Þá seldi hann þeim hann í hendur og bauð að láta krossfesta hann.Hermennirnir tóku þá við Jesú. Og hann bar kross sinn og fór út til staðar sem nefnist Hauskúpa, á hebresku Golgata. Þar krossfestu þeir hann og með honum tvo aðra hvorn til sinnar handar, Jesú í miðið. Pílatus hafði látið gera yfirskrift og setja á krossinn. Þar stóð skrifað: JESÚS FRÁ NASARET, KONUNGUR GYÐINGA. Margir Gyðingar lásu þessa áletrun því staðurinn, þar sem Jesús var krossfestur, var nærri borginni og þetta var ritað á hebresku, latínu og grísku. Þá sögðu æðstu prestar Gyðinga við Pílatus: „Skrifaðu ekki konungur Gyðinga, heldur að hann hafi sagt: Ég er konungur Gyðinga.“
Pílatus svaraði: „Það sem ég hef skrifað það hef ég skrifað.“
Þegar hermennirnir höfðu krossfest Jesú tóku þeir klæði hans og skiptu í fjóra hluti og fékk hver sinn hlut. Þeir tóku og kyrtilinn en hann var saumlaus, ofinn í eitt ofan frá og niður úr. Þeir sögðu því hver við annan: „Rífum hann ekki sundur, köstum heldur hlut um hver skuli fá hann.“ Svo rættist ritningin:
Þeir skiptu með sér klæðum mínum
og köstuðu hlut um kyrtil minn.
Þetta gerðu hermennirnir.
En hjá krossi Jesú stóðu móðir hans og móðursystir, María, kona Klópa, og María Magdalena. Þegar Jesús sá móður sína standa þar og lærisveininn, sem hann elskaði, segir hann við móður sína: „Kona, nú er hann sonur þinn.“ Síðan sagði hann við lærisveininn: „Nú er hún móðir þín.“ Og frá þeirri stundu tók lærisveinninn hana heim til sín.
Jesús vissi að allt var þegar fullkomnað. Þá sagði hann til þess að ritningin rættist: „Mig þyrstir.“
Þar stóð ker fullt af ediki. Hermennirnir vættu njarðarvött í ediki, settu hann á ísópslegg og báru að munni honum.
Þegar Jesús hafði fengið edikið sagði hann: „Það er fullkomnað.“ Þá hneigði hann höfuðið og gaf upp andann.
Jóh. 19:16-30
Það blasir við okkur kross. Hann er hér ofan við altarið í kirkjunni og skapar henni heilagan stað í miðju. Og þessi dagur er helgaður krossinum, einn dagur á almanaki ársins sem er eins og hjúpaður inn í skugga þagnar og kyrrðar, samúðar og sorgar. Um það vitnar svartur litur sem ber þessum eina degi kirkjuársins vitni og bendir á myrkrið og einsemdina. Og hugsun þín og háttafar verður snortið af sögu þessa dags. Jesús Kristur var krossfestur. Ósjálfrátt tengir þú söguna þína við þá sáru reynslu sem hann bar á krossins tré.
En þú berð jafnvel þennan sama kross um háls þér. Þá finnst þér hann orðinn að merki fegurðar og vonar, trausts og kærleika. Vitnisburðurinn um þakklæti fyrir líf í stað dauðans fjötra, fagnaðarmerkið sem bendir á vernd og mátt sem í hjálpræði samfélagsins felst. Við erum saman hvert öðru von og styrkur í skjóli almáttugs Guðs.
Krossinn er eins og táknið sem umvefur lífið allt í blíðu og stríðu, eins og að ljósið og myrkrið haldist hönd í hönd, þar sem birtan stríðir við að lýsa upp myrkrið allt. Í skjóli krossins er mikil von um líf. Hann minnir á sár og kvöl, en er um leið farvegurinn þar sem vonarleiðin liggur, vörðuð leiðarsteinum sem á stendur: „Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi“.
Það er táknrænt að dagur krossins er tileinkaður lífsbaráttu okkar sem reynt höfum þrautir veikinda vegna misnotkunar áfengis og vímuefna, en höfum nú fengið að njóta frelsis og lífsgæða sem í algáðu líferni felst. Þar höfum við mikið að þakka, „dag í senn, eitt andartak í einu, eilíf náð þín, faðir, gefur mér“, eins og segir sálminum sem við sungum. Og við hugsum til þeirra allra sem líða enn í fjötrum vímunnar og biðjum þeim hjálpar.
Líf án vímu er enginn dans á rósum þar sem allt er alltaf svo auðvelt, létt og skemmtilegt í þjóðfélagi sem dýrkar og upphefur áfengisdrykkju í siðum og háttum sínum. Samt þrá flestir foreldrar ekkert frekar en að börnin sín komist af án áfengis og vímuefna. Kröfurnar um nákvæmni, fagmennsku og fullkomnun aldrei meiri en nú í flóknu þjóðlífi nútímans og í svo miklu ósamræmi við sígjarna áfengis-og vímuefnaneyslu sem truflar og hamlar árangri á flestum sviðum.
Tískudýrkun nútímans lætur ekki bugast og boðar í tíma og ótíma: „Þú skalt samt drekka“ og undir dekrið taka stofnanir sem telja sig til trausts og ábyrgðar eins og íslenski bankinn sem skrifaði mér bréf fyrir jólin og sagði mér að ekki væri hægt að halda gleðileg jól yfir gómsætum krásum á aðfangadagskvöldi öðruvísi en að drekka áfengi með.
Það þekkja þau, sem reynt hafa kvöl og pínu vímunnar, að mörg eru saklaus börnin sem líða fyrir afleiðingar hennar óverðskuldað, einmitt og oft þegar hátíð fjölskyldunnar á svo margvíslegum tímamótum skal standa hæst, en hefur þá umbreyst í martröð eina. Börnin verðskulda það besta sem í boði er. Það besta getur aldrei verið samboðið áfengi og vímuefnum.
Skilaboðin eiga að vera skýr: „Það er betra að lifa lífinu án vímu“. Það höfum, við, svo mörg reynt og þreifuðum þó líka um botninn sjálfan. Mikil var sú kvöl og pína, þungur kross að bera, en mikil er sú blessun og frelsun sem felst í voninni úr fjötrum, upprisunni til lífsins, „dag í senn, eitt andartak í einu“.
Þar stendur krossinn í miðju, í senn táknið um sögu dýpstu þjáningar og einsemdar, en um leið merkið um sigur vonarinnar. Það er þakkarvert hve vel er að meðferðarúrræðum staðið fyrir fólk sem þjáist vegna misnotkunar áfengis-og vímuefna. Þar stendur Ísland í fremstu röð. SÁÁ og samfélag AA samtakanna, ásamt öðrum meðferðarstofnunum, hafa bjargað svo mörgum mannslífum, gert fárveikum kleift að rísa upp og njóta lífsins.
Það er ekki sjálfgefið og telst frekar til undantekningar í samanburði við önnur lönd, að opnar dyr bjóði alla vímusjúklinga velkomna óháða stöðu og efnahag, alla þá sem vilja þiggja hjálp í leit að von um frelsi úr fjötrum, að heilsa útréttri hjálparhönd sem starfar af umhyggju og faglegum metnaði. Þess hafa svo margir notið og upplifað, að virðing manns er að fullu virt þrátt fyrir það sem maður var í veikindum sínum. Þar er mikil von að verki sem ekki gefst upp og vitnar um einlæga virðingu fyrir einstaklingnum hvernig sem kjörum og aðstæðum hans er háttað. Hér er mikið að þakka.
En maðurinn upphefst ekki í hæðir af eigin mætti, heldur í auðmýkt játast hann sjálfum sér og hrópar stamandi röddu: „Guð vertu mér syndugum líknsamur“. Þá blómgast vonin úr einsemd sektarkenndar og kvíða til lífsins, eins og hlið sem opnast til móts við andblæ frelsisvinda sem umvefur samfélagið okkar í AA og kirkjunni og gefur styrkinn fyrir Guðs hjálp.
Við, hvert með öðru, þar sem hver setur sig í annars spor og berum gleði og raun hvers annars saman. Það er líflínan sem við höldum um þéttingsfast. Bandið er gjöf Guð, æðin sem flytur okkur næringu og súrefnið. Þar er kross í miðju sem af streymir lifandi von úr fjötrum. Hér er Guð að verki fyrir Jesú Krist, Drottinn vorn, krossfestan og upprisinn.
Friður Guðs sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjötru yðar og hugsanir yðar í Kristi Jesú, í hans nafni. Amen