Atburðurinn voðalegi þegar tuttugu börn og sex kennarar voru skotin til bana í Newtown í Connecticut er hluti af jólasögunni um Guð sem gerðist manneskja í litlu viðkvæmu barni. Hryllingurinn í Newtown átti sér ekki einvörðungu stað í aðdraganda jólahátíðarinnar heldur varpar hann ljósi á jólasöguna og merkingu hennar.
Í dag, 28. desember er Barnadagurinn sem haldinn er til minningar um börnin sem harðstjórinn Heródes lét myrða í Betlehem og Matteus guðspjallamaður greinir frá. Grimmdin og ofbeldið sem börnin í Newtown urðu fyrir kallast á við voðaverkin í Betlehem og minnst er með þessum hætti:
Rödd heyrist í Rama, harmakvein, beiskur grátur. Rakel grætur börnin sín, hún vill ekki huggast láta, því að þau eru ekki framar lífs. (Mt. 2.18)
Um leið og við gleðjumst á jólunum yfir fæðingu frelsarans, sem boðar bandingum lausn, blindum sýn og fátækum frelsi - og gefur okkur nýtt upphaf, nýtt tækifæri til að elska - hljótum við að hafa í huga alla þá þjáningu sem einkennir aðstæðurnar sem fæðingin á sér stað í. Guð kemur sem barn inn í heim þar sem börn eru ekki örugg og þar sem þau eru beitt ofbeldi. Guðsbirtingin á sér stað í einmitt þessum aðstæðum.
Jólin minna okkur á þetta og blása okkur í brjóst ást og hugrekki til að ganga inn í þessar aðstæður. Við eigum að bregðast við aðstæðum sem skaða börn, stefna öryggi þeirra í hættu, ræna þau möguleikanum á að vaxa og dafna og verða heilar og fallegar manneskjur.
Að láta sér nægja að segjast trúa því að frelsarinn sé fæddur en láta tækifærið til þess að elska - til að uppfylla fyrirheitið um betri heim - fram hjá sér fara, dregur mátt úr boðskapnum og gerir hann að lygi.
Það er áskorun okkar á Barnadeginum. Þá horfum við á árið sem er framundan og setjum okkur markmið. Brýning jólanna er sú að við látum innblásast og mótast af boðskap texta Jesaja spámanns um friðarríkið og friðarhöfðingjann. Hann dregur upp mynd af heimi þar sem börn eru örugg fyrir ógnum af öllu tagi, örugg gegn skotárásum, örugg gegn duttlungum yfirvalds, örugg í fátækt og á tíma eftir Hrun.
Að því erum við kölluð til að vinna saman, í Betlehem, í Newtown og í Reykjavík.