Kirkjubylting í Noregi

Kirkjubylting í Noregi

Hvernig verður aukinni trúarfjölbreytni samfélags best mætt? Hver eru ábyrg viðbrögð kirkju gagnvart því að skólum er ekki lengur ætlað að sjá um skírnarfræðslu, heldur aðeins fræða almennt um trúarbrögð og lífsskoðanir?
fullname - andlitsmynd Sigurður Árni Þórðarson
04. nóvember 2009

Kirkjubylting í Noregi

Hvernig verður aukinni trúarfjölbreytni samfélags best mætt? Hver eru ábyrg viðbrögð kirkju gagnvart því að skólum er ekki lengur ætlað að sjá um skírnarfræðslu, heldur aðeins fræða almennt um trúarbrögð og lífsskoðanir? Þetta voru meðal þeirra spurninga, sem Norðmenn spurðu sig fyrir nokkrum árum. Svarið var skýrt: Góð fræðsla og gott uppeldi. Eftir undirbúning og ítarlegar umræður samþykkti norska Stórþingið árið 2003, að veita fé til trúfræðslu á vegum norsku þjóðkirkjunnar. Fyrstu fimm árin, þ.e. árin 2003-2008, voru skilgreind sem tilraunatími og í kjölfarið skyldi meta hvort og hvert framhald yrði. Nú hefur þeim áfanga verið náð og nýtt skeið hafið. Fræðslustarfið er að breyta starfsháttum kirkjunnar og hljóðlát kirkjubylting er að hafin. Við Íslendingar getum margt lært af þessu starfi og ættum að nýta okkur bestu þætti þess. Það er okkur fært þó ekki sé að vænta meðgjafar frá hendi hins opinbera eins og í Noregi.

Trúaruppeldi vegna mannræktar og friðar

Af hverju fara Norðmenn þessa leið og af hverju er hið opinbera reiðubúið að veita þrjú hundruð milljónum norskra króna árlega til þessa verkefnis? Það er m.a. trú á, að uppfrætt fólk leggi meira til samfélagsins en ella og hafi fremur þroska til að mæta með ábyrgð, óttaleysi og vinsemd fólki með aðrar lífsskoðanir en það sjálft. Og þar skólum er ekki ætlað að vera trúarlegar innrætingarstofnanir og sjá ekki lengur um skírnarfræðslu er ríkið reiðubúið að leggja kirkjunni til fé sérstaklega til trúarmótunar ungmenna. Það er ætlað til fjárfestingar í mannrækt. Það er fé vegna framtíðarfriðar og samfélagsgæða, sem ríkið leggur kirkjunni til. Kirkjunnar er að nýta það vel til visku og þroska fólks.

Áætlunin er miðuð við unga fólkið, þ.e. til átján ára aldurs. Nærri lætur að það séu um 6300 kr. á hvert skírt barn í Noregi. Það er svo sannarlega ekki sjálfgefið að þingið ákveði svo kostnaðarsama dagskrá en auðvitað er saga að baki sem skýrir.

Saga kristinfræði

Á fyrri öldum sá kirkjan um skólahald í Noregi. Árið 1739 hófst síðan almennt skólastarf og var kirkjulega tengt og skilgreint sem undirbúningur fermingar. Fyrir fjörutíu árum, árið 1969, var þetta skírnarfræðsluhlutverk skólanna aflagt með formlegum hætti. Markmiðsgrein fræðslunnar var umorðuð og áherslur og starfshættir grunnskólafræðslu þjóðarinnar breyttust þar með. Kristinfræðigreinin var svo endurskilgreind þremur áratugum síðar eða 1997. Lífsskoðanafræðslu var þá aukin á kostnað kristinfræði. Greinin nefndist þaðan í frá “kristindómur, átrúnaður, lífsskoðanir” og heitið segir skýra sögu um þróun. Eftir þetta var síðan mikið rætt um trúfræðslu í Noregi, hlutverk stofnana og stuðningur við heimili.

Breyting á hlutverki trúargreina skólanna leiddi til að árið 1999 var stofnaður á vegum hins opinbera vinnuhópur um skírnarfræðslu kirkjunnar. Hópurinn skilaði skýrslu sinni árið 2002 og lagði til, að réttur allra skírðra til fræðslu yrði lögfestur. Þá lagði hópurinn til hvernig fræðslan skyldi verða, á hvaða forsendum og með hvaða hætti. Málið hlaut stuðning mikils meirihluta Stórþingsmanna.

Árið 2008 var enn breytt skólagrein um trú og lífsskoðanir. Kristnin var felld út og greinin nefnist nú “Átrúnaður, lífsskoðanir og siðfræði.” Þar með er skipan kristnifræðslu í Noregi og tengsl við skóla og þjóðkirkju þessi: Fræðslustofnanir fræða almennt um trú, lífsskoðanir og siðfræði, en þjóðkirkjan nýtur opinbers stuðnings til eigin fræðslu og á skilgreindum forsendum.

Markmið og leiðir

Hlutverk hinnar nýju trúfræðslu kirkjunnar er, að veita öllum skírðum ungmennum skipulega fræðslu sem eflir kristna trú, veitir þekkingu á þríeinum Guði og styður lífstúlkun og lífsfærni skírðra á aldrinum 0-18 ára.

Sóknarnefndir og prestar höfðu eðlilega mikinn áhuga á að afla fræðslustarfi safnaðanna fjár. 82% safnaða í Noregi sóttu um framlög til tilraunaverkefna á árunum 2004-2008. Bjartsýnin var mikil en raunveruleikinn annar en vonir stóðu til. Aðeins 27% safnaða fengu styrki til fræðslustarfa, mun færri en sóttu. Líklega voru mestu mistök ferlisins að veita umsækjendum ekki betri upplýsingar um raunverulega möguleika á styrkveitingu. Margir söfnuðir sendu inn góðar umsóknir ár eftir ár en fengu ekki þrátt fyrir góðar umsóknir. Fé var veitt með það að leiðarljósi að mismundandi söfnuðir fengju fé og sem mest reynsla fengist. Þetta var jú tilraunaverkefni og hafði það að markmiði að draga saman reynslu sem flestra og sem ólíkastra safnaða.

Nýtt skeið – fleiri taka þátt

Árið 2009 hófst nýtt skeið skírnarfræðslu kirkjunnar. Um 45 % norskra þjóðkirkjusafnaða fá fræðslufé árið 2009 og stefnt er að í fyllingu tímans taki allir söfnuðir þátt í starfinu, en engir fá fjármuni nema að uppfylltum skilyrðum um starfshætti. Trúfræðsluáætlunin er ekki styrkjakerfi heldur fræðsluáætlun og peningar eiga að nýtast vel og í samræmi við markmið og skilvirka starfshætti. Söfnuðir gera áætlanir um starfið og í samræmi við þarfir á heimaslóð. Skilyrði framlaga er líka að viðkomandi biskupsdæmi samþykki áætlanir.

Guðfræðin

Að fræða um trú og trúariðkun varðar eðli og hlutverk kristins safnaðar. Norska kirkjan hefur lagt mikla áherslu á skírn og að bæði heimili og kirkja hafi fræðsluskyldu að gegna á grundvelli skírnarinnar. Skírnarávarp norsku kirkjunnar er skýrt hvað þetta varðar: “Þið, þessi söfnuður og öll kirkjan eigið hlut í heilögu hlutverki: Að biðja fyrir barninu, kenna því að biðja, að njóta Guðs orðs og hinnar heilögu máltíðar svo það geti þroskast og vaxið í krafti Krists...”

Fræðslunni er ætlað að varðveita guðfræðilegan margbreytileika og trúarlega breidd kirkjunnar og koma til móts við fjölbreytileika samfélagsins. Það merkir að viðurkennt er og metið að einstaklingarnir eru margvíslegir, en líka að menningarlegar aðstæður og þarfir eru það sömuleiðis. Vert er að staldra við þá menningarpólitísku og guðfræðilegu einurð, sem markar starfshættina.

Áætluninni er ætlað að veita sem ítarlegasta fræðslu og þátttakendur mega vænta þess að fá yfirlit um trúfræðileg og siðfræðileg álitamál sem spanni bæði fræði og þarfir einstaklinga og samfélaga.

Fræðslunni er ekki aðeins ætlað að miðla staðreyndum heldur þjóna allri manneskjunni. Það merkir að auk beinnar fræðslu um Biblíu, kenningar og siðfræði skal stuðlað að upplifun og reynslu fólks, siðferðilegri leiðsögn og trúarlegu uppeldi sem miðar að mótun.

Ein af ástæðunum fyrir stuðningi stjórnmálamanna við trúfræðsluna er menningarleg þjónusta kirkju og kristni í Noregi. Fræðslunni er ætlað að varðveita tengsl við hinn kristna menningararf og miðla honum til nýrra kynslóða. Eins og á Íslandi er Norðmönnum annt um sögu- og menningarstaði og þar með kirkjur sínar. Þeir nýta gjarnan mikilvæga söguviðburði til fræðslu. Kirkjufræðslunni er ætlað að vitja þeirra þátta. Miðað er við að fjölskyldur þátttakenda taki þátt í starfinu, enda haldlítil fræðsla, sem ekki nýtur stuðnings heimila.

Gögn og stuðningsefni

Við upphaf var verkefninu stjórnað af starfsólki kirkjuráðsins. Nú hefur stjórn, stuðningur og eftirlit verið fært út í biskupsdæmin. Starfsfólk hefur verið ráðið og starfsháttum þess svipar til þess sem íslenskt kirkjufólk þekkir frá átaki um safnaðaruppbyggingu íslensku kirkjunnar. Þá hefur kirkjan komið upp ítarlegum gangabanka sem söfnuðir og einstaklingar geta sótt í.

Trúfræðsluáætlunin

Hvaða getur íslensk kirkja lært af þessari áætlun? Fé verður ekki sótt til opinberra aðila með sama hætti og í Noregi. Peningastaða ríkisins leyfir ekki aukin útgjöld heldur fremur inngjöld! Mat áætlunarinnar varðar því fremur inntak en fé. Hið merka er að miðað er við samfellda fræðsluáætlun kirkjunnar fyrir átján fyrstu æviárin. Fræðsla íslensku þjóðkirjunnar hefur í sumu verið fremri starfi norsku systurkirkjunnar. En þessi heildstæða áætlun er til fyrirmyndar og er að breyta kirkjustarfi í Noregi. Í tengslum við skírn er þegar veitt fræðsla og foreldrar upplýstir um hvernig kirkjan getur stutt foreldra til trúarmiðlunar og veitt þeim félagslegt samhengi. Börnin eru boðin til ákveðinna athafna og að gefnum tilefnum. Auk skipulegrar fræðslu fyrstu æviárin eru börn bréflega boðuð til kirkju og fá afhenta bók við fjögurra ára skírnarafmælið. Síðan er skipulagðri fræðslu haldið áfram og er í boði til átjan ára aldurs.

Skoðum þessa metnaðarfullu mótunar- og fræðslu-áætlun norsku þjóðkirkjunnar. Metum það sem vel er gert og nýtum það besta.