Höfundar: Baldur Kristjánsson, Hjalti Hugason, Sigrún Óskarsdóttir
Innan fárra vikna gefst okkur kostur á að taka afstöðu til djörfustu endurskoðunar á stjórnarskrá okkar á lýðveldistímanum. Í raun er um að ræða róttækustu endurskoðun frá 1874. Við stofnun konungsríkisins Íslands 1918 og síðar lýðveldisins 1944 var byggt á grunni stjórnarskrárinnar frá 1874 og þar með dönsku grundvallarlögunum frá 1849. — Þjóðaratkvæðargreiðslan 20. okt. er því tímamótaviðburður.
Mikilvægt er að þjóðin taki þátt í atkvæðagreiðslunni og sýni þannig í verki hvaða stefnu hún vill að stjórnarskrármálið taki. Í stjórnarskrárgerð er ekki tjaldað til einnar nætur. Þegar þjóðaratkvæðagreiðsla stendur fyrir dyrum hlýtur því að teljast eðlilegt að spurt sé gagnrýninna lykilspurninga um inntak og útfærslur í þeirri tillögu sem afstaða skal tekin til. Af þeim sökum vekur furðu hversu lítið hefur farið fyrir umræðum um frumvarp Stjórnlagaráðs nú í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar.
Gagnrýninnar umræðu er þörf
Stjórnarskrá er grundvöllur löggjafar í landinu, stjórnarhátta og réttarfars. Þess vegna er stjórnarkráin grundvöllur samfélagsins og sá sáttmáli sem við byggjum samlíf okkar á sem þjóð. Spurningum um gildismat og siðfræði verður að gefa gaum áður en gengið er að kjörborði. Mannréttindi í fjölbreyttu nútímasamfélagi hljóta að skipa verðugan sess í endurskoðaðri stjórnarskrá. Þá er mikilvægt að spyrja hvort frumvarp Stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá leggi nægilega traustan grunn að því félagslega réttlæti sem við viljum að ríki. Þá þarf að spyrja hvort frumvarpið tryggi almenningi þá aðkomu að opinberum ákvörðunum og leggi að öðru leyti traustar undirstöður að því lýðræði og því réttarríki sem við viljum búa við. Teljum við með öðrum orðum að frumvarp Stjórnlagaráðs leggi grunn að góðu og öruggu samfélagi fyrir okkur, börn okkar og komandi kynslóðir?
Ákvæði um þjóðkirkju á ekki að vera það eina sem þjóðkirkjan lætur sig varða.
Hvert og eitt okkar hlýtur að spyrja sig þeirra spurninga sem að ofan getur. Það er líka eðlilegt að vænta þess að ýmsar lykilstofnanir samfélagsins og almannasamtök geri slíkt hið sama. Í þeirra hópi má m.a. líta til þjóðkirkjunnar. Hún er stofnun sem eðlilegt er að láti sig gildismat og siðferðileg álita varða — einnig þegar þau hafa félagspólitíska skírskotun eins og raun er á í stjórnarskrármálinu. Þjóðkirkjan hefur vissulega tjáð sig varðandi tillögu Stjórnlagaráðs. Þann 2. sept. s.l. var kallað saman aukakirkjuþing til að fjalla um málið en kirkjuþing er æðsta stjórn þjóðkirkjunnar. Á þinginu var samþykkt að hvetja „til þess að áfram verði ákvæði um þjóðkirkju í stjórnarskrá og að staða réttindi annarra trú- og lífsskoðunarfélaga verði tryggð“. Með þessari ályktun er kirkjuþing ekki að mæla fyrir óbreyttu ástandi. Þjóðkirkjan er í raun að lýsa sig reiðubúna til að taka þátt í þróun trúmálaréttar fyrir 21. öld og sér sanngirni í að staða annarra skráðra trú- og lífsskoðunarfélaga verði skilgreind með nákvæmari hætti en nú er. Með skýrari skilgreiningu verður dregið úr þeim mismun sem nú er á stöðu þeirra og þjóðkirkjunnar. Það er eðlilegt að þjóðkirkjan taki frumkvæði á þessu mikilvæga sviði fjölhyggjusamfélagsins. Hún er stærsta trú- og lífsskoðunarfélag landsins og henni ber sem slíkri að berjast fyrir auknum rétti yngri og smærri systurfélaga sinna. Í ljósi stærðar sinnar og hlutverks er eðlilegt að þjóðkirkjan hafi einnig skoðun á því hvort nægilega vel sé búið um hnútana í þeim hlutum frumvarpsins sem lúta að mannréttindum, mannhelgi, jafnrétti og jöfnuði. Þorum við sem að taka umræðu um gildi og gildismat? Einhverra hluta vegna virðist sú umæða ekki vera okkur töm. Þjóðkirkja sem vill standa undir nafni sem slík hlýtur líta á það sem hlutverk sitt að kalla slíka umræðu fram og leiða hana. Það liggur í hlutarins eðli sé hún sú grundvallarstofnun samfélagsins sem hún telur sig vera. Verður þjóðkirkjuákvæðið að pólitísku bitbeini? Allt frá upphafi hefur sú endurskoðun stjórnarskrárinnar sem nú stendur yfir verið pólitískt bitbein. Hún hefur verið eitt helsta baráttumál stjórnarflokkanna en þyrnir í augum stjórnarandstöðununnar. Hætt er við að þessi skuggi fylgi málinu inn í komandi atkvæðagreiðslu. Það yrði döpur niðurstða ef þjóðkirkjuákvæðið yrði að pólitísku bitbeini. Þjóðkirkja í boði þessa eða hins stjórnmálaflokksins rís ekki undir því að vera kirkja allrar þjóðarinnar heldur verðun hún hluti af bákninu. – Viljum við það?Baldur Kristjánsson Hjalti Hugason Sigrún Óskarsdóttir Höfundar eru guðfræðingar.