Þegar jólin nálgast förum við að huga að gjöfum. Við hugsum um þau sem næst okkur standa eins og börnin okkar, systkini og foreldra. Svo hugsum við til annars fólks, sem okkur langar til að gleðja á einhvern hátt. Einhver hefur hugsanlega gert okkur greiða á árinu og þá er góð hugmynd að gefa fallega jólagjöf til að sýna þakklæti. Í öllum þessum hugsunum okkar veltum við því fyrir okkur hvað muni gleðja mest.
Þegar ég var lítil spurðum við systkinin oft mömmu hvað hún óskaði sér í jólagjöf því það var alltaf erfiðast að gefa mömmu gjöf því hana átti alltaf að gleðja mest. Hún svaraði alltaf með sömu orðunum: “ég óska mér glöð og góð börn.” Þetta féll ekki í kramið hjá okkur því þetta hjálpaði okkur ekki við að velja gjöfina. En eftir því sem ég hugsa meira um svar hennar því innihaldsríkara finnst mér það.
Hvað er dýrmætara í þessum heimi en gott samband við börnin okkar? Eftir að börnin mín fóru að heiman finn ég sterkara og sterkara fyrir þessari tilfinningu. Börnin eru mér allt og núna barnabörnin.
Þegar ég hugsa til þess hvað mig langar að gefa börnunum mínum í jólagjöf núna, þá er svarið: mig langar að gefa þeim sjálfa mig. Mig langar að gefa af sjálfri mér. Mig langar að deila tilfinningum mínum, sorgum mínum og gleði með þeim sem mér þykir vænt um. Mig langar að segja börnunum mínum sögur af sjálfri mér þegar ég var barn, segja þeim frá unglingsárum mínum, segja þeim hvernig ég horfi á þetta allt saman núna sem fullorðin kona. Að gefa af sjálfum sér er dýrmæstasta gjöfin sem við getum gefið. Að gefa öðrum tíma, að gefa samveru, að gefa innsýn í lífsreynslu sína er rausnarleg gjöf.
Við skulum hugsa um það á þessari aðventu og á komandi jólum, kæru bræður og systur, hvað innilegt samband okkar við okkar nánustu er dýrmætt. Það er aldrei of seint að glæða samskipti okkar við okkar nánustu meira lífi. Núna er ekki of seint.
Boðskapur jólanna er: Guð er með okkur. Guð vill glæða líf okkar með gleði og friði. Um það sungu englarnir hina fyrstu jólanótt.
Í þessum anda óska ég ykkur öllum innhaldsríkrar aðventu og bið góðan Guð að gefa ykkur gleðiríka jólahátíð.