Fyrir skömmu birtist hér á vefnum áhugaverður pistill um fyrirgefninguna eftir Sólveigu Önnu Bóasdóttur: Fyrirgefningin — ekki alltaf svarið. Þar bendir hún á að það líkan fyrirgefningar sem kemur fram í Nýja testamentinu feli í sér að fyrirgefning sé aðeins „...möguleg að uppfylltum vissum skilyrðum. Þau eru að sá sem fyrirgefur verði að vera valdameiri eða að hann sé að minnsta kosti jafnoki þess sem fyrirgefninguna á að fá“.
Fyrir mér setja þessi orð fyrirgefninguna í nýtt samhengi og vekja til umhugsunar. Þau skerpa sýnina á fyrirgefninguna sem félagslegt tengslafyrirbæri sem ætlað er að endurreisa jafnvægi í samskiptum einstaklinga eða í heilu samfélagi. Fyrirgefningunni er ætlað að koma á nýju réttlæti, Það getur sá einn gert sem valdið hefur. Fyrirgefning hins undirokaða felur í sér óbreytt ástand og snýst því upp í andstæðu sína. Því má spyrja: Getur hinn voldugi, ríki eða sterki ekki hlotið fyrirgefningu?
Hugsanlega varpar frásagan af Jónasi í Gamla testamentinu ljósi á þá klemmu. Jónas fékk það hlutverk að boða Níníve og konungi hennar dóm Guðs vegna vonsku þeirra: „Að fjörutíu dögum liðnum skal Níníve verða í eyði lögð.“ Í stað þeirrar forherðingar sem Jónas bjóst við iðruðust þeir sem til hans heyrðu. Konungurinn lagði af tignarskrúða sinn, „huldi sig hærusekk og settist í ösku“. Hann sýndi hug sinn í verki, afklæddist valdinu, gekk inn í hlutverk hins niðurlægða. Guð sá að Níníve-menn létu af illri breytni sinni. Tilganginu var náð, ný samfélagsskipan var komin á. Því lét hann refsinguna ekki koma fram. Hann fyrirgaf. Jóns fann sig hins vegar í sporum hins lítillætta. Orð hans virtust marklaus þar sem ekkert gerðist. Hann lagðist í depurð. Jónas var minni máttar og gat ekki fyrirgefið. Guð einn gat það.
Hér má spyrja hvort Níníve-munstrið geti orðið fyrirmynd í íslensku samfélagi eftir Hrun. Orðið fyrirgefning hefur vissulega oft borið á góma í tengslum við það uppbjör og uppbyggingu sem framundan er. Sumir hafa beðist fyrirgefningar. Er það nóg? Kemur það á nýrri samfélagsskipan, nýju Íslandi? Fyrir skömmu ritaði einn valdamesti stjórnmálamaður okkar misserin fyrir Hrun: „Eins og allir sem hafa mikið umleikis hef ég örugglega einhvern tíma misstigið mig í mínum verkum og tekið rangar ákvarðanir. Hafi það valdið öðrum tjóni er mér ljúft og skylt að biðjast fyrirgefningar. Enginn er dómari í eigin sök en hafi ég misfarið með vald sem mér var treyst fyrir verð ég að standa bæði sjáfri mér og öðrum reikningsskil þeirra gerða“.
Hér skal ekki tekin afstaða til athafna, athafnaleysis, ábyrgðar eða ábyrgðarleysis þess sem þetta ritar. Aðeins spurt: Er hér enn talað af valdastóli eða hefur sá sem hér talar afklæðst valdinu? Eru þetta orð hins veika eða hins sterka gagnvart félagslegum og fjárhagslegum veruleika á Íslandi eftir Hrun. Hvort eru þau sem líða að ósekju fyrir afleiðingar Hrunsins í stöðu hins veika eða sterka gagnvart slíku ávarpi? Á því veltur hvort þessi fyrirgefningarbeiðni og aðrar líkar eru spor fram á við — í átt til nýja Íslands — eða aftur á bak til hins gamla.