Að undanförnu hefur handtaka tveggja írakskra hælisleitenda í Laugarneskirkju í Reykjavík aðfararnótt 28. júní s.l. verið mikið til umræðu í fjölmiðlum en þó einkum netheimum. Eðlilegt er að fólki sé nokkuð niðri fyrir. Atvikið var sérstætt. Líklega þarf að leita rúm 450 ár aftur í tímann til að finna hliðstæðu, þ.e. að aðþrengdir menn leiti hælis í kirkju hér á landi og séu fjarlægðir þaðan með valdi.
Þar sem ég var viðstaddur atburðinn þykir mér við hæfi að varpa ljósi á það sem fram fór frá mínu sjónarhorni séð. Ég kom á hinn bóginn ekki að neinni ákvarðanatöku og átti enga hlutdeild í að skipuleggja atburðinn. Ekki er því í mínum verkahring að verja aðgerðirnar eða að tjá afstöðu þeirra sem frumkvæði höfðu. Það er að sjálfsögðu heldur ekki mitt hlutverk að miðla formlegri afstöðu Þjóðkirkjunnar til aðgerðanna ef slík afstaða liggur þá fyrir.
Táknrænt andóf
Ýmsir sem hafa tjáð sig af hve mestum sannfæringarkrafti hafa staðhæft að með aðgerðunum hafi lögum og reglu í landinu verið sagt stríð á hendur, að störf lögreglu hafi verið hindruð og fólk jafnvel gerst brotlegt gegn valdstjórninni. Frá mínum bæjardyrum séð er óravegur frá að svo hafi verið.
Mér er kunnugt um að lögreglunni hafði verið tilkynnt um hvar hælisleitendurnir yrðu staddir þegar til stóð að flytja þá úr landi. Þá varð ég vitni að því að gengið var nákvæmlega úr skugga um hvort skilaboð þess efnis hefðu ekki náð alla leið, kirkjudyrnar stóðu opnar, ljós var í kirkjunni og engin tilraun var gerð til að leyna hvar fólk væri að finna. Þá reyndi enginn úr hópi mótmælenda að standa í vegi fyrir eða tefja aðgerðir lögreglunnar. Aðeins fór fram stutt lágstemmt samtal milli sóknarprestsins og þess er stjórnaði lögregluaðgerðunum. Ekki heyrðust orðaskil en samræðurnar virtust á vinsamlegum nótum.
Öll mótmæli sem þannig fara fram eru táknræn og í þessu tilviki var beitt kirkjulegu táknmáli sem áður fyrr átti sér lagastoð og hefur notið virðingar og skilnings víða allt til þessa. Í Laugarneskirkju áttu sér því stað táknræn mótmæli eða andóf en ekkert umfram það.
Það tákn sem beitt var eru svokölluð kirkjugrið. Áður fyrr giltu um þau nákvæmur lagarammi en þá var markmið þeirra að stuðla að því að fólk fengi réttláta málsmeðferð fyrir dómi eða á annan hátt af hálfu yfirvalda. Kirkjugriðin eru því beitt tákn þegar flóttamenn og hælisleitendur eiga í hlut. — Við erum nefnilega mörg sannfærð um að þeir hljóti ekki ávallt réttláta málsmeðferð hvorki hér á landi né annars staðar í Evrópu.
Mörg dæmi eru um það frá nálægum löndum að kirkjugriðum sé beitt á allt annan hátt. Hælisleitendur hafa t.a.m. verið faldir í byggingum kirkjunnar, starfsmenn hennar hafa neitað að framselja þá fyrr en mál þeirra hafa verið tekin fyrir og hafnað samstarfi við lögreglu og yfirvöld. Þegar þannig er staðið að málum er ljóst að um borgaralega óhlýðni er að ræða og hún lýtur allt öðrum „lögmálum“ en táknrænt andóf.
Í umræðunni hefur nokkuð borið á að menn séu ekki læsir á táknrænt atferli og skilji atburðinn í Laugarneskirkju á einhvern allt annan máta en til var stofnað. Þannig hafa t.a.m. mektarmenn í samfélaginu, sem væntanlega vilja láta taka mark á sér, spurt hvort Þjóðkirkjan og prestar hennar ætli að segja lögum og reglu í samfélaginu stríð á hendur sem og hvort Laugarneskirkja og jafnvel aðrar kirkjur verði í framhaldinu griðarstaðir nauðgara og glæpamanna.
Ummæli af þessu tagi eru þvaður sem ekki er svaravert. Það er þó ekki ástæða til annars en að ætla að þeir sem þannig tjá sig geri það gegn betri vitund. Það er svo umhugsunarvert að menn jafnvel í opinberum stöðum skuli leggjast svona lágt í jafn alvarlegri umræðu og flóttamannamálin eru.
Gerðu mótmælin lítið úr lögreglunni?
Í umræðunni hafa ýmsir bent á að með táknrænum mótmælum sínum hafi kirkjunnar fólk gert lítið úr lögreglumönnunum sem sendir voru í aðgerðirnar og jafnvel stuðlað að því að þeir hafi verið sýndir í fasísku ljósi.
Það er gott að þessi rödd komi fram. Það er allt of sjaldgæft að hugað sé að stöðu og líðan þeirra sem ætlað er að framkvæma misgrundaðar ákvarðanir yfirboðara sinna. Þeir sem ákvarðanirnar taka koma aftur á móti sjaldan fram í mynd og þá við fullkomlega öruggar aðstæður. Þær eru á hinn bóginn ekki alltaf til staðar við lögregluaðgerðir. Aðstæður í Laugarneskirkju um nóttina virtust þó fullkomlega öruggar og undir stjórn. Ég skal þó ekki draga í efa að lögreglumönnunum hafi þótt óþægilegt að þurfa að fjarlægja hælisleitendurna úr kirkjuhúsinu.
Í mótmælum liggur hin raunverulega átakalína ekki milli lögreglumanna og þeirra sem að mótmælunum standa. Hér á landi ríkir oftast fullkominn skilningur milli þessara hópa og þannig hygg ég raunar að staðan hafi verið í Laugarneskirkju. Mótmæli beinast alltaf að „æðri“ aðilum en lögreglunni. Ef svo er ekki hafa mótmæli þróast yfir í óeirðir. Sem betur fer kemur sjaldan til þeirra hér og ekki áttu óeirðir sér stað í Laugarneskirkju. Þar beindust mótmælin gegn stjórnvöldum, ekki síst Útlendingastofnun, málsmeðferð hennar og verklagi.
Þeir sem telja að lögreglumennirnir hafi verið settir í erfiða stöðu — ég játa fúslega að þann hóp fylli ég — ber á hinn bóginn að spyrja: Voru það í raun við aðgerðasinnarnir sem það gerðu? Voru það ekki frekar Útlendingastofnun og lögregluyfirvöld? Höfðu þessir aðilar ígrundað nægilega hvernig lögregluaðgerð í kirkju kæmi fyrir sjónir í mynd? Höfðu þeir velt vöngum yfir því hvernig yrði fyrir lögreglumenn að athafna sig í kirkjunni og hvað tilfinningar því kynnu að fylgja? Hafði þetta verið rætt við lögreglumennina fyrirfram og þeim gefið svigrúm til að taka afstöðu til aðgerðanna og búa sig undir þær? Höfðu þeir sem ákvarðanir tóku leitað leiða til að leysa málið með öðrum hætti?
Mér er mjög til efs að þessi aðgerð hafi verið undirbúin með sérstaklega faglegum hætti eða að leitað hafi verið annarra leiða til lausnar en þeirrar allra stystu og reglustrikulegustu. Það er venjulega íslenska leiðin, praktísk en ekki alltaf heppileg.
Mergurinn málsins er að eftir að lögreglan var komin á vettvang er vandséð að nokkuð hafi getað gerst öðru vísi en raun varð á. Í kirkjunni voru engar þær aðstæður að lögreglan hefði ástæðu til að draga sig í hlé eða breyta áformum sínum. Þar hefði þá einungis komið til sú ákvörðun að virða ætti kirkjugriðin. Slík ákvörðun var þó á engan hátt á valdi lögreglumannanna á vettvangi né átti að taka þá ákvörðun á staðnum. Hún hefði átt að liggja fyrir áður en aðgerðir voru hafnar.
Úti fyrir varð atburðarásin nokkuð hraðari og háværari en verið hafði inni í kirkjunni. Þar hefði vissulega mátt óska að einn úr vinahópi hælisleitendanna og einn af lögreglumönnunum hefðu sýnt meiri stillingu. Annars var fátt sem kom þeim á óvart sem gegnt hefur báðum hlutverkunum, verið lögreglumaður og tekið þátt í mótmælum. Vonandi er enginn svo skilningssljór að hann áfellist sjálfa hælisleitendurna sem fjarlægðir voru fyrir að veita viðnám. Sá sem upplifir sig í raunverulegri hættu sýnir önnur viðbrögð en þeir sem aldrei hafa reynt ógn af líku tagi.
Sýndarmennska?
Ýmsir hafa legið skipuleggjendum mótmælanna á hálsi fyrir sýndarmennsku sem m.a. hafa komið fram í að þeir hafi boðað fjölmiðla á vettvang. Tilgangur mótmæla er að koma sjónarmiðum á framfæri. Mótmæli í felum hafa litla þýðingu. Því má segja að eðli máls samkvæmt hafi skipuleggjendur hlotið að vekja athygli á fyrirhuguðum aðgerðum sínum. Allt öðru máli hefði gegnt ef stefnt hefði verið að því að hindra lögregluna í störfum, leyna hælisleitendunum eða fremja annað það sem brotið hefði í bága við lög. Þá væri eðlilegt að halda fjölmiðlum, vökumönnum lýðræðisins, í sem mestri fjarlægð.
Raunin er sú að einn fjölmiðill mun hafa verið á staðnum með töku- og fréttamann. Af nærveru þeirra spratt ekkert sem kalla má fjölmiðlafár. Allir verða á hinn bóginn að gera sér grein fyrir að nú á dögum erum við alltaf og öll í mynd. Flestar þær myndir sem sést hafa á netmiðlum að undanförnu eru því ekki frá fjölmiðlum komnar heldur teknar á síma af einhverjum þeirra fáu einstaklinga sem voru á staðnum.
Þá er fjarri öllum sanni að ætla að persónuleg athyglisþörf hafi knúið þau áfram sem öðrum fremur stóðu að hinum táknrænu aðgerðum. Þar fóru fremst í flokki prestur innflytjenda og sóknarpresturinn í Laugarnesi en síðustu misserin hafa nýbúar og hælisleitendur verið áberandi í lífi safnaðarins. Svo vill til að starf sóknarprests hefur nú verið auglýst laust til umsóknar. Meðal sjö átaksverkefna sem sóknarnefnd hefur kosið að leggja áherslu á í þarfagreiningu sinni vegna auglýsingarinnar er einmitt að auka „ […] þjónustu við nýbúa og umsækjendur um alþjóðlega vernd“. Málaflokkurinn á því áfram að vera í forgrunni. Með því á sóknarnefndin þó væntanlega ekki við að í framtíðinni skuli jafnan látið reyna á kirkjugrið!
Í Laugarnessöfnuði hafa nýbúar, flóttafólk og hælisleitendur einfaldlega átt skilningi og samstöðu að mæta. Það var því í fyllsta máta eðlilegt að hinu táknræna andófi kirkjunnar væri beitt þar en ekki einhvers staðar annars staðar. Vera má að það hefði þó verið sterkara hefði það farið fram í dómkirkjunni eða Hallgrímskirkju en ekki einfaldri hverfiskirkju. Þar hefði það þó ekki sprottið úr jafn lífrænu samhengi í safnaðarstarfinu sjálfu.
Kirkjan og pólitíkin
Sagt hefur verið að með aðgerðunum í Laugarnesi hafi Þjóðkirkjan stigið inn á hið pólitíska svið. Vel má það vera en þá má spyrja hvað sé nýtt við það. Hefur kristin kirkja ekki verið pólitísk frá upphafi og ber henni jafnvel ekki skylda til að vera það? Var Kristur t.a.m. ópólitískur og var krossfesing hans laus við pólitíska undirtóna?
Vissulega er pólitískur ferill kirkjunnar á heimsvísu ekki þannig að sérstök ástæða sé fyrir kirkjufólk að hreykja sér yfir honum. Langtímum saman hefur kirkjan komið fram sem framlengdur armur ríkisvaldsins. Stundum hefur hún líka veðjað á rangan hest. Á ýmsum tímum og ýmsum stöðum hefur hún hins vegar borið gæfu til að standa með lítilmagnanum og þeim sem staðið hafa höllum fæti líkt og flóttafólk gerir nú. Er það sérstaklega pólitísk afstaða eða er ástæða til að áfellast kirkjuna fyrir hana? Er slík samstaða ekki eitt af hlutverkum kirkjunnar eða hvað átti upphafsmaður hennar við þegar hann sagði: Hvað sem þér hafið gert mínum minnstu bræðrum hafið þið gert mér? Þau sem hugleitt hafa að yfirgefa Þjóðkirkjuna vegna atburðanna í Laugarnesi ættu að gefa sér tíma til að hugleiða þessa hlið málsins áður en þau láta af úrsögn verða.
Vandamál kirkjunnar á Vesturlöndum í seinni tíð er e.t.v. að hún hefur virt um of mörk þess sem nú á dögum er kallað pólitískt svið og látið útiloka sig frá því. Uppskipting samfélagsins í pólitísk svið og einhver önnur er aftur á móti ekki náttúrulögmál. Þetta er síðari tíma uppfinning sem raunar má setja spurningarmerki við. Hið pólitíska svið er a.m.k. ekki frátekið fyrir einhverja sérstaka pótintáta þar sem öðrum beri að þegja og hlýða. Þvert á móti er lýðræðinu hollt að sem flestir láti pólitísk málefni til sín taka, bæði einstaklingar og stofnanir. Þannig verður umræðan fjölbreytt, heilbrigð og holl og samfélagið vonandi líka.
Loks má spyrja hvort augljóst sé að málefni flóttafólks og hælisleitenda sé pólitísk mál. Er það ekki miklu frekar samfélagslegt í víðtækum skilningi og þar með siðfræðilegt. Er ekki eðlilegt að kirkjan, líka Íslenska þjóðkirkjan, láti sig slík mál varða?
Umræða á refilstigum
Auðvitað ber að fagna þeirri athygli sem atburðirnir í Laugarnesi hafa hlotið. Það á raunar líka við um þá neikvæðu athygli og umræðu sem sprottið hafa í kjölfarið. Hún hefur afhjúpað hugarfar sem er gott að við séum minnt á að eigi töluvert fylgi meðal okkar og ástæða sé til að andæfa.
Það er þó bagalegt en í raun dálítið dæmigert fyrir okkur Íslendinga að umræða um sjálft málefnið sem sett var á oddinn hefur að mestu farið forgörðum. Þar er átt við málefni hælisleitenda og hvernig við viljum mæta þeim — ekki síst forsjárlausum börnum sem hingað leita. Fyrir þeim hafa orð eins og „heim“ og „heima“ enga merkingu. Þeim mun meiri er reynsla þeirra af öryggisleysi og höfnun. Það væri óskandi að stofnanir samfélagsins, þar á meðal Þjóðkirkjan, hæfu markvissari umræðu um þau mál. — Þar með yrði hið táknræna andóf í Laugarneskirkju til nokkurs gagns.
Greinin birtist upphaflega á heimasíðu Hugrásar 8. júlí 2016