Varist falsspámenn. Þeir koma til yðar í sauðaklæðum, en innra eru þeir gráðugir vargar.Af ávöxtum þeirra skuluð þér þekkja þá. Hvort lesa menn vínber af þyrnum eða fíkjur af þistlum? Þannig ber sérhvert gott tré góða ávöxtu, en slæmt tré vonda. Gott tré getur ekki borið vonda ávöxtu, ekki heldur slæmt tré góða ávöxtu.Hvert það tré, sem ber ekki góðan ávöxt, verður upp höggvið og í eld kastað.Af ávöxtum þeirra skuluð þér því þekkja þá.Ekki mun hver sá, sem við mig segir: Herra, herra, ganga inn í himnaríki, heldur sá einn, er gjörir vilja föður míns, sem er á himnum.
Margir munu segja við mig á þeim degi: Herra, herra, höfum vér ekki kennt í þínu nafni, rekið út illa anda í þínu nafni og gjört í þínu nafni mörg kraftaverk? Þá mun ég votta þetta: Aldrei þekkti ég yður. Farið frá mér, illgjörðamenn. Mt. 7. 15-23
Það er mér sönn ánægja að fá að vera með ykkur hér á þessum fallega og helga stað. Hér hefur Guðshús staðið um aldir og bænhúsið sem nú stendur hér er ein af örfáum torfkirkjum sem enn eru til á Íslandi. Þrátt fyrir að að hér hafi sjaldan verið messað alla 19. öldina og langt fram á 20. öldina þá hafa ábúendur Núpstaðar haldið tryggð við húsið og þannig komið í veg fyrir að það eyðilagðist. Nú er bænhúsið friðlýst og undir verndarvæng Þjóðminjasafns Íslands. Hér hafa farið fram um nokkurt skeið guðþjónustur oftast árlega um Verslunarmannahelgina. Mæta þá margir hér, bæði úr sveitunum hér í kring, en einnig langt að, til að eiga stund með öðru fólki og Guði. Sóknarprestur Kirkjubæjarklausturs hefur þá yfirleitt komið og þjónað en nú vill svo til að ég er að taka við sem sóknarprestur. Við hjónin munum flytja um miðjan þennan mánuð og erum full tilhlökkunar. Gaman verður að takast á við ný verkefni en ekki síður að kynnast nýju fólki og nýju umhverfi. Hér virðist hver þúfa og steinn hafa sína sögu og ekki minni menn en Þorlákur helgi biskup og sr. Jón Steingrímsson þjónað. Umhverfið er fallegt og ekki síst hér á Núpsstað sem var hér einu sinni síðasti áningastaður áður en farið var yfir Skeiðarársand. Lómagnúpur gnæfir svo yfir söndunum og heillar þá sem um þá fara. Útsýnið frá tindi fjallsins yfir suðurströndina hlýtur að vera stórfenglengt.
Í guðspjalli dagsins er Jesús staddur á fjalli ásamt lærisveinum sínum og miklum mannfjölda. Hann er að vara við falsspámönnum. Hverjir eru þeir? Hvernig þekkjum við þá? Við eigum að varast þá en hvernig getum við það ef við vitum ekki hvernig þeir líta út? Í útliti eru þeir sauðmeinlausir en í huga sínum og hjarta eins og gráðugir vargar. Jesús kennir okkur hvernig við eigum að þekkja þá. Hann segir: af ávöxtum þeirra skuluð þér þekkja þá. Og hverjir eru ávextirnir? Ávextir þeirra sem eru sannir spámenn eru með þeim hætti að samband Guðs og manna styrkist. Þeir leiða fólk til Guðs en ávextir falsspámanna leiða fólk frá Guði.
Í nútímanum er hægt að tala um þrjú svið sem ber að sinna, fjölskyldan, vinnan og samfélagið. Þessi þrjú svið skipta okkur máli og við verðum að leggja rækt við þau öll og halda þeim í jafnvægi. Til að jafnvægi náist verður undirlagið að vera gott og stöðugt. Sannir spámenn benda á Guð sem hið eina stöðuga bjarg. Falsspámenn benda á og segja að til séu aðrir hlutir en Guð sem hæfa betur sem grunnur í lífinu og vinna þannig gegn jafnvæginu. Margt getur leitt okkur frá Guði og þannig skapað ójafnvægi í lífinu. Böl eins og áfengissýki og eiturlyfjaneysla. Þar verður efnið að miðpunkti lífsins og eins og við vitum hentar það engan vegin sem bjarg til að byggja á. En það geta einnig verið hlutir eins og peningar, útlitið, líkaminn, og svo maður sjálfur. Ef eitthvað eitt af þessu verður bjargið í lífi okkar skapar það ójafnvægi og ýtir Guði í burtu úr lífi okkar eða gerir hann að Guði sem við hugsum til annað veifið þegar vel stendur á eða illa. Guð á að vera bjargið í lífi okkar og í samskiptum okkar við náungann! Það er ekki bara hið ytra, glytrið og útlitið. Það er heldur ekki bara hið innra, hugarástand þitt. Það verður að vera jafnvægi í lífinu. Að sjálfsögðu eigum við að huga að heilsu okkar og útliti, hafa stjórn á fjármálum okkar og rækta okkur sjálf. Það er nauðsynlegt svo að við getum sinnt skildum okkar. En við eigum ekki að taka eitt af þessu og gera að bjarginu sem við byggjum allt annað á. Skrifað stendur Við eigum að þjóna Guði einum. Það er svo einfalt að treysta um of á eitthvað sem svo í raunum lífsins reynist ekki vera það bjarg sem við þurfum á að halda. Við getum líka gleymt að rækta samband okkar við Guð í þeirri gleði sem lífið getur veitt okkur. Einnig í sorginni getur reynst auðvelt að treysta ekki á styrka hönd Guðs í þeirri trú að hann hafi yfirgefið okkur á ögurstundu. Falsspámenn reyna að leiða okkur frá Guði á ýmsan máta. Gera okkur svo upptekin af einhverju öðru þannig að við gleymum að rækta samband okkar við Guð og náungann.
Um Verslunarmannahelgina skapast tækifæri, hjá þeim sem fá frí frá vinnu til að huga betur að fjölskyldunni og samfélaginu og styrkja grunninn sem líf þeirra byggist á. Margar fjölskyldur fara í ferðalag um Verslunarmannahelgina, kannski með tjald á úthátíð eða í sumarhús. Nota tækifærið til að eiga góða stund saman og til að heimsækja fjölskyldumeðlimi og vini sem búa í öðrum landshlutum. Styrkja sambönd sín við fjölskylduna og vini. Það er gott og nauðsynlegt.
Helgin er líka tækifæri til þess að styrkja samband sitt við Guð. Til dæmis fara á þennan stað, bænhúsið á Núpsstað og verða hluti af þeim fjölda sem hér hafa komið í aldana rás og tekið þátt í heilagri guðþjónustu. Hér koma sumir ár eftir ár og hitta ástvini sína og styrkja þannig samband sitt við sína nánustu og Guð. Aðrir eru að koma hér í fyrsta skipti. Við erum hér saman komin til að eiga stund saman og rækta samband okkar við Guð og náungann.
Jesús Kristur vill lifandi samband við þig og mig. Verum sannir spámenn Guðs og gerum trúna á hann að miðpunkti lífs okkar, grunninn að öllu því sem er mikilvægt í lífinu. Jesús er vinur í raun og biðjum til hans á hverjum degi og með því ræktum við samband okkar við þann sem segir við okkur Sjá ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.