Ritari biskups Íslands fer mikinn í tilfinningaþrunginni grein í Morgunblaðinu laugardaginn 18. nóvember. Það er vel kunn þumalfingursregla að telja upp að tíu áður en maður segir eitthvað sem betur hefði verið látið ósagt og þeirri reglu, að breyttu breytanda, hefði líklega betur verið beitt í þessu tilfelli. Greinin var nefnilega að ýmsu leyti óheppileg, m.a. þar sem halda mætti, eftir að hafa lesið hana, að frjáls, málefnaleg skoðanaskipti á kirkjulegum vettvangi væru biskupsritara þyrnir í augum, ellegar að biskupsembættið ætti að njóta sérstakrar friðhelgi fyrir gagnrýni eða óþægilegum fyrirspurnum á kirkjuþingi.
Allra óheppilegust var þó sú áskorun hans til þjóðkirkjufólks að veita ekki „hinum gamla manni“ brautargengi í næstu kosningum til kirkjuþings. Það dylst nefnilega engum, sem til þekkir, að þessum orðum er beint gegn þeim kirkjuþingsfulltrúum sem öðrum fremur gera sér far um að reifa mál svo efnisatriði séu ljós og hafa gert sér far um að sinna þeirri lýðræðislegu skyldu sinni sem kirkjuþingsmenn að beina fyrirspurnum til biskupsembættisins um embættisfærslur og önnur mál viðkomandi stjórnsýslu kirkjunnar sem þarfnast skýringar. Því er ekki hægt að meta áskorun biskupsritara á annan veg en þann að hún sé gróf aðför að lýðræðinu í hinni evangelísk-lúthersku Þjóðkirkju. Má líkja henni við það ef aðstoðarmaður ráðherra ritaði blaðagrein og hvetti kjósendur til að fella tiltekinn alþingismann sem verið hefði ráðherranum óþægur ljár í þúfu í fyrirspurnartímum á Alþingi. Næsta víst er að slíkt drægi einhvern dilk á eftir sér fyrir aðstoðarmanninn ef ekki ráðherrann sjálfan. Í raun er þó tiltæki biskupsritara enn alvarlegra þar sem valdastaða biskups Íslands er langtum sterkari og áhrif hans innan kirkjunnar miklu mun meiri en ráðherra gagnvart þjóðinni. Má það teljast heppilegt að bannfæringarbréf hafa ekkert gildi haft í lútherskum sið síðan Lúther sjálfur var bannfærður með páfabullu árið 1521.
Biskupsritari vitnar eins og góður lútherani í Pál postula og orð hans um „hinn gamla“ og „hinn nýja mann“. Það er sannarlega við hæfi, nú á siðbótarafmæli, en líkingin, sem átti líklega að varpa einhvers konar ljósi á mál, kastar þó miklu frekar skugga sem geymir ótalmargar ósvaraðar spurningar. Ef hinn gamli maður er sá sem vill fá að setja fram sínar ígrunduðu skoðanir á kirkjuþingi, ef hann er sá sem vill fá skýr og undanbragðalaus svör frá æðsta stjórnvaldi kirkjunnar um stjórnsýslu þess og ef hann er sá sem gerir kröfu, sjálfsagða kröfu, um að stjórnsýsla þess sama stjórnvalds sé vönduð og í samræmi við lög og reglur, megi Guð þá gefa að hann sitji sem fastast við sinn keip.