Hvenær endar nóttin?

Hvenær endar nóttin?

Hvenær endar nóttin og hvenær byrjar dagurinn? Það er þegar við viðurkennum dýrmæti annarra, að aðrir eru djásn Guðs, ómetanleg og undursamleg. Þá elskum við.

[audio:http://db.tt/LOCGSwzi] Hefur þú skoðun á hvenær dagurinn byrjar? Á hvaða tíma nákvæmlega endar nóttin? Hverju myndir þú svara? Einu sinni var sat spekingur, gyðinglegur, með nemahóp hjá sér og spurði þessarar spurningar: „Á hvaða augnabliki endar nóttin og dagurinn byrjar?“

Einn neminn svaraði: „Það er þegar nógu bjart er til að hægt sé að greina milli hunds og kindar.“ Annar sagði: „Þegar það er nógu bjart er til að sjá hvað er ólífutré og hvað fíkjutré.“ En meistarinn sagði: „Þetta eru góð svör en þó ekki hin réttu. Svarið er: „Þegar ókunnugur maður kemur og við höldum að hann sé bróðir okkar og allar deilur hætta, þá er nákvæmlega stundin þegar nóttin endar og dagur byrjar.“ Hvernig líkar þér svona svar? Þetta er ekki svar um birtumagn eða myrkur, ekki um yfirborðsmál heldur svar á dýpt. Að dagur byrji, þegar ókunnugur maður kemur og við sjáum í honum bróður eða systur – vin og engar deilur verða? Er þá endir nætur og afturelding?

Friðarferli Árið 1993 hitti ég stjórnmálajöfurinn Shimon Peres, þá utanríkisráðherra Ísraels og núverandi forseta Ísrael. Peres kom til Íslands skyndilega og í mikilli leyniferð um Norðurlönd. Tilgangurinn var ný friðaráætlun fyrir stríðandi þjóðir fyrir botni Miðjarðarhafs. Ég var í móttökuhóp á fögrum degi austur á Þingvöllum og við Shimon Peres töluðum saman. Hann vildi skýringar á sögu Íslendinga, hvernig félagsgerð, lög og trú tengdust. Hann hafði áhuga að ræða leit Íslendinga að lögum og reglu ekki bara fyrir þúsund árum heldur líka í nútíma. Og honum þótti áhugavert að bera saman sögu Íslendinga og sögu Ísraels til forna og vildi vita hvernig Íslendingar höfðu sest að í nýju landi og leituðu að sniðmáti þjóðfélags.

Shimon Peres stóð þarna í sólskininu, fullkomlega afslappaður og augun leiftruðu þegar hann uppgötvaði líkindi og sögurím Íslands og Ísraels. Meðan við töluðum saman virtist ekkert trufla hann, hann lét hávaðan í kringum sig engu skipta. Hann var algerlega nálægur - að horfa í augu hans var sem að horfa í djúp fjögur þúsund ára sögu Hebrea og Gyðinga.

Leyniförin bara árangur. Oslóarsamningurinn var undirritaður skömmu síðar og Bill Clinton skrifaði uppá til tryggingar og Rabin og Arafat tókust í hendur og handsöluðu sáttmála í fræðgri athöfn. En í Peres-heimsókninni var kvöldverður á Þingvöllum í og þáverandi forsætisráðherra Davíð Oddsson hélt ræðu og minnti Peres á að Ísrael væri “Gods chosen people” en Íslendingar væru “Gods frozen people.”

Afturelding En friður verður aldrei tryggður aðeins með undirritun og handsali. Meira þarf til. Þessa daga falla börn, venjulegt fólk í bardögum fyrir botni Miðjarðarhafs. Og hvenær dagar? Hvenær hættir nóttin? Shimon Peres sagði – á leiðtogafundi í Davos - þessa merkilegu viskusögu úr gyðinglegri spekihefð um mun dags og nætur. Nótt lýkur og dagur hefst þegar við sjáum ókunnugan mann verða að bróður og deilur hætta. Einstaklingar og þjóðir geta haldið áfram að stríða, deyða og eyða – en líka gefa friði, mennsku og elsku tækifæri. Hvernig sjá ísraelskir Gyðingar bróður í Palestínumönnum og hvernig sjáum við systur í öðrum?

Æðsta boðorðið Textar dagsins vekja margar hugsanir. Lexían úr gamlatestamentinu eru boðorðin, sem eru skráð í annarri Mósebók, tuttugasta kafla. Og boðorðin eru umferðarreglur lífsins, meginreglur laga og samskipta fólks um aldir. Og lærimeistari fór til annars meistara, Jesú Krists, til að að spyrja hann hvernig hann fengi botn í allt grufl manna um siðferðis- og lagahefðina. Hvað er æðsta boðorðið? spurði hann. Og Jesús svaraði með því að fara með Shema Yisrael (Heyr Ísrael) sem Gyðingar allra alda hafa kunnað, líka Jesús Kristur. Æðsta boðorðið, stjórnarskrá lífsins, er að elska Guð algerlega, með sínu innsta inni, með skilningi og í öllu athæfi og annað fólk eins og sjálft sig. Shema Gyðingdómsins er arfur spekinnar í kristninni líka, meira segja svo mikilvægt að í fermingunni í vor, í öllum Neskirkjufermingum, fara fermingarungmennin með þetta Shema Yisrael. Þetta boð er oft nefnt tvöfalda kærleiksboðið en það má alveg kalla það þrefalda kærleiksboðið. Það er eiginlega eiginlega þrenna: Ást til Guðs, annarra og sjálfs sín. Allt þarf að vera í jafnvægi til að vel sé lifað. Ef fólk elskar bara aðra en ekki sjálft sig verður hrun. Ef maður elskar bara sjálfan sig hrynur maður inn í sjálfan sig og hamingjan visnar. Ef sambandið við Guð dofnar er lífi ógnað samkvæmt reynslu og trú þúsunda kynslóða.

Hið ytra siðferði Shimon Peres hlustaði andaktugur á frásögn um merkilega samfélagstilraun á Íslandi á þjóðveldisöld. Íslenskt samfélag var án kóngs en grundvallað á lögum. Tilraun var gerð til að búa til þjóðfélag grundvallað á reglu en án miðstjórnarvalds. Sú tilraun mistókst og aðkomumenn urðu óvinir. Og Peres gat talað um Sínaí og boðorðin. Og hann þekkti líka samantektina Shema Yisrael – Heyr Ísrael. Og við horfðumst í augu, kristinn prestur og vitur baráttumaður Ísraels og hann sagði að enginn varanlegur friður yrði nema friðurinn kæmi að innan og tengslin milli fólks yrðu á dýptina. Þar er ríkdómur sögunnar: Hvenær endar nóttin og hvenær byrjar dagurinn? Þess vegna gat hann sagt þessa sögu um dagrenningu og hina ókunnugu sem verða bræður og systur.

Jesús þekkti lagahefðina fullkomlega. Hann vissi um ógöngur lagahyggju og lagaþrældóms. Lög, siðaboð og reglur eru lífinu nauðsyn. En lífið þolir ekki kalda siðhyggju. Lífið flæðir yfir mörk. Það er hægt að þjálfa fólk í hlýðni, en lítils að vænta nema ræktin verði á dýptina í fólki. Það var þessi innsýn sem Jesús tjáði með því að beina sjónum að baki lögum og reglum og innst inn í fólk. Hann hafði enga trú á ytri þjónkun ef innri maður var ósnortinn. Hvað sýnist þér? Og hvaða skoðun hefur þú á því? Við getum verið útvalin en þó frosin, búið við stórkostleg kerfi, þróaða löggjöf og háleitar hugsjónir, en ekkert verður gott nema fólk sé ræktað til dýpta. Jesús hélt einfaldlega fram að fólk væri ekki heilt nema innri maður þess væri tengdur hinu góða.

Hvenær endar nóttin og hvenær byrjar dagurinn? Það er þegar við viðurkennum dýrmæti annarra, að aðrir eru djásn Guðs, ómetanleg og undursamleg. Þá elskum við. Og dagur er á lofti þegar við leyfum öðrum hefðum en okkar eigin að vera og lifa. Morgun hefur komið þegar fjölbreytinin fær að þróast og þroskast án hræðslu. Þegar hin ókunnugu eru boðin velkomin í samfélag okkar – þá dagar.

Dagur Drottins Getum við tamið okkur slíka mannsýn, mannrækt, mannelsku? Siðakerfin eru merkileg, lagakerfin líka en spurningin um æðsta boðorðið er um hvernig dagurinn geti komið í líf manna. Getum við búið til gott samfélag af sjálfum okkur eða verður það með hjálp Guðs? Snilldarviðbót Jesú Krists var að Guð legði ekki aðeins til hugsun, mátt, kraft og anda heldur gerði eitthvað í málum, kæmi sjálfur. Guð sætti sig ekki við myrkur fólks heldur horfir á mennina sem sína bræður og systur, opnaði faðminn gagnvart hrundum heimi. Saga Jesú er saga um dagrenningu heimsins, að Guð ákvað að sjá í mönnum bræður og systur.

Jesús var róttækur hugsuður sem opnaði átrúnað Gyðinga. Okkar er að lifa í þeim anda, þora að horfa inn í gráskímu dagsins með opnum augum - þora að vera.

Hvenær byrjaði dagurinn? Það var þegar Guð horfði með vinaraugum á veröldina. Hvenær byrjar þinn dagur? Þegar þú lærir að lifa í elskuþrennunni. Þá erum við ekki fjarri Guðsríki heldur borgarar þess ríkis.

Amen.

Prédikun í Neskirkju 7. október, 2012. 18. sunnudagur eftir þrenningarhátíð A - textaröð

Lexía: 2Mós 20.1-17 Drottinn mælti öll þessi orð: „Ég er Drottinn, Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu. Þú skalt ekki hafa aðra guði en mig. Þú skalt hvorki gera þér líkneski né neina eftirlíkingu af því sem er á himnum uppi eða því sem er á jörðu niðri eða í hafinu undir jörðinni. Þú skalt hvorki falla fram fyrir þeim né dýrka þau því að ég, Drottinn, Guð þinn, er vandlátur Guð og refsa niðjum í þriðja og fjórða lið fyrir sekt feðra þeirra sem hata mig en sýni kærleika þúsundum þeirra sem elska mig og halda boð mín. Þú skalt ekki leggja nafn Drottins, Guðs þíns, við hégóma því að Drottinn mun ekki láta þeim óhegnt sem leggur nafn hans við hégóma. Minnstu þess að halda hvíldardaginn heilagan. Þú skalt vinna sex daga og sinna öllum verkum þínum. En sjöundi dagurinn er hvíldardagur Drottins, Guðs þíns. Þá skaltu ekkert verk vinna, hvorki þú sjálfur né sonur þinn eða dóttir, þræll þinn né ambátt eða skepnur þínar eða aðkomumaðurinn sem fær að búa innan borgarhliða þinna. Því að á sex dögum gerði Drottinn himin og jörð, hafið og allt sem í því er en hvíldist sjöunda daginn. Þess vegna blessaði Drottinn hvíldardaginn og helgaði hann. Heiðra föður þinn og móður svo að þú verðir langlífur í landinu sem Drottinn, Guð þinn, gefur þér. Þú skalt ekki morð fremja. Þú skalt ekki drýgja hór. Þú skalt ekki stela. Þú skalt ekki bera ljúgvitni gegn náunga þínum. Þú skalt ekki girnast hús náunga þíns. Þú skalt ekki girnast konu náunga þíns, þræl hans eða ambátt, uxa hans eða asna eða nokkuð það sem náungi þinn á.“

Pistill: 1Kor 1.4-9 Ávallt þakka ég Guði mínum fyrir ykkur, hann hefur veitt ykkur náð sína í Kristi Jesú. Hann hefur auðgað ykkur á allan hátt svo að þið búið yfir allri mælsku og allri þekkingu. Vitnisburðurinn um Krist er líka staðfestur orðinn á meðal ykkar svo að ykkur brestur ekki neina náðargjöf meðan þið væntið opinberunar Drottins vors Jesú Krists. Hann mun einnig styrkja ykkur allt til enda og gera ykkur óaðfinnanleg á degi Drottins vors Jesú Krists. Trúr er Guð sem hefur kallað ykkur til samfélags við son sinn Jesú Krist, Drottin vorn. Guðspjall: Mark 12.28-34 Þá kom til Jesú fræðimaður einn. Hann hafði hlýtt á orðaskipti þeirra og fann að Jesús hafði svarað þeim vel. Hann spurði: „Hvert er æðst allra boðorða?“ Jesús svaraði: „Æðst er þetta: Heyr, Ísrael! Drottinn, Guð vor, hann einn er Drottinn. Og þú skalt elska Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum huga þínum og öllum mætti þínum. Annað er þetta: Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig. Ekkert boðorð annað er þessum meira.“ Fræðimaðurinn sagði þá við Jesú: „Rétt er það, meistari, satt sagðir þú. Einn er Guð og enginn er Guð annar en hann. Og að elska hann af öllu hjarta, öllum skilningi og öllum mætti og elska náungann eins og sjálfan sig, það er öllum brennifórnum og sláturfórnum meira.“ Jesús sá að hann svaraði viturlega og sagði við hann: „Þú ert ekki fjarri Guðs ríki.“