Þegar Jesús var að leggja af stað kom maður hlaupandi, féll á kné fyrir honum og spurði hann: „Góði meistari, hvað á ég að gera til þess að öðlast eilíft líf?“ Jesús sagði við hann: „Hví kallar þú mig góðan? Enginn er góður nema Guð einn. Þú kannt boðorðin: Þú skalt ekki morð fremja, þú skalt ekki drýgja hór, þú skalt ekki stela, þú skalt ekki bera ljúgvitni, þú skalt ekki pretta, heiðra föður þinn og móður.“ Hinn svaraði honum: „Meistari, alls þessa hef ég gætt frá æsku.“ Jesús horfði á hann með ástúð og sagði við hann: „Eins er þér vant. Far þú, sel allt sem þú átt og gef fátækum og munt þú fjársjóð eiga á himni. Kom síðan og fylg mér.“ En hann varð dapur í bragði við þessi orð og fór burt hryggur enda átti hann miklar eignir. Þá leit Jesús í kring og sagði við lærisveina sína: „Hve torvelt verður þeim sem auðinn hafa að ganga inn í Guðs ríki.“ Lærisveinunum brá mjög við orð Jesú en hann sagði aftur við þá: „Börn, hve torvelt er að komast inn í Guðs ríki. Auðveldara er úlfalda að fara gegnum nálarauga en auðmanni að komast inn í Guðs ríki.“ En þeir urðu steini lostnir og sögðu sín á milli: „Hver getur þá orðið hólpinn?“ Jesús horfði á þá og sagði: „Menn hafa engin ráð til þessa en Guði er ekkert um megn. Markús 10.17-27
Auðveldara er úlfalda að fara gegnum nálarauga en auðmanni að komast inn í Guðs ríki.
Þetta eru sterkustu orð guðspjallsins frá síðasta sunnudegi. Jesús var sannarlega meistari myndlíkinga og orðaleikja, sem maður gleymir ekki svo glatt, eftir að hafa einu sinni heyrt.
Myndin er af úlfalda, táknmynd af ríkidæmi, sem fyrr gæti farið gegnum nálarauga en auðmaður að gæti komist inn í himnaríki. Nálaraugað, augað, er táknmynd fyrir Guð. Og tvö þúsund árum síðar, jafnvel á Íslandi, þar sem úlfaldinn er ekki beinlínis á bekk með húsdýrum, þá sé ég strax fyrir mér hvað þetta er fjarstæðukenndur möguleiki. Myndin af úlfaldanum og nálarauganu er orðin að víðkunnum málshætti, og sumir, sem bregða honum fyrir sig, vita kannski ekki einu sinni að hann kemur úr Biblíuni. Hvað þá, við hvaða aðstæður hann var sagður.
Skoðum þær aðeins nánar. Ungur maður, líklega hóflega ríkmannlega klæddur, hafði haldið sig í áheyrendahópi meistarans alllengi, áður en hann áræddi að varpa spurningu. Spurningu sem er jafngömul spurningunni um tilgang lífsins, um leyndardóm lífsins. Hún er spurning sem lengi hafa glímt við töfralæknar, gúrúar, og prestar, læknar og nú síðast erfðavísindamenn. Eilífðarspurningin. Um eilíft líf, sem er draumur mannkynsins frá upphafi, þegar sagan um Adam og Evu í Paradís lætur lífsins tré standa í miðjum garðinum, til áminningar um þessa spurningu
Þessa mikilvægu spurningu langaði þennan mann að leggja fyrir meistarann. Ekki vegna þess að honum gengi illa í lífinu. Fjárhagslega meira segja alveg glimrandi. Hann var á miklu flugi og taldist meðal afreksmanna í fjármálum. En hann skorti eitthvað, leitaði þess það væri eitthvað meira, eitthvað innihaldsríkara og staðbetra. Kannski frelsi, sem hann fann ekki í núverandi velgengni, en meistarinn sýndist eiga í ríkum mæli.
Og nú fékk hann tækifæri. Góði meistari, hvað á ég að gera til þess að öðlast eilíft líf?
„Hví kallar þú mig góðan? - Þannig byrjaði svarið. - Enginn er góður nema Guð einn. - Ekki beinlínis uppörvandi viðbrögð við hinu virðulega ávarpi og einlægu spurningu. En þörf áminning engu að síður.
Og svo kemur meira: Ef þú vilt stefna á lífið, sem þú óskar þér, þá gerðu vilja Guðs: Þú skalt ekki morð fremja, þú skalt ekki drýgja hór, þú skalt ekki stela, þú skalt ekki bera ljúgvitni, þú skalt ekki pretta, heiðra föður þinn og móður.“
Ungi maðurinn er líklega vonsvikinn. Ekki var þetta háfleygt svar. Hann hafði ekki spurt til þess að láta taka sig á kné og rifja upp kristinfræði. Gat meistarinn ekki gert betur? Hann fann pirringinn gjósa upp innra með sér, og svarar, kannski örlítið snúðugt og grípur fram í fyrir meistaranum við þessa upptalningu: En þetta kann ég, og alls þessa hef ég gætt frá æsku.
Kannski var hægt að finna einhvert óþol, og kannski var það þetta frammíkall sem vakti endanlega svarið: Eins er þér vant. Far þú, sel allt sem þú átt og gef fátækum og munt þú fjársjóð eiga á himni. Kom síðan og fylg mér.
Við vitum ekki meir um ríkmennið, sem leitaði svars við sinni mikilvægu spurningu. Hans er ekki framar getið, svo vitað sé, en allt bendir til að hann hafi ekki sagt skilið við ríkidæmi sitt. Kannski hafa orð Jesú þó hjálpað honum til að eyða þeirri rörsýn, sem stöðug hugsun um peninga veldur, og byrgir svo oft fyrir mönnum ljósið, sem við köllum lífshamingju, gleði, að vera sáttur við sjálfan sig og þurfa ekki að fyrirverða sig fyrir neitt.
Enginn er fullkominn. Frammi fyrir Guði erum við gallagripir. Boðorðin eru vissulega dýrmætt haldreipi á veginum. En ekki einu sinni þau eru tilgangur í sjálfum sér, og veita því ekki svar og fullvissu í gátu lífsins. Það koma stundir að við þurfum meira.
Fyrir löngu var sagt: Follow the money. Það eru peningarnir sem þetta snýst um. Jesús bendir unga manninum á það sama. Þar sem peningarnir eru, þar byrjar maðurinn að hrasa. Og þó eru peningar og fjármagn ekki, fremur en aðrir hlutir, illir í sjálfu sér. Það er meðferð mannsins, notkun þeirra, eða öllu heldur misnotkun, sem rænir hann sýn og ábyrgð fyrir lífinu og Guði
Við heyrum ekki meira minnst á ríkmennið. En við höfum eiginlega heyrt nóg.
Hann er búinn að gefa okkur þá mikilvægu spurningu, að leita lífsins, að leita þess hvernig ég get verið ærlegur og ekki bara auðugur.
Það kemur kannski dálítið á óvart, að svarið felst ekki bara í því að gera eitthvað, heldur líka í því að láta eitthvað eiga sig.
Í því sambandi er athyglisvert að siðfræðingurinn Bernhard Bueb hefur bent á, að það að vera ærlegur er ekki alltaf það sama og að segja satt. Stundum getur það að segja sannleikann verið eins og að kasta grjóti. Það getur verið ærlegra að láta sannleikann í liggja þagnargildi þegar hann er ekki í almannaþágu og gerir meira ógagn en gagn. Sem dæmi tekur hann gjaldþrot Lehmann Brothers bankans fyrir nokkrum árum. Þá gripu margir stjórnmálamenn víða um heim til þessa að gefa almenningi loforð um að bankainnstæður þeirra væru tryggar, þótt þeir vissu að kannski væri ekki hægt að standa við það. En það var sagt til að koma í veg fyrir að örvæntingu og gífurlegar hörmungar.
Á hinn bóginn er líka hægt að segja satt án þess að vera ærlegur. Nefna má þegar fyrrum forseta Þýskalands hélt því fram að hann væri alls ekkert fjárhagslega tengdur umsvifamiklum viðskiptajöfri þar í landi. Síðar kom í ljós að hann hafði þegið hátt peningalán hjá konu þessa sama manns. Strangt til tekið hafði hann sagt alveg satt, en allir sáu að hann var svo langt frá því að vera ærlegur, að hann sagði stuttu síðar af sér.
Að svara rétt er ekki alltaf það sama og að segja satt. Með boðorðunum fáum við æðstu og bestu lífsreglur sem við þekkjum. En við þurfum líka að sýna ábyrgð sjálf.
Hvernig við komumst í gegnum lífið með ærlegum hætti er kjarnaspurning kristninnar. Látum ekki kæfa þá spurningu eða flæma hana burt af opinberum vettvangi. Því það er ein mikilvægasta spurning mannsins, og við henni fæst ekki svar nema í samtali og samfélagi.
Svar Jesú við spurningu unga mannsins hljómar kannski eins og að auður hans útiloki hann frá því að finna svar, sálarfrið og eilíft líf. Þó segir hann ekki ómögulegt. Hann segir að það kosti fórnir. Hann segir að ef vitund okkar um Guð er bara á stærð við nálarauga, þá finnum við aldrei frið. Þá vitund er hægt að víkka og stækka. Við megum bara ekki ruglast ekki á dauðum hlutum og lífinu, vélrænni hegðun og ærlegheitum. Ef hlutirnir verða eins og úlfaldi, og vitund okkar um Guð eins og nálarauga, þá finnum við aldrei frið.
Það er hátíðisdagur þegar alþingismenn ganga til starfa, og við biðjum þeim og landinu blessunar við verkefni Alþingis og störf. Þau eru ekki auðveld á okkar tímumm. Þingmenn vita að þeir bera ábyrgð gagnvart kjósendum sínum, og verða að standa reikningsskil gjörða sinna. Það er aldrei hægt að gera svo öllum líki fullkomlega.En ég trúi því, að lengst verði komist ef maðurinn er ekki aðeins meðvitaður um ábyrgð sína gagnvart mönnum, heldur líka gagnvart Guði. Samfylgd með Kristi er leiðin til frelsis frá oki og fjötrum þessa heims, til frelsis og friðar við Guð og sjálfan sig og alla menn. Leiðin til að halda ekki bara í reglurnar, heldur verða ærlegur í orði og verki. Guði séu þakkir fyrir soninn Jesu Krist, sem heitir okkur styrk í góðum áformum. Guði séu þakkir fyrir að við fáum að lokum að taka á okkur hans mynd. Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Amen.
Heimild sem vitnað er til: Viðtal Bernhard Bueb í Spiegel 24. sept. 2013. Flutt við setningu Alþingis, 1. október 2013.