Einmitt núna er hann að vakna. Alla helgina hefur hann verið að hitta vini sína. Ástin hefur komið við sögu, boltinn í sjónvarpinu ekki síður. Það besta af öllu góðu í lífinu er að vera með vinunum. Nú er hann að rumska. Svo feginn að það skuli einmitt vera sunnudags- en ekki mánudagsmorgun. Nú er það þynnkumatur. Eitthvað brasað og sveitt til að setja oní sig. Svo er það spurning um að heyra í strákunum og fara yfir málin. Rosalega er þetta búin að vera góð helgi. Bara að lífið væri ein sífelld helgi. Engir mánudagar, enginn skóli, engin spurning um að standa sig eða verða droppát. Upp í hugann kemur ritgerðin sem hann á að skila á mánudagsmorgni og hann veit að það mun aldrei takast. Hann veit að hann er ekki að standa sig.
Á sama tíma eru þau löngu vöknuð, eldri hjónin í Fossvoginum. Jólin og áramótin eru ennþá í huga þeirra. Georg Jensen hangir enn á völdum stöðum í húsinu. Merkilegt hvað lífið hefur breyst. Einu sinni voru allir á einum stað og heimilið, þessi sömu gólf og þau horfa á, þessar sömu dyr svo fjölfarnar í amstri daganna. Núna eru bestu stundirnar þær þegar allir koma og í staðinn fyrir misgott skæp-samband koma faðmlög og hlýja. Þau eru ekkert blind á krakkana sína, eða tengdabörnin og barnabörnin. Þau eru heldur ekkert blind á sjálf sig og vita vel að þeirra fjölskylda er ekki fullkomin. En þau elska fólkið sitt og elska þessar allt of fáu stundir sem lífið skammtar þeim til þess að njóta þess besta af öllu góðu. Hann horfir á konu sína yfir kaffikrúsina: „Þau eru nú bara í góðum málum þarna úti sýnist mér. Þau hefðu nú þurft að stoppa aðeins lengur. Rosaleg pressa er á þeim.”
Á þessari stundu liggur hún í rúmi sínu og er að hlýða á útvarpsmessu. Áður hefði ekki flökrað að henni að opan fyrir gufuna á sunnudagmorgni. Sunnudagsmorgnar voru alltaf þeirra morgnar. Þá voru þau bara handa hvort öðru með ristuðu brauði og tebolla og talandi um allt milli himins og jarðar. Hversu dýrmætar voru þær stundir? Og hversu fáránlegt að liggja hérna ein? Fáránlegt að það skuli vera hægt að deyja bara og skilja rúmið sitt eftir autt. Skilja sjálfa sunnudagsmorgnana eftir þögla og kalda. Er það ekki einmitt vanhelgun á hvíldardeginum? Hvað er þessi Guð að pæla? “Drottinn sé með yður” heyrist sungið í útvarpinu. Honum væri nær að skila manninum mínum, hugsar hún.
Eitt eiga þau öll sameiginlegt, unglingurinn sem er að rumska, eldri hjónin í Fossvoginum og ekkjan sem hlustar á útvarpsmessuna, þau þrá lífið og eiga í hjarta sínu reynsluna af því besta af öllu góðu. Þau þrá hið góða. En svo er það raunveruleiki hversdagsins sem býður okkur ekki alltaf upp á hið besta. Við eigum ekki kost á samfelldri vináttu eða samveru með ástvinum í hátíð og gleði. Ástarsambönd vara ekki alltaf fram í háa elli. Stundum er raunveruleikinn þungbær mánudagur, þögn í húsi og ástvinir í fjarlægð eða sár tregi sem aldrei ætlar að svía frá. Samt býr þráin eftir hinu besta í hverri mannlegri sál.
Þannig var því líka farði með Pétur lærisvein í guðspjalli dagsins þegar hann fékk að reyna óskýranlega sælu í félagsskap við Jesú. Það var reynslan af hinu heilaga, bjarta og sanna þegar Jesús ummyndaðist fyrir augum lærisveinanna þriggja á fjallinu, ásjóna hans skein sem sól og klæði hans urðu björt eins og ljós. „Gott er að við erum hér.” Sagði Pétur við Jesú. Og þeirri staðhæfingu fylgdi hann eftir með tillögu sem hann hefur áreiðanlega alltaf blygðast sín fyrir: „Ef þú vilt skal ég gera hér þrjár tjaldbúðir, þér eina, Móse eina og Elía eina.“ Af orðum hans má lesa þrána eftir því að grípa hið góða og fullkomna og dvelja í því. Meðan Pétur var enn að tala skyggði yfir þá bjart ský og rödd úr skýinu sagði: „Þessi er minn elskaði sonur sem ég hef velþóknun á. Hlýðið á hann!“ Þegar lærisveinarnir heyrðu þetta féllu þeir fram á ásjónur sínar og hræddust mjög. Jesús gekk til þeirra, snerti þá og mælti: „Rísið upp og óttist ekki.“ En er þeir hófu upp augu sín sáu þeir engan nema Jesú einan. Á leiðinni ofan fjallið bauð Jesús þeim: „Segið engum frá sýninni fyrr en Mannssonurinn er risinn upp frá dauðum.“ Já, sumt er þannig að það þýðir ekkert að tala um það en það gefur þeim sem á og reynir endalausan styrk. Þannig er trúarreynslan svo gjarnan. Margt fólk eignast slíka reynslu í bæn og trú. Og á sama hátt og góð vinátta eða góð fjölskyldutengsl eða reynslan af sannri ást breytir lífi okkar og skilgreinir okkur uppá nýtt, þannig gerir líka sterk trúarreynsla það að verkum að fólk verður aldrei aftur samt. Vinátta, ást og trú eru umbreytandi öfl, þau eru reynslan af því besta af öllu góðu. Engin skemmtun eða nautnir komast í hálfkvist við vináttu, ást og trú. Enginn árangur eða metnaður á neinu sviði gefur það besta af öllu góðu.
Enn erum við þó ekki komin að kjarna sögunnar. Sagan af ummyndun Jesú á fjallinu er ekki um það sem gerðist á fjallinu heldur hitt sem átti sér stað þegar niður var komið. Þar mætti honum faðir sem átti langveikt barn og bað hann um hjálp.
Veistu hvað ég held? Ég held að engin reynsla sé erfiðari en sú að eiga langveikt barn. Ég held það. Foreldrar langveikra barna upplifa ekki bara eigin vanmátt heldur máttleysi samfélagsins til þess að hjálpa. Fólk vill hjálpa en það getur það ekki. Og ekkert heilbrigðiskerfi dekkar mannlega neyð.
Í guðspjallinu er frá því greint að faðirinn hafði beðið lærisveina Jesú, sem ekki höfðu verið með honum í fjallgöngunni, um hjálp handa drengnum sínum, en þeir gátu það ekki. Og þegar Jesús er búinn að veita föðurnum og syni hans hjálp sína koma lærisveinarnir til Jesú einslega og spyrja hann hvers vegna þeir hafi ekki getað læknað son mannsins. Jesús svarar þeim: „Vegna þess að ykkur skortir trú.”
Hvað gerðist raunverulega þarna uppi á fjallinu? Hvað gerist þegar Guð opinberast mannlegri sál? Það er ósegjanlegt. Um það verður aldrei fjölyrt. En áhrifin eru eins og Guðspjallið greinir frá; lærisveinarnir sáu Jesú einan. Jesús. Jesús einn verður að umbreytandi veruleika í lífi þess sem trúir og það er ekkert til í stöðunni annað en að fylgja honum. Og hvert leiðir Jesús fylgjendur sína? Alltaf niður af fjallinu beint inn í kviku mannlífsins. Trúin á Jesú er alltaf trúnaður við lífið eins og það er. Ást á veruleikanum, vinátta við fólk. Ekkert annað. Kristin trú getur því aldrei verið sér-trú. Ósk Péturs um það að dvelja bara á fjallinu er skiljanleg frá mannlegu sjónarmiði en þannig er ekki erindi Guðs í heiminum. Erindi Guðs er ekki það að birta mönnum dýrð sína og búið, heldur það að færa fólki fögnuð. “Ég er kominn til þess að þeir hafi líf í fullri gnægð.” útskýrir Jesús á öðrum stað. (Jóh. 10) Þrá okkar eftir hinu góða lífi er af Guði gefin og þar vill hann ganga til liðs við okkur.
Ungi framhaldsskólaneminn sem gengur dofinn og þungstígur inn í skólann sinn á mánudagsmorgni vegna þess að honum finnst að hann sé þegar búinn að tapa leiknum þarna inni. Eldri hjónin sem upplifa tengsla- og tilgangsleysi við breyttar aðstæður. Syrgjandinn sem vaknar enn einn morguninn og sér ekki út úr endaleysi daganna. Þetta fólk er líka í sögunni alveg eins og faðirinn með langveika barnið. Þau eru þarna öll og líka ég og þú í okkar lífsbaráttu.
„Ykkur skortir trú” svaraði Jesús þegar lærisveinarnir báru sig upp við hann í máttleysi sínu af því þeir höfðu ekki getað liðsinnt manninum. Við þurfum trú.
„Ekki notaði ég uppspunnar skröksögur er ég kunngjörði ykkur mátt og komu Drottins vors Jesú Krists heldur hafði ég verið sjónarvottur að hátign hans [...] þá er ég var með honum á fjallinu helga.” Skrifaði Pétur löngu síðar í einu bréfa sinna, eins og við heyrðum lesið hér áðan. (2Pét 1.16-21) Trú Péturs var byggð á reynslu. Átt þú reynslu af Jesú Kristi? Gengur þú á fjallið og dvelst með honum til þess síðan að fylgja honum þangað sem hann fer? Það er hið kristna líf. Það er að vera lærisveinn Jesú.
Vinátta, ást og trú eru umbreytandi öfl, þau eru reynslan af því besta af öllu góðu. Og þegar vinir skilja og ástin syrgir er trúin það afl sem aldrei bregst því hún opnar okkur sýn inn í hið bjarta og ósegjanlega eðli veruleikans og við vitum og finnum að við erum ekki ein.
Amen.
Textar: 5Mós 18.15, 18-19 2Pét 1.16-21 Matt 17.1-9