Mig langar ekki að tilheyra neinni annari þjóð en þeirri Íslensku. Ekki af því að hún sé betri en aðrar þjóðir. Hún er það ekki frekar en fjölskyldan mín sem er ekki hótinu skárri en aðrar fjölskyldur. Þetta snýst um tilfinninguna fyrir því að tilheyra. Vera hluti af einhverju. Eiga samhengi sem var áður en maður kom og verður eftir að maður er farinn.
Tölum um þjóðarvitund. Einhver skýrasta tjáning þjóðarvitundar sem við þekkjum í dag er sennilega stemmningin sem skapast á landsleikjum. Skemmst er að minnast leiksins við Tékka nú á dögunum þar sem okkar menn sigruðu svo glæsilega og allt ætlaði að rifna af gleði. Allar deilur voru lagðar til hliðar, ekkert skyggði á þegar þjóðin fagnaði sigri. Og við vorum ekki bara að fagna sigri í kappleik, við vorum líka að fagna því að vera komin lifandi í gegnum erfiðan vetur. Enda var hrífandi stund við upphaf leiksins þegar stúlknakór flutti þjóðsönginn og allur skarinn söng svo undirtók í stúkunni. Leikurinn var ekki byrjaður en við vorum byrjuð að fagna lífinu, landinu og björtu sumrinu. „Ó, Guð vors lands, ó lands vors Guð...“
Það kvað við annan tón á öðrum velli fáum dögum síðar er sami söngur var enn fluttur af kvennakór. Þá var trommað taktfast, flautað, púað og blásið í lúðra ofan í söng og talað mál.
Sama þjóð, sami söngur en sitthvor stemmningin.
Á Laugardalsvelli fáum dögum fyrr var hliðstæður fjöldi saman kominn og það var eining og samstaða og þjóðin fylgdist með í fjölmiðlum. Á Austurvelli ríkti hins vegar aðgreining milli tveggja hópa; þeirra sem ætluðu að fagna þjóðhátíðardeginum með söng og ræðum og hinna sem mótmæltu. Í stað einingar og samstöðu ríkti andrúm aðgreiningar og flokkadrátta og bylgjurnar gengu út í þjóðlífið í gegnum fjölmiðlana og ganga enn.
- Við og hin, þau þessi þarna og við hér.
Það er nú eiginlega alveg magnað að guðspjall þessa sunnudags skuli vera sagan um bræðurna tvo, týnda soninn og hinn sem hlýddi. Hér fáum við upp í hendurnar á okkur magnaðan túlkunarramma til að skoða atburðarás liðinna daga. Og mér finnst svolítið róandi að geta gert það og séð um leið að ekkert er nýtt undir sólu.
Yngri bróðirinn var í óráðssíunni, hinn var stilltur og viðeigandi.
Snilldin við söguna er sú að við getum öll svo hæglega sett okkur í beggja spor um leið og niðurstaðan er sú að báðir taka rangan pól í hæðina. Yngri sonurinn var breiskur, sóaði arfinum í sukk og svínarí og kallaði skömm yfir fjölskylduna. Hinn var í beiskjunni og hugsaði um það fyrst og fremst að vera tilhlýðilegur og til fyrirmyndar. Og við getum ímyndað okkur að þeir hafi ekki haft svo margt um að tala hvor við annan. Bitið í þessu öllu er svo það að faðirinn hafnar viðhorfi beggja á einni og aðeins einni forsendu. Ég ætla að koma að því síðar. - Tölum fyrst um allan bömmerinn. Lítum á sakarefnin í sögunni:
Yngri sonurinn hafði krafist þess að fá arfinn sinn útgreiddan fyrir fram. Það var ósmekklegt. Hann hafði yfirgefið býlið og verkefni fjölskyldunnar, sóað öllu í tómu fári og stóð nú uppi vegalaus. Ekkert bú þolir að vera rænt innan frá og skilið eftir í fjárþurrð. Það blasir við að sjálftaka þessa unga manns hefur skilið fjölda fólks eftir í slæmri stöðu og valdið mikilli þjáningu og gremju, og nú var hann mættur á tröppurnar í eigin persónu! Hvað gat hann viljað? Það er ekki laust við að lesandanum létti að heyra unga manninn bera upp erindi sitt, því það sýnir að hann er ekki alveg siðlaus þótt hann hafi hagað sér gerræðislega og af fádæma sjálflægni: "Faðir ég hef syndgað gegn himninum og þér og er ekki framar verður þess að heita sonur þinn. Leyf mér að vera eins og einn af daglaunamönnum þínum." Gott og vel. Þetta mætti skoða. En það breytir ekki því að skaðinn er skeður. Féð er glatað og virðing hússins hefur dvínað. Hrunið er jafn mikil staðreynd hvernig sem samningar nást. Þannig er staðan á bæjarhlaðinu daginn sem sagan gerist. Einhvern veginn þarf þó að halda áfram, og það verður haldið áfram. En það er enginn trúnaður í boði. Hér hafa orðið svik sem ekki er hægt að horfa framhjá. Og fjarlægðin milli bræðranna er undirstrikuð með því að eldri bróðirinn er ekki einu sinni viðstaddur þegar hinn mætir. Hann er á akrinum að vinna. Hann er að bjarga því sem bjargað verður. Einhver verður að láta hjólin snúast. Það geta ekki allir verið í sukkinu.
Á Austurvelli mættust tveir hópar þann 17. júní sl. og á milli þeirra var gjá ekki ósvipuð þeirri sem lýst er í dæmisögu Jesú. Báðir höfðu hóparnir sitthvað til síns máls og þeir voru fulltrúar fylkinga sem ég held að séu staðreynd í íslensku samfélagi í dag. Fylkinga sem eiga það sameiginlegt að líta hvor á aðra úr skilningsvana fjarlægð.
Annars vegar standa þau sem horfa með kvíða til framtíðar fyrir hönd barnanna sinna og finna ugginn vaxa í brjósti sínu í beinu hlutfalli við rísandi bankagróðann. 'Hvernig eiga börnin mín að eignast húsnæði til að búa í? Hvar er skjól fyrir peningavaldinu sem lánar og hirðir allt margfallt til baka?' Í þeim hópi sem þarna flautar og trommar er líka fólk, þótt það sé færra, sem horfir á náttúruna og þjáist vegna fyrirhugaðs ágangs á land og vistkerfi. Þetta er hópurinn sem óttast andlistlaust peningavaldið og finnst þessi hin sem sitja þarna undir styttu Jóns Sigurðssonar og eru að fara að hlusta á þjóðsönginn og hátíðarræðuna vera á valdi þess.
En fólkið sem situr undir fánum skátanna sér ekki sjálft sig þessum augum. Það trúir á lýðræðið og réttinn í samfélaginu. Það veit að margt má betur fara, vill ekki að fólk skorti húsnæði eða að ranglæti og yfirgangur ríki. Það trúir bara ekki á svona aðferðir, skilur ekki þennan æsing og það sem í þeirra augum er virðingarleysi við leikreglur lýðræðisins og bein ávísun á stjórnleysi sem leiða muni til upplausnar og harðstjórnar eins og sagan sýnir. Þetta flautandi og púandi fólk er í þeirra augum á valdi niðurrifs- og óreiðuafla.
Báðir hópar, þau sem tromma og flauta og hin sem bíða þess að kórinn flytji þjóðsönginn, sjá sig sem fulltrúa hófsemdar og reglu.
Hin þessi þarna eru týnd. Þau eru á valdi annarlegra hagsmunaafla og ekki fyllilega með sjálfum sér. Þess vegna getum við ekki treyst. Að áliti beggja hópa eru öflin sem við er að eiga hagsmunatengd en andlitslaus. Það er ekki við neinn að ræða því það eru engin rök bara hagmunir sem stangast á. Og í kraðakinu miðju stendur Jón Sigurðsson steiptur í eir líkt og hljóður vitnisburður um hina sístæðu þrætu sem aldrei hjaðnar.
Ég talaði um það áðan að faðirinn í dæmisögu Jesú hafni viðhorfi beggja sona sinna af einni og sömu ástæðu. Þau sem sitja undir fánum og hin sem standa og tromma líta hvert á annað sem týnd og tröllum gefin en sjá sig sjálf verandi fulltrúa góðrar reglu, hófsemdar og réttlætis. Samt er mikilvægt að skilja afdrif týnda sonarins í samskiptum við föðurinn því þegar hann ber fram sína auðmjúku bæn um að fá fæði og húsnæði í skiptum fyrir vinnuframlag en afsala sér barnaréttinum í ljósi eigin mistaka, þá hafnar faðirinn þeirri hugmynd algerlega, lætur færa hann í betri föt, gefur honum nýja skó og hring á fingur. „Þótt þú teljir þig ekki lengur tilheyra þá tilheyrir þú víst“, er hann að segja. „Innra með mér er pláss fyrir þig.“ Og þegar eldri sonurinn kemst að því að búið er að slátra alikálfinum og rigga upp veislu með hljóðfæraleik og dansi í tilefni af heimkomu ónytjungsins firtist hann við og vill ekki koma inn: [Ég er] búinn að þjóna þér öll þessi ár og hef aldrei breytt út af boðum þínum,“ mælir hann við föður sinn „og mér hefur þú aldrei gefið kiðling að ég gæti glatt mig með vinum mínum. 30En þegar hann kemur, þessi sonur þinn sem hefur sóað eigum þínum með skækjum, þá slátrar þú alikálfinum fyrir hann.
„Þessi sonur þinn“ segir sá eldri um þann yngri og með orðavalinu skynjum við hvernig beiskjugjáin er staðfest, ekki bara milli bræðranna heldur gagnvart föðurnum sjálfum. Snilld sagnameistarans frá Nasaret birtist í þessari undirliggjandi beiskju eldri sonarins sem í réttlátri, langþreyttri reiði sinni neitar að koma inn og vera með. Og hvað við skiljum hann öll. Íslenskt samfélag er undirlagt af þessari sömu tilfinningu. Við erum öll orðin beisk. Við höfum aldrei verið jafn beisk og núna, beiskjustuðullinn hefur náð alveg nýjum hæðum á þessu vori. Beiskjan flæðir á milli okkar. Hvernig skyldi ráðherrum landsins, forseta, biskupi og öðru forystufólki hafi liðið að kveldi 17. júní? Þau væru ekki mannleg ef hjarta þeirra hefur ekki verið fullt af vanmætti og beiskju. Hversu erfitt hlýtur það að vera að vakna að morgni og muna að maður er ráðherra á Íslandi?! Umkringdur endalausri gagnrýni hvað sem maður gerir og hvernig sem maður snýr sér. Og það er ný ísköld beiskja í verkfallsmálunum. Hótunin um að fara og yfirgefa land og lýð liggur í loftinu. Fagstéttir hóta að fara, fyrirtæki hóta að flytja sig annað. Beiskjan er orðin að nýjum gjaldmiðli í hagsmunaátökum okkar. Og er það ekki með þig eins og mig að þegar við erum beisk upplifum við okkur réttlát. Beiskja hjartans færir innri fró, skilgreinir mann sem réttlátan þolanda anspænis annarlegum gerendum.
“Þú ert alltaf hjá mér og allt mitt er þitt„ var svar föðurins. „en nú varð að halda hátíð og fagna því að hann bróðir þinn, sem var dauður, er lifnaður aftur, hann var týndur og er fundinn.“
Með orðum sínum endurskilgreinir faðirin báða aðila hvorn fyrir öðrum. Þú, eldri sonur, átt allt með mér. Og hvað yngri son minn varðar þá er hann bróðir þinn. Hann var vissulega týndur og tröllum gefinn, í þínum veruleika a.m.k., en nú er hann fundinn. Hann var e.t.v. dauður fyrir þér en núna er hann lifnaður við.
Muniði hvað það urðu mikil viðbrögð í þjóðfélaginu þegar Halldóra Geirhardsdóttir leikkona tók við grímuverðlaununum daginn fyrir þjóðhátíð og notaði tækifærið til að tala um barnaréttinn? Halldóra komst við þegar hún talaði um réttindi hvers barns til að eiga tækifæri til góðs lífs og ég held að flestir sem sátu við sjónvarpið eða hafa horft á myndskeiðið hafi verið við það að skæla. Hvers vegna? Vegna þess að það sem hún var að segja er heilagur sannleikur en við höfum bara svo takmarkaðan kjark til að umfaðma hann. Hvatning Halldóru er sú sama og hvatning föðurins í sögunni um týnda soninn. Hún er áskorun um það að við skilgreinum okkur öll sem systkin og gerum það í verki með því að vera samfélag sem horfir á sjálft sig í gegnum augu barnanna sem í því búa. Ekkert flóknara en það. Í stað þess að við skilgreinum okkur sem hagsmunaaðila í keppni megum við tileinka okkur sjónarhorn foreldrisins sem sér börnin sín vaxa og dafna við sama borð undir sama þaki. Í stað þess að góna skilningsvana hvert á annað í beiskju eigum við val um að ræða saman sem ólík systkin.
Ég held að við skynjum öll vissa hættu sem kristallaðist fyrir augum okkar á Austurvelli þann 17. júní sl. Og þessi hætta sem við skynjum hefur kallað fram sterk tilfinningaviðbrögð með þjóðinni. Hver er hættan? Það er ekki hættulegt að vera ósammála. Það er ekki hættulegt að berja trommur eða blása í flautur eða sitja undir þjóðsöng og fánum. Það er ekki einu sinni hættulegt þótt allt þetta gerist á sama torgi á sama tíma. Hættan sem við skynjum innra með okkur er sú sama og Halldóra Geirhardsdóttir gerði að umtalsefni í ræðu sinni. Hún liggur í vangetu okkar til að gefa hvert öðru pláss innra með sjálfum okkur. „Við verðum að rétta úr okkur og ákveða hverskonar samfélag við viljum búa til“ mælti hún. Hættan sem við öll skynjum liggur í framandleikanum þegar við könnumst ekki lengur hvert við annað en finnst við sjálf vera réttlát í eigin beiskju. Þegar við sjáum ekkert nema óreiðuna og ábyrgðarleysið í fari hinna og skilgreinum þau þessi hin sem áhættuhóp en okkur verandi hófsöm og ábyrg.