna lið á staðnum. Auk þess var einn þátttakandi frá Eistlandi og annar frá Þýskalandi. Fundarboðendur töldu að þeir hefðu náð markmiði sínu og fyrir þá sem þátt tóku var samveran gefandi eins og flestar samkomur af þessu tagi.