Sunnudagurinn í dag er tvíbentur dagur sem er hvorki né - hvorki jól né nýár. Upprifin tilfinning aðfangadagsins er að baki og skaup og spaug gamlárskvölds, með tilheyrandi bombum, ekki enn komið. Sunnudagur sem er hvorki né – er þó líka bæði og - því það eru jól, heilög jól. Og enn ekki komið óflekkað nýtt ár með nýja möguleika og því engin vonbrigði heldur. Þetta er sérkennilegur dagur – og ljómandi að nota hann til íhugunar, setjast niður og hugsa.
Aldrei stórt! Mig langar að fara með þig allmörg ár aftur í tímann. Hópur fólks var samankominn á ráðstefnu. Ræðumaður var í pontu, einn af valdamestu mönnum Íslendinga. Allir viðstaddir höfðu sett sig í stellingar og biðu eftir innblásnum fyrirlestri. Upphafsorðin voru sjokkerandi yfirlýsing: “Ég hef aldrei lifað neitt stórt og mikið.” Mér brá þegar ég heyrði þesss tjáningu. Þetta gat ekki verið satt. Allt líf mannsins virtist samfelld stórvirkjasaga. Viðstaddir hnykkluðu brúnir, sumir fóru hjá sér, eins og hópurinn hefði orðið vitni að einhverjum prívatmálum, sem maður vildi helst ekki upplifa, og óskaði eftir að maðurinn hefði ekki sagt.
“Ég hef aldrei lifað neitt stórt og mikið”, sagði hann. Þetta var ekki bragð ræðuskörungs. En þessi sláandi yfirlýsing varð inngangur að mergjaðri ræðu. Sá hluti ræðunnar er gleymdur, en áleitnasta efnið var hið einfalda og djúpsækna: Hvað er það að lifa stórt og mikið?
Hvað? Hvað er stórt og mikið? Er það ekki merkileg upplifun að vakna endurnærður að morgni og hefja nýjan dag með nýja möguleika? Er hið stóra og mikla, að búa við góða heilsu og geta sinnt vinnu og þjónað sér og sínum á heimili? Er það að upplifa sól himins brotna í daggardropa á sumarmorgni eða snjókristal á vetrardegi? Er það að búa með fólkinu sínu og eiga góða að? Er það að eiga til hnífs og skeiðar, eiga skjól yfir höfuðið? Er það að eiga heimili, frændgarð, vini og kunningja og áhugamál? Er það að búa við stjórnkerfi sem veitir þér möguleika og frelsi, og bindur þig ekki eða kúgar? Er það að geta sagt við fólkið þitt: „Þú ert yndisleg“ eða „ég elska þig“? Er það að elska eitthvað minni upplifun en hin að verða vitni að sögulegum stórviðburði? Að njóta samtals með maka sínum, bróður eða barni minna virði en að fá að hitta Nóbelverðlaunaþega, einhverja popstjörnuna eða valdaaðila heimsins? Ég held ekki.
Hvað er stórt og hvað er smátt – varðar viðmið og gildi. Hvað er mikils virði í lífinu er mál hjartans. Hvað það er að upplifa mikið verður ekki mælt út frá hvort hægt er að festa það á blað heimssögu eða Íslandssögu.
Hið stóra í hinu smáa Stóratburðir í lífi fólks gerast á hverjum degi og verða núna á heimilum um allt land. Foreldrar munu í dag og næstu daga innræta sínu fólki lífsvisku, kunnáttu í gleðimálum, færni í samskiptum, ögun í námi, skilningi á sorgarefnum, umhyggju fyrir óhamingjufólki. Afar og ömmur miðla lífsreynslu. Og skólar og meningarstofnanir veita ungviði lífsspeki og þekkingu, sem geta orðið tilefni til þroska. Óhamingjufólk tekur ákvörðun til góðs. Hvað er það að lifa stórt og upplifa mikið?
Símeon Gamall maður í guðshúsi. Hann bíður eftir stóru upplifuninni, viss um að hann muni ekki deyja fyrr en hann hefur orðið vitni að heimsatburði, séð frelsarann. Hann er rólegur, unir hag sínum vel, er handgenginn helgisiðunum, fumlaus í guðsdýrkun sinni - og bíður. Hann heitir Símeon.
Sjálfsagt hefur hann, eins og fleiri, búist við að huggari Ísraels, sem hann kallar svo, kæmi með viðhöfn og fríðu föruneyti. En dagurinn er venjulegur, erillinn í guðshúsinu eðlilegur og enginn ofurviðburður virðist í uppsiglingu. Hann sér ung hjón koma með kornabarn. Þau eru eins og allir hinir foreldrarnir komin vegna samfélagslegrar skyldu og trúarlegs ákvæðis – komin með barnið m.a. til að færa fórn. Kannski hafa þau ekki vitað hvernig á að hegða sér því þetta er fyrsta barnið sem þeim fæddist. Og þarna situr sá gamli og hefur komið – eins og segir í textanum – “að leiðsögn andans í helgidóminn.” Um annað eru ekki höfð mörg orð, heldur segir að Símeon hafi tekið barnið Jesú í fangið. En hann hefur upplifað mikið því hann hefur upp mesta gleðisöng ævinnar. Þessi söngur er svo mergjaður að hann ratar inn í guðspjallið. Hann er um inntak lífsins og undirbúning dauðans og er því notaður og endurtekinn í flestum útförum, væntanlega þinni líka:
“Nú lætur þú herra þjón þinn í friði fara, Eins og þú hefur heitið mér. Því augu mín hafa séð hjálpræði þitt, Sem þú hefur fyrirbúið í ausýn allra lýða Ljós til opinberunar heiðingjum og til vegsemdar lýð þínum Ísrael.”
Lífsþrá, lofsöngur og lítið barn Það er hrífandi að sjá gamalt fólk halda á litlum börnum. Það gleður að verða vitni að samhengi kynslóða, hefðar og lífs. En það er stórkostlegt að sjá gamla manneskju, sem beðið hefur alla ævi, njóta loks uppfyllingar ævidrauma sinna, ekki aðeins einkadrauma, heldur vona vegna byggðarlags, þjóðar, allra manna – þegar bænum er svarað um velferð, frið og sátt. Og bænasvarið birtist í litlu barni, ómálga óvita.
Jósep og María vita ekki alveg hvernig þau eiga að bregðast við, upplifa viðburðinn sterkt því svo segir í textanum, að þau hafi undrast það sem þau urðu vitni að. Og þau fengu að vita að þetta væru ekki venjulegar móttökur drengja sem færðir voru í musterið. Það er eitthvað óvenjulegt sem Símeon hafði upplifað og lofsöngurinn lifir, verður fólki íhugunarefni um aldir.
Bæði og Hvaða erindi á nú þessi lofsöngur við þig á þessum „hvorki – né“ degi? Þessi texti er „bæði og“ og hæfir vel deginum. Barnið Jesú var færður í guðshús skömmu eftir fæðingu, rétt eins og börnin eru skírð hjá okkur. Þarna er bæði gamall maður og barn, fulltrúi hinnar hebresk-gyðinglegu hefðar og frumkvöðull hinnar verðandi kristni. Þarna er siðvenjan annars vegar og svo Guðsbylting barnsins hins vegar. Gamalt og nýtt, von og uppfylling, dauði og fæðing.
Er það ekki það sem þú lifir þessa daga? Er tími til kominn að þú gerir þér grein fyrir að þú hefur verið að burðast með eitthvað, sligast með einhvað úr fortíð? Og er ekki eitthvað í þínu lífi sem má fara, þarf að deyja til að lífið fái framgang? Er ekki einhver Símeon í þér, sem bíður og vonar að hið nýja taki við?
Við þurfum öll að taka ákvarðanir og móta eigin stefnu. Símeon var búinn að sjá marga koma og vonaði að einhverjir myndu hugga hann og þjóð hans. Þú þekkir sjálfsagt úr eigin lífi að þú hefur oft vonast til að þetta eða hitt leysi vanda þinn, en svo hafa vonirnar brugðist. Það sem þú hélst að myndi færa þér hamingju, hefur ekki glatt nema um stund. Allir menn vona og bíða hamingjunnar. Menn verða að skilgreina lífshamingju og viðmið rétt. Hvað ætlar þú að gera og hvað vonar þú að verði?
Með guðsbarn í fangi Símeon tók barnið sér í fang og þá varð hans stærsta stund, uppfylling allra vona hans og annarra. Viltu skoða þann möguleika í uppgjöri ársins að taka guðsbarnið þér í fang? Þú getur hamast í hamingjusókn þinni en þó aldrei upplifað neitt, eða hvað? Þetta stóra er ekki fólgið í hinu ytra, ekki í hlutum, ekki því sem við kaupum og ekki í asa. Öldungur og lítið barn, það gamla og það nýja. Enginn sviptir þig valinu og enginn velur fyrir þig – barnshöndin leikur við kinn þína, gælir við þig. Opnar þú fangið og augun til að sjá hjálp og huggun Guðs?
Augu mín hafa séð hjálpræði þitt... Það er hið stóra, það er að upplifa mikið.
Amen.
Prédikun í Neskirkju 30. desember 2012.
Textaröð: B Lexía: 1Sam 1.19b-23 (-28) Elkana kenndi Hönnu, konu sinnar, og Drottinn minntist hennar og varð hún þunguð. Í lok ársins fæddi hún son og nefndi hann Samúel, „af því að ég hef beðið Drottin um hann“. Elkana fór nú ásamt allri fjölskyldu sinni upp til Síló til þess að færa Drottni hina árlegu sláturfórn og heitfórn. En Hanna fór ekki heldur sagði hún við mann sinn: „Ég verð hér þar til drengurinn hefur verið vaninn af brjósti. Þá fer ég með hann til að sýna hann fyrir augliti Drottins. Upp frá því skal hann ævinlega vera þar.“ „Gerðu það sem þér þykir rétt,“ svaraði Elkana, maður hennar. „Vertu um kyrrt heima þar til þú hefur vanið hann af brjósti. Megi Drottinn láta heit þitt rætast.“ Konan var síðan um kyrrt heima og hafði soninn á brjósti þar til hún vandi hann af.
Pistill: Heb 1.1-4 Guð talaði fyrrum oftsinnis og með mörgu móti til feðranna fyrir munn spámannanna. En nú í lok þessara daga hefur hann til okkar talað í syni sínum sem hann setti erfingja allra hluta. Fyrir hann hefur hann líka heimana gert. Hann, sem er ljómi dýrðar hans og ímynd veru hans og ber allt með orði máttar síns, hreinsaði okkur af syndum okkar og settist til hægri handar hátigninni á hæðum. Hann er orðinn englunum þeim mun meiri sem hann hefur að erfðum tekið ágætara nafn en þeir.
Guðspjall: Lúk 2.22-33 En er hreinsunardagar þeirra voru úti eftir lögmáli Móse fóru þau með hann upp til Jerúsalem til að færa hann Drottni, en svo er ritað í lögmáli Drottins: „Allt karlkyns, er fyrst fæðist af móðurlífi, skal helgað Drottni,“ og til að bera fram fórn, eins og segir í lögmáli Drottins, „tvær turtildúfur eða tvær ungar dúfur“. Þá var í Jerúsalem maður er Símeon hét. Hann var réttlátur og guðrækinn og vænti þess að Guð frelsaði Ísrael. Heilagur andi var yfir honum og hafði hann vitrað honum að hann skyldi ekki deyja fyrr en hann hefði séð Krist Drottins. Að leiðsögn andans kom hann í helgidóminn. Og er foreldrarnir færðu þangað sveininn Jesú til að fara með hann eftir venju lögmálsins tók Símeon hann í fangið, lofaði Guð og sagði: Nú lætur þú, Drottinn, þjón þinn í friði fara eins og þú hefur heitið mér því að augu mín hafa séð hjálpræði þitt, sem þú hefur fyrirbúið í augsýn allra lýða, ljós til opinberunar heiðingjum og til vegsemdar lýð þínum Ísrael. Faðir hans og móðir undruðust það er sagt var um hann.