„Hér með legg ég fyrir þig líf og heill, dauða og óheill...“ Þannig hefst lexía dagsins (5M 30.15-20), lærdómurinn sem er lagður fyrir okkur í dag. Það er Móse sem talar, stuttu fyrir andlát sitt. Langir ræðubálkar eru hér í lok 5. Mósebókar og fjalla þeir um mikilvægi þess að hlýða boðum Drottins Guðs, að elska hann og snúa sér til hans af öllu hjarta sínu og allri sálu sinni (5M 30.2, 6, 10). Því fylgja blessanir af ýmsum toga, sumar hverjar innan „landbúnaðarguðfræðinnar“ eins og einn vinur minn í Dómkirkjusöfnuðinum kallaði slíkt orðfæri Biblíunnar, en má þó auðveldlega heimfæra á okkar daglegu störf hver sem þau eru (5M 28.3-6):
Blessaður ert þú í borginni og blessaður ert þú á akrinum. Blessaður er ávöxtur kviðar þíns og ávöxtur akurlands þíns og ávöxtur búfjár þíns, kálfar nauta þinna og lömb sauðfjár þíns. Blessuð er karfa þín og deigtrog. Blessaður ert þú þegar þú kemur heim og blessaður ert þú þegar þú gengur út.
Og nú leggur Móse fyrir þjóð sína líf og heill, dauða og óheill og býður þeim að velja. Við erum vönust því að ávörp í annarri persónu eintölu, „þú“, varði einstaklinginn, en sem fyrr talar Móse til þjóðarinnar allrar. Í hinum hebreska hugarheimi er einstaklingurinn ekkert án þjóðar sinnar. Þjóðin er ein heild og því ávörpuð sem ein manneskja: „Blessuð ert þú, þjóð, í borginni og blessuð ert þú á akrinum... Blessuð ert þú, þjóð, þegar þú kemur heim og blessuð ert þú, þjóð, þegar þú gengur út“.
Það er þjóðin sem þarf að velja hvaða veg hún vill ganga. Þjóðin þarf að gera upp við sig hvort hún vill hlýða boðum Drottins með því að elska Drottin Guð, ganga á vegum hans og halda boð hans. Fyrir þjóðina er lífið lagt – eða dauðinn, blessunin – eða bölvunin. Skilaboðin eru skýr: Veldu þá lífið svo að þú og niðjar þínir megið lifa.
Boð Drottins: Heilindi Hver eru þá þessi boð Drottins? Hvað er það sem þjóðin á að gera til að eiga líf og blessun? Í hverju felst þetta, að elska Guð, snúa sér til hans, halda sig við hann? Þessum spurningum er svarað á margvíslegan hátt í Biblíunni. Nærtækast er að rifja upp boðorðin tíu sem Móse færði fólkinu af fjallinu. Þau fjalla um grundvöll trúarinnar sem er að treysta Guði fyrir lífi sínu og koma fram af réttlæti og heilindum við annað fólk. Líklega er einfaldasta svarið við spurningunni um hvernig eigi að hlýða boðum Guðs þetta: Með því að vera heilshugar, heil í afstöðunni til Guðs og náunga, sýna heilindi í allri sinni framgöngu.
Það er dálítið gaman að velta fyrir sér ýmsum orðum í þessu sambandi. Móse gefur okkur kost á að velja líf og heill. Að baki hugtakinu „heill“ býr hebreska orðið „tov“ – eins og í heillaóskakveðjunni „mazal/mazel tov“ (טוב מזל). Grunnmerking orðsins tov er góður eða réttur en það rúmar líka fleiri merkingar, svo sem gleði, hamingja, heilbrigði. Í biblíulegum skilningi er þetta allt gjöf Guðs til manneskjunnar. Verður því íslenska orðið sem valið er hér í þýðingunni að teljast mjög gott, því hugtakið „heill“ rúmar margar jákvæðar myndir um stöðu manneskjunnar í lífinu. Heilt líf, líf þar sem margir öflugir og hvetjandi þættir koma saman – er það ekki það sem við þráum?
Ef við veltum fyrir okkur íslenskum hugtökum sem tengjast þessu orði, „heill“ þá komum við fljótt auga á orðið sem ég nefndi rétt áðan, sem forsendu blessunar Guðs: Heilindi. Við þurfum að vera heilshugar, sýna heilindi, til að þiggja heill úr hendi Guðs. Óheilindi eru ávísun á vandræði og eru samnefnari þess sem Jesaja spámaður telur upp sem dæmi um synd mannsins (Jes 59.2-4) eins og ég minntist á í prédikun í Langholtskirkju síðastliðinn sunnudag: Misgjörðir, lygi, rógur, þvaður, fals, illgjörðir. Allt er þetta andstæðan við heilindi, færir með sér dauða og óheill, veldur aðskilnaði við Guð og lokar eyrum hans fyrir bænum okkar.
Ávöxtur andans: Heilindi Í Galatabréfinu 5.22-26 er minnst á „andann“, það er heilagan anda Guðs. Þarna er eitt orðið enn sem tengist heill og heilindum og því að vera heilshugar. Það er hinn heilagi andi Guðs. Við eigum oft bágt með að sýna heilindi á daglegri göngu okkar. Oft fær „holdið með ástríðum þess og girndum“ að ráða með hégómagirnd, áreitni og öfund sem undirrót hegðunar okkar. Okkur gengur ef til vill ekki eins vel og við vildum að vera heilshugar í ást okkar til Guðs og manna.
Þá kemur andinn til sögunnar, heilagur andi Guðs sem gefur okkur það sem okkur skortir: Heilindi í formi kærleika, gleði, friðar, langlyndi, gæsku, góðvildar, trúmennsku, hógværðar og sjálfsaga. Það er andinn sem „vekur okkur til lífs“, hjálpar okkur að velja lífið svo að við og niðjar okkar megum lifa og verða langlíf í landinu (sbr. 5M 30.19).
Að gefa allt sitt Í guðspjalli dagins (Matt 13.44-52) talar Jesús um himnaríki. Við gætum sagt að himnaríki sé sá veruleiki sem hér hefur verið lýst: Þar sem – eða þegar - manneskjan er heilshugar í afstöðu sinni til Guðs og samferðafólksins. Í litlu sögunum hans Jesú kemur þetta skýrt fram: Himnaríki er eins og fjársjóður sem þú gefur allt þitt fyrir. Himnaríki er eins og dýrmæt perla sem þú kostar öllu til að eignast. Himnaríki er eins og net sem í byrjun rúmar alls kyns fisk en sá tími kemur að einungis þau sem eru heilshugar, „réttlát“ eins og segir orðrétt, geta átt þar sinn samastað.
Kæri söfnuður hér í Neskirkju. Þegar við lesum þessa ritningarstaði og skoðum þá í samhengi við líf okkar sjálfra, bæði sem þjóðar og einnig sem einstaklinga innan þeirrar heildar, sjáum við að boðskapur Biblíunnar er alvörumál. Hann varðar líf og heill eða dauða og óheill. Sú var sannarlega reynsla Hebreanna á fjörtíu ára göngu þeirra um eyðimörkina með Móse í fararbroddi. Sú hefur verið reynsla íslensku þjóðarinnar á hennar löngu ferð í harðbýlu landi. Og sú er reynsla mín og áreiðanlega þín sem sækir hingað í kirkjuna í dag. Guði er alvara. Hann býður okkur blessun sína, heill og líf, heilagan anda sinn. Hann býður okkur að vera heilshugar, velja líf og heill, þiggja heilagan anda og ávöxt hans. Þannig, og aðeins þannig, verður versið rétt á undan guðspjalli dagsins að veruleika í lífi okkar: „Þá munu þau sem hlýtt hafa Guði skína sem sól í ríki föður þeirra. Hver sem eyru hefur hann heyri“ (Matt 13.43).
Þannig verða orð Móse okkar í dag: Blessuð verið þið í borginni og blessuð verið þið á akrinum. Blessuð verið þið þegar þið komið heim og blessuð verið þið þegar þið gangið út. Amen.