„Ó stilltu hjartans storm í nótt með sönnu orði vek þú þrótt. Blástu frá brjósti innan mér nýtt lag svo áfram berjist lífsneisti sérhvern dag.”
Guðspjall dagsins segir okkur frá stormi.
Segir okkur frá ótta. Segir okkur frá huggun og vináttu. Mér þykir persónulega vænt um þessa sögu, ekki síst því ég hef fengið að segja hana þeim fjölmörgu börnum sem ég hef starfað með síðastliðin ár. Þá hef ég talað við börnin um storminn sem skekur oft hjartað og gerir mann svo agnarsmáan allan og ég hef sagt þeim frá því að það sé samfylgd að finna í þessum heimi, jafnvel á slíkum óveðursstundum. Því þó stundin sé jafn svört og hafið getur verið á nóttinni þá er Guð með manni. Óveðrið hverfur kannski ekki alltaf eins og hendi sé veifað. Það skelfir mann stundum og maður verður blautur og maður verður kaldur inn að beini. En óveðrið mætir öðrum krafti. Lífinu sem berst áfram meðan það getur, þó andardrátturinn sé á stundum aðeins köld og veik gufa sem hverfur jafn fljótt og hún birtist. En einhvern veginn getur manneskjan á slíkum ögurstundum komið auga á það hvernig Guð er og vill vera til staðar. Þú ert aldrei aleinn.
Við notum myndir og tákn þegar við tölum. Ég hef talað við börnin um storminn og hjartað því ég hef viljað tala við þau um óttann. Göngumst við við óttanum? Og hvernig? Berskjöldum við okkur á sama hátt og mennirnir í bátnum sem kölluðu á lærimeistara sinn: „Drottinn, bjarga okkur, við förumst.”?
Þessi spurning snýr að framkomu okkar gagnvart Guði, öðru fólki og ekki síst sjálfum okkur. Því hvernig nálgumst við sjálf okkur, annað fólk og æðri mátt í dag? Það getur verið, og er raunar, afskaplega erfitt verkefni. Eins og öll bestu verkefnin eru allajafna. Ekki síst í því samfélagi sem við lifum í. Við lifum nefnilega í samfélagi sem virðist enn í dag upphefja þá meintu dyggð að sýna ekki veikleika. Sú staðreynd birtist okkur svo víða.
Við furðum okkur á orðræðunni á Alþingi, þar sem ásakanirnar fá að fljúga í allar áttir, þar sem rökræðan virðist ætíð leitast við að sigra en síður að skilja og oft virðist fullkominn skortur á raunverulegri samræðu. Orðræðan er ekki skárri meðal almennings á netheimum þar sem mörgum virðist almenn virðing fyrir náunganum og málefnaleg samræða vera sparistell sem best sé geymt ofan í skúffu og látið safna ryki. Þessar tilhneigingar birtast okkur í þeirri menningu sem við hömpum, beint eða óbeint. Nú í byrjun febrúar verða teknir til sýninga í Sambíóunum þættir Egils ‘Gillz’ Einarssonar, „Lífsleikni Gillz”. Ég vil taka fram að um persónu Egils get ég ekkert sagt, enda þekki ég hann ekki. Hinsvegar þekki ég þær menningarafurðir sem hann hefur ásamt fleirum framreitt. Þær afurðir einkennast af húmor sem gengur út á að hampa þröngum ramma lífsgilda sem gerir út á útlitsdýrkun og yfirborðsmennsku og viðheldur og styrkir staðalmyndir í samfélaginu. Þessi meinti húmor, sem getur á köflum tekið á sig ansi ofbeldisfulla mynd, virðist hvetja fólk til þess að ganga ekki við sjálfu sér heldur mála frekar nýja sjálfsmynd fyrir sig og aðra til að dást að. Og þá er sama hvað málningin er þunn. Það er staðreynd að ungt fólk, já og vel fullorðið fólk, sækir í þennan húmor, hvort heldur það sé hjá Agli eða öðrum. Þetta meinta grín- og skemmtiefni verður ekki til úr engu. Jarðvegur þess er hér í íslensku samfélagi og það eru stór fyrirtæki hér á landi sem sjá tækifæri í því að upphefja og hagnast á þessari orðræðu.
Við lifum í samfélagi sem kallar eftir því að maður brynji sig. Það er ósköp eðlilegt að leita í slíka varnarhætti og halda sér betur borgið í lífsins verkefnum fyrir vikið. Ég þekki þetta og þurfti seinast að mæta varnarháttum mínum í gær þar sem ég sat við tölvuna og reyndi að slá inn öll réttu orðin og flæktist fyrir sjálfum mér í leit að galdrinum. Sá sem fær það hlutverk að flytja ræðu vill nefnilega oftast hrífa og það er erfitt að skilja egoið eftir. Ég gafst fljótt upp á tilraunum mínum, því ég vil reyna. Ég er að reyna. Ég er að reyna að berskjalda mig.
Árið 2010 birtist á heimasíðu vefmiðilsins Ted fyrirlestur Brene Brown, the Power of Vulnerability eða „Máttur berskjöldunar”. Brene Brown starfaði um árabil sem félagsráðgjafi en kallar sig í dag rannsóknarsögumann. Í starfi sínu sem félagsráðgjafi fór hún að velta fyrir sér tengslum, hvað það væri sem að viðhéldi góðum tengslum og hvað það væri sem gæti rofið góð tengsl eða komið í veg fyrir að þau myndist. Brown komst að því að helsti brotavaldurinn í lífi okkar er skömmin. Sér í lagi sú skömm sem við horfumst aldrei fyllilega í augu við. Skömmin vekur og viðheldur óttanum um rofin tengsl. Hún hvíslar að manni að maður sé ekki verðugur. Ekki eins ófullkominn og breyskur og maður er. Því leitast manneskjan við að fela sig og deyfa.
En til þess að tengjast að sönnu verðum við að vera fyllilega sýnileg. Við verðum að vera berskjölduð. Þetta er sú uppgvötvun sem Brene Brown gerði á sex ára rannsóknartímabili sínu. Því fylgir trú á eigið gildi að gangast við sjálfum sér til fulls. Brown komst að því að fólkið sem lifði í sterkum tengslum átti það sameiginlegt að bera hugrekki. Hugrekki til þess að vera ófullkominn, hugrekki til að gangast við sér til fulls og segja sögu sína. Þetta var fólk sem var tilbúið að sleppa tökunum af hugmyndinni um hvernig það ætti að vera og gangast við spegilmynd sinni alveg eins og hún er.
Önnur rannsóknarspurning Brown varð þessi: Hvers vegna er það svona erfitt að berskjalda sig, út af hverju notumst við við alla þessa varnarhætti? Brown komst að því að við notum þessar varnir því við lifum í heimi sem í eðli sínu er berskjaldaður, þar sem endanleikinn og óttinn mæta okkur í sífellu, á sérhverjum degi. Viðbrögð okkar á vesturlöndum við þeirri staðreynd hefur birst sér í lagi í tvenns konar tilhneigingum. Annars vegar hafa þær falist í því að deyfa okkur. Við notum mat, vímuefni og lyf til þess að finna aðeins minna fyrir því hve lífið virðist okkur ófullkomið. Hinsvegar felast tilhneigingar okkar í viðleitni til að hafa stjórn á öllum þáttum lífs okkar. Við viljum að svarið sé annað hvort rétt eða rangt og allt skal útskýrt. Við höfum ekki lengur sama rými fyrir ráðgátur eða hið óvænta og þetta sjáum við oft í nálgunum okkar gagnvart hinu trúarlega.
Ég talaði áðan um söguna sem birtist okkur í guðspjalli dagsins á hátt sem ég tel að sé nokkuð algengur innan kristinnar hefðar. Þá hvílir áherslan á seinni hluta sögunnar og hvernig Guð birtist okkur í mynd Jesú Krists sem óttalaus kraftaverkamaður. Hér sjáum við glitra í guðsmynd sem hefur verið nokkuð ráðandi á vesturlöndum. Áherslan hvílir á handanveru Guðs, hann er hátt upp hafinn og fullkominn. Það er staðreynd að sjálfsmynd mannsins og guðsmynd hans er og verður alltaf samofin að einhverju leiti. Sú guðsmynd sem hefur verið ráðandi á vesturlöndum talar um fullkominn almáttugan Guð og getur veitt nokkra innsýn í tilhneigingar vesturlandabúa til þess að gera óeðlilegar kröfur til sjálfs sín og umhverfis. Slík fullkomnunarviðleitni getur reynst þung byrði að bera í daglegu lífi og er einmitt það sem veldur því að við setjum upp skrápinn og drögum fram vopnin. Þannig viðhöldum við þeim þáttum samfélagsins sem ég minntist á hér áðan.
En í dag vil ég ræða við ykkur um fyrri hluta sögunnar. Ég vil ræða við ykkur um það hvernig Guðdómurinn birtist þar í mynd Jesú Krists. Þetta er Guð sem þreytist. Þetta er Guð sem hvílir sig. Þetta er Guð sem hvílir sig meðal vina í fullkomnu trausti, sama hvernig viðrar. Þetta er Guð sem berskjaldar sig.
Það er fátt skemmtilegra en að fara þetta ferðalag okkar með vinum. Fyrir nokkrum árum átti ég ótrúlegan dag með vinum mínum þar sem við vorum að steggja einn af félögunum. Dagurinn var ævintýralegur en það er merkilegt að sú minning sem hvílir hvað hlýjust í minningahólfinu og ég man hvað best eftir er þegar við sofnuðum nokkrir félagarnir eftir dýrindis máltíð. Það leikur hlýja um þessa minningu því hún er varða um traust okkar og vinarþel.
Það er þetta vinasamband sem ég trúi að Guð vilji eiga með okkur. Samband trausts sem veiti okkur öryggi til þess að berskjalda okkur gagnvart tilverunni allri. Samband sem veitir styrk, því þetta er erfitt verkefni, verkefni sem á stundum er svo yfirþyrmandi að það getur virst óklífandi fjall að berskjalda sig, þó ekki nema aðeins gagnvart sjálfum sér. Þó ekki nema aðeins gagnvart Guði. En þetta er tilboð tilverunnar: Berskjaldaðu þig. Slepptu takinu. Ekki hugsa í sífellu. Hvorki um það hvernig þú getir sigrað storminn eða hvernig þú munir tapa fyrir honum. Þú átt vin í þessum heimi, berskjaldaðu þig gagnvart honum og vittu til, hann verður með þér í storminum. Allt þar til lægir.