Er páskavikan vikan fyrir páska eða vikan eftir páska? Er óviðeigandi að segja Gleðilega páska strax þegar fólk er á leið í páskafrí á fyrri hluta dymbilvikunnar?
Fyrri spurningunni er auðsvarað. Þar sem sunnudagurinn er að kristnum skilningi fyrsti dagur vikunnar, er útilokað að sú vika sem kallast páskavika innihaldi ekki páskana sjálfa. Þar af leiðir að páskavikan byrjar á páskadag. Vikan fyrir páska er Kyrravika, eða Dymbilvika og síðasti hluti hennar eru bænadagar.
Síðari spurningin er annars eðlis. Það var sannarlega ekki venja áður fyrr að óska gleðilegra páska fyrr en þeir hófust. Hið sama gilti um jólin. Kveðjan var fyrst og fremst til þess að marka upphaf hátíðarinnar. Nú er öldin önnur. Fólk óskar hvert öðru góðs sem í vændum er, í kveðjuskyni, þegar það gerir ekki ráð fyrir að hittast aftur fyrir þann tíma sem hið gleðilega mun renna í garð. Það er því engin óvirðing við hina sérstöku helgi bænadaganna að óska fólki gleðilegra páska áður en bænadagar renna upp. Það sem máli skiptir er að einstaklingar og söfnuðir tapi ekki merkingu daganna í trúarlegu samhengi, eða leiði þá hjá sér vegna einhverrar þeirrar iðju sem fellur ekki að helgi þeirra.
Frá fornu fari eru bænadagarnir þrír sérstaklega helgir dagar í kristnum sið. Þetta eru föstudagurinn langi, laugardagurinn fyrir páska og páskadagur. Kirkjan tók í arf þann sið gyðinganna að byrja nýjan dag kl. sex síðdegis eins og við gerum aðfangadag jóla. Vegna þeirrar hefðar hófust hinir heilögu þrír dagar strax á fimmtudag kl. sex síðdegis (skírdag) og enduðu kl.sex síðdegis á páskadag. Þannig tengdist saman í eitt sorg krossfestingarinnar og gleði upprisunnar. Sú íslenska málvenja að tala um bænadaga og páska byggir á því að á miðöldum breyttist þetta þannig að skilið var á milli sorgar og gleði. Þá urðu bænadagarnir þrír skírdagur allur, föstudagurinn langi og laugardagurinn helgi (sabbatum sanctum), en síðan tóku við þrír páskadagar. Þriðjudagur eftir páska varð þriðji í páskum, jafn helgur hinum tveim. Þó að nú hafi verið horfið aftur til fyrri siðar í flestum hinna stóru kirkjudeilda hefur skírdagurinn haldið þeirri auknu áherslu sem hann fékk við breytinguna.
Skírdagur hefur þrjú megin stef. Það er frásögnin um fótaþvottinn (Jóh.13) og það eftirdæmi sem Jesús gaf okkur lærisveinum sínum með því, en af þeim atburði dregur dagurinn nafn sitt (að skíra í merkingunni hreinsa), það er frásögnin um síðustu kvöldmáltíð Jesú með lærisveinunum og stofnun heilags kvöldmáltíðarsakramentis (Mark. 14. 22-25, Matt.26. 26-29 og Lúk. 22.14-20) og það er bænabarátta og handtaka Jesú í grasgarðinum. (Matt. 26.36-56, Mark. 14.32-52, Lúk.22.39-53, Jóh.18.1-11).
Um allan hinn kristna heim eru því kvöldmessur með altarisgöngu hefð á skírdagskvöld, enda hefst helgi hans ekki fyrr en þegar kvöldar, eins og fyrr segir. Þótt fáttítt sé að í þessari messu fari fram táknrænn fótaþvottur, eru þess þó dæmi. Miklu fremur er það viðfangsefni predikunarinnar að fjalla um þann boðskap Krists um sjálfan sig, sem í því felst, þó að megináherslan hvíli yfirleitt á túlkun kvöldmáltíðarinnar sjálfrar.
Það hefur einnig verið venja víða í kristninni að minnast bænagjörðar Jesú í grasgarðinum og handtöku hans þar með því að að hafa stutt athöfn í lok messunnar, þar sem lesinn er Davíðssálmur 22 og á meðan er allur skrúði altaris og kórrýmis fjarlægður, og ljósin slökkt. Söfnuðurinn yfirgefur kirkjuna og hverfur til sinna heima í myrkri. Þannig minnist hann göngu Jesú Krists á vit þjáninga sinna.
Trúarlega er ekki hægt að skilja á milli borðsamfélags Jesú og lærisveinanna, fótaþvottarins og þjáningarinnar og krossdauðans, vegna þess að þar er að finna tenginguna milli jóla og páska; milli fæðingarinnar og upprisunnar. Hér er hápunktur sögunnar um Guð sem gerðist maður. Læging Guðs var ekki mest þegar hann fæddist sem fátækt barn og var lagður í jötu, heldur þegar hann var hæddur og barinn og krossfestur.
Guð varð maður og fæddist inn í þennan heim eins og hvert annað barn til þess að geta gengist undir ok hins fyrsta manns, Adams, sem er fulltrúi þess heims sem er merktur dauðanum vegna syndarinnar. Þá refsingu tekur hann á sig á krossinum en brýtur fjötra dauðans og rís upp. Hinn nýi Adam, Jesús Kristur er fulltrúi hinnar nýju sköpunar sem fullkomnast í eilífu ríki hans. Trúin sér í þessu að Jesús þjáist og deyr ekki aðeins fyrir hvern og einn sem á hann trúir, heldur er hinn fallni heimur syndarinnar umbreyttur í upprisu hans. Allt er orðið nýtt. Það er máltíð hinnar nýju sköpunar sem borin er fram í heilagri kvöldmáltíð. Og sá sem neytir er merktur lífinu.