Eftir fjörutíu föstudaga, tíma aðhalds og iðrunar, með fjólubláum lit, freistingarsögum, detox andans og persónuleikaræktun, taka við fimmtíu sunnudagar páskanna, gleðidagarnir. Tími hinna ljósu lita, gjafmildis, gleði, tækifæra og tilrauna. Þá berum við fram kampavín eftir morgunbænir – því lífið á gleðidögum er líf í fullri gnægð.
Páskar, uppstigningardagur og hvítasunnan mynda eina heild í kirkjuárinu. Á fimmtíu dögum íhugum við lífið eins og það birtist okkur í upprisu Jesú, uppstigningu hans og úthellingu heilags anda. Þessi tími er einn sjöundi úr árinu og er kannski sunnudagstími kirkjuársins, sem markar nýtt upphaf rétt eins og sunnudagurinn gerir í hverri viku.
Kirkjuárið gefur tækifæri til að tengja trúarlífið okkar viðburðum í lífi Jesú og lífi kirkjunnar. Hvern sunnudag komum við saman í guðsþjónustunni þar sem lestrar og bænir taka mið af því hvar við erum stödd í kirkjuárinu. Sálmar, tónlist og prédikun prestsins hverfast einnig um sögur tímans sem við erum stödd í hverju sinni. Þess á milli getum við hvílt trúariðkun okkar í lestrarskrám og bænakverum sem miða við kirkjuárstímann.
Með því að þiggja leiðsögn kirkjuársins í trúarlífinu, fáum við tækifæri til að fylgja Jesú á alveg sérstakan hátt og gera hann þannig að leiðtoga lífs okkar - eins og við heitum að leitast við í fermingunni. Kirkjuársmiðað trúarlíf heldur okkur á vegi pílagrímsins, sem ferðast ekki bara líkamlega í lífi og starfi, heldur einnig andlega eftir því sem trúin vex og dafnar.
Við tökum boðskap föstu og dymbilviku alvarlega með því að vera páskafólk og gefa páskahátíðinni rými í lífinu. Því á eftir föstudeginum langa kemur páskadagur. Páskarnir eru tákn um lífið og vonina og kristin trú er að lifa í þessari von.
Núna lifum við góða tíma.
Myndin með pistlinum er tekin í páskamessu í Stafholtskirkju í Borgarfirði.