Jóh. 20.11-18
I. Náð sé með yður og friður frá Guði, föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Fyrir rétt rúmu ári síðan, eða ekki löngu fyrir síðustu páska, vorum við fjölskyldan stödd í Berlín. Þar lá leið okkar inn í merka kirkju, sem nefnd er Minningarkirkja Vilhjálms keisara - Kaiser-Wilhelm-Gedächtniskirche. Þessi kirkja er að vísu unglamb samanborið við kirkjuna sem við erum nú stödd í, því að hún var vígð árið 1895, eða næstum því hálfri öld seinna en Kirkjubæjarkirkja! En á sinni tíð var Minningarkirkjan stórbrotin bygging sem sannarlega setti svip sinn á Berlínarborg, enda voru turnar hennar fimm talsins og sá hæsti þeirra gnæfði yfir önnur mannvirki borgarinnar í 113 metra hæð.
Í seinni heimsstyrjöldinni varð þessi kirkja fyrir sprengjuhríð í loftárásum, svo að nánast rústirnar einar stóðu eftir. Þar sem Þjóðverjar töpuðu stríðinu varð ekkert úr því að hún yrði endurbyggð að því loknu og svo fór að lokum að mestur hluti hennar var rifinn vegna hættu á hruni. Rústir forkirkjunnar og stærsta turnsins fengu þó að standa, eru í dag opnar ferðamönnum og enn er unnið að viðgerðum á turninum.
En við hliðina á gömlu kirkjurústunum stendur önnur, nýrri kirkja sem ber sama nafn og sú eldri. Hún var reist á seinni hluta 20. aldar, í allt öðrum byggingarstíl. Hún er lágur ferningur og helsta einkenni hennar eru gríðarlega margar, litlar, bláar glerrúður, sem umlykja kirkjuskipið, um 20 þúsund talsins. Engar tvær rúður eru eins að formi og blæbrigðum.
Þær standa þarna hlið við hlið í miðborg Berlínar, Minningarkirkjurnar tvær, gamla kirkjurústin og nýja kirkjan með öllum bláu glerrúðunum. Mikill fjöldi ferðafólks og heimamanna gengur fram hjá og virðir þær fyrir sér dag hvern.
Þær standa þarna, eins og til að minna vegfarandann á hið tilgangslausa sprengjuregn styrjaldarinnar og þar með á atburði sem verða enn í dag í átökum milli þjóða og einstaklinga um heim allan,
atburði þar sem grimmdin leysir mennskuna af hólmi.
En þær gætu líka minnt þann sem gengur hjá á annars konar sprengjuregn í hennar eða hans eigin lífi:
á atburði sem kippa fótunum undan tilverunni,
á veikindi, þjáningar eða áföll,
á hluti sem virðast engan tilgang hafa og skilja fólk eftir í sárum, líkt og gömlu kirkjurústina.
II. Í guðspjalli þessa annars dags páskahátíðarinnar mætum við konu, sem virðist standa í miðju sprengjuregni í lífi sínu.
Við hittum þar fyrir Maríu Magdalenu, þessa trúföstu vinkonu og lærimey Jesú, þar sem hún grætur yfir því að grimmdin hafi orðið mennskunni yfirsterkari í kringum hana og stoðum tilveru hennar hafi verið raskað.
María Magdalena var meðal þeirra sem notið höfðu góðs af undraverkum Jesú, en hann hafði losað hana undan áþján illra anda (Lúk. 8.2). Ljóst er að í framhaldinu hefur hún verið í hans nánasta vinahópi og fylgt honum frá heimaslóð hennar í Galíleu á leið hans til Jerúsalem, þó að tíðarandinn hafi ekki leyft að konur yrðu dregnar fram í sviðsljósið sem lærisveinar Krists.
En það er svolítið merkilegt, að þegar dregur að úrslitastundu og Jesús mætir örlögum sínum á krossinum, þá eru það fyrst og fremst konurnar í kringum hann sem hafa kjarkinn til að fylgja honum allt til enda. Það eru líka konur, sem gera sér ferð að gröf Jesú eldsnemma á sunnudagsmorgninum til að votta látnum lærimeistara sínum og vini virðingu.
Í þessum hópi var einmitt María Magdalena.
Og nú stendur hún úti fyrir gröf Jesú og grætur, því að gröfin er tóm, meistarinn er horfinn og enginn botnar neitt í neinu. Hún er búin að reyna að sækja karlana, Símon Pétur og annan lærisvein, en þeir eru engu nær og hafa flýtt sér aftur til baka.
Hún grætur, því að það er ekki nóg með að andstæðingar Jesú hafi svipt hana þessum kæra vini sínum heldur virðist henni sem þeir ætli ekki einu sinni að leyfa henni að kveðja hann látinn og sýna honum þannig virðingu sína og þakklæti fyrir allt sem hann hafði verið henni.
En þá birtist Jesús henni.
Ég get mér þess til að María Magdalena hefði á þessum tímapunkti fremur búist við að heyra kindur tala mannamál, eða að sjá Pontíus Pílatus bugta sig fyrir sér, en að sjá Jesú Krist á lífi.
Hún hafði jú sjálf verið við krossinn; hún hafði horft upp á þjáningar hans, hún hafði með sínum eigin augum séð hann gefa upp öndina og hún hafði séð hvernig líkami hans var lagður í gröf (Lúk. 23.55).
Og nú var hann þarna samt.
"María," sagði hann - og þá loks þekkti hún hann.
Þetta var Jesús.
Hjarta hennar tók viðbragð.
Jesús var risinn upp frá dauðum!
Guð var máttugri en hún hafði gert sér í hugarlund og fyrirætlun hans önnur og meiri en hún hafði séð fyrir sér.
Hún skildi ekki ennþá allt og hún átti eftir að raða mörgum bitum saman í púsluspilinu til að átta sig á því hvað væri að gerast.
En hún skildi að lífið yrði aldrei samt því að sigurinn sem Jesús hefði unnið myndi bregða birtu sinni yfir allt það, sem héðan í frá myndi mæta henni.
III. Tuttugu þúsund, litlar, bláar glerrúður.
Úr fjarlægð virðast þær allar eins.
En þegar komið er inn í Minningarkirkjuna nýju og betur að gáð kemur í ljós að hver og ein þeirra er annarri ólík og geymir sitt sérstaka form og útlit.
Og þegar sólarljósið skín inn um rúðurnar dregur það fram sérkenni þeirra svo úr verður jafnvel fagurt sjónarspil.
Í hugskoti okkar geymum við öll, hvert og eitt, okkar eigin litlu bláu rúður.
Þar eru hugmyndir okkar um lífið, hvernig við viljum hafa það og í hvaða skorðunum hlutirnir eiga að halda sig.
Þar eru minningar okkar, sorgir okkar jafnt sem gleði, vonir okkar og þrár.
Þar eru líka hugmyndir okkar um Guð, okkar eigin mynd af því hvernig Guð er.
Allar þessar litlu, bláu glerrúður viljum við hafa á vísum stað.
Við erum ekki viðbúin því, frekar en María Magdalena á sínum tíma, þegar áföllin dynja yfir eins og sprengjuregn, eða þegar okkur finnst grimmdin í tilverunni verða mennskunni yfirsterkari.
Á þeirri stundu virðast þessar glerrúður hugans taka á sig annað form og útlit en við héldum áður.
Þá skulum við muna eftir páskunum.
Þá skulum við leyfa páskunum að skína inn í líf okkar eins og sólarljósið inn í Minningarkirkju Vilhjálms keisara í Berlín, og bregða birtu sinni yfir aðstæður okkar.
Þá skulum við muna að Jesús hefur unnið sigurinn á illskunni og dauðanum.
Þá er það upprisa Jesú Krists frá dauðum, sem verður haldreipi okkar og von í lífinu og minnir okkur á mátt Guðs - svo að við getum tekið undir með höfundi Davíðssálma og beðið til Drottins:
Kunnan gerðir þú mér veg lífsins, gleðignótt er fyrir augliti þínu, yndi í hægri hendi þinni að eilífu (Sálm. 16.11).
Amen.