Í táknmáli kirkjunnar er kirkjunni gjarnan líkt við skip. Skipið er á siglingu yfir lífsins ólgusjó. Jesús Kristur stofnaði kirkjuna, hann er einnig við stýrið og stefnir skipinu í örugga höfn. Meðlimir kirkjunnar eru ekki fullkomnir, hvorki leiðtogar hennar né hinn fjölmenni söfnuður. Kirkjusagan er saga sigra og ósigra, “allir hafa syndgað og skortir Guðs dýrð”, - segir í helgri bók. Það er því kraftaverk að kirkjan skuli hafa lifað af í 2000 ár þrátt fyrir oft misvitra leiðtoga og meðlimi.
Þjóðkirkjan á Íslandi er traust og öflug stofnun, hún er hluti af kirkju Krists og leitast við að vera biðjandi, boðandi og þjónandi kirkja í íslensku samfélagi.
Starfsstöðvar kirkjunnar eru um allt land, enda tilheyra flestir Íslendingar þessu félagi, þiggja þjónustu af ýmsum toga og taka þátt eftir því sem á stendur hverju sinni.
Ljóst er að safnaðarstarf hefur aukist til mikilla muna síðustu ár og áratugi. Þetta á við um allar greinar kirkjustarfsins. Auk hefðbundins helgihalds er víða boðið upp á fjölbreyttar kyrrðarstundir, bænastundir, morgunmessur og kvöldmessur.
Barna- og unglingastarf er mjög öflugt, sérstaklega í þéttbýli, reynt er að höfða til allra aldurshópa, en fermingarundirbúningur skipar þar mikilvægan sess.
Foreldramorgnar er vinsælt samkomuform sem margir nýta sér, en mikill vöxtur hefur verið í þessu starfi síðustu misserin þar sem ég þekki til.
Fræðslustarf hefur aldrei verið meira en nú, boðið er upp á fyrirlestra um áhugaverð efni, nokkra kvölda námskeið, biblíulestra, sjálfhjálpar-hópa svo eitthvað sé nefnt.
Tónlistar- og listastarf er víða mjög öflugt í kirkjunni. Mörg þúsund manns á öllum aldri syngja í barnakórum og kirkjukórum safnaðanna um allt land. Í nokkrum kirkjum hafa verið stofnuð Lista- og listvinafélög, sem skipuleggja öflugt og fjölbreytt listastarf í söfnuðunum, mörgum til blessunar og gleði.
Kvenfélög safnaðanna eru rótgróin og hafa starfað ötullega í áratugi og eru enn að. Kvenfélagskonur hafa verið óþreytandi við að safna peningum til að styrkja safnaðarstarfið.
Sérþjónusta kirkjunnar er fjölbreytt, en í Reykjavík eru t.d. starfandi 16 sérþjónustuprestar og 4 djáknar á sjúkrahúsum og stofnunum. Þessir þjónar kirkjunnar mæta þörfum skjólstæðinga sinna með helgihaldi, samtölum, fræðslu, hópastarfi o.fl. Þjóðkirkjan hefur einnig stofnað Hjálparstarf kirkjunnar og Fjölskylduþjónustu kirkjunnar, sem hafa unnið ómetanlegt starf á undanförnum árum.
Sjálfboðaliðar hafa komið að kirkjustarfi alla tíð, má þar nefna meðhjálpara og kirkjuverði sem lengst af voru í sjálfboðnu starfi. Eftir því sem starf safnaðanna verður fjölbreyttara verður enn meiri þörf fyrir sjálfboðaliða.
Síðustu þrjú árin hefur nýtt form á sjálfboðnu starfi orðið til, en það eru svokallaðir messuþjónar.
Undirritaður sá hvernig messuþjónar störfuðu við einn söfnuð í Lundi í Svíþjóð vorið 2006. Ég kynnti mér þessa þjónustu og sótti nokkrar messur þar sem messuþjónar komu að þjónustunni með prestunum. Þegar heim kom stakk ég upp á því að við reyndum þessa aðferð í Hallgrímskirkju og nú hafa 9 söfnuðir á höfuðborgarsvæðinu bæst í hópinn.
Aðferðin er fólgin í því að stofna 4-5 messuhópa með 6-10 manns í hverjum. Hóparnir skiftast á að þjóna að messunni. Fyrir hverja messu er undirbúningsfundur. Messuhópurinn hittir prestinn um miðja vikuna, þar er hlutverkum skift á messuþjónanna, einhverjir koma snemma og undirbúa messuna með starfsfólki kirkjunnar, einn til tveir standa í kirkjudyrum og taka á móti söfnuðinum, hópurinn gengur með kross og ljós inn kirkjugólfið við upphaf messunnar, tveir lesa ritningarorð, aðrir lesa kirkjubænina, aðstoða við útdeilingu sakramentisins, hjálpa til við að ganga frá eftir messu, aðstoða við kirkjukaffið eða súpuna ef boðið er upp á eitthvað slíkt og þannig mætti lengi telja. Hlutverkin þurfa ekki að vera eins frá kirkju til kirkju, hver söfnuður finnur sinn takt og raðar hlutverkum eftir því sem fólk kemur sér saman um. Mælt er með að hafa dreifðan aldur í hópunum, þannig að þeir sem koma til kirkju sjái jafnaldra sína í þjónustunni. Á undirbúningsfundinum eru textar sunnudagsins lesnir og leiðir presturinn samtal um textana sem sannarlega nýtist honum við ræðugerðina. Oft verða líflegar umræður um ræðuefni dagsins, en hver fundur endar með bæn fyrir messunni.
Reynslan af þessu starfi er mjög góð. Messuþjónarnir tala gjarnan um að þetta nýja hlutverk í kirkjunni hafi opnað nýja sýn á messunni og kristinni trú almennt. Messuþjónarnir hafa einnig kallað eftir fræðslufundum og auknu samfélagi. Síðastliðin tvö ár höfum við endað vetrarstarfið með því að boða alla messuþjóna prófastsdæmisins til messuþjónahátíðar sem hefur verið mjög uppbyggileg og góð samvera.
Þessi nýja aðferð til að virkja safnaðarfólk í helgihaldi hefur gefist vel, en hún sýnir einnig, að fólk er tilbúið til að taka þátt ef það fær tækifæri og áhugaverðan farveg fyrir þátttöku sína. Þessa aðferð væri ugglaust hægt að nota við fleiri þætti safnaðarstarfsins. Um 200 messuþjónar eru nú að störfum í Reykjavíkur-prófastsdæmi vestra og stór hópur einnig í nágranna byggðarlögum.
Auk alls þessa starfs, sem ég hef lauslega farið yfir, er kirkjan í samstarfi við marga aðila í þjóðfélaginu, bæði í opinbera geiranum en einnig við aðrar stofnanir, s.s. Ráðgjafastofu heimilanna, Rauða krossinn, aðrar kirkjudeildir og fulltrúa annarra trúarbragða.
Eftir að hafa talað við marga presta, djákna og fulltrúa sóknarnefnda í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra á þessu hausti fullyrði ég, að kirkjan sé á góðri siglingu þetta haustið.