Tímabilum eru jafnan gefin nöfn eftir að þau eru um garð gengin. Það voru upplýsingamenn og fulltrúar klassísku listastefnunnar sem komu með hugtakið ,,barokk" – og átti að lýsa þeirri ofskrúð sem skynsemishyggjufólki fannst einkenna það skeið, þótt enn síðar ætti fólk eftir að kunna að meta snilldina. Bach og Caravaggio yfirgáfu þessa jarðvist, alls grunlausir um að þeir væru barokkmeistarar. Að sama skapi hefur ekkert þeirra sem þreyðu þorrann á tímabilinu 6. til 13. aldar litið svo á að þá væru myrkar miðaldir. Já og ef við förum enn aftar – hellenismi, Forn-Grikkland, járnöld, bronsöld og steinöld.
Þetta ætti að gefa forkólfum hverrar kynslóðar vott af auðmýkt. Við búum okkur jú undir það að verða vegin og metin með sama hætti og við gerum um liðna tíma og gert hefur verið í gegnum tíðina. Nú fæðast stefnurnar og hverfa á leifturhraða miðað við það sem áður var og nafngiftirnar lúta ekki lengur að öldum eða jafnvel árþúsundum eins og áður var heldur getum við á líftíma okkar kynnst og kvatt alls kyns hugmyndastraumum.
Má nokkuð predika?
Þessir þankar leituðu á mig þegar ég settist niður til að skrifa um bókina hans Steindórs J. Erlingssonar: Lífið er staður þar sem bannað er að lifa. Við höfðum spjallað saman í aðdraganda útgáfunnar. Hann kom hingað á Torgið í Neskirkju til að virða fyrir sér myndlistasýningar og var einkum heillaður af verkum Þrándar Þórarinssonar úr Hólavallagarði, þar sem listamaðurinn lífgaði þau við sem þar hvíldu. Í einni slíkri heimsókn sagði hann mér frá vinnuheiti bókarinnar sem hann var að vinna: Samtal mitt við predikarann.
Svo mótaður er ég af tíðaranda okkar daga – hvað sem hann verður nefndur síðar meir – að ég spurði hvort þetta væri nú söluvænlegur titill á bók. Má nokkuð predika? Þykir það ekki vera síðasta sort að setja sig í þær stellingar og þótt við eigum samtal við predikara þá grunaði mig að orðið eitt gæti helmingað lesendahópinn. Hvað er að því að predika? Jú, við erum rækilega brennd af því fólki sem þykist hafa höndlað sannleikann. Saga síðustu aldar kennir okkur að forðast allt slíkt. Predikun kallast í huga margra á við yfirráð, einræði, enda er predikun einræða en ekki samtal. Raunin varð líka sú að útgefandi bókarinnar lagði til að Steindór fyndi annan titil á bókina.
En það er vel til fundið hjá Steindóri að upphefja þetta samtal við predikarann sem í hans meðförum er kona. Sú túlkun kallast raunar á við frumtextann. Í vangaveltum mínum hafði ég meira að segja borið það undir sérfræðing í Gamla testamentinu, Jón Ásgeir Sigurvinsson, hvort yfirskrift ritsins, Predikarinn, væri rétt þýtt. Jón sagði svo vera og benti á að orðið væri þýðing á hinu hebreska Qohelet sem þýddi þá annað hvort: „sá sem safnar“ og þá líklegast „setningum, orðum“ eða „sá sem talar í söfnuði“. Þess vegna felur það í sér merkinguna „ræðumaður í söfnuði“ sem er þá predikari.
En ólíkt íslenskunni þá er hið hebreska orð í kvenkyni. Það gæti vísað til embættis eða til áhersluauka. Sé gripið niður í erlenda fræðimenn á sviði ritskýringar þá gefa þeir til kynna að þar sé einhver kvenleg tilvísun samkvæmt merkingunni: Það flækir vissulega málið að predikarinn kynnir sig í upphafi sem son Davíðs konungs og er þá nærtækt að líta til Salómons sem átti hina frægu Batsebu að móður. En þetta eru heilbrot þeirra sem rýna í textana. Af hverju er þessum karli gefinn kvenlegur titill? Er það vegna þess að rétt eins og konan elur börn, þá fæðir hann spekina? Eða er það vegna þess að í hinu forna Ísrael þá er spekin sjálf kvenkennd? Sennilegast er þó að orðið sé í kvenkyni án þess að það hafi einhverja feminíska skírskotun svona eins og „manneskja“ á íslensku.
Ég staldra við þetta vegna þess að í bók Steindórs er Predikarinn kona. Í fyrstu er það vitundin sem talar til Steindórs. Þá er hann að takast á við áfallastreitu í kjölfar hörmunganna í Eþíópíu. Hún hvetur hann til að horfast af hreinskilni á við þessa atburði alla. Og þá er predikarinn kynntur til leiks. Steindór gluggar í mikið yfirlitsrit um hugmyndir vestarlandabúa um framhaldslíf. „Þegar ég virði doðrantinn nú fyrir mér er ljóst að rót kaflans um Prédikarann, höfund samnefndrar bókar í Gamla testamentinu, risti dýpst. Það kom flatt upp á mig þegar ég las í bókinni að Prédikarinn hafni alfarið lífi eftir dauðann.“ (27)
Upp frá því fór Steindór að lesa Predikarann, sem fer að ávarpa hann: „„komdu fram“ segir ákveðin kvenleg raust, komdu strax fram.““ (28). Og umhverfið hefur breyst. Í stað skrifstofunnar með því sem í henni var birtist honum nú „hvít auðn.“ Hann hefur eyðimerkurgöngu sína í umhverfi þar sem er engin næring, ekkert vatn, engin form. Það er svo predikarinn sem leysir hann úr tóminu – lætur hann setjast aftur í stólinn og kynnir sig þá til sögunnar: „Ég er Prédikarinn höfundur samnefndarar bókar í Gamla testamentinu [...] sem ég veit að þér þykir vænt um.“
Og það er predikarinn – viskan sjálf – sem leiðir hann út úr ógöngunum og brýnir höfundinn til að horfast í augu við reynslu sína í Eþjópíu. Hún sé samofin fullvissunni um helvíti í lifanda lífi. Gegn þeirri örlagahugsun talar Predikarinn með því æðruleysi sem ristir sennilega dýpra en flest annað: „Allt er hégómi“ segir hann og yfir því vakir sú hugsun að amstur okkar og áhyggjur séu léttvæg í hinu stóra samhengi. „Um leið og ég sogast inn í undarlegt svarthol heyri ég Predikarann segja: Þegar þú hefur fengið nóg er lausnarorðið: Narcissus““ (40)
Þá býr Predikarinn höfundinn undir að gera upp þessi ár sín. Er þetta ekki sígilt stef í viðleitni til að leiða manneskju frá einum stað til annars? Svo aftur sé vísað til Gamla testamentisins þá segir í einum þekktasta sálmi Davíðs: „Þótt ég fari um dimman dal, óttast ég ekkert illt því þú ert með mér.“ Og að endingu liggur leiðin að vötnum þar sem skáldið má „næðis njóta“.
Æðruleysi predikarans talar inn í myrkur og sársauka höfundarins, bregst við þeirri hugmynd hans að tilveran hljóti að vera réttlát: „Þar sem rétturinn átti að vera, þar var ranglæti og þar sem réttlætið átti að vera þar var ranglæti“ Enginn huggar hina kúguðu segir hann.“ (53) Þetta er veruleikinn sem þessi kvenlega viska heldur að höfundum, og já bókin Predikarinn heyrir til hinum svo nefndu spekiritum Gamla testamentisins og er þar með Orðskviðunum að ógleymdri bókinni um raunamanninn Job, sem glímir við sömu angist og Steindór lýsir í riti sínu. Þar liggur leið okkar um sömu lendur hjá í bók Seindórs – við horfumst í augu við þá staðreynd að skelfilegir atburðir geta hent hið besta fólk. Það eykur aðeins á kvöl hinna þjáðu ef harmur þeirra er réttlættur með vísan til einhvers réttlætis sem þar hafi fengið fullnustu.
Steig niður til heljar
Og já, þær eru margar aðrar persónurnar sem mæta Steindóri í þessari bók. Andspænis honum stendur saksóknarinn með nagandi samviskubit sálarinnar. Fást, Goethes birtist þarna og kallar enn skýrar á þá hugsun að bók þess sé í raun lýsing á því sem við lýsum í trúarjátningunni með orðunum „steig niður til heljar“. Að baki býr sú hugsun að hjálpræðið hljóti að felast í því að horfast í augu við myrkrið, þrautina og óréttlætið. „Ekki hrópa lausnarorðið!“ segir Faust, nei, það er ekki kominn tími til þess enn. Hann er ekki búinn með ferðalagið sem hófst í Eþíópíu og leiddi hann eftir ýmsum leiðum og ranghölum þar sem Steindór hrópaði sannleikann á torgum eins og sannur predikari: Andmælti gróðavæðingu genamengisins, talaði máli trúlausra gagnvart þjóðkirkjunni, horfði upp á efnahagshrunið bjóða þunglyndinu og kvíðanum upp í trylltan dans (145). Og við fylgjumst með þeirri framvindu í gegnum dagbókarfærslur þessara ögurstunda.
Hann sökkti sér meðal annars niður í hugmyndir svo nefndra anti-natalista – þeirra sem halda því fram að það sé siðferðislega rangt að eignast börn, lífið sé slíkt böl sem hljóti að leiða til þjáninga og þrauta. Höfundurinn David Benatar fær þarna sitt samtal.
Flúðasigling eftir hugmyndastraumum
Bók Steindórs er eins og flúðasigling eftir hugmyndastraumum. Þar mætir okkur forn speki Predikarans, Goethe og rómantíkin sem upphefur sjálfsvíg. Helstefna nazismans birtist okkur þar sem askan stígur upp úr strompum líkbrennslunnar og flygsunar falla til jarðar.
Og þetta ferðalag sjáum við með augum hins þjáða, einlæga, en sundurgreinandi leitanda sem fálmar í kringum sig og eignast þessa leiðsögukonu í sjálfum Predikaranum. Það er lærimóðirin sjálf sem otar að honum setningum og upplýsingum sem stundum auka á reiði hans og skelfingu. Leiðsögumaðurinn þekkir lífið svo vel, hefur horft upp á svo mörg skipbrot að honum er ljóst að allt er að hégómi, aumasti hégómi. Veröldin er eins og Meta-heimur Zuckerbergs eða Matrixið í bíómyndunum – og hví skyldum við þá óttast vítið sjálft? Þangað stígur Steindór. Leiðin í gegnum þær vistarverur og svo aftur upp er ekki predikun, ekki eintal, heldur samtal hans við alla þessa hugsuði og listamenn.
Pílagrímsför
Eftir að hafa gengið inni í myrkrið og þjáninguna mætir hann aftur lærumóður sinni, predikaranum. Hreinsunin, kaþarsis, er senn á enda, þjáningarfull og óvægin sem hún var. „Þú ert frjáls“ segir hún við hann og bætir svo við: „Betri er hnefafylli af ró en báðar lúkur fullar af striti og eftirsókn eftir vindi.“ Og mætir honum með þá afstöðu að í heimi dauðans séu engin hyggindi, né þekking, né viska. En hvetur til að lifa lífinu í allri sinni gnægð.
Lífið er staður þar sem bannað er að lifa. Alls staðar eru málpípur ólíkra stefna og tímabila og öllu skolar þessu á land í nútímanum sem birtist okkur í öllu þessu litrófi. já, nútíminn er predikun þar sem bannað er að predika.
Mér finnst, eftir að hafa lesið ferðasögu Steindórs niður til heljar og þaðan aftur upp – sem sjálf ferðin, jafn andstyggileg og hún var sé áfangastaðurinn sjálfur. Þetta er saga af pílagrímsferð sem hann lýsir sjálfur sem ,,trúarreynslu". Marína sem var að læra geðlækningar hnýtti svo endana saman og benti honum á mikilvægi þess að fara þá leið, byggja hús sitt á þeim grunni: „Ef þú hefðir gert það værir þú trúaður fræðimaður með heilbrigða sjálfsmynd ekki sá mölbrotni einstaklingur sem situr andspænis mér.“ (186)
Með þessa vitund sættist Steindór við stöðu sína og tekur að byggja upp á þeim grunni þar sem allt hafði verið tætt í sundur og rifið niður. Hann skynjar hið jákvæða í eigin fari, kosti sína og styrkleika, þakklæti fyrir fólkið sitt sem hefur staðið með honum í hverri raun. Meginmáli bókarinnar lýkur hann hrópar í gleði sinni: „Takk Prédikari þú yndislega kona“.
Og við, lesendur bókarinnar, þökkum Steindóri af heilum hug fyrir framlag sitt og einlægni.