Margur þarf að taka sér skóflu í hönd og moka snjó svo hægt sé að komast leiðar sinnar. Skaflarnir eru misþykkir og misháir en allir þurfa þeir að víkja svo hægt sé að komast um. Þegar búið er að brjóta sér leið í gegnum einn skafl getur annar tekið við og svo koll af kolli. Og jafnvel þótt búið sé að ryðja sér leið og áfangastað náð getur svo farið að skafið sé i leiðina þegar kvöld er komið og nýr fagurhvítur skafl sé sestur þar sem áður hafði verið mokað af mikilli elju. Þá þarf aftur að grípa til skóflunnar. Þetta getur gengið með þessum hætti dag eftir dag þegar snjókoman lætur engan bilbug á sér finna. Vetur konungur minnir hressilega á sig og hefur ekki yfirgefið þegna sína.
Sumir fyllast fljótt ólund yfir snjómokstrinum og kvarta jafnvel hástöfum yfir tíðarfarinu. Skrifa meira að segja í blöð og kveina undan slökum mokstri hins opinbera og vildu helst hafa götur og stéttar sjálfskafandi. Hafa gleymt því á hvaða breiddargráðu þeir búa enda kannski ekki nema von þar sem tíðarfar undanfarandi ára hefur verið víðast hvar verið afar gott og snjórinn nánast komið aðeins í kurteisisheimsókn. Kvatt skjótt og horfið á braut. Sumum fannst meira að segja að þeir færu farnir að búa í útlöndum þar sem þeir helst vilja vera eða hafa þau ókunnu lönd í túnfætinum.
En nú er önnur tíð. Ófærð á vegum, gangstéttum og við hús, er eins og önnur fyrirstaða í lífinu. Eitthvað þarf að gera til þess að geta farið um. Fáir geta beðið þess að sól hækki á lofti og veður verði mild og blíð. Flestir þurfa að taka til sinna ráð, búa sig vel og arka út í veður og vind. Ryðja sér braut og þá ýmist einir saman eða í félagi við aðra. Stundum er aðeins eitt ráð og það er að bíða þess að veður gangi niður. Öll él birtir upp um síðir. Þá verða menn að hafa biðlund, kunna að bíða og fara sér ekki að voða í biðinni.
Skaflar lífsins geta verið æði margir. Og þeir setjast skyndilega að okkur á einni nóttu og við getum fátt gert. Sumir þeirra eru svo háir og þykkir að ekki verður við þá ráðið í einu vetfangi. Aðrir eru eins og lausamjöllin sem við sökkvum í og sjáum svo ekki handa okkar skil. Enn aðrir eru auðveldir viðfangs og birtast okkur jafnvel sem áskorun. Glaðir í bragði halda menn út vel búnir og blása ekki úr nös við moksturinn.
Margur maðurinn horfir á skafla síns eigin lífs og það andar köldu frá þeim. Sumir skaflarnir eru jafnvel gamlir og ekkert hefur náð að þíða þá né heldur hefur skófla verið lögð í þá frá því að þeir hlóðust upp. Þeir eru þarna. Eins og jökull – og sumir þeirra eins og skriðjöklar sem skríða löturhægt niður á við, óhreinir og illilegir. Nánast ófærir og örugglega viðsjárverðir. Þeir tala sínu máli en um leið og þeir minna á sig er reynt að horfa fram hjá þeim eða eyrum lokað. Augum lokað vegna þess að þeir eru óþægilegir. Skaflarnir geta verið hlaðnir upp af óuppgerðum málum í fjölskyldum, einkalífi og tilfallandi samskiptum við annað fólk. Hlaðnir upp af sjálfselsku og hirðuleysi. Hroka og yfirgangi. Fíkn, hvaða nafni sem hún nefnist. Þeir eru þarna og fara ekki af sjálfu sér. Og jafnvel þótt vorið komi hlaupandi með boð um að sumarið sé handan við hornið þá eru freðnir skaflar sálarinnar á sínum stað. Ekkert sumar getur brætt þá ef sá sem hlóð þá upp rumskar ekki og breytir lífsaðstæðum sínum; vill brjóta af sér harðfenni sálarinnar og rétta út hlýja hönd til samferðamanna sinna.
Hvað er hægt að gera til komast í gegnum þessa skafla? Kalla í vegagerð sálarinnar og láta hana ræsa hefla sína og snjóblásara?
Nei, hér er hver sjálfum sér næstur. Hver og einn verður að taka sér skóflu í hönd og hefjast handa. Horfast í augu við skaflinn sem dróst að lífi hans, lokaði hann inni bak við þykkan snjóvegg. En auðvitað hrekur hann ekki þann á brott sem kemur með sína skóflu og vill leggja hönd að verki. Eða hvað? Kannski er hjálpfús hönd sem kemur úr óvæntri átt eins og bjartur vonargeisli á vetri. Sá geisli boðar kannski að von sé á fleiri slíkum. Þegar einhver sér að þú af sjálfum þér eða sjálfri þér, hefst handa um að ryðja þér farsæla leið í lífinu, þá verður sá hinn sami fús til verka og vill leggja þér lið. Vill að kaldur skaflinn sem lokar þig frá lífinu hverfi sem fyrst og þú getir gengið til móts við daginn í dag. Þennan dag sem getur orðið upphaf að nýju lífi þar sem unnið verður á öllum þeim sköflum sem settust að lífi þínu og ollu þér hugarangri. En sérðu skaflinn? Og hvar er skóflan?