Náð
sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.
Á
dögum Jesú var venjan sú að yngstu synirnir tækju að sér að hirðishlutverkið um
leið og þeir höfðu burði til. Símon litli var ekki hár í loftinu þegar hann var
talinn fær um að sinna starfinu. Foreldrar hans undurbjuggu hann vel fyrir það
og sögðu honum til dæmis bæði frá bestu beitarlöndunum og mestu hættusvæðunum.
Símon hlakkaði mjög til þess dags er hann bæri hirðistitilinn með réttu.
Loks rann upp dagurinn og Símon fór burt með
hjörðina, klæddur baðmullarkyrtli, gyrtur leðurbelti og með yfirhöfn úr
úlfaldahári til að halda á sér hita í kuli hinna dimmu nátta úti í högunum.
Hann gekk við hirðisstafinn sem var með myndarlegum krók á endanum líkt og
biskupsbagall. Stafurinn var stuðningur á grýttum slóðum en einnig nýttist hann
til að verjast villidýrum og beina kindunum á rétta stefnu. Sér til varnar
hafði drengurinn ennfremur hirðiskylfuna. Á henni var hnúður sem í höfðu verið
reknir nokkrir málmnaglar til að gera vopnið öflugra. Í skinnskjóðu sinni hafði
Símon slöngubyssu eins og Davíð konungur og aðrir hirðar. Þar var ennfremur
nestið sem móðir Símonar hafði sent með honum út í hagana; brauð, ostur,
þurrkaðir ávextir og ólívur.
Hlutverk
hirðisins var að leiða hjörðina á grænar grundir þar sem hún gat bitið gras í
næði og að vötnum, þar sem hægt var að svala þorstanum. Símon þekkti heimaslóðir sínar í Júdeu, hafði fylgt öðrum
hirðum um hagana í vesturhluta Jórdandalsins og vissi því hvar von var safaríks
grass og tjarna og lækja sem runnu það rólega að þau skelfdu ekki dýrin.
Þessi fyrsti dagur Símonar í
hlutverki fullgilds hirðis hafði gengið alveg prýðilega. Hann var hreykinn af frammistöðunni
þegar hann fann næturstað í grennd við aðra hirða með hjarðir sínar. Símon fékk
sér langþráð sæti og sótti sér bita úr skjóðunni. Myrkrið var að skella á og
hann renndi augum yfir hjörðina. Ærnar voru þarna en Símon þekkti þær allar svo
vel að hann gat nánast greint þær af jarminu. Síðan taldi hann lömbin. Hann
átti að geta séð þau öll þar sem hann mataðist en var búinn að renna tvisvar
yfir hjörðina með augunum og í bæði skiptin vantaði eitt. Símon stakk nestinu
sínu aftur ofan í skjóðuna því ekki var um annað að ræða en að standa upp og
athuga hvort þetta eina lamb lægi á bak við móður sína eða stein. Þrisvar gekk hann
um hjörðina og taldi og alltaf var niðurstaðan sú sama: eitt lambið hafði orðið viðskila við hópinn.
Hirðirinn
ungi gerði það sem honum hafði verið sagt að gera í slíku aðstæðum. Hann
leitaði til næsta hirðis sem sat þar rétt hjá og gætti sinnar hjarðar. Símon
sagði félaga sínum frá því sem gerst hafði. Sá bað Símon að hafa ekki áhyggjur, hann skyldi fylgjast
með báðum hjörðunum á meðan Símon leitaði að týnda lambinu.
Aldimmt var orðið þegar Símon lagði
af stað í leitina. Hann hélt út í myrkrið með staf sinn leiðina sem hann og
hjörðin höfðu farið í birtu dagsis. Annað slagið kallaði hann á lambið og ekki
leið á löngu uns hann var kominn það langt frá hjörðinni að hann heyrði ekkert
nema eigin fótatak og hróp sín ætluð hinu yfirgefna lambi. Símoni fannst hann
hafa gengið óralangt og var að því kominn að snúa við þegar hann heyrði langt í
burtu veikt, slitrótt og örvæntingarfullt jarm. Hann gekk á hljóðið og þegar
hann heyrði það færast nær herti hann á sér.
Eftir nokkurt labb fann hann lambið. Það var
dauðhrætt eitt þarna úti í myrkrinu og orðið svo máttvana að það fékkst ekki úr
sporunum. Það stóð bara þarna og jarmaði og jarmaði eins og það væri aleitt í
allri veröldinni.
Símon
tók skjálfandi lambið upp og vafði það örmum áður en hann lagði af stað til
baka. Lambið hætti að jarma og þegjandi ferðuðust hirðirinn og lambið þarna
undir næturhimni óbyggðanna.
Allt í einu sá Símon ljósbjarma í fjarska.
Honum fannst hann heyra söng berast út ljósinu. Hann nam staðar, sperrti eyrun
og skyggndist um. Þetta stóð ekki lengi en þegar ljósin voru horfin og
söngurinn hljóðnaður sá hann sér á vinstri hönd örlitla flöktandi ljóstíru langt
í burtu. Símon gekk í átt til hennar. Þegar hann hafði gengið allnokkurn spöl kom
í ljós dyragætt á lágu fjárhúsi sem hleypti í gegnum sig daufum bjarma tírunnar,
út í allt þetta botnlausa næturmyrkur
Símon gekk inn í skýlið og trúði varla sínum
eigin augum. Inni á troðnu moldargólfinu stóð jata og í henni lá nýfædd barn, sofandi
og reifum vafið. Yfir því vöktu foreldrarnir og hjá þeim stóðu nokkrir hirðar,
fullir lotningar og aðdáunar. Suma þeirra þekkti Símon.
Við
sjáum Símon með lambið hér á einum glugganna í kórnum. Þar beinast allra augu
að barninu; foreldrarnir horfa á það og hirðarnir, allir mæna á barnið nema
Símon. Hann horfir á lambið sem hann var að bjarga.
Barnið í jötunni er kjarni kristinna jóla. Á
því er athyglin, um það er sungið og jólaguðspjallið snýst um fæðingu þess.
Eðlilega höfum við athyglina á því. Þar er um að ræða barnið sem englarnir og
himinsins herskarar kunngjörðu hirðunum að væri frelsari heimsins. Seinna um
nóttina leiddi heil himinstjarna vitringa úr fjarlægum löndum að þessu barni.
Engu að síður horfir Símon á lambið og hefur ekki augu sín af því.
Þegar barnið í jötunni hafði lært að
tala er margt merkilegt haft eftir því. Þar á meðal var þetta:
„ Því hungraður var ég og þér gáfuð mér að eta, þyrstur var ég og þér
gáfuð mér að drekka, gestur var ég og þér hýstuð mig, nakinn og þér klædduð
mig, sjúkur og þér vitjuðuð mín, í fangelsi var ég og þér komuð til mín....
Allt sem þér gjörðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gert mér.“
Símon með augun á lambinu, Símon með
lambið í fanginu, Símon með hjartað hjá lambinu, Símon minnir okkur á það sem barnið
í jötunni vildi umfram allt kenna okkur:
Látum okkur annt um allt líf, leitum
að þeim týndu, huggum þau sem skelfast, styðjum þau heim sem ekki komast þangað
af eigin rammleik, gefum þeim von sem hafa misst hana, vefjum þau örmum sem
hafa verið yfirgefin.
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í
upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.