Nú er ég auðvitað hlutdrægur, en mig langar að deila með ykkur af reynslu minni af trúum messugestum í gegnum tíðina, eða öllu heldur þátttakendum í helgihaldi kirkjunnar.
Öldungar
Prestur hef ég verið í tæpa þrjá áratugi en allt frá því ég man eftir mér hef ég sótt messur á sunnudögum og yfir hátíðarnar. Þá kynntist ég nokkru sem er stór hluti af kirkjustarfinu – sem er hópurinn sem myndar innsta kjarnann í starfinu. Þetta eru þessi trúu og staðföstu eins og við köllum þau, einvalalið sem mætir í starfið og hefur skoðun á því sem þar fer fram.
Hérna í Neskirkju ber reyndar til þeirra tíðinda að við höfum fengið til okkar einvalalið ungra manna á sunnudögum og þeir láta sér ekki nægja að sitja og hlusta, heldur bera gjarnan undir okkur góðar spurningar að messu lokinni og nú í haust voru þeir eins og kóngar á fermingarnámskeiðinu okkar. Ég kallaði þá öldungana, sem er afar biblíulegt hugtak, orðið prestur er eins og önnur íslensk orð sem hefjast á bókstafnum ,,p“. Orðið er dregið af hinu gríska, ,,presbyteros“ og merkir einmitt öldungur. Þótt þeir séu ungir að árum, er þroskamunurinn mikill á þessu æviskeiði og sumir þeirra báru í orðsins fyllstu merkingu, höfuð og herðar yfir fermingarbörnin.
En hugur minn er fremur hjá þeim öldungum sem hafa í gegnum tíðina vanið komur sínar í messur, allt frá því að ég var strákur í hverfiskirkjunni. Ég hef veitt því athygli hversu heilsuhraust þau hafa verið og hreinlega langlíf. Vitanlega hefur sá grunur verið lítið annað en ágiskun en nú á tímum þar sem allar upplýsingar eru aðgengilegar er hægur vandi að kanna það hvort eitthvað sé til í því hvort tengsl eru á milli trúarlífs og heilsufars.
Sú reyndist vera raunin. Dr. Robert Sapolsky er einn kunnasti þróunarlíffræðingur okkar daga og hefur sérhæft sig í því að rekja hegðun okkar og hugmyndir til fortíðar okkar og bakgrunns. Hvers vegna hafa sumir eiginleikar orðið ofan á og aðrir ekki? Hversu ertandi er það að geta fundið slíkar upplýsingar, hlýtt á fyrirlestra í fremstu háskólum heimsins? Og hann helgar einn fyrirlestur sinn fyrir nemendur í Stanford háskóla trúariðkun.
Að mati hans eru sannarlega tengsl á milli heilbrigðis og heilbrigðs trúarlífs. Þótt hann sé ekki sjálfur trúrækinn lýsir hann því yfir að „trúin sé náttúrulegt meðal við þunglyndi“.
Trúað fólk bætir árum við lífið og það sem meira er, lífi við árin. Ónæmi fyrir sjúkdómum virðist meira. Og hvað er það sem sem hefur þau áhrif? Jú það er þetta trúaða fólk sem sýnir hvert öðru kærleika, hefur ríka löngun til að fyrirgefa, hefur jafnan og góðan takt í lífinu þar sem það tengist æðri mætti og ríkum tilgangi – allt hefur þetta markverð og mælanleg áhrif á gæði lífs og lengd.
Í þessum anda hefur Alþjóða heilbrigðisstofnun (WHO) andlega vídd í skilgreiningu sinni á heilbrigði. Þar er talað um trúarafstöðu, gildi og siðferði sem býr í huga og tilvist hverrar manneskju. Hin andlega vídd gegnir mikilvægu hlutverki að hvetja fólk til dáða á öllum sviðum tilverunnar („The spiritual dimension plays a great role in motivating people's achievement in all aspects of life“).
En þarna komum við inn á kunnuglegar slóðir í hinu Biblíulega samhengi. Mér er það tíðum hugleikið hversu víða má greina harða gagnrýni á einmitt trúað fólk í boðskap Jesú og spámannanna. Stór hluti af sögunum um Jesú tengjast átökum hans við trúað fólk sem dæmdi systkini sín hart, mannskilningurinn einkenndist af ásökunum og þeirri afstöðu að samferðafólk væri syndum hlaðið. Það er áhugavert að í rannsóknum nútíma fræðimanna á borð við Sapolsky þennan þá er gera þeir skarpan greinarmun á því hvers eðlis trúin er. Sá sem horfir á systkini sín ásakandi augum sér hið sama þegar eigin spegilmynd blasir við. Þetta er líf þjakað af áhyggjum og já, angist og leiðir ekki síst til þess að fólk einangrast félagslega. Það gefur auga leið að slík afstaða er hvorki líkleg til gæða lífs eða fjölda ævidaga. Nei hér þarf að draga skarpan greinarmun. Og til marks um það hversu sterk þessi tenging er, þá stendur efahyggjufólkið þarna mitt í miðjunni, það nýtur hvorki gæðanna né situr uppi með vankantana.
Í þessum textum sem hér voru lesnir má greina sterkar vísbendingar með þessum veruleika. Við hlýddum á frásögn af Davíð konungi sem hefði í samhengi annarra konunga trónað efst og óbundinn af æðra valdi. En í þessum orðum lýtur hann höfði í auðmýkt fyrir Guði sínum og hefur þá sýn að þau gæði sem honum hafi hlotnast séu fjarri því sjálfsögð. Af því leiðir sú kennd sem sennilega skiptir mestu máli þegar kemur að farsæld og góðu lífi. Henni kynnumst við líka í seinni ritningartextanum – já það er þakklætið. „En hver er ég og hver er lýður minn, að vér vorum færir um að gefa slíkar gjafir? Því að allt er frá þér og vér höfum fært þér það sem vér höfum þegið úr hendi þér.“
Fátt bætir líf okkar meira en að kunna og brúka listana að færa þakkir. Stór hluti bæna okkar eru þakkarbænir, þegar við leitumst við að draga fram allt það jákvæða úr tilverunni, orða það og minna okkur svo á það hversu fjarri því fer að lífsgæðin okkar séu sjálfsögð. Þetta er sannarlega ólíkt þeirri kennd sem nútíminn otar að okkur, nefnilega að horfa í sífellu í kringum okkur í stöðugri leit að einhverju því sem er betra og eftirsóknarverðara en það sem við höfum hér og nú. Því fylgir ertandi kennd, stöðugt eirðarleysi að því ógleymdu hversu óskapleg sóun fylgir því að geta aldrei unað við það sem við eigum.
Í þessum anda verður guðspjallstextinn svo lýsandi fyrir það sem tengist störfum Jesú. Hann læknar konu og svo kemur þessi frásögn af illum öndum. Ég verð að játa að þótt ég hafi heyrt og séð sitthvað á ævi minni, finnst mér alltaf svolítið sérstakt að lesa þessar lýsingar af andsetnu fólki í Biblíunni. Jafnvel leikmaðurinn getur gert sér í hugarlund hvað amar að þeim sem engjast í sífellu eða eru málstola og höfundar þessara texta tengja við óhreina anda.
En hér komum við að öðrum og mikilvægum þætti sem einkennir gott trúarlíf. Það laust við alla öfga og bókstafstrú. Margir trúarleiðtogar hafa gert þá kröfu til fylgjenda sinna að þeir taki öllu sem þeir lesa í ritningunni eins og það hljómar og gefa ekkert svigrúm til túlkunar eða mats. Sönn trú afneitar ekki þekkingu og vísindum. Heilbrigt trúarlíf lætur ekki þröngva sér inn á ranghala frumstæðrar hugsunar þar sem fólki er stillt upp við vegg og það er krafið um skýra og afdráttarlausa afstöðu: annað hvort er manneskjan trúuð eða ekki!
Nei, þetta er ekki myndin sem Jesús dregur upp. Í einni af þekktustu dæmisögum hans, einni þeirri sem við sögðum fermingarbörnunum núna á dögunum, Miskunnsama Samverjanum eru það hvorki meira né minna en prestur og levíti sem bregðast manni sem var í sárri neyð. Ástæðuna þekktu samtímamenn Jesú, þeir máttu ekki óhreinka sig áður en þeir fóru að sinna helgihaldinu. En breytni samverjans, þess sem trúaðir gyðingar fordæmdu, reyndist sönn og góð.
Trú snýst um það hvernig við lifum lífi okkar. Trúin fær okkur til að leita, hún hvetur okkur til að skynja markmið í ólgusjó daganna. Spurningarnar sem trúin ávarpar rista djúpt, þær tengjst tilveru okkar og tilgangi. Hér fléttast saman reynsla okkar af lífinu og leit okkar að réttlæti, frelsi og kærleika. Í þeim anda krefur trúin okkur um sjálfstæða hugsun, ekki múlbundna og þvingaða. Hún á ekki að vekja með okkur ótta heldur traust. Og sennilega er heilgbrigð afstaða til Guðs, til sköpunarinnar, til náunga okkar grundvölluð á gullnu reglunni eitt öflugasta mótvægið við þann glórulausa dauðadans sem samtíminn stígur og kallar lífsgæðakapphlaup.
Já, auðvitað er ég hlutdrægur en oft hef ég litið á trúsystkini mín í eldri kantinum og samglaðst þeim hversu vel þau eru á sig komin! Líffræðingar, sem eru sjálfir vitanlega á ýmsum stöðum í litrófi hins trúarlega, hafa rannsakað áhrif þess að rækta með sér jákvæða trúarkennd sem skilar sér í þakklæti og gefur manneskjunni ríkulegan tilgang. Sú staðreynd að slík afstaða leiði af sér langt og gott líf er þó aðeins ein víddin af mörgum. Hitt skiptir sennilega enn meira máli að trúarþörfin er sterk í hverri manneskju og mestu varðar að henni sé mætt með réttum hætti.