Ég sit makindarlega í þægilegum hægindastól í stofunni heima. Húsið er skínandi hreint og heima líður mér vel, en samt er eins og ég losni ekki við einhverja undirliggjandi óhreinindatilfinningu. Mér finnst ég skítug og læt renna í sjóðandi heitt freyðibað, djúpnæri hárið og ligg í kortér með leirmaska á andlitinu, býð dauðu hári og skítugri húðfitu byrginn. En allt kemur fyrir ekki. Fréttir undanfarinna daga af meintu kynferðislegu ofbeldi herra Ólafs heitins Skúlasonar truflar tilveru mína. Það er alveg sama hversu oft ég gljáfægi stofuborðið mitt, það virðist aldrei verða nógu hreint. Ég sortera fataskápa barna minna og dusta rykið úr öllum mottum. En allt kemur fyrir ekki. Ég finn að jafnvel þótt ég vakúmpakkaði lífi mínu og leggði það fallega á altarið í kirkjunni, liði mér ekkert betur, því allt er það unnið í þögn.
Þögnin er mér ljúf og skyld en hún á sér annað andlit. Hún læðist aftan að mér með horn á höfði og langan hala og þess vegna sest ég við tölvuna og set hugsanir mínar á blað.
Frá því ég hóf störf innan íslensku Þjóðkirkjunnar, hefur sálgæslan verið fyrirferðamesti þátturinn í starfi mínu. Það kom mér satt að segja á óvart, enda hafði ég búið mig undir að eyða góðum tíma í predikunargerð, námskeiðahald og alhliða heilsueflingu í söfnuðinum. Sumsé, ég hafði þjálfað mig í fyrirbyggjandi aðgerðum. En raunveruleikinn er sá að þunginn í starfinu er að vera til staðar þegar allt er komið í þrot hjá náunga mínum og of seint er að beita fyrirbyggjandi aðgerðum. Þá ber mér skylda til að vera eyru sem heyra, hjarta sem finnur til með, hugur sem leitar úrræða og munnur sem hughreystir og biður. Já, að vera sú sem tekur sér stöðu með náunganum þegar hann má sín minnst. Allt þetta geri ég síðan í nafni Jesú Krists, svo ábyrgðin er gríðarlega mikil og afar ólíklegt að ég muni nokkurn tíma standa undir væntingum allra sem til mín leita. En það veit Guð að ég legg mig fram. Það er í þessu ljósi og á þessum forsendum sem ég þræði mig í gegnum fréttaflutning og bloggfærslur um málefni fyrrgreinds biskups.
Brotin sem herra Ólafur var sakaður um eru gríðarlega alvarleg, því mun ekki nokkur heilvita maður andmæla. Kynferðislegt ofbeldi er tilraun til sálarmorðs og kallar á skjótar aðgerðir, líkt og ég hef áður rætt á þessum vettvangi: http://tru.is/pistlar/2008/05/aflimun-salarinnar En brot hans var mun víðtækara en það, því hann gerðist einnig sekur um svik við Jesú Krist. Sérhver vígður þjónn hinnar kristnu kirkju tekur að sér að vera áheyrandi í Krists stað. Sá sem er áheyrandi í Krists stað, bregst einnig við í anda Jesú Krists. Þegar vígður þjónn kirkjunnar misnotar manneskju með kynferði sínu, líkamlegum yfirburðum og valdi, gengur hann eins langt og hægt er frá heiti sínu og tekur sér stöðu með andstæðingum frelsarans, þeim sem vinna gegn lífinu. Slíkt verður aldrei liðið í kirkju sem kennir sig við Jesú Krist, um það vitna opinberir fjölmiðlar, predikarar kirkjunnar, bloggarar, pottavinir og saumaklúbbar þessa lands. Ekkert góðverk bætir upp fyrir slíkt ódæði, aðeins iðrun, bæn og beiðni um fyrirgefningu getur rétt úr sálunni á ný (því virðist ekki hafa verið að heilsa í tilfelli biskups) og þá reynir á okkur kollega hans að rétta fram sáttarhönd í hans stað. Það að meintur andstæðingur frelsarans skyldi síðan vera í forystuhlutverki Þjóðkirkjunnar gerir málið enn alvarlegra, særir okkur enn dýpri sárum og óhreinkar um leið allt trúfélagið. Við það get ég ekki unað og ekki þagað.
Ég set mig því í samband við skapara minn, legg málið í hans hendur og um hæl leggur hann lausnina á hjartað mitt með þessum orðum: ,, Drottinn, ég ákalla þig, skunda þú til mín, ljá eyra bæn minni þegar ég ákalla þig. Bæn mín berist sem reykelsi fyrir auglit þitt og upplyfting handa minna sem kvöldfórn. Lát hjarta mitt eigi hneigjast að neinu illu svo að ég fremji ekki óguðleg verk með illvirkjum. Ég vil ekki bragða krásir þeirra.” Sl.141: 1-4
Eimitt þess vegna finn ég mig skylduga til þess að tjá mig um málið, því með þögninni bragða ég á krásum illvirkja. En ég læt ekki staðar numið þar, heldur set ég biskupsdóttur í bænir mínar og þakka skapara hennar það hugrekki sem henni er búið, öðrum fórnarlömbum kynferðisbrotamanna til hughreystingar og fyrirmyndar. Ég bið fyrir fjölskyldu hennar og einnig öllum þeim fjölmörgu börnum sem og fullorðnum, er kannast við að hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi. Þá reynir á köllun mína og skyldur við Jesú Krist sem tók sér stöðu með öllum, líka úrhrökum samfélagsins og ég bið fyrir kynferðisofbeldismönnum. Ég bið þess að þeir megi kannast við sekt sína, láta af myrkraverkum sínum og taki sér aftur stöðu með kærleikanum og lífinu. Þá bið ég fyrir íslensku Þjóðkirkjunni, að hún megi rísa upp úr öskustónni og bið að allir sannir félagsmenn, ungir sem aldnir, hjálpi okkur vígðum þjónum að hreinsa til og gljáfægja óhreinkað altari hennar. Það getum við aðeins gert með því að taka okkur stöðu með sannleikanum.
Sannleikurinn bragðar ekki á krásum illvirkja. Sannleikurinn flýr heldur ekki á náðir Ajaxbrúsa, rykmoppa eða hreinsiklúta. Það er alveg sama hversu mjög ég pússa og gljáfægi borðið mitt, hreingeri hvert einasta skúmaskot hússins og fíflast með motturnar á svölunum, hreint verður ekki hjá mér nema ég beri sannleikanum vitni. Einmitt þess vegna lýsi ég yfir ánægju minni með þann farveg sem málið er að komast í, farveg þar sem öll spil eru lögð á borðið. Ég veit nefnilega af fenginni reynslu, að ef ég er enn að hugsa um raunasöguna þremur sólarhringum eftir að ég heyrði hana fyrst, þá kallar hún á að ég geri eitthvað í málinu. Því segi ég af hjartans einlægni: ,,Guðrún Ebba, ég trúi þér". Ég geri það vegna þess að Jesús Kristur kenndi mér að sannleikurinn geri mig frjálsa hversu óþægilegur sem hann kann að vera (Jóh.8.32).