Sóun

Sóun

Okkur skortir ekkert, nema viljann til að gefa. Í því fólgin gagnrýni á algengt lífsviðhorf og gildismat, og sannarlega meginþátt menningar um þessar mundir. Skortur, vöntun, er viðtekið viðmið og útgangspunktur. Og við erum einlægt mötuð á því hve miklu sé áfátt og hvað okkur vantar.

Hann var í Betaníu, í húsi Símonar líkþráa, og sat að borði. Þá kom þar kona og hafði alabastursbuðk með ómenguðum, dýrum nardussmyrslum. Hún braut buðkinn og hellti yfir höfuð honum. En þar voru nokkrir, er gramdist þetta, og þeir sögðu sín á milli: Til hvers er þessi sóun á smyrslum? Þessi smyrsl hefði mátt selja fyrir meira en þrjú hundruð denara og gefa fátækum. Og þeir atyrtu hana. En Jesús sagði: Látið hana í friði! Hvað eruð þér að angra hana? Gott verk gjörði hún mér. Fátæka hafið þér jafnan hjá yður og getið gjört þeim gott, nær þér viljið, en mig hafið þér ekki ávallt. Hún gjörði það, sem í hennar valdi stóð. Hún hefur fyrirfram smurt líkama minn til greftrunar. Sannlega segi ég yður: Hvar sem fagnaðarerindið verður flutt, um heim allan, mun og getið verða þess, sem hún gjörði, til minningar um hana. Mark 14, 3-9

Gleðilega hátíð, kæri söfnuður Neskirkju, á hálfrar aldar vígsluafmæli kirkjunnar. Til hamingju með daginn og kirkjuna ykkar og allt sem hún stendur fyrir í lífi þessarar sóknar, borgar, þjóðar! Í hálfa öld hafa klukkur Neskirkju ómað hér yfir nágrennið og vitnað um sigur Krists og lífið í hans nafni. Við færum fram þakkargjörð fyrir það, og fyrir þau sem hafa haldið hér uppi helgri iðkun og athöfn fyrr og síðar, Guði til dýrðar og börnum hans og heimi til blessunar.

Við gengum hér inn gólfið, veifandi pálmagreinum, eins og þeir sem forðum gengu um borgarhlið Jerúsalem hinn fyrsta pálmasunnudag. Við fetum spor þeirra þá, já, og mörg ykkar genguð hingað til kirkju frá Háskólanum, þar sem Nessöfnuður átti sinn guðsþjónustustað frá stofnun safnaðarins 1941 og til þess er þessi helgidómur var vígður á pálmasunnudag 1957. Þar í hópnum var fyrsta fermingarbarnið sem gekk hér inn kirkjugólfið í nývígðri Neskirkju. Iðkun kirkjunnar er upprifjun og innlifun. Saga er sögð og hún er tjáð í athöfn, og við minnum okkur á að við erum á ferð með Kristi, frelsaranum sem kom til borgar sinnar. Mannfjöldinn veifaði pálmagreinum og lagði klæði sín á götuna og song: „Blessaður sé konungurinn sem kemur, í nafni Drottins!“ Það var sigursöngur og gleði. Honum var fagnað af lýðnum, - en svikinn, dæmdur, deyddur af þessa heims máttarvöldum, en reistur til lífs af lífsins mætti, lífsins Guði, og er upprisan og lífið, sem áhrifavald hans er enn að verki í veröldinni. Enn að verki.

Guðspjallið sem lagt var út af við vígslu kirkjunnar fyrir hálfri öld, og hér var lesið frá altari nú, er annað guðspjall pálmasunnudags, um konuna sem laumaðist inn þar sem Jesús var staddur, og hellti rándýrum ilmsmyrslum yfir hann. Ilmurinn fyllti húsið, að því er segir í annarri frásögn þessa atburðar. Viðstöddum brá við. Er það furða, hún ryðst svona inn, óboðin, inn í veisluna og athæfi hennar er í meira lagi furðulegt. „Og þeir atyrtu hana.“ Það var skiljanlegt. Þetta var ekkert nema geggjun að sóa svona rándýrum smyrslum! Þetta er reyndar býsna almennt viðhorf í garð þeirra sem láta fé og tíma af hendi rakna til helgidómanna og prýði þeirra. Það vantar ekki sönginn sem atyrðir þau. Það er alltaf af nógu að taka af góðum og gildum málefnum sem nær væri að láta aurana í. Og víst minnir þetta líka á tautið og nöldrið og neikvæðnina út í fermingarnar, sem enn og aftur gýs upp á þessum árstíma, þar sem menn keppast við að atyrða unglingana og draga heilindi þeirra í efa, og býsnast yfir eina tilefni og tækifæri í íslenskri menningu þar sem unglingnum er fagnað, hann er borinn fram og beðið er fyrir honum og fjölskyldu og vinum stefnt saman til að gleðjast yfir honum.

„Þeir atyrtu hana,“ og það voru ekki bara einhverjir leiðindagaurar og nöldurseggir, nei, líka þeir sem þekktu boðskap Jesú, meistarans, sem afsalaði sér öllu og sagðist ekki vera kominn til að láta þjóna sér heldur til að þjóna og gefa. Við erum alltaf undir dómi hans, hins algjöra, heilaga, sanna, öll okkar viðleitni orð og verk. Undir dómi hans. En það merkilega er, að Jesús kemur konunni til varnar. Jesús sem þekkir og skilur það lögmál sem að baki verknaði hennar býr, lögmál gleðinnar, kærleikans og þakklætisins, valdið sem heimurinn vill ekki við kannast. Jesús skilur þörf kærleikans að gefa og fórna. Að kærleikurinn hugsar ekki um hvað hann mögulega kemst af með að gefa. Gjöf verður gjöf þá fyrst þegar maður finnur til, finnur fyrir því að gefa. „Sannlega segi ég yður,“ segir Jesús um þessa konu: „Hvar sem fagnaðarerindið verður flutt um heim allan, mun og getið verða þess, sem hún gjörði, til minningar um hana.“ Og það gerum við í dag, og blessum minningu hennar, og allra þeirra kvenna, og karla, sem eins og hún gefa af sér af örlæti og gjafmildi Guði til dýrðar, fegra, göfga, bæta líf og heim. Þar á meðal er fólk sem lagði fram fé og krafta til byggingar Neskirkju og fólk sem hefur lagt mikil verðmæti, fjármuni, tíma, náðargáfur til safnaðarstarfs í áranna rás. Guð launi það og blessi allt. Sýnt hefur verið fram á með könnunum í nágrannalöndum okkar, að gjafmildi og örlæti til hjálparstarfs og líknarmála, og hvers konar umhyggja um náungann, sé í meira mæli að finna meðal þeirra sem rækja guðsþjónustur kirkjunnar en annarra. Það ætti engum að koma á óvart. Þakklætið til Guðs vekur umhyggju um náungann og það líf og heim sem Guð gefur. Þar eru margfeldisáhrif að verki sem skapa auð og verðmæti sem við megum síst án vera.

Fermingarbörnin sem um þessar mundir ganga upp að altari Neskirkju og sóknarkirknanna um land allt eru vorboðar kirkju og þjóðlífi. Guð blessi þau. Víða má sjá vaxtarsprota og gróskumerki í kirkjunni okkar um þessar mundir. Ég sé gleðileg merki þess að ungt fólk vill kannast við sínar kristnu rætur og leggja kirkjunni lið. Það er mikið þakkarefni. Við lifum svo undur góða tíma, ögrandi, spennandi tíma í þjóðlífinu og í Þjóðkirkjunni. En hún á samt undir högg að sækja. Okkur finnst oft sem hún njóti ekki sannmælis í fjölmiðlum og hinni opinberu orðræðu. Viðleitni kirkjunnar til að sinna börnum og veita þeim sálgæslu, er t.d. fordæmd sem mesta óhæfa. Ótæpilega er alið á hleypidómum gegn trú og kirkju. Í nafni skynsemi, mannréttinda, vísinda og annarra helgra og góðra og mikilvægra verðmæta er kirkjan uppmáluð og úthrópuð fyrir að vera dragbítur á framfarir og mannréttindi. Æ, já.

Óneitanlega líður mér á stundum eins og honum Moshe, gyðingnum sem sat á kaffihúsinu og las arabískt dagblað. Kunningi hans sér hann og undrast þetta háttarlag og spyr með hneykslunartón: „Moshe, ertu orðinn galinn! Hvers vegna í ósköpunum ertu að lesa arabískt dagblað?“ Moshe lítur á hann yfir gleraugun og svarar: „Ég var vanur að lesa gyðingablöðin en hvað fékk ég út úr því ? Fréttir af því hvernig gyðingar eru ofsóttir, linnulausar árásir og gagnrýni á Ísrael, fréttir af gyðingum sem hafna siðum og trú feðra sinna, gyðingum sem kunna ekki að stjórna eigin landi, gyðingum sem geta ekki komið sér saman um eitt eða neitt. Ég var bara niðurbrotinn af vonleysi. Svo ég fór að lesa arabísku blöðin. Og hvað er þar? Jú, hvernig gyðingar eru ógnun við nágranna sína, auðugri og voldugri en aðrir, ráða fjármálakerfi heimsins, já og eru að leggja undir sig heiminn, Þetta eru miklu betri og skemmtilegri fréttir, og mér líður bara almennt miklu betur en nokkru sinni fyrr!“

* * *

Meistarinn kom konunni til varnar. Hann vísar einatt til annarra mælikvarða og dýpri og æðri gilda. Þau eru okkur ekki alltaf ljós andpænis kaldri rökvísi þeirra sem teljast hafa viðmiðin og mælikvarðana á hreinu. Þess vegna þurfum við helgidómana og athafnir trúarinnar á krossgötum ævinnar og hátíðir og helgidaga sem rjúfa einhæfni daganna og lyfta sál og anda upp til himins, til hinna eilífu verðmæta og æðri gilda.

Jesús minnir okkur á að Guð gefur okkur allt sem við þörfnumst, allar nægtir æðstu gæða. Hann lýkur upp hendi sinni og seður allt sem lifir með blessun. Okkur skortir ekkert, nema viljann til að gefa. Í því fólgin gagnrýni á algengt lífsviðhorf og gildismat, og sannarlega meginþátt menningar um þessar mundir. Skortur, vöntun, er viðtekið viðmið og útgangspunktur. Og við erum einlægt mötuð á því hve miklu sé áfátt og hvað okkur vantar. Ófullnægjan og óánægjan er mæld upp í okkar, og einblínt er á það sem á skortir til að okkur geti nú liðið vel.

Skyldi vera að þessi forsenda skortsins sé sprottin af því að það sé skortur á Guði, á trú, á trausti til máttar Guðs og forsjónar hans? Jesús vill beina sjónum okkar að þeim nægtum sem Guð gefur, ókeypis af náð. Um það snýst iðkun helgidómsins. Við fáum tækifæri til að þakka ástgjafir Guðs, lífsins lán og gæði, sem fljóta fram óþrjótandi. Við fáum að þiggja brauð og vín úr hendi Drottins, til að opna augu okkar fyrir því að hann blessar brauðið og brýtur svo allir fái nægtir; og eins mun verða hér í heimi ef við deilum með okkur, ef við gefum af okkur, ef við opnum hugi og hjörtu og hendur mót lífinu og náunganum. Enginn er svo ríkur að hann hafi ekki þörf fyrir góðvild og umhyggju, og enginn er svo snauður að hann hafi ekki þeim verðmætum að miðla sem dýrmætust eru alls.

„Hún gerði það sem í hennar valdi stóð.“ Til að tjá gleði sína, kærleika, þökk og trú. Nú erum við hér og rifjum upp þessa gömlu sögu. Af því að Jesús er hér við borðið sitt. Og við höfum komið hér inn, eins og konan forðum. Guðsþjónusta kirkjunnar, helgidómurinn, söngur, játning, bæn er eiginlega það að við berum fram buðkana okkar, ilmsmyrslin iðrunar og sorgar, söngs og bæna, trúar, vonar og kærleika, sem gjöf til hans, sem við viljum helga sem konung og Drottinn í lífi okkar og heimi, og fylgja honum í trú. Svo ilmur, góðilmur gleði og góðvildar, umhyggju, kærleika, trúar og vonar berist héðan og út í samfélagið og hafi áhrif. Látum hug fylgja máli og verkin tala og vitna svo lífið dafni, svo vilji Guðs verði, hið góða, fagra og fullkomna. Honum sé dýrð, föður, syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda.

Amen.