En sú stund kemur, já, hún er nú komin, er hinir sönnu tilbiðjendur munu tilbiðja föðurinn í anda og sannleika. Faðirinn leitar slíkra, er þannig tilbiðja hann. Guð er andi, og þeir, sem tilbiðja hann, eiga að tilbiðja í anda og sannleika. Konan segir við hann: Ég veit, að Messías kemur það er Kristur. Þegar hann kemur, mun hann kunngjöra oss allt. Jóh. 4. 23-25
Ég fagna því góða verki sem hér er lokið og óska okkur öllum til hamingju með það. Kapella Háskólans ljómar hér í upphaflegri dýrð, eftir gagngera endurbót. Hér er greinilega svo vel að verki staðið sem best má vera. Þökk sé öllum sem lagt hafa hug og hönd að góðu verki. Ég tek undir þakkir sem hér voru fluttar áðan, rektor, fyrir atbeina allan, og þeim sem fært hafa kapellunni dýrmætar gjafir. Guð blessi þá minningu sem þeim tengjast og launi og blessi allan hlýhug og kærleika til kapellunnar. Margir eiga góðar minningar um kapellu Háskólans, hér var maður fyrir utan áðan sem sagði mér að hann hefði einmitt gengið í hjónaband á þessum stað fyrir nokkrum árum. Og hér var um árabil guðsþjónustustaður Nessóknar, áður en Neskirkja kom til. Þeir eru fleiri sem eiga slíkar minningar, hlýjar og góðar. Guð blessi þær. Og um margra ára skeið voru hér sunnudagaskólar á vegum guðfræðideildar þar sem kapellan var sneisafull af börnum.
Ég játa það að þegar ég var ungur stúdent hér fyrir fjörutíu árum þá töluðum við stúdentar af lítilsvirðingu um sundlaugarblámann í ásýnd kapellunnar. Og ég, grænjaxlinn, dirfðist meira að segja að skrifa pistil –nafnlausan reyndar, ekki var nú kjarkurinn meiri! - í rit félags guðfræðinema um nauðsyn þess að taka kapelluna almennilega í gegn og færa hana í það horf sem hæfði samtímanum, skilningi sjöunda áratugar aldarinnar á liturgíu og húsagerðarlist. Sem betur fer var ekki tekið mark á þessum sjónarmiðum. Það er gott þegar ungt fólk er djarfhuga og róttækt. Og Guði sé lof fyrir eldra fólk, sem hefur vit fyrir því.
Það er merkilegt umhugsunarefni hve myndarlega hefur verið að öllu staðið við byggingu Háskólans forðum. Það var hugsað stórt, af djörfung og metnaði. Og eins undrast maður hve stórt rúm Kapellu Háskólans var frá öndverðu ætlað í byggingunni. Það hlýtur að endurspegla virðingu fyrir þeim hlut sem guðfræðin og kirkjan áttu í stofnun Háskólans. Sú var tíðin að guðfræðin var nefnd drottning vísindanna. Kapellan stendur alla vega fyrir samhengi í menningu okkar og sögu sem enn hefur ekki rofnað, og ég vona að rofni ekki, því ómetanleg verðmæti eru sannarlega í húfi, þó þau komi víst hvergi fram í bókhaldi.
Kapellan er ekki aðeins táknræn áminning. Því hefði verið hægt að sinna með öðrum og einfaldari hætti. Kapellan er tilbeiðslustaður, vígður helgidómur, bænahús. Í raun er hin kristna trú ekkert nema bæn, eins og Marteinn Lúther sagði, bæn í Jesú nafni. Og í guðspjallinu, sem hér var lesið skilgreinir Jesús hvað sé hin sanna tilbeiðsla: „sú stund kemur, já, hún er nú komin, er hinir sönnu tilbiðjendur munu tilbiðja föðurinn í anda og sannleika. Faðirinn leitar slíkra, er þannig tilbiðja hann. Guð er andi, og þeir, sem tilbiðja hann, eiga að tilbiðja í anda og sannleika.“
Ungum var mér bent á það að yfir aðaldyrum Háskólans væru þrjár hvítar súlur að sjá. Skyldu þær tákna þær þrjár meginvísindagreinar sem Háskóli Íslands er reistur af guðfræði, lögfræði og læknisfræði. Prestaskólinn, Lagaskólinn og Læknaskólinn eru stofnaðilar Háskólans. Þeirra var Prestaskólinn elstur, og á rætur að rekja allt til Skálholts, Haukadals og Hóla. Að minna á slíkt er gjarna séð sem forntíðarhyggja og forneskjutaut, sem við ættum að vera vaxin upp úr. Í hinni hraustu, nýju veröld viðskiptanna og vísindasigranna er sögu og hefð byggt út, minnisleysið sest að. Og svo er sú stund þegar komin á tímum hnattvæðingar og fjölmenningar að það þykir fremur ófínt – ef ekki beinlínis óleyfilegt að vitna um trúarlegan sannleika. Afstæðishyggjan er sest í hásætið. Ég er hræddur um að hún flokkist seint undir sannleik sem geri frjálsan. Það er enginn frjáls sem enga viðfestu hefur, engum trúnaði binst, engin viðmið virðir, nema eigin geðþótta, eða hverful meirihlutaviðhorf þegar svo ber undir.
Oft vill bera á því að menn, jafnvel lærðustu menn, álíti sem framþróun mannkyns leiði það fram og upp frá hjátrú og hindurvitnum til raunvísindanna. Og þar sé hátindi þekkingar og framfara senn náð, og því þurfum við ekki framar vitnanna við. Gallinn við slíka söguskoðun og lífssýn er ekki síst sá að menn álíta söguna sem þróun þar sem við sækjum ætíð fram frá þröngsýni til víðsýni, frá takmörkum fáfræði til ómælisvídda þekkingar, frá hindurvitnum til síaukinnar visku. En er það svo víst? Alla vega er nauðsynlegt að á það sé minnt hér að trú er ekki andstæð þekkingu, trú og vísindi eru ekki andstæður. Reyndar hygg ég að vísindi nútímans séu mesta andlega afrek hinna kristnu Vesturlanda. Ýmsir fremstu hugsuðir og andans ofurmenni mannskyns voru- og eru trúmenn, sem sáu, sem sjá, enga mótsögn í guðstrú og skynsemi. Þeir sjá rót vísinda, jafnt raunvísinda sem hugvísinda í þeirri sannleiksþrá sem manninum er ásköpuð og sem knýr hann áfram til landvinninga anda og efnis.
Fullyrða má að hin kristna sköpunartrú sé lykillinn að náttúruvísindum nútímans. Vegna þess að hin kristna sköpunartrú gengur út frá því að Guð gefur manninum skynsemi til að greina, skipa, meta, draga ályktanir, og samvisku, sem minnir mann á takmörk sín. Kristin guðfræði gengur út frá því að viska og þekking sé órjúfanlegur hluti köllunar mannsins, að vaxa í þekkingu á Guði, sem er ætíð meira-en. Okkur er svo gjarnt að álíta lífið og heiminn sem „bara“- „bara“ hitt og „bara“ þetta. Nei, Guð er meira en. Guð er andi, hin sanna tilbeiðsla er í anda og sannleika. Og andinn blæs þar sem hann vill, og sannleikurinn birtist í mannlegu holdi, vilja, hjarta. Jesús heitir hann. Hann er sannleikurinn, sem gerir frjálsa. Sannleikurinn er ekki múrveggur, heldur vegur! Og af því þekkjum við sannleikann að við leitumst við að lifa í ljósi hans sem er Orð Guðs í holdi, vegurinn, sannleikurinn og lífið, sem gaf líf sitt heiminum til lífs.
Þekking er meir en magn og aðgengi upplýsinga. Og vísindin sem „efla alla dáð“ og „farsældum vefja lýð og láð,“ eru andleg iðja og sannleiksleit, og sannleiksást. Og einn órofa þáttur vísinda, viskunnar, er dómgreindin, að gera greinarmun á því hvað er þekking og hvað blekking. Líka blekking þess uppblásna sjálfbirgingsskapar sem ímyndar sér að það að skilgreina aðstæður breyti þeim, að lausn lífsgátunnar sé rétt handan við hornið, að við getum lokið upp leyndardómunum og leyst vandkvæðin, bara ef nægt fjármagn er fyrir hendi.
Guðfræðin, engu síður en lögfræðin og læknavísindi og aðrar vísindagreinar, og öll mannleg iðja og viðleitni, glímir við freistingar holdsins, auðtryggi gagnvart hinum billega sannleika, oftrú á áróðri og auglýsingamennsku, ofuráhersla á að lausnin sé fólgin í nýrri uppgötvun og seljanlegri formúlum. Því er því ekki endilega víst að vísindin efli alla dáð. Vísindin hverju nafni sem nefnast eru nefnilega iðkuð í umhverfi syndugrar mennsku, þar sem lausnirnar eru skammvinnar, því viska mannanna og styrkur er takmörkum háð, því syndin mengar allt og skælir, og forgengileikinn og dauðinn vinna hervirki sín, já, EN vísindin eru líka iðkuð í heimi þar sem Guð er að verki og skapandi og læknandi andi hans verkar á ólíklegustu stöðum og aðstæðum og brýtur sér leið lífinu til blessunar. Og þá efla vísindin alla dáð, þegar þau eru í þjónustu þess, í lotningu gagnvart lífinu og höfundi þess. Og þar mætast trú og vísindi.
Trú og vísindi mætast í lotningunni fyrir lífinu. Þær sögur sem tjá hina kristnu sköpunartrú eru eiginlega þakkaróður, eða öllu heldur undrunaróp yfir því að heimurinn skuli ekki vera óskapnaður, til orðinn af tilviljun, meiningarlaus og tilgangslaus, heldur reglubundið samhengi. Og vettvangur þeirrar lotningar, undrunar og þakkar, er tilbeiðslan, að tilbiðja í anda og sannleika. Fyrir það stendur kapella Háskólans.
Þar sem allt er frá Guði komið og til hans stefnt, þá er það í samfélaginu við hann sem við öðlumst lykil að þátttöku í lífinu sem er í raun tilgangsríkt, auðugt og gefandi, og veitir visku sem hagsældum vefur lýð og láð.
Við sem eru hér saman komin fyrir augliti frelsarans Krists. Hlustum eftir orðum hans: „sú stund kemur, já, hún er nú komin, er hinir sönnu tilbiðjendur munu tilbiðja föðurinn í anda og sannleika. Faðirinn leitar slíkra, er þannig tilbiðja hann. Guð er andi, og þeir, sem tilbiðja hann, eiga að tilbiðja í anda og sannleika.“ Amen. Honum sé dýrð, föður, syni og heilögum anda um aldir alda. Amen.