Öll þekkjum við óttann. Hann liggur djúpt í vitundinni og er hverri lífveru nauðsynlegur til þess að forðast hættulegar aðstæður og komast í öruggt skjól. Óttaleysið er ekki valkostur í óblíðri náttúrunnunni þar sem hver og einn þarf að berjast fyrir stöðu sinni og framtíð.
Ástæðulaus ótti
Óttinn þarf þó ekki að byggja á raunverulegri vá. Ég man til dæmis eftir því, að sem strákur átti ég erfitt með að vera einn heima eftir að rökkva tók. Einhver beygur gerði vart við sig þá þegar enginn heima nema ég. Það var undarleg tilfinning. Allt var eins og það átti að vera og ekkert heimili var mér kunnugra en einmitt þetta. Þar átti ég mínar bestu stundir í öryggi fjölskyldu og vina. En einveran í stóru húsinu, sem komið var til ára sinna, skerpti einhvern veginn á skilningarvitunum. Þrusk og brak í veggjum og leiðslum sem venjulega hefðu ekki vakið athygli mína sátu nú að henni óskiptri. Stundum leið mér eins og einhver fylgdist með mér sem var auðvitað fjarri sanni þar sem enginn var í húsinu nema ég.
Með árunum rann hann af mér, þessi uggur, en minningin lifir í hugskotinu. Umkomuleysi óttans var í senn óþægilegt og svo þegar komið var fram á unglingsárin, varð það æ pínlegra. Ég var óttasleginn þótt hættan væri í raun engin. Síðar meir fékk ég þær skýringar að angistin við einveruna ætti sér djúpar rætur í mannsálinni. Í fyrndinni var raunverulega háskalegt að vera einn síns liðs. Þá bjó fólk ekki í öryggi réttarríkis og steypta veggja heldur í námunda við alls kyns kvikindi og fjendur sem sátu um líf þess sem ekki naut verndar sinna bandamanna.
„Ber er hver að baki nema sér bróður eigi“, segir í hinum fornu ritum. Sjálfsagt hefur það verið sú óöryggiskennd sem sótti á mig, forrituð inn í taugakerfið í gegnum reynslubanka kynslóðanna. Forfeður mínir og -mæður voru í raunverulegri hættu þegar enginn vinveittur var nærri þótt raunin sé sem betur fer öll önnur á okkar dögum. Þannig er ýmis sú angist sem grípur okkur ástæðulaus og dæmin eru auðvitað mýmörg um slíkt angur.
Angistin þjakar
Áhyggjur þjaka okkur, óöryggi og kvíði allt birtist þetta okkur í einhverri mynd. Tölurnar tala sínu máli. Margir neyta lyfja sem slá á þessar ónotakenndir en þó enginn eins og við Íslendingar, hvað sem nú veldur. Sumt af því tilheyrir nútímanum. Samfélagið er flókið, kröfurnar verða alltaf meiri, tilgangurinn óljósari. Hið forna birtist óttinn í myrkfælni, ekki ósvipað því þegar barnið situr eitt í húsinu og finnur fyrir bjargleysi sínu. Eitthvað er það í fari okkar sem kallar fram angist og ótta. Sumt á við rök að styðjast, annað er eins og laumufarþegi í sálinni, óþægilegir fylgifiskar þess að vera manneskja með tilfinningar sem ekki alltaf láta að stjórn.
Óttinn getur verið lamandi afl sem heldur okkur í fjötrum. Oft tölum við um ímyndaðan hring sem dreginn er í kringum allt það í lífi okkar sem við erum ekki hrædd við. Þar inni er þægilegt að vera og við teflum engu í tvísýnu. Fyrir utan hann bíður óvissan, þar þurfum við að takast á við áskoranir sem við höfum ekki áður þurft að glíma við. Við veitum því ekki alltaf athygli sem heldur aftur af okkur, fyrr en ef til vill að við lítum um öxl löngu síðar. Þá skynjum við að stóran hluta ævinnar veigruðum við okkur við að stíga skrefið stóra út fyrir hringinn sem kenndur er við þægindin. Og innan hans vinnum við engar dáðir.
Óttaslegnir í bátnum
Hættan var víst sýnilegri, í bátnum þar sem lærisveinar Jesú höfðust við í og biðu örlaga sinna. Ofsaveður geisaði og enginn skyldi draga í efa þá hættu sem því fylgir að vera ofurseldur kröftum náttúrunnar. Þetta var auðvitað fyrir daga þeirra öryggistækja sem nú eru um borð í bátum og skipum, en dugir þó ekki til. Sá vari sem sæfarendur hafa á sér er þó aldrei ástæðulaus það sýna dæmin og stundum eru allar bjargir bannaðar, jafnvel á tímum þar sem siglingatæki vakta umhverfið og björgunarbúnaður tekur við ef í óefni stefnir.
Sagan um það þegar Jesús stillir storminn hefur margar víddir. Hún horfir allt aftur til upphafsfrásagnar Biblíunnar þegar óreiðan víkur fyrir skipan skaparans, þegar sköpunin tekur við af óskapnaðnum. Kristur í sögunni hefur sama vald. Hann nær tökum á höfuðskepnum náttúrunnar og hið háskafulla umhverfi breytist í spegilslétt haf þar sem kallar um leið fram stillur í hinu innra landslagi sálarinnar.
Já, þetta er hin nýja sköpun og sú beinist ekki einvörðungu að ógnarkröftum vinda og vatns. Hún horfir inn á við og mætir manninum þar sem hann glímir við fylginauta sína og farangur, oftar en ekki það sem kemur í veg fyrir að hann vaxi í fullnustu sinni og þroska.
Förunautar Krists í bátnum voru vissulega ekki óvenjulegir menn, en þeir höfðu óvenjulegt hlutverk. Þeim var ætlað það verkefni sem flestum hefði þótt svo ógnvekjandi og raunar svo fjarstæðukennt að allt tal um það að koma sér út úr örygginu væri nánast eins og hvert annað grín. Mönnunum sem sátu í bátnum með Jesú var ætlað að gera allar þjóðir að lærisveinum. Og ef við skoðum það dýpra þá er báturinn sem þeir ultu í, til og frá, eins og sjálf kirkjan sem er vettvangur þeirrar boðunar sem þeim var ætlað að miðla.
Hin nýja sköpun
Sagan um það þegar Jesús stillir storminn vísar ekki síst til þess hvernig hann friðar það ofsaveður sem stundum stríðir í sálu okkar. Þar innra með okkur ólga ýmsar kenndir sem geta reynst okkur fjötur um fót, jafnvel rænt okkur tækifærinu til þess að rísa upp og vinna þær dáðir sem Guð krefst af okkur. Sannarlega átti það við um lærisveinana vini hans sem voru svo óttaslegnir í ölduganginum. Þeir litu til meistara síns en hann hvíldi í friði og æðruleysi á meðan báturinn virtist ætla að farast.
Atburðurinn varð eins og forsmekkur þess sem þeir áttu í væntum, og já öll kirkja Krists sem minnir stundum á þann bát sem hentist til og frá á yfirborði vatnsins.
Hún á ekki síður erindi við okkur þar sem við stöndum frammi fyrir óþekkta og ókunna í lífi okkar. Ungmenni situr eitt í stóru húsi og það er eins og brestirnir í ofnunum séu fótatak og vindurinn bankar á gluggana þótt enginn sé þar fyrir utan. Síðar meir í lífinu tekur myrkfælnin á sig nýjar myndir. Óttinn mætir okkur í margvíslegri mynd, óttinn við að standa sig ekki, óttinn við að koma illa fyrir, líta illa út, falla ekki inn í hópinn, skynja ekki tilgang sinn og hlutverk í flóknu samfélagi sem breytist ört.
Þá gerum við eins og lærisveinarnir í frásögninni. Við áköllum Krist. Hann sýnir okkur hversu léttvægar slíkar áhyggjur eru andspænis þeim mikla veruleika sem Guð birtir okkur. Hann minnir okkur á það stórkostlega hlutverk sem hann hefur falið okkur í lífi okkar. Ekkert fyllir okkur meiri þrótti en það traust að yfir okkur vaki kærleikur Guðs sem birtist í Kristi frelsara okkar. Höldum okkur við það traust og stígum út úr þeim ramma þar sem við leitum öryggis. Því utan hans bíða áskoranirnar okkar og tækifærin til þess að lifa lífinu í allri sinni fullnustu.