Að loknu kirkjuþingi: Innan rammans og utan

Að loknu kirkjuþingi: Innan rammans og utan

Núverandi lög hafa reynst vel eins og áður sagði og best er að halda sig við þau. Allar breytingar breytinganna vegna eru ekki fýsilegar.
fullname - andlitsmynd Hreinn Hákonarson
27. febrúar 2017

Frumvarpi til þjóðkirkjulaga var fleytt áfram í lok kirkjuþings 2016 sl. laugardag til lokaafgreiðslu kirkjuþingsins sem kemur saman í haust á þessu ári. Löggjafarnefndin skilaði frumvarpinu af sinni hendi og var það fullunnið plagg að hennar sögn. Í haust gefst enn og aftur tækifæri til að ræða málið og koma með breytingartillögur, samþykkja málið eða fella. Fyrir fundi kirkjuþings 2017 verður búið að kynna frumvarpið óformlega fyrir þeim ráðherra sem fer með kirkjumálin svo hann „geti gert sér grein fyrir efni þess og því baklandi sem það nú hefur“ (sbr. þingskjal nr. 81 og 82, 4. mál). Það gefur því auga leið að verði miklar breytingar gerðar á frumvarpinu á næsta kirkjuþingi þarf að skjóta á annarri kynningu fyrir hæstvirtan ráðherra. Allt getur gerst í því efni. Ráðherrans bíður það hlutverk að leggja málið fyrir Alþingi eins og það kemur frá kirkjuþingi 2017 – hann getur líka komið með breytingartillögur við málið. Síðan færi frumvarpið til þinglegrar meðferðar og gæti tekið breytingum, smáum eða stórum eftir atvikum – og gæti líka jafnvel dagað þar uppi sem hvert annað nátttröll en slík örlög hafa svosem ýmis mál hlotið á þeim bæ. Enda mörg tröll hér í Esjunni fyrir ofan mig þegar ég skrifa þessi orð!

Umræða á Alþingi um þjóðkirkjufrumvarpið gæti orðið nokkuð athyglisverð því viðamikil kirkjumál hafa ekki komið til kasta Alþingis á hinum síðustu árum. Margt hefur breyst í þjóðlífinu frá því árið 1997 þegar lög um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, voru rædd á Alþingi og samþykkt. Í raun hefur orðið samfélagsbylting á þessum tíma; ný tækni, nýir miðlar, nýtt frelsi almennings með tilkomu samfélagsmiðla og aukin tjáningarfærni, ný hugsun og ný umræðuhefð. (Og að sjálfsögðu vonandi ný og aukin ábyrgð!) Öllum er ljóst að kirkjan hefur á þessu sama tímabili átt undir högg að sækja svo ekki sé fastara að orði kveðið. Alþingismönnum í öllum flokkum hefur fjölgað sem hafa mjög svo skýrar skoðanir á kirkju og kristni. Sumir eru kirkjunnar menn en aðrir lítt hrifnir af henni og á það bæði við flokksmenn rótgróinna flokka sem og nýrra. Þetta gæti því orðið fróðleg umræða og eflaust hvöss á köflum. Örugglega lærdómsrík og spennandi í hugum margra en kvíðvænleg hjá öðrum.

Tvö sjónarhorn

Ljóst var að þingheimur nýlokins kirkjuþings var nokkuð hallur undir frumvarp til þjóðkirkjulaga enda niðurstaða í atkvæðagreiðslu á ellefta tímanum á laugardagskvöldið 25. febrúar sú að 15 vildu senda það áfram til kirkjuþings 2017, einn var á móti og sex sátu hjá – undirritaður var einn þeirra. Nokkrir kirkjuþingsmenn voru þá þegar horfnir af vettvangi en þeir eru svona til upprifjunar 29 að tölu. Sjálfsagt var að leggja ekki stein í götu þeirra sem vilja koma frumvarpinu til formlegrar lokaafgreiðslu á hausti komanda. Kirkjuþing 2017 verður ögurstund hvað mál þetta áhrærir og vonandi verður niðurstaða þess sú að leggja það til hliðar og una áfram við núgildandi lög.

Þegar þetta mál er rætt koma tvö sjónarhorn fram. Annars vegar er lagt upp með rammalöggjöf þar sem aðeins á að kveða á um það albrýnasta í lögunum sjálfum og starfsreglur (reglugerðir) sem kirkjuþing setur saman til að fylla upp í lögin og skýra. Hins vegar það sjónarhorn að halda í lögin um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar frá 1997, enda hafi þau gefist vel og nauðsynlegar breytingar á þeim gengið nokkuð snurðulaust fyrir sig. Meirihluti kirkjuþingmanna virðist styðja frumvarp til þjóðkirkjulaga. Því miður hafa þó ekki allir kirkjuþingsmenn úr hópi leikmanna tjáð skoðun sína í ræðustól þingsins. En það rætist vonandi úr því í haust. Leikmenn eru í meirihluta eins og kunnugt er og hafa því mikið um framvindu mála að segja og skoðanir þeirra vega þungt.

Ramminn

Lögin um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar nr. 78 frá 1997 eru meginlöggjöf eða rammalöggjöf. Það kom skýrt fram í greinargerð með frumvarpinu á sínum tíma. Frumvarp löggjafarnefndar kirkjuþings er líka rammalöggjöf. Grundvallarhugsunin er sú að kjarnalagagreinar séu eingöngu innan rammans og annað verði sett í starfsreglur – sem eru í raun reglugerðarígildi. Kirkjuþingið sjálft setur þessar reglur og fær því aukið vald eftir því sem fleiru er komið út úr núgildandi rammalöggjöf og yfir í starfsreglur.

Á kirkjuþinginu lét einhver þau orð falla að allir vildu vera innan rammans. Margt er til í því. Ástæða þess er sú svo dæmi sé tekið, að það sem er innan rammans situr þar nokkuð öruggt því torsóttara er að breyta landslögum en starfsreglum á kirkjuþingi. Glöggt dæmi um þetta er sérþjónusta kirkjunnar. Ekki einasta að sérþjónustuprestar telja þjónustu sína vera mikilvægan þátt í starfi kirkjunnar sem geta ætti sannarlega um í rammalögum þjóðkirkjunnar heldur og hafa þeir bitra reynslu af því að sótt var sérstaklega hart að þeim embættum í kjölfar hrunsins. Hefðu þessi sérþjónustuembætti þjóðkirkjunnar ekki haft lagastoð heldur aðeins verið um þau getið í starfsreglum kirkjuþings hefðu þau vafalaust verið látin fjúka í þeirri orrahríð. Þessari atlögu tókst að verjast á sínum tíma en það kostaði vissulega tíma og orku. Meðal annars þess vegna settu sérþjónustuprestar fram kröfu um að sú þjónusta kirkjunnar kæmi fram í frumvarpi til þjóðkirkjulaga og við því var orðið eftir fund með löggjafarnefndinni enda þótt sérþjónustan sé því miður ekki sérgreind í frumvarpinu eins og í núgildandi lögum. Lagaramminn er því ákveðið skjól sem menn skilja og vilja gjarnan að margt sem þeirra embættum tilheyrir sé þar að finna sem og grundvallarskipulag kirkjunnar. Menn geta brugðist misjafnlega við þegar þetta skjól er haft á orði og sagt þá vantreysta kirkjuþingi ef ekki sé nóg að eitt og annað komi og muni koma fram í starfsreglum sem snúi að skipulagi kirkjunnar og ýmsum embættum. Þetta er ekki vantraust heldur felst í því eingöngu sú einfalda reynsla kynslóðanna að þegar til dæmis í harðbakka slær þá fara menn iðulega styttri leiðina að hagkvæmnismarkmiðinu en ekki endilega ætíð þá viturlegustu. Annað þessu skylt og nefnt var á þinginu. Á sínum tíma þegar vígslubiskupsembættin voru færð á stólana heima á Hólum og í Skálholti þótti brýnt að embættin tengdust þessum tilteknu stöðum og lög kvæðu á um það. Sumir sögðu þetta vera sögurómantík en aðrir töldu sjálfsagt að kirkjan sýndi stöðunum sóma með því að biskupar sætu „á hinum fornu biskupsstólum“ eins og segir í lögunum frá 1997 - og þeir fengju aukið hlutverk. Nú verður það í höndum kirkjuþings að semja starfsreglur sem segja til um búsetu vígslubiskupanna. Auðvitað er líklegast að búsetunni verði ekki breytt í starfsreglum – en sá möguleiki er fyrir hendi að setja þá niður til dæmis á Selfossi og Akureyri. Hvort tveggja staðir umsvifa og menningar. Hlutverki vígslubiskupanna verður síðan pakkað inn í starfsreglur en nú er kjarni þeirra geymdur í lögunum um stöðu, stjórn og starfshætti frá 1997.

Biskupsembættinu breytt

Ljóst er að frumvarp til þjóðkirkjulaga breytir embætti biskups Íslands eins og það hefur mótast með lögunum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar frá 1997. Frumvarpið kippir honum út úr kirkjuráði og kirkjuþingi. Þó má veita honum aðgang að þessum stofnunum kirkjunnar ef kirkjuþingið samþykkir það í starfsreglum sínum – og jafnvel fullan aðgang á góðum degi. Hann er semsé kominn upp á náð og miskunn kirkjuþingsins í þessu efni. Þarf ekki að fara mörgum orðum um að þetta er mikil breyting – sér í lagi hvað kirkjuráð snertir. Þetta er sett fram undir því kjörorði að kirkjuþingið hafi æðsta vald í málefnum þjóðkirkjunnar (sbr. 8. gr. frumvarpsins) en biskupinn bankar nú upp á í 21. gr. þar sem hann fer með yfirstjórn þjóðkirkjunnar ásamt öðrum kirkjulegum stjórnvöldum en um það allt saman verður togast á eða í faðma fallist í starfsreglum nema hvort tveggja verði.

Kirkjuþingið er lýðræðislega kjörin samkunda að vissu marki (þ.e.a.s. kosningin er óbein hvað leikmenn snertir – spurning um að kjósa til kirkjuþings samhliða alþingis- og eða sveitarstjórnarkosningum til þess að láta lýðræðið blómstra) og gefa þar með öllu þjóðkirkjufólki tækifæri til að kjósa. Hið sama mætti hugsa sér um embætti biskups Íslands – að gefa þjóðkirkjufólkinu tækifæri til að kjósa hann – en það er nú önnur saga. Í rammalöggjöfinni er kastljósinu einkum beint að „grundvallarhlutverki biskupsþjónustunnar“, eins og það er orðað í greinargerð í tengslum við 21. gr. frumvarpsins. Þetta hlutverk biskupsins er nánar skilgreint í nokkrum liðum: hann skal gæta einingar kirkjunnar; hafa tilsjón með kristnihaldi, kenningu og starfi kirkjunnar; hann jafnar ágreining sem kann að koma upp (heldur uppi kirkjuaga); hefur ákvörðunarvald um einstök mál; og veitingavald.

Augljóslega er gefinn tónn með þessu í þá veru að draga eigi úr svokölluðum veraldlegum umsvifum biskupsins og hann því tekinn af skákreitum kirkjuráðs og kirkjuþings. Umræða um hvers konar tegund af biskupi kirkjan vill tefla fram í nútímasamfélagi þarf að fara fram áður en farið er að róta í grundvallarlögum kirkjunnar: á biskupinn að sinna eingöngu andlegum málum og láta aðra kirkjunnar menn og leikmenn sjá um veraldarvafstrið? Eða á hann eins og verið hefur venja hér að sinna hvoru tveggja? Raddir í þá veru að breyta þessu hafa ekki verið háværar þó þær hafi heyrst endrum og sinnum.

Vald og ábyrgð

Frumvarp til þjóðkirkjulaga snýst um vald eins og reyndar öll lög gera. Kirkjuþing fær aukin völd. Vald kirkjuþings birtist með ýmsu móti. Ein skýrasta birting þess felst í samningu og samþykkt starfsreglna sem fylla út hina eiginlegu löggjöf. Starfsreglurnar eru hinar fínu griplur kirkjuþingsvaldsins sem hríslast um kirkjulíkamann. Margar þeirra hafa dugað vel, aðrar síður og sumar hverjar eru gloppóttar og þær þarf að laga. Það er eins og gengur. Svo þarf að semja nýjar. Síðast en ekki síst fær kirkjuþingið fjárstjórnarvald í sínar hendur samkvæmt þjóðkirkjulagafrumvarpinu en nú er það í höndum kirkjuráðs. Því valdi fylgja margvíslegar fjármálaáætlanir og kirkjufjárlagagerð. Öllu því fylgir mikil ábyrgð og eflaust stóraukin stjórnsýsla sem menn átta sig kannski ekki enn á. Samhliða ríkara hlutverki kirkjuþings og aukinni stjórnsýslu kirkjunnar gæti sú hætta vaxið í réttu hlutfalli að upp rísi stjórnsýslubákn mikið sem verður að koma böndum á svo það taki ekki völdin. Vonandi bera menn gæfu til þess að ala ekki af sér slíkt bákn.

Leikmenn og kennilýður

Það kann að verða eftirsóknarverðara að komast á kirkjuþing en áður fyrir fólk sem hefur gaman af félagsmálum, vill láta að sér kveða, ann kirkjunni og þykir þytur valdsins góður í eyra. Ekkert nema gott um það að segja. Svo er mannlegt félag. Hins vegar getur það orðið svo að það verði meira starf að vera kirkjuþingsmaður en áður. Einn er sá vandi kirkjuþings sem stundum hefur verið ræddur og hann er sá að ekki búa allir leikmenn við þá aðstöðu að geta gert hlé á störfum sínum í nokkra daga, jafnvel viku eða tíu daga, til að sitja á kirkjuþingi. Þetta getur kennilýðurinn sem situr á þinginu gert alla jafna því hann stýrir sjálfstæðum embættum og nýtur nágrannaþjónustu annarra presta ef mikið liggur við. Leikmaðurinn er bundnari stimpilklukku og vinnustað. Á þessu þarf að taka með einhverjum hætti ef til þess kemur að kirkjuþing þurfi kannski að standa yfir í mánuð eða lengur.

Heim í rammann

Lögin um stöðu og stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar frá 1997 hafa þjónað kirkjunni ágætlega. Og kirkjuþingið hefur samþykkt starfsreglur í tengslum við það og búið lögin eftir atvikum ágætlega úr garði – og þeim hefur líka verið breytt mörgum sinnum af Alþingi að frumkvæði kirkjunnar. Kannski var engin brýn ástæða fyrir því að fara í þessa vegferð á sínum tíma en hún hefur staðið yfir í rúm tíu ár. Það hefur reyndar hvergi komið fram augljós krafa um nauðsyn þess að breyta núverandi lögum vegna þess að þau séu einhver farartálmi fyrir kirkjuna í nútímasamfélagi. Núverandi lög hafa reynst vel eins og áður sagði og best er að halda sig við þau. Allar breytingar breytinganna vegna eru ekki fýsilegar.

Í núgildandi kirkjulögum er að finna áréttingu á ákvæði 62. gr. stjórnarskrár lýðveldisins um tengsl ríkis og kirkju sem frumvarp til þjóðkirkjulaga hýsir ekki en það hljóðar svo: Ríkisvaldinu ber að styðja og vernda þjóðkirkjuna. Þessi athyglisverða árétting mun að sjálfsögðu ekki rata í starfsreglur. Það er miður að þessari ágætu áréttingu hafi verið vísað að heiman úr frumvarpinu. En í haust gefst tækifæri á kirkjuþingi til að koma henni heim kjósi menn svo. Heim í hinn fræga ramma.

Hver sem afdrif þessa frumvarps til þjóðkirkjulaga kunna nú að verða þá er eitt víst að nokkurrar lagaþreytu gætir á kirkjuþingi. Mál þetta hefur lengi verið til umræðu, aftur á bak og áfram. Mörg brýn kirkjumál bíða úrlausnar – og það eru kannski mál sem lagaþref nær ekki til. Það eru tilvistarmál kirkjunnar. Hvernig ætlar kirkjuþing að styðja við þá sókn sem þjóðkirkjan þarf að hefja sem fyrst í samfélagi sem tekur ótrúlegum breytingum á degi hverjum?

Sókn til að koma fagnaðarerindinu til þjóðarinnar. Það er vonandi innan rammans.