Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.
1. Heimur kristninnar er heimur fjölbreytileika. Eins og við þekkjum vel, eru margar mismunandi kirkjudeildir til í heiminum og fjölbreyttar hefðir fylgja hverri kirkjudeild og menningu hjá þjóðum. Sérhver kirkjudeild leggur áherslu á mismunandi atriði í kenningu og trúariðkun í kristni og það er ekki svo auðvelt að dæma hvert sé rétt eða rangt.
Við eigum að fagna þessum fjölbreyitleika fremur en að reyna að dæma hvert annað, þó að einlæg umræða sé jú nauðsynleg þegar alvarlegt mál er að ræða eins og mál sem varðar mannréttindi.
En það eru auðvitað mörg atriði sem eru sameiginleg líka þvert yfir fjölbreytileikann. Ég vil forðast að nefna hér dogmur kristninnar, heldur fremur benda á atriði í okkar trúarlífi. Atriði, sem eru mikilvæg sameiginlega, óháð kirkjudeild eða menningu, mun vera að ,,við mætum Jesú Kristi og fylgjum honum“. Þótt maður læri mikið um dogmur kristninnar og Biblíuna, en mætir Jesú hvorki né ákveður að fylgja honum, þá lifir maður ekki lífi sínu í trú á Jesú.
En hvað þýðir það í raun að fylgja Jesú? Hvers konar líf er líf með Jesú? Þetta er stór spurning og alls ekki auðvelt að lýsa lífi með Jesú nákvæmlega og áþreifanlega, þar sem það á að vera mismunandi eftir hverjum manni. Það má segja að birtingarform lífs með Jesú geta verið jafnmargvísleg og sá fjöldi manna sem leggur trú sína á hann.
Maður mætir Jesú á meðan maður reynir að byggja upp líf sitt eða endurskoða, og með leiðbeiningum Jesú og aðstoð býr maður til eigið líf sem er einstakt og getur ekki verið leyst af öðru lífi. Ævi manns er stór trúarjátning.
Mig langar að bæta einu við í þessu samhengi, þó að ég viti ekki hvort það sé sameiginlegt atriði í öllum kirkjudeildum eða ekki. Ég tel það mjög mikilvægt í lífi sérhvers okkar að maður eigi að vera ,,trúr sjálfum sér“. Trú á Jesú hjálpar okkur að finna sanna sjálfsmynd okkar eða að vera trúr sjálfum sér. Þannig getur það að vera trúr sjálfum sér ekki verið aðskilið þegar við íhugum líf með Jesú.
Að mæta Jesú, að fylgja honum og að vera trúr sjálfum sér: þetta eru lykilorðin í trúarlífi okkar.
2. Ég viðurkenni það til að vera nákvæmur, en eitt er að mæta Jesú en annað er að fylgja Jesú. Samt held ég að það sé þýðingarmikið að tengja þessi tvö atriði hvort við annað og hugleiða þau saman, því það hvernig maður mætir Jesú hefur mikil áhrif á þá ákvörðun hvort maður fylgi Jesú eða ekki.
Að mæta Jesú er ekki sama og að vita um Jesú eða að lesa um hann. Að mæta Jesú þýðir að við höfum mannleg samskipti við hann og snertum persónuleika hans. Hvað sjáum við þá í honum?
Sojourner Truth var þekkt svört kona sem bjó í Bandaríkjunum á 19. öld. Sojouner fæddist sem þræll og upplifði þess vegna margt hræðilegt. Hún varð kraftmikil baráttukona kvenréttinda og einnig trúboði kristinnar trúar.
Hún prédikaði mörgum sinnum sem trúboði, en hún sagði einu sinni við fólk: „Satt að segja, get ég ekki lesið, ekki einu sinni bréf, og ekki Biblíuna. Þegar ég prédika, er ég alltaf með bara einn texta, en textinn er sá: «þegar ég mæti Jesú», og þaðan koma allar hugmyndir og hugleiðingar sem ég verð að deila með fólki“.
Sojourner hafði lengi haft andúð gagnvart hvítum mönnum vegna upplifunar sinnar í þrældómi en hún sagði að eftir að hún mætti Jesú, sem var eins og hún þræll og krossfestur, en upprisinn, hafi eitthvað breyst innra sér og hún byrjaði að hugsa að hún gæti elskað alla, svart fólk sem hvítt, og konur sem karlmenn.
Hún fann í Jesú ótakmarkaðan kærleika og fyrirgefningu og það skipti hana máli. Hún kaus þá leið sem Jesús fór og fylgdi honum.
Hvað sjáum við í Jesú? Við gætum hafa þekkt Jesú fyrir mörgum árum, en það sakar samt ekki að skoða enn einu sinni hvað við sjáum í honum.
Í ágúst hvers árs er haldið fermingarnámskeið í Neskirkju. Fermingarbörn safnast saman eina viku og læra helstu atriði um kristni og ævi Jesú. Ég veiti aðstoð í námskeiðinu.
Ég bið krakkana um að teikna mynd af Jesú á blað. Ef ég gef ekki sérstaka leiðbeiningu, teikna krakkarnir, næstum öllum, Jesú með sítt hár, alskegg á andlitinu og í mjóum líkama. Krakkanir eru búnir að fræðast á ýmsum stöðum um útlit Jesú. En raunar stendur engin lýsing á útliti Jesú í Biblíunni. Ég útskýri það fyrir krökkunum og biðja þá um að teikna eigin mynd af Jesú, en ekki hefðbundna.
Þá kemur Jesús með afró-hár, Jesús í pönk-tísku eða mjög feitur Jesús. Síðan spyr ég krakkana hvort það skipti máli ef Jesús er myndarlegur maður eða ljótur, mjór eða feitur. Krakkanir svara: ,,Nei, nei, slíkt skiptir ekki máli“. Nú eru þeir byrjaðir að hugsa sjálfir og leita að mikilvægari punktum í Jesú.
3. Það má segja hið sama um okkur. Ef við færum aðeins staðalímynd um Jesú eða þekkingu um Jesú frá hægri til vinstri, þá höfum við ekki ennþá mætt Jesú. Hvað sjáum við í honum? Og það sem við sjáum í einhverju speglar oftast hvað við metum hátt sjálf og hvað ekki. Sjáum við það sem við eigum að sjá?
Til þess að skoða þetta atriði, mæli ég með því að þið gerið lítið verkefni heima hjá ykkur. Það er mjög einfalt og tekur enga stund, bara fimm, sex mínútur. Setjist niður í rólegheitum með penna í hönd og skrifið niður fimm jákvæða punkta í Jesú sem þið haldið að eigi skilið að koma fram.
Þetta er svo einfalt og þið þurfið ekki taka þetta of alvarlega. En samt er ein regla til. Ekki ljúga. Þetta er aðeins fyrir sjálfa/n sig og ef þið skrifið eitthvað sem ykkur finnst í raun og veru ekki, verður það allt einskis virði. Og það er mikilvægt að skrifa niður á blað, ekki bara láta hugsanirnar reika í höfðinu.
Ég gerði verkefnið sjálfur á meðan ég var að semja prédikunina. Fimm jákvæðir punktar sem ég sé í Jesú eru t.d. eftirfarandi: Fyrsti, Jesús reynir ekki að láta mann krjúpa með ofbeldi. Annar, Jesús reynir ekki að stjórna öðrum manneskjum. Þriðji, Jesús sækist ekki eftir samfélagsvaldi. Fjórði, Jesús hafnar því að taka þátt í einelti. Og síðasti punktur, Jesús hafði elskað mig áður en ég þekkti hann.
Eftir ég hafði skrifað punktana fimm á blað, skoðaði ég blaðið. Og ég hugsaði hvers vegna ég hafði valið þá fimm punkta fram yfir önnur atriði eins og: Jesús læknar marga sjúklinga? Eða Jesús breytir vatn í vín?
Það blasir við að punktarnir fimm á blaðinu eru þýðingarmeiri en aðrir fyrir mig. Með öðrum orðum: Ég tek Jesú sérstaklega til fyrirmyndar á þessum sviðum og einnig hef ég persónulega áhuga á þeim.
Þetta litla verkefni er verkfæri til að fá betri skilning á sjálfum sér en jafnframt til að skilja hvenig við erum tengd Jesú. Og þetta mun hjálpa okkur að nálgast Jesú á réttan hátt. Með því að skoða hvað við sjáum í Jesú, gætum við tekið eftir því að við sjáum aðeins ákveðna hlið persónuleika hans og hunsa aðra hlið.
Þá á það að leiðréttast, af því að það er jú nauðsynlegt að við reynum að skilja persónuleika Jesú sem heild. Þetta verkefni nýtist til að staðfesta samband okkar við Jesú. Ég mæli með því að þið prófið þetta verkefni.
4. Dæmisagan í guðspjalli dagsins er mjög vel þekkt. Ríkur maður kemur til Jesú og spyr hvað hann eigi að gera til þess að öðlast eilíft líf. Guðspjallið sýnir á ýmsan hátt að þessi maður er hvorki yfirlætisfullur né grobbinn. Hann er einlægur, trúaður Gyðingur og hann langar til þess að fá góða ráðgjöf frá Jesú. En Jesús segir: „Eins er þér vant. Far þú, sel allt sem þú átt og gef fátækum og munt þú fjársjóð eiga á himni. Kom síðan og fylg mér“. (Mk. 10:21-22) En þegar maðurinn fær svarið frá Jesú, verður hann dapur og fer burt frá Jesú, þar sem hann á miklar eignir.
Þessi dæmisaga er frekar sorgleg, af því að þó að maðurinn sé góður og einlægur, getur hann ekki fylgt Jesú. Og einmitt að því leyti kennir dæmisagan okkur eitthvað mikilvægt. Maður, sem ber virðingu fyrir Jesú, er einlægur í trúariðkun sinni og vill jafnvel iðka sína trú betur, mætir Jesú, en getur ekki fylgt honum. Hvað gerðist?
Ef til vill, gat maðurinn ekki séð það sem hann ætti að sjá í Jesú. Maðurinn hélt að Jesús væri góður kennari fyrir sig á þeirri forsendu að Jesús myndi segja aðeins það sem maðurinn vildi heyra. En Jesús var kennarinn sem færði fólki sannleika Guðs og sannleikur Guðs gæti hljómað sárt í eyru manns.
Manninn langaði að bæta eilífu lífi við ríkidæmi sitt en vildi ekki tapa neinu sem hann taldi vera mikils virði í staðinn. Manninum tókst ekki að mæta Jesú á réttan hátt. Hann gat ekki tekið eftir því sem hann ætti að sjá í Jesú, þar sem hann var upptekinn með eigin ósk um eilíft líf og þrá eftir eigununum sínum áður en hann mætti Jesú. Og afleiðing þess var að maðurinn missti leiðina til eilífs lífs, sem var Jesús sjálfur.
Að mæta Jesú, að fylgja Jesú og að vera trúr sjálfum sér: þetta eru lykilorð í trúarlífi okkar. Ef við teljum það vera erfitt að fylgja Jesú, þá líklega sjáum við ekki það sem við ættum að sjá í honum. Það er alltaf þess virði fyrir okkur að hugsa um hvað við finnum í Jesú. Og það er jafnframt leið til að finna og móta sanna sjálfsmynd okkar.
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. –Amen