Núvitundaríhugun, fjórði hluti: Hjartað

Núvitundaríhugun, fjórði hluti: Hjartað

Hvað merkir það að hjartað sé stöðugt? Það merkir að hjartsláttur lífsins er jafn og þéttur í brjósti okkar, að vitund okkar er vakandi, að innsæi okkar fær að næra sig á dýptina, færa sig nær hjarta Guðs, tengjast anda Guðs.
Mynd

Núvitundarstund 4 í Grensáskirkju

Verum velkomin á fjórðu núvitundarstundina í Grensáskirkju í beinu streymi á tímum samkomuhafta. 

Í dag er fimmtudagur í páskaviku, fimmti dagur gleðidaganna eins og kirkjan nefnir tímabilið á milli páska og hvítasunnu eða uppstigningardags, tímabilið þegar vinir og vinkonur Jesú nutu samvista við sinn upprisna frelsara áður en hann steig upp til himna og andanum var úthellt. Gleðin þeirra er okkar núna, að vita að við erum aldrei ein, því nærvera Guðs umlykur okkur hvert augnablik lífsins, nærvera Guðs sem blæs lífsanda sínum í nasir okkar. Guð ER, Jesús lifir, og því erum við hér, í nafni Guðs + föður, sonar og heilags anda. Amen.

Við komum okkur fyrir í góðri stöðu, með gott jarðsamband með iljum og hvirfil til himins, axlir slakar og hendur í skauti. Finnum snertinguna við gólfið, stólinn, fötin. Finnum andardráttinn þar sem hann streymir inn, finnum kul við nasavængina og niður hálsinn innanverðann, tökum eftir hvernig brjóstið bifast og kviðurinn þenst út. Gáum hvort við getum verið meðvituð um örlítið bil á milli innöndunar og útöndunar, vart merkjanlegt hlé sem kemur af sjálfu sér þegar við öndum  með eðlilegum hætti. Breytum ekki andardrættinum, leyfum honum að vera það sem hann er, bara finnum og verum og gefum gaum að því sem á sér stað í líkamanum.                                                    

Förum saman með einföldu játninguna okkar sem byggir á nærveru Guðs í hjartanu, nærveru Guðs sem veitir nærveru við okkur sjálf, okkar innsta kjarna. Við tengjum orðin við andardráttinn, öndum að okkur um leið og við segjum eða hugsum Ég er og öndum frá okkur á orðunum Ég er hér.

Ég er – Ég er hér

Ég er – Ég er hér

Ég er – Ég er hér                                                                          

Í Davíðssálmi 57 segir (Sálm 57.8-9):

Hjarta mitt er stöðugt, Guð, hjarta mitt er stöðugt. Ég vil syngja og leika. Vakna þú, sál mín, vakna þú, harpa og gígja, ég vil vekja morgunroðann.

Nú skulum við einbeita okkur að svæðinu í kring um hjartað og hjartanu sjálfu. Getum við fundið hjartað slá? Finnum við hvíldina á milli slaga?

Því hjartað hvílist og fyllist þá blóði, síðan dregst það saman og dælir blóðinu og þar með súrefninu út í stórar slagæðar. Þetta er hjartslátturinn. Hjartað er þannig lífgjafinn okkar ásamt önduninni og auðvitað öllu kerfinu í heild sinni. En vegna mikilvægis hjartans er það oft notað sem táknmynd um það sem er okkur algjörlega ómissandi, það sem við getum ekki lifað án sem er kærleikurinn. „Þú komst við hjartað í mér“ er sungið og líka: „Þú hittir beint í hjartastað“ um rafmagnaða snertingu ástarinnar sem nær til okkar innsta kjarna, alveg inn í kviku, gætum við sagt. Í Biblíunni táknar hjartað miðstöð hugsana og tilfinninga, vilja okkar, já líf og sál. Við gætum í dag notað hugtökin innsæi, vitund eða persóna. Í Biblíunni er líka talað um „hjartans miskunn Guðs vors“ (Lúk 1.78), elsku Guðs frá innstu hjartarótum.  

Nú færum við athyglina mjúklega að hjartanu. Finnum hreyfingu brjóstkassans við hvert andartak og enn dýpra hjartsláttinn. Einbeitum okkur að því sem er, ekki þannig að við reynum að sjá það fyrir okkur eða hugleiða á hvern hátt hjartað starfar, heldur dveljum í því sem er. Leyfum vakandi vitund að hitta okkur beint í hjartastað. Leyfum skynjuninni að koma við hjartað í okkur, opna hjartað, ef svo má segja.

„Látið náð Guðs næra hjartað,“ segir í Hebreabréfinu (13.9a). Látum náð Guðs næra hjartað. Gefum hjartans miskunn Guðs rými til að vinna sitt verk, fylla okkur kærleika sínum, fylla vitund okkar veru sinni. Látum náð Guðs næra hjartað af lífi og sál. Við getum kannað ofurvarlega og án þess að dæma hvort hjarta okkar er stöðugt, eins og hjarta sálmaskáldsins. Hvað merkir það að hjartað sé stöðugt? Það merkir að hjartsláttur lífsins er jafn og þéttur í brjósti okkar, að vitund okkar er vakandi, að innsæi okkar fær að næra sig á dýptina, færa sig nær hjarta Guðs, tengjast anda Guðs sem Guð gaf bústað í okkur (Jak 4.5).

Hjarta mitt er stöðugt, Guð, hjarta mitt er stöðugt. Ég vil syngja og leika. Vakna þú, sál mín, vakna þú, harpa og gígja, ég vil vekja morgunroðann.

Og hér erum við með vakandi vitund, nærð af náð Guðs, af gleði Guðs sem er styrkur okkar (Neh 8.10). Kannski finnum við söng og lífsgleði í hjarta, kannski langar okkur að vekja sjálfan morgunroðann! Kannski ekki. En varðveitum hjarta okkar umfram öllu öðru því að þar eru uppsprettur lífsins (Ok 4.23).

Ljúkum stundinni með játningunni okkar og síðan heyrum við ljúfan orgelleik.

Ég er – Ég er hér

Ég er – Ég er hér

Ég er – Ég er hér                                                                           

Þríeinn Guð, sem vekur hjartað, nærir það og fyllir gleði,  blessi þig og varðveiti á þessari stundu og um ókomna tíð. Góðar stundir.