Í dag höldum við upp á Boðunardag Maríu, 25. mars, nákæmlega níu mánuðum fyrir jól. Við breytum um messuklæði í tilelfni dagsins, klæðumst hvítum hökli til að leggja áherslu á, að í dag er hátíð, upptaktur jólanna, gleðistund í húsi Drottins yfir undrinu mikla, að Guð gerðist maður. Í morgun kl. 10.00 var fræðsluerindi um hin mörgu andlit Maríu guðsmóður í Þjóðminjasafninu. Dr. Þóra Kristjánsdóttir sýndi myndir og sagði frá, mjög áhrifaríkt og skemmtilegt.
Það er yndislegt að lesa fystu kaflana í Lúkasarguðspjalli, þar sem guðspjallamaðurinn færir þessa frásögn alla í afar fallegan búning.
Við erum stödd í fjölskyldu, venjulegri, já, líklega fátækri fjölskyldu, - við erum stödd mitt í sögunni, það er vitnað til hjálpræðissögunnar, vitnað til Davíðshúss, fyrirheitisins, sem Davíð konungur fékk 1000 árum áður, og spámaðurinn Jesaja hnykkir á fyrir munn Drottins, að af þessari ætt muni kvistur fram spretta, sonur fæðast, friðarhöfðininn, guðhetjan, undraráðgjafinn, - Immanúel, Guð á meðal okkar.
Hvernig má þetta verða?, spyr María. Jú, þannig hefur ávallt verið spurt. Hvernig má þetta verða?
Reynum að lifa okkur inn í þessar aðstæður textans. María, unglingurinn, hrekkur í kút, þegar engillinn birtist, tekur við þessum boðum í óttablandinni lotningu, en síðan í styrkri trú, trúarjátningu sem nær hámarki í Lofsöngnum, Magnificat. Önd mín miklar Drottin, andi minn gleðst í Guði, frelsara mínum.
Barnið fæddist, jú, það urðu tákn og undur á Betlehemsvöllum, en hirðarnir sáu venjulegt barn í jötunni lágu, - litli drengurinn var venjulegt barn sem öskraði á mjólkina sína, sem þurfti alla hefðbundna umönnun, það sást ekki að hann var Guðssonur, það sást ekki að hann var hinn upprennandi friðarhöfðingi, frelsari.
Það sást ekki heldur þegar hann ólst upp á heimilinu í Nasaret, hann lék sér með öðrum börnum, hann gætti yngri systkina sinna, tók til hendinni, hjálpaði ugglaust föður sínum á trésmíðaverkstæðinu og þannig mætti lengi telja.
María vissi leyndarmálið, Jósef vissi leyndarmálið. Þau hafa eflaust spurt sig margra spurninga varðandi þennan dreng. Hvernig og hvenær kemur þetta allt í ljós.? Jú, vissulega komu stundir og atvik sem staðfestu fyrirheitið. Hanna og Símeon í musterinu, öldungarnir sem höfðu lifað í trú og tilbeiðslu allt sitt líf, fengu að líta þetta litla barn, sem borið var í helgidóminn. Reyndar hafði Símeon átt orðastað við Drottin og fengið það á hreint, að hann skyldi ekki dauðann sjá fyrr en hann hefði séð Krist Drottins. Þessi stund kom, hann fékk að líta leyndardóminn og lofsöngur Símeons varð til: Nú lætur þú, Drottinn, þjón þinn í friði fara, eins og þú hefur heitið mér, því að augu mín hafa séð hjálpræði þitt.
Í musterinu 12 árum síðar var Jesús enn kominn til hátíðar, hann gleymdi sér í samtali við öldungana og færðimennina, og þá kom einnig í ljós, að hann kunni meira en þeir, - leyndarmálið opinberaðist. Og óttaslegnir foreldrar fengu að heyra að drengnum bar að vera í húsi föður síns.
Og svo kemur Jóhannes skírari, frændi Jesú, sem ólst upp með honum að einhverju leyti, - en á ákveðnu andartaki við sérstakar aðstæður sér Jóhannes leyndarmálið, hann sér að þarna er Messías kominn, Guðs lambið sem ber synd heimsins.
Á skírnarstund opnast himnarnri enn á ný og rödd af himni segir: Þessi er minn elskaði sonur sem ég hefi velþóknun á. Hlýðið á hann. Það voru kannski ekki margir sem sáu þetta og heyrðu, en einhverjir.
Þegar Jesús síðan tekur til starfa og er kominn í brúðkaupið í Kana ásamt móður sinni Maríu og fleirum vinum og vandamönnum, þá er það María, sem sér að tími hans er kominn, - “Jesús, þeir hafa ekki vín”, það eru vandræði í húsinu, - og við kæmeistarana segir maría, - “gjörið allt sem hann segir!”
En svo koma erfiðu stundirnar hjá Maríu, hún reynir að ná í hann út á götu þegar farið er að þjarma að honum, en þá er það Jesús sem minnir hana nokkuð harkalega á, - hver er móðir mín, hver er bróðir minn. Og á úrslitastund stendur María við krossinn, þar eiga þau síðasta samtalið og hann biður Jóhannes lærisveininn að taka hana að sér og biður Maríu og líta á hann sem son sinn.
Það er svo gott að sjá þessar myndir allar fyrir sér til að skerpa myndina, til þess að við getum virt fyrir okkur myndina, heildarmyndina, leyndardóminn, sem varð opinber smátt og smátt.
Enn þann dag í dag er talað um Jesú oft með hálfkæringi, hann er dreginn inn í grín og glens “spaugstofunnar” oft á tíðum, þá á ég við spaugstofuna í víðum skilningi þess orðs. Enn er það dregið í efa að Jesús hafi verið getinn af heilögum anda, - enn er spurt: Hvernig má það verða? Enn er talað um hann sem einn af mörgum spámönnum sem allir hafa eitthvað að segja.
Hvað verður að koma til svo við komum auga á leyndardóminn í þessu öllu? Þessari spurningu hef ég verið að velta fyrir mér síðustu daga.
Í einu guðspjalli föstunnar er sagt frá konu sem stóð í mannfjöldanum nálægt Jesú hóf upp raust sína og sagði: Sæll er sá kviður sem þig bar og þau brjóst, er þú mylktir. Þá svaraði Jesús, Já, hann gat svo sannarlega samþykkt það, hann elskaði móður sína, bar örugglega mikla virðingu fyrir henni, en hann svaraði konunni með þessari setningu - “Já, því sælir eru þeir, sem heyra Guðs orð og varðveita það”.
Kannski er leyndardómurinn einmitt fólginn í þessu, að heyra Guðs orð og varðveita það. Í gegnum allar aldir hefur ekki síst verið bent á þetta atriði í fari Maríu til eftirbreytni. Hún treysti Drottni, hún hlustaði eftir orði Guðs, og gekk fram í trú, hlýðni og auðmýkt frami fyrir auglyti Guðs.
Fagnaðarerindið verður ekki ljóslifandi fyrir hugskostsjónum okkar fyrr en við leggjum við hlustir í trú og tilbeiðslu, - þetta er reynsla þúsundanna, milljónanna, kristinnar kirkju frá upphafi, - það er fyrir trú að leyndardómur holdtekjunnar verður opinber í kirkjunni. Þú sannar ekkert í trúarefnum, þú setur Guð aldrei undir smásjá. Fyrir trú varð hjálparæðissagan að veruleika, Abraham, Móse, Elía, Davíð, spámennirnir, María, já, þannig gæti ég lengi talið allt fram á okkar daga. Saga alls þessa fólk er saga trúar.
Hvernig má þetta verða, spurði María, - hún reyndar svaraði spurningunni sjálf, - fyrir trú. Hún gekk fram í trú, von og kærleika. Ef við fylgjum fordæmi hennar í þessum efnum, þá fáum við einnig að koma auga á leyndardóminn mikla og þá getum við einnig tekið undir lofsönginn góða: Önd mín miklar Drottinn, og andi minn gleðst í Guði, frelsara mínum.
Dýrð sé Guði föður syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er enn og verður um aldir alda. Amen.