Túlkun og trúarhefð
Málefni trúarinnar eru ofarlega á baugi um þessar mundir í þjóðfélaginu og það er tekist á um grundvallaratriði: Eiga hommar og lesbíur að geta gengið í heilagt hjónaband rétt eins og gagnkynhneigðir, eða er kristinn sköpunarskilningur og kristinn hjónabandsskilningur þess eðlis, að það getur með engu móti orðið, því slíkt mundi fela í sér rökvillu – hugsun sem undir engum kringumstæðum gæti gengið upp?
Í prýðilegri grein um “Hjónaband – samvist og sambúð”, sem nýlega birtist í miðopnu Morgunblaðsins, skrifar dr. Einar Sigurbjörnsson, prófessor í guðfræði við Háskóla Íslands, að út frá vitnisburði sköpunarsögunnar, hafi kristnir menn lesið, að sérhver maður sé skapaður í Guðs mynd, að skipting mannlífsins í karllegt og kvenlegt sé hluti þess að vera skapaður í Guðs mynd, og loks að samlíf karls og konu sé eðlilegt líf skapaðrar tilveru og ekki afleiðing syndafallsins. Í framhaldi þessa bendir prófessorinn svo á, að kristin trú hafi í samræmi við þetta litið samskipti kynjanna jákvæðum augum, enda sé “samband karls og konu sérstakt sinnar tegundar og byggt inn í sjálft sköpunarferlið,” eins og hann kemst að orði.
Kirkjan hefur hins vegar í gegnum aldirnar litið neikvætt á mök fólks af sama kyni, og í því sambandi beitt fyrir sig bæði biblíulegum og náttúrlegum rökum. Þeim ritningarstöðum, sem fordæma að karlar leggist með körlum og konur með konum hefur lengst af verið beint gegn fólki er hneigist að einstaklingum sama kyns, og margir kristnir menn í nútímanum túlka þá ritningarstaði þannig, að þar sé verið að fordæma samkynhneigð. Aðrir vilja aftur á móti túlka þessa ritningarstaði með öðrum hætti og telja að þeir standi í ákveðnu menningarlegu og trúarlegu samhengi, sem feli í sér gagnrýni á kynlífsathafnir í tengslum við heiðna guðsdýrkun, og að það beri að skilja umrædda ritningarstaði í ljósi þess. Röksemdarfærsla þeirra er því sú, að umræddir ritningarstaðir fjalli ekki um eiginlega samkynhneigð, heldur fjalli þeir um fordæmingu á heiðnum átrúnaði og heiðinni guðsdýrkun.
Til viðbótar vísa menn svo til niðurstaðna nútímarannsókna sem benda til þess að sumu fólki sé samkynhneigð fullkomlega eðlileg og vilja að komið sé til móts við það fólk sem svo hagar til um.
Þarna er með öðrum orðum tekist á innan kristninnar um túlkun og skilning á ritningunni, auk þess sem tekist er á um hina kristnu trúarhefð.
Náðarfaðmur kirkjunnar
Fyrir kirkjuna er málið því langt frá því að vera einfalt og eins og allir vita stöndum við frammi fyrir því að komin er fram mjög ákveðin krafa um það, að hommar og lesbíur fái að ganga í hjónaband og fái að þiggja vígslu á vegum kirkjunnar.
Eins og ég skil þessa kröfu þá byggist hún á því að hinir samkynhneigðu fái réttindi til fulls á við gagnkynhneigða til að ættleiða börn og til að undirgangast tæknifrjóvganir, en fáist þau réttindi viðurkennd þeim til handa, þá líta þeir svo á, að þeir standi að öllu leyti jafnfætist gagnkynhneigðum hvað öll réttindi varðar, og er þá það eitt eftir, að samfélagið og kirkjan undirstriki þessa stöðu þeirra með því að heimila þeim að ganga í hjónaband. Mörgum þeim, sem hafa tjáð sig um þetta mál finnst þessi krafa þeirra bera vott um óbilgirni, og fyrst þegar ég heyrði hana, þá var ég sjálfur alveg sama sinnis.
Ég á mér nefnilega minningu um það frá prestastefnunni á Akureyri árið 1997, fyrir sem sagt hartnær 10 árum síðan, þegar umræðan um hina staðfestu samvist stóð sem hæst á meðal okkar prestanna, að sr. Auður Eir, fyrsti kvenprestur okkar Íslendinga, fór í ræðustól og talaði fyrir því sjónarmiði að kirkjan ætti að stíga skrefið til fulls til móts við kröfur homma og lesbía um að fá að ganga í heilagt hjónaband.
Ég man hvað mér þótti þessi krafa fráleit á þessum tíma, og fannst hún í raun og veru fela í sér rökvillu. Hjónaband hlyti alltaf að vera stofnun sem samkvæmt skilgreiningu gæti einungis náð til sambands karls og konu.
Með tímanum hefur þessi afstaða mín hins vegar breyst, og í dag er ég þeirrar skoðunar að hommar og lesbíur ættu að hafa sömu réttindi og við sem gagnkynhneigð erum, og að kirkjan ætti að opna þeim náðarfaðm sinn og gefa saman í heilagt hjónaband, en ljóst er að hjónabandið kallar okkur til ábyrgðar.
Hjónabandið – tímamót í sögu vesturlanda
Eitt af því sem hinir samkynhneigðu hafa verið gagnrýndir fyrir er hve fjöllyndi sé algengt þeirra á meðal og hve sambönd þeirra séu óstöðug og stutt. Að sama skapi er svo tíðni vissra smitsjúkdóma há á meðal þeirra og lífaldur nokkuð styttur vegna áhættuhegðunar. Kemur þetta m.a. fram í grein Guðmundar Pálssonar, sérfræðings í heimilislækningum, sem hann ritaði í Mbl. fyrir skömmu (8. feb.). Hann fer síðan nokkrum orðum um það, hvernig hjónabandið hefur markað hinni óheftu kynhvöt farveg innan hinnar gyðing-kristnu arfleifðar, og segir síðan, að “sá farvegur hafi markað tímamót í sögu vesturlanda og kannski haft meiri áhrif á menningu okkar en almennt sé viðurkennt.” Þarna held ég að höfundurinn hitti naglann á höfuðið, og einmitt vegna þess ítreka ég þá skoðun mína, að kirkjan ætti að opna náðarfaðm sinn fyrir hommum og lesbíum, og heimila þeim að undirgangast hjónavígslu innan sinna veggja. Hefði það eflaust þau áhrif að draga mundi úr áhættuhegðun í þeirra röðum og verða þeim hvatning til að taka ábyrgð á lífi sínu undir merkjum Jesú Krists. Mundi það ekki síður marka tímamót í lífi þeirra en annarra.
Sköpunin aldrei án átaka
Heimilislæknirinn spyr svo í grein sinni hvort “kirkjan í kjarna sínum verði ekki að geta staðið óhögguð, óháð sveiflum tímans og tískustraumum?” og er því til að svara, að það verður kirkjan auðvitað að gera.
Spurningin gerir það hins vegar að verkum, að við sem kristin erum hljótum að spyrja okkur að því hver kjarni kirkjunnar sé. Er það ritningin, eru það kenningarnar, er það hefðin í heild, eða er það kannski Kristur sjálfur?
Og svarið er Kristur!
Kristur er grundvöllurinn.
Hann er sá Arkímedesarpunktur, sem við, sem hér erum í dag, viljum að líf okkar snúist um, en eins og við kannski munum þá sagði Arkímedes, sá fornfrægi gríski heimspekingur og eðlisfræðingur, eitthvað á þá leið, að ef einhversstaðar finndist fastur punktur í alheiminum, þá gæti hann fært jörðina úr stað.
Sá punktur fyrirfinnst hins vegar ekki, og því heldur jörðin áfram að dóla sér á þeirri braut, sem henni hefur frá upphafi verið gert að fylgja.
Kristur er hins vegar ekki undir neinu lögmáli heldur er hann uppfylling lögmálsins. Hann er okkar andlegi Arkímedesarpunktur, ef svo má að orði komast, og með boðskap hans að leiðarljósi, er okkur falið að halda áfram að elska og lifa, skapa og skilgreina. Með Krist að leiðarljósi í lífinu er okkur í rauninni ekkert ómögulegt, svo fremi við göngum fram í þeirri óeigingirni og umburðarlyndi sem kærleikurinn er.
Við skulum minnast þess að í sköpunarsögu fyrstu Mósebókar segir að maðurinn sé skapaður í Guðs mynd, en það eina sem við vitum um Guð, þegar þarna er komið sögu í sköpunarfrásögninni, er að Guð skapar. Eðli hans er m.ö.o. að skapa og þar með er manninum einnig ætlað að skapa.
Að skapa er hlutverk okkar og sköpunarferlið á sér ennþá stað.
Sköpuninni er því ekki lokið heldur er okkur ætlað að vera þátttakendur í henni – vinna að framgangi hennar – því “sköpunin þráir að Guðs börn verði opinber”. Jafnframt vitum við, að “öll sköpunin stynur líka og hefur fæðingarhríðir”, eins og postulinn kemst að orði í Rómverjabréfinu, “en ekki bara hún heldur og vér, sem höfum frumgróða andans, ...vér stynjum með sjálfum oss á meðan vér bíðum þess, að Guð gefi oss barnarétt og endurleysi líkami vora” (Rm 8).
Við sjáum á þessari tilvitnun í postulann að sköpunin er aldrei án átaka og hún er aldrei án þjáningar eins og við sjáum hvað best á krossdauða Krists. Við skulum hins vegar minnast þess, að það er í átökum og þjáningu, sem nýtt verður til. Það er í því þegar menn eru reiðubúnir til að gefa allt sem þeir eiga, til að standa fyrir málstað, sannfæringu og hugsjón, sem við sjáum glitta rétt sem snöggvast í þann nýja himinn og þá nýju jörð, sem okkur er gefið fyrirheit um að koma muni.
Jakobsglíma kirkjunnar
Já, það eru sannarlega átök í kirkjunni um þessar mundir og það er þjáning í kirkjunni, og þarf svo sem ekki að undra, því það er hlutverk kirkjunnar, sem líkama Krists á jörðu, að skapa og þjást.
Margir telja að þessi mál, sem nú eru uppi, og ég hef kosið að gera að umtalsefni hér í dag, verði erfið fyrir kirkjuna og séu reyndar orðin það nú þegar.
Mín skoðun er hins vegar sú, að það að fá tækifæri til að takast á við þessi mál, sé einmitt gott og þarft fyrir kirkjuna, því rétt eins og sérhver einstaklingur þroskast á því að takast á við vandamál og ganga í gegnum erfiðeika, þá gildir það einnig um kirkjuna.
Kirkjan er nefnilega í svipaðri stöðu og Jakob, sem við heyrðum lesið um í lexíu dagsins. Jakob var staðráðinn í því, að gefa ekki eftir í glímunni sem hann var lentur í, heldur hélt hann glímutakinu uns dagsbrún rann upp, og þegar sá er hann glímdi við vildi fá sig lausan, þá gaf Jakob það ekki eftir fyrr en honum hafði hlotnast fyrirheit um blessun. Á sama hátt þurfum við sem kirkja líka að glíma og takast á við vandamál samtímans – undan því megum við ekki víkja okkur - en við skulum passa okkur á því að sleppa ekki glímutökunum fyrr en við getum verið þess fullviss, að orðræðan og átökin um ágreiningsmálin verði okkur og samélagi okkar mannanna til blessunar.
Glímutök kanversku konunnar
Í guðspjalli dagsins sjáum við svo hvernig kanverska konan, sem ekki tilheyrði trúarsamfélagi Gyðinganna, eltir Jesú á röndum, og þó lærisveinarnir leitist við að stugga henni frá má það einu gilda því hún heldur áfram að ónáða hann. Meira að segja þau orð Jesú, að hann sé einungis kominn til að leita týndra sauða af Ísraelsætt, breyta engu fyrir hana og hún lætur ekki af að elta hann á röndum og grátbæna um miskunn.
Það má eiginlega segja, að kanverka konan sé hér í svipuðum sporunum og Jakob, sem í frásögninni hér áðan glímdi við bæði Guð og menn, og rétt eins og honum hlotnaðist sigur, þá hafði konan líka sigur í sinni glímu: “Kona, mikil er trú þín. Verði þér sem þú villt,” segir Jesús við hana að lokum.
Það er hægt að líta á kanversku konuna í þessum guðspjallstexta sem nokkurs konar persónugerving hinna heiðnu, þ.e. þeirra sem á þeim tíma, sem guðspjallið er ritað, tilheyrðu ekki átrúnaði Gyðinganna.
Með heimfærslu textans til nútímans má hins vegar spyrja sig að því hvort konan geti ekki einnig hæglega staðið sem persónugerfingur hinna fyrirlitnu, útskúfuðu og jaðarsettu en sem á öllum tímum hafa þráð að vera taldir gildir þegnar sérhvers samfélags. Mætti í því samhengi t.d. nefna útlendinga, þræla, blökkumenn og konur.
Þeir sem í nútímanum finna sig hvað mest útskúfað af kirkjunni eru án efa hinir samkynhneigðu, en rétt eins og þrá kanversku konunnar í guðspjallinu stendur til Krists, stendur þrá þeirra einnig til þess að eiga samfélag við hann í kirkju hans, og jafnframt stendur þrá þeirra til þess að kærleikur þeirra og elska – og sem í raun og veru er undirstaða allrar sannrar sköpunar - verði viðurkennd og metin til jafns við kærleika og elsku annarra.
Við sjáum í guðspjallinu hvernig lærisveinarnir stugga við konunni og vilja hindra að hún komist til Jesú. Eflaust hefur það verið kærleikur þeirra, sem gerði það að verkum að þeir vildu vernda hann fyrir konunni, en vegna þess hversu staðföst konan var og trúföst, þá komst hún þangað sem hún ætlaði sér, og lausnarorðin sem henni voru gefin voru: “Mikil er trú þín. Verði þér sem þú vilt”
Við sjáum á þessu tilsvari að Kristur metur það mikils þegar fólk er reiðubúið til að, leita, biðja og knýja á, og leggja allt í sölurnar fyrir sannfæringu sína.
Jafnframt minnir þessi frásögn okkur á það, að kærleikur Krists er jafnan meiri en lærisveinanna og að kærleikur Krists er alltaf meiri en kærleikur okkar mannanna. Leitumst því við, að láta Krist, sem er kærleikurinn og uppfylling lögmálsins, ríkja í hjörtum okkar og verðum ekki til þess að nokkrum manni finnist hann ekki eiga heima í kirkju Krists. Amen!