Texti ræðunnar er hér en við hana bættust innskot sem hægt er að hlusta á í hljóðupptöku á þessari slóð.
Hér er fjölmenni í dag og það er oft margt um manninn í Neskirkju og gott að þjóna hér góðu fólki. Full kirkja af glöðu fólki. Væntanleg fermingarbörn eru hér ásamt foreldrum og forráðamönnum og safnaðarfólk eins og vera ber.
[Innskot - sjá hljóðupptöku].
Og við erum glöð og vongóð yfir þessu unga fólki. Þetta er frábær hópur. Sumarnámskeið fermingarbarna hefur nú verið haldið í Neskirkju í 11 sumur og ég man varla eftir meðfærilegri hópi. Um leið og ég fullyrði þetta þá gef ég í skyn að hóparnir hafi verið misjafnir í gegnum árin og sumir erfiðari en aðrir. Sumir hóparnir hafa verið fjölmennari og það segir sína sögu. Munur er á að halda utan um 80 börn eða 110. Og svo er það nú ætíð svo að misjafn sauður er í mörgu fé. Þess vegna er alltaf varhugavert að alhæfa um fólk. Við þekkjum öll alhæfingar og tökum stundum undir þær af vangá eða illa ígrunduðu máli. Hér koma nokkur dæmi:
Múslimar eru vandræðafólk og eintómir hryðjuverkamenn. Ameríkanar eru yfirborðskenndir og barnalegir. Svíar eru smámunasamir og húmorslausir. Gyðingar eru gráðugir og nískir. Kínverjar eru iðnir og varhugaverðir í viðskiptum. Öll þrettán ára börn eru englar eða öll þrettán ára börn eru til vandræða.
Alhæfingar eru aldrei réttar. Þær byggja á fordómum og vanþekkingu.
Þessa dagana örlar til að mynda á að talað sé í alhæfingum og ýjað að því að prestar upp til hópa séu hættulegir menn.
Alhæfingar eru alltaf vondar. Í hópi presta, múslima, Ameríkana, Svía, Gyðinga, Kínverja – og jafnvel fermingarbarna – er misjafn sauður í mörgu fé. Úlfur í sauðagæru kemst inn í hvaða sauðahóp sem er og líka inn í hin helgustu vé.
Umræðan um kynferðislega misbeitingu af hálfu kirkjunnar manna er grafalvarleg og þess vegna sé ég mig knúinn til að fjalla um hanna hér á þessum vettvangi og sérstaklega með ykkur, kæru, væntanlegu fermingarbörn og foreldrar. Barninu þínu er óhætt hér í Neskirkju og í kirkjunni hvar sem er.
Hér starfar heilt og gott fólk að því ég best veit. Ég hef hvergi séð glitta í úlf en ég er á verði og fylgist með eftir því sem Guð gefur mér vit og skyn. Úlfur getur leynst hvar sem er sé hann í réttu dulargervi staðar og stundar.
Við ræddum ítarlega á námskeiðinu um hætturnar í þessu heimi, um gott og illt, rétt og rangt. Við ræddum mikilvægustu tilvistarspurningar mannsins á öllum tímum og öllum aldri. Hið góða og illa takast á í heiminum. Við teljum okkur auðvitað vera á bandi hins góða og gæskunnar megin í veröldinni. En lífið er ekki svona einfalt eða svart og hvítt. Barátta góðs og ills er ekki bara einhversstaðar úti í hinum stóra heimi, í Afghanistan, Írak eða milli dópgengja í Mexíkó. Landamæri góð og ills liggja ekki úti í hinum stóra heimi, sagði Solzhenitsyn, heldur í hjarta sérhverrar manneskju. Landamæri góð og ills liggja í gegnum mig miðjan, í gegnum þig og alla menn, karla og konur, hvar sem er í heiminum. Enginn er undanskilinn. Við erum frjálsar verur með frjálsan vilja og veljum á hverju andartaki á milli góðs og ills. Með það í huga finnst mér hreint undur að heimurinn skuli ekki vera verri en raun ber vitni. En aðgátar er þörf. Við þurfum að gæta hvers annars í heimi þar sem hættur eru á hverju horni og freistingar við hvert fótmál. Hryðjuverkamenn voru allir eitt sinni 13 ára börn með góðar vonir í brjósti. Sama má segja um flest þau sem nú fylla fangelsi veraldar. Sama má segja um morðingjann sem lögreglan leitar enn í íslensku samfélagi. Lífið er flókið og margir villast af hinum góða vegi.
Ef upp kemst um kynferðislegt ofbeldi í skóla af hálfu skólastjóra eða kennara, þá tökum við ekki börnin okkar úr skóla eða lokum skólanum; ef læknir eða annar heilbrigðisstarfsmaður verður uppvís að einhverju ósæmilegu eða níðingsverki þá hættum við ekki að fara til læknis og segjum okkur ekki úr heilbrigðiskerfinu. Sama á við um kirkjuna að breyttu breytanda. Kirkjan er samfélag manna, karla og kvenna, breyskra manna, syndugs fólks. Jesús sagði: „Ég er ekki kominn til að kalla réttláta heldur syndara.“ (Matt 9.13)
En það afsakar okkur ekki. Við megum aldrei láta illvirki viðgangast í okkar ranni og verðum að tala um slíkt og opna öll tabú, rjúfa alla bannhelgi. Við verðum að hafa einurð í okkur til að taka á erfiðum málum. Þar hefur kirkjan brugðist vegna vanþekkingar og vandræðagangs. En munum samt að við getum aldrei dæmt látinn mann.
En nú er mál að linni. Nú er komið að því að lofta út og gera bragarbót á öllum verkferlum sem tengjast kynferðislegri misbeitingu eða kúgun á hvaða sviði sem er. Slíkt má aldrei viðgangast innan kristinnar kirkju. Verkferlar hafa verið skilgreindir og kirkjan er nú betur í stakk búin að taka á málum en áður – og betur en margar aðrar stofnanir í þjóðfélaginu.
Jesús var einkar raunsær maður enda þótt sumir litu á hann sem draumóramann á sínum tíma. En hann gerði sér glögga grein fyrir því hvað með hverjum manni bjó. Hann talaði um úlfa í sauðagærum og varaði hjörð sína við falsspámönnum og illvirkjum, hann talaði um hræsni og yfirdrepsskap, hann áminnti fólk sem taldi sig öðrum betra og var gjarnt að líta niður á aðra, hann varaði við dómhörku og alhæfingum. Hann opnaði tabúin og rauf bannhelgina um margt í mannlífinu. Hann opnaði eyru og augu fólks, losaði um tunguhaft og frelsaði fólk úr fjötrum af margvíslegum toga.
Guðspjall dagsins er um mann sem Jesús læknaði, gaf bæði heyrn og mál. Effaþa! Opnist þú! Þetta orð hefur lifað vegna kraftaverksins sem Jesús vann. Í samtíðinni er fólk sem betur fer að fá heyrn og mál. Hvert málið á fætur öðru hefur verið opnað upp á liðnum misserum. Við göngum nú í gegnum tímabil þegar augun eru opnuð og gröfturinn hreinsaður út, eyrun opnuð og mergurinn molaður. Konur sem orðið hafa fyrir misbeitingu hafa stigið fram og tjáð sig. Börn sem þolað hafa órétt og verið misnotuð kynferðislega hafa líka sagt sína sögu.
Við skulum fagna því að kýlin springa og gröfturinn vellur út því þá getur lækningin hafist. Effaþa! Opnist þú!
Við skulum vera á verði hvar sem er í þjóðfélaginu og vera á útkikki gagnvart úlfum í sauðagærum. En lifum samt ekki hvern dag í ótta og spennu. Verum glöð yfir lífinu. Verum glöð yfir unga fólkinu sem nú er að hefja nám í nýjum skóla og á lífið framundan. Biðjum fyrir þeim að Guð verndi þau á lífsveginum, að þau villist ekki af vegi og að úr þeirra hópi komi aldrei úlfur í sauðagæru.
Verum óhrædd, leyfum Guði að opna augu okkar og eyru fyrir því sem lífið hefur að geyma og tökumst á við lífið af einurð í trú, von og kærleika.
En hvað dreymir þessi ungu börn um? Þau unnu verkefni á námskeiðinu þar sem þau létu sig dreyma um framtíðina. Þau skiluðu draumum sínum á ómerktu blaði og blöðin þeirra með draumunum hafa verið borin á altarið, sveipuð borða í íslensku fánalitunum. Og við lögðumst í draumaráðningar og í þeirri rýni kom í ljós að í hópi fermingarbarna eru 12 leikarar, 8 söngvarar, 2 listamenn, 2 leikstjórar og 1 raddleikari.Þar eru 6 læknar, 3 snyrtifræðingar og 3 tannlæknar; 15 atvinnumenn í knattspyrnu, 3 í körfu, 7 handboltamenn og 2 parkour snillingar.
Þar eru 3 kokkar, 4 rithöfundar, 2 hönnuðir, 4 ljósmyndarar, 2 tölvuleikjahönnuðir, 2 kennarar, 3 vilja vinna með dýrum, 5 vilja verða lögfræðingar, 2 verkfræðingar, 3 arkitektar.
En svo eru þessir bara í einu eintaki: bifvélavirki, bóndi efnafræðingur, nuddari, hlaupari, fallhlífastökkvari, dansari, viðskiptafræðingur, flugmaður, stærðfræðingur, sálfræðingur, trommari, teiknari, geimfari, munkur.
Og svo er einn verðandi prestur í hópnum – og einn forseti!
Þið skuluð skoða og skima hópinn í kaffinu á eftir!
Margir vilja eignast góða fjölskyldu, hjálpa fólki, vona að sér vegni vel í lífinu, verði góðar manneskjur, ferðist vítt og breytt. Eitt barn vill hitta frægan mann, einn vill verða frjáls og annar labba um Kínamúrinn.
[Innskot um verkefni fermingarbarna - sjá hljóðupptöku: Hvernig fær trúarljósið best skinið þ.e. hvernig sýnum við trúna í verki? Með því að biðja. Með því að sækja kirkju etc. Nei . . . ]
Draumar, fallegir draumar og góðir. Hér er draumórafólk á ferð – eins og Jesús var. Hann lét sig dreyma um betri heim. Hann átt fegurstu drauma sem mannkyn hefur heyrt og þess vegna viljum við fylgja honum. Látum ekki þau sem villast af leið verða til þess að heft för okkar sjálfra á vegi drauma og dýrðar. Tökum á vandamálum líðandi stundar, sýnum ábygð en hlaupumst ekki frá borði þegar gefur á bátinn. Jesús er um borð í örkinni, í bátnum, í kirkjunni, í kirkjuskipinu.
Við erum örugg hjá honum svo fremi að þau sem ábyrgð bera hafi eyru og augu opin.
Lifum í anda þeirra gilda sem hann kenndi, lifum boðorð Guðs á jákvæðum nótum og í anda þessarar framsetningar:
1. Gerðu upp við hjáguðina og lifðu fyrir og í kærleika Guðs. 2. Ákallaðu nafn Guðs af fúsleika og biddu hann að gefa þér mátt til góðra verka. 3. Hvíldu þig reglulega og gefðu þér tíma til andlegrar uppbyggingar. 4. Auðsýndu foreldrum þínum virðingu og kærleika og láttu börnin þín njóta þess sama. 5. Verndaðu lífið og hlúðu að því í öllum myndum. 6. Vertu maka þínum trú/r. 7. Berðu virðingu fyrir eigum og réttindum annarra. 8. Vertu áreiðanleg/ur í hugsunum, orðum og verkum. Efndu loforð og baktalaðu engan. 9. Berstu gegn öfund og löngun til að eignast alla hluti. 10. Samfagnaðu fólki þegar því vegna vel í lífinu.
Til hamingju með lífið! Til hamingju með að hafa lokið þessum áfanga námskeiðsins, kæru, væntanlegu fermingarbörn og foreldrar. Framundan er vetrarstarf kirkjunnar með tilboðum handa öllum aldurshópum. Fylgjum Honum sem var og er Góði hirðirinn, eini og sanni.
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.
Takið postullegri blessun:
„Guð vonarinnar fylli yður öllum fögnuði og friði í trúnni svo að þér séuð auðug að voninni í krafti heilags anda.“
- – - Boðorðin 10 í framsetningu sænska biskupsins Lennarts Koskinen.
Textar dagsins og aðrar upplýsingar um 12. sd. eftir þrenningarhátíð er að finna á þessari slóð: http://www.kirkjan.is/truin/kirkjuarid/a/trinitatis-12