3.sd.e.þrett. - B röð 2023 –
Ísafjarðarkirkja
Trúin og mustarðskornið
Lexía: Hós 2.20-25
Á þeim degi geri ég sáttmála fyrir Ísraelsmenn
við dýr merkurinnar og fugla himinsins og skriðdýr
jarðarinnar
og eyði boga, sverði og stríði úr landinu
og læt þá búa óhulta.
Ég festi þig mér um alla framtíð,
ég festi þig mér í réttlæti, réttvísi, kærleika og
miskunnsemi,
ég festi þig mér í tryggð,
og þú munt þekkja Drottin.
Á þeim degi mun ég bænheyra, segir Drottinn,
ég mun bænheyra himininn
og hann mun bænheyra jörðina
og jörðin mun bænheyra kornið,
vínið og olíuna,
og þau munu bænheyra Jesreel
og mín vegna mun ég sá henni í landið.
Ég mun sýna Miskunnarvana miskunn
og segja við Ekki-lýð-minn: „Þú ert lýður minn,“
og hann mun segja: „Þú ert Guð minn.“
Pistill: Heb 11.1-3, 6
Trúin er fullvissa um það sem menn vona, sannfæring um þá
hluti sem eigi er auðið að sjá. Fyrir
trú hlutu mennirnir fyrr á tíðum velþóknun Guðs. Fyrir trú skiljum við að Guð skapaði heimana
með orði sínu og að hið sýnilega varð til af hinu ósýnilega. Ógerlegt er að þóknast Guði án trúar því að
sá sem vill nálgast Guð verður að trúa því að hann sé til og að hann umbuni
þeim er leita hans.
Guðspjall: Lúk 17.5-10
Postularnir
sögðu við Drottin: „Auk oss trú!“
En
Drottinn sagði: „Ef þér hefðuð trú eins og mustarðskorn gætuð þér sagt við
mórberjatré þetta: Ríf þig upp með rótum og fest rætur í sjónum, og það mundi
hlýða yður.
Hafi
einhver yðar þjón, er plægir eða hirðir fénað, segir hann þá við hann þegar
hann kemur inn af akri: Kom þegar og set þig til borðs? Segir hann ekki fremur
við hann: Bú þú mér kvöldverð, tak þig til og þjóna mér meðan ég et og drekk,
síðan getur þú etið og drukkið. Og er hann þakklátur þjóni sínum fyrir að gera
það sem boðið var? Eins skuluð þér segja, þá er þér hafið gert allt sem yður
var boðið: Ónýtir þjónar erum vér. Vér höfum gert það eitt sem oss bar að
gera.“
Bæn á undan predikun:
Hallelúja! Lofið Guð í helgidómi
hans! Kæri Guð,
við þökkum fyrir nýja sálmabók. Við
lofum þig og tilbiðjum með því að syngja.
Gamlir sálmar, speki kynslóðanna, nýir sálmar, vonir samtíðarinnar, sálmarnir
endurspegla hver við erum og hvað það er að vera manneskja. Hallelúja!
Lofið Guð í helgidómi hans! Amen.
I.
Náð sé með yður og friður frá
Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.
Amen.
Ég
heyri fólk stundum segja eitthvað á þessa leið:
Ég er nú ekki mjög trúaður. Eða þá að fólk skellir í góm og segir: Ja, ég veit
það ekki, jú, kannski! Trú fólks er eins og mustarðskorn, sem
er hverju sáðkorni smærra. Sjáið, hér er
ég með birkifræ. Þetta virðist vera
algjört hismi. Samt getur vaxið upp af
þessu hismi birkitré, sem er miklu stærra en ég. Og þannig er það með trúna; hún er miklu
stærri en við höldum.
Kristin
trú breytti heiminum. Þetta segja
hatrömmustu andstæðingar kristinnar trúar.
Friedrich Nietzche, sem ritaði merkar bækur undir lok 19. aldar, var
einn þekktasti gagnrýnandi kristinnar trúar.
Hann var mikill aðdánandi sígildrar menningar Forn-Grikklands. Og Nietzche sá að kristnin hefði raunverulega
breytt hugsunarhætti fornaldar. Í sað
þess að upphefja karlmennsku kappans, sem ræður sjálfur sínum gjörðum þá hefði fórnarlambið,
sem deyr á krossi, verið upphafið. Nietzche
gagnrýndi kristnina fyrir Slvaen Moral,
þrælslund, þrælsótta. Kristnir menn væru hjörð aumingja. Þeir lofuðu það, sem þeir sætu uppi með. En það, sem menn raunverulega grirntust eins
og auð, völd og kynlíf hefðu þeir úthrópað sem synd og eitthvað slæmt. Kristnir menn blekktu sig til að sætta sig
við það að hafa “hálf-tómt glas” í
lífinu. Kristni væri afneitun. Kristnir menn boðuðu fyrirgefningu vegna þess
að þeir væru of veikir til að hefna sín.
Nietzche var hvað þekktastur fyrir kenningar sínar um ofurmennið, das Ubermensch, sem væri óbundið af
smáborgaralegri skilgreiningu góðs og ills, - kenning, sem þýsku nasistarnir
lifðu eftir, kenning um rétt hins sterka til að drottna yfir þeim, sem veikari
eru.
Ein
þekktasta bók, sem skrifuð hefur verið um ris og fall Rómverska heimsveldisins,
var rituð af sagnfræðingnum Edward Gibbon, sem fæddur var 1737 en dó 1794. The History of
the Decline and Fall of the Roman Empire, þetta mikla sagnfræðirit
var gefið út í sex bindum á árunum 1776 til 1788; vel skrifaðar bækur með ríkum
tilvísunum í frumheimildir. En það, sem
slær mann við lestur textans er mikil kaldhæðni, irónía höfundarins og eindregin
gagnrýni á öll trúarbrögð. Gibbon taldi
að kristnin hefði eyðilagt Rómarveldi, breytt hugsun og trú Rómverjanna og
stuðlað að hnignun ríkisins og falli. Gibbon
hélt því til dæmis fram að besti tíminn til að vera uppi á í mannkynssögunni hefði
verið tími hinna fimm góðu rómversku keisara; þeirra Nerva, Trjanusar,
Hadrianusr, Antoniusar og Markúsar Árelíusar.
Þetta var tímbilið frá árinu 96 til 180.
Gibbon áleit að þá hefði ríkt svo mikið frjálslindi í heiminum, en það
féll vel að hans eigin skoðunum.
Það
er undarlegt að sjá sagnfræðing skrifa svona.
Rómarveldi stóð vörð um eignarrétt hinna ríku en hugmyndir um rétt
einstaklinga, mannréttindi og slíkt var þeim algjörlega framandi. Þrælahald þótt sjálfsagt. Rómarveldi notaði helminginn af tekjum sínum
til hermála, það fór með hernaði á hendur nágrannaþjóðum sínum, rændi þar og
ruplaði og hreppti menn, konur og börn í þrældóm. Var þetta dýrðartími mannkyns? Virkilega!
Svona
hafa andstæðingar kristni talað og skrifað um trúna á Jesú Krist og hvaða áhrif
hún hafi haft á heiminn. Og það er rétt
hjá þeim að áhrif kristni á heiminn hafa verið mikil. Kristin kirkja hefur í gegnum aldirnar verið
á móti styrjöldum. Og kristni hefur
staðið vörð um hag lítilmagnans. Allt það, sem þér gerið einum minna minnstu bræðra, það
hafið þið gert mér, segir
Kristur. Hugmyndin um að rétta fátækum
hjálparhönd er kristin hugmynd í alla staði.
Sú kenning að allir menn séu bræður og systur er kristin. Að við séum öll afkomendur Adams og Evu, öll
sköpuð af Guði, öll Guðs börn, þetta stendur í Biblíunni. Og þessi trú hefur mótað menningu aldanna og
hugsunarhátt. Barátta nútímans fyrir
réttindum minnihlutahópa væri líklega ekki til staðar ef ekki hafði komið fram
á svið sögunnar kristin trú, sem breytti hugsunarhætti Evrópubúa og síðar
heimsins alls.
Í fornöld á
jörðu var frækorni sáð,
það fæstum var
kunnugt en sums staðar smáð,
það frækorn var
Guðs ríki', í fyrstunni smátt
en frjóvgaðist
óðum og þroskaðist brátt.
Og frækornið
smáa varð feiknarstórt tré,
þar fá mátti
lífsins í stormunum hlé,
það breiddi sitt
lim yfir lönd, yfir höf,
á lifenda
bústað, á dáinna gröf.
II.
Trúin
er fullvissa um það sem menn vona, sannfæring um þá hluti sem eigi er auðið að
sjá.
Trúin
er svolítið eins og ferðalag. Hún er
eins og lítið frækorn, sem við berum í hjarta okkar í gegnum lífið. Og á leið okkar gegnum lífið þá tökumst við á
við ýmsar trúarlegar spurningar. Hvað er mér ætlað í þessu lífi? Get ég treyst því að Guð sé til? Get ég treyst því, sem stendur í Biblíunni? Í lífi okkar takast á trú og efi.
Fyrsta
skrefið á vegi trúarinnar er að viðurkenna Guð.
Það gerum við þegar við biðjum til Guðs, hvort sem það er nú Faðir vorið eða önnur bæn. Og við viðkennum Guð þegar við lofum hann með
sálmasöng, íhugun og annarri tilbeiðslu eins og það að ganga til altaris og
taka þátt í helgihaldi safnaðarins. Og
af öllu þessi atferli verður til traust, traust á því að Guð sé til og hann
vilji með mig hafa. Traustið er
mikilvægast þáttur trúarinnar.
Ég
las nýlega vitnisburð konu, sem er doktor í hjúkrunarfræðum, Ethnu Parker. Hún hafði orðið fyrir hræðilegri reynslu í
æsku. Og það, sem hjálpaði henni að
vinna úr þessari reynslu sinni var sú trúarlega sannfæring að Guð elskaði hana. Hún fór að treysta því að baki veröldinni
stæði Guð, sem er kærleikur. Og þessi
trú hjálpaði henni ekki aðeins til að takast við sárar tilfinningar og erfiðar minningar
heldur ekki síður að geta treyst öðru fólkið, geta hlegið og notið lífsins.
Trúin
er í eðli sínu traust, traust á Guði, tiltrú á náungann og lífið. Ég held að ekkert gefi manni jafn mikla
fótfestu í lífinu og það að geta treyst á eitthvað.
Forfeður
okkar, sem reru á árabátum út að Djúpið til að fiska, fóru með sjóferðabæn áður
en þeir lögðust á árarnar og réru út á miðin.
Þeir gerðu það af því að það veitti þeim öryggi og styrk.
Í
desember 2021 var athyglisvert viðtal í sjónvarpi Rúv við Björn Hjálmarsson
geðlækni á Barna- og unglinga-geðdeildinni.
Þar var verið að ræða við hann um ástæður aukinnar notkunar þunglyndislyfja
og kvíðastillandi lyfja hjá ungu fólki á Íslandi. Eina af ástæðum þessarar óheillaþróunar taldi
Björn geðlæknir vera þá að trúrækni þjóðarinnar færi minnkandi. „Sorgin er að verða meira og meira sjúkdómsvædd. Þeir sem
eru sanntrúaðir, þeir geta sótt svo mikinn mátt í trúna. Trúarheimspeki, það að
geta sótt styrk í æðri mátt, trúin á hið góða, hið fagra og hið fullkomna er
mjög góður styrkur,“ sagði Björn.
Trúin
hjálpar okkur til að skynja veruleikann og takast á við lífið. Trúin er ákveðið sjónarhorn á tilveruna og hún
hjálpar okkur að móta okkar daglega líf.
Trúin
fylgir okkur lífið á enda. Trúin er í
hjarta og huga okkar og hún tengir okkur himni Guðs, setur okkur í hið stóra
samhengi tilverunnar, samhengi hins stóra hjarta Guðs sem slær af ást til allra
manna.
Það
er gott að trúa. Gott að vita það að
maður þarf ekki að vera bestur, gáfaðastur eða sætastur; bara vera maður
sjálfur. Það er gott að vita að líf
manns allt sé í hendi og umsjá Guðs.
Trúin
er fullvissa um það sem menn vona, sannfæring um þá hluti sem eigi er auðið að
sjá.
Dýrð sé Guði, föður, syni
og heilögum anda. Svo sem var í upphafi,
er og verður um aldir alda. Amen.
Postulleg blessun:
Friður Guðs, sem er æðri
öllum skilningi, varðveiti hjörtu yðar og hugsanir í Kristi Jesú, Drottni vorum
og frelsara. Amen.
Bænir
Kæri Guð, blessaðu
fjölskyldur okkar, bæði þau, sem við höfum enn hjá okkur og eins hin, sem við geymum
í minningu hugans. Þökk fyrir móðurina,
sem gaf okkur líf sér við brjóst. Þökk
fyrir föðurinn, sem mettaði okkur með iðju handa sinna. Hjálpaðu okkur Drottinn til að rækta upp gott
fjölskyldulíf, líf sem einkennist af kærleika, væntumþykju, gleði og hamingju. Fyrir Jesú Krist, Drottin vorn.
Hjálpaðu okkur Drottinn að
elska náungann eins og okkur sjálf. Lát
okkur vera gestrisin og örlát. Kenndu
okkur að vera samhuga, gleðjast með glöðum, gráta með þeim, sem gráta. Gef að vér gjöldum engum illt fyrir illt
heldur hjálpum hvert öðru að bera byrðar lífsins. Gef okkur náð til að ástunda hið góða og
halda frið við alla menn. Hjálpa okkur
að sigra illt með góðu. Fyrir Jesú
Krist, Drottin vorn.
Heilagur andi, við biðjum
fyrir unglingunum okkar. Hjálpa okkur,
sem eldri erum, að minnast gleði og ævintýra æskunnar, freistinga hennar og
rauna, og styrk okkur til að styðja unga fólkið með bænum okkar, fordæmi og
umhyggju. Hjálpaðu þeim ungu að meðtaka
kærleika Krists, lifa í þeim kærleika full af von og í trausti á framtíðina. Fyrir Jesú Krist, Drottin vorn.