Stundum virðist kylfa ráða kasti um hvort sameiginlegar stofnanir okkar eru kenndar við þjóðina eða landið. Bókmenntaarfurinn er geymdur í Landsbókasafni en óútgefnar heimildir um sögu okkar á Þjóðskjalasafni. Við förum í Þjóðleikhúsið til að lyfta upp andanum en á Landsspítalann ef eitthvað amar að líkamanum. Er einhver dulin rökfræði á bak við þetta? Sums staðar starfa landskirkjur en við köllum kirkju okkar þjóðkirkju og það heiti hvílir á sjálfri stjórnarskránni. Í því sambandi er þjóð hliðstæða danska orðsins folk en það er ekki auðþýtt. Stundum vísar það til þjóðar (nation) en stundum til almennings eða jafnvel alþýðu. Hvaða merkingu skyldi orðið hafa sem forliður í þjóðkirkju-hugtakinu og hvaða álitamál tengjast því?
Þjóðleg kirkja? Ein leið er að líta svo á að fyrsta atkvæðið í þjóðkirkju-heitinu vísi til íslensku þjóðarinnar í sögulegri, pólitískri eða jafnvel líffræðilegri merkingu. Þjóðkirkja okkar væri þá kirkja íslensku þjóðarinnar: kirkja fyrir íslenska þjóð, alíslensk deild í almennri kirkju Krists — forsmekkur Guðsríkisins meðal Íslendinga. Slíkur þráður hefur oft verið spunninn í þjóðkirkjum Norðurlanda. Stundum hefur hann leitt til þung-þjóðernislegra ef ekki létt-fasískra áherslna Á öndverðri 20. öld þróaðist slík hreyfing meðal sænskra stúdenta sem héldu í krossferðir út um landið, prédikuðu fagnaðarerindið og söfnuðu fé — til að kaupa þungvopnað stríðsskip til að verja landið fyrir útlendum fjendum. Þetta var í aðdraganda fyrri heimsstyrjaldarinnar. Hér komst á friðsamlegri og vinstrisinnaðri tenging milli þjóðkirkjuguðfræði og þjóðernisstefnu í kjölfar seinna stríðs. Þá börðust menn á borð við Sigurbjörn Einarsson samtímis gegn erlendri íhlutun og her í landi og kirkjulegri endurreisn með Skálholt sem þungamiðju.
Kirkja allra Í samtímanum er þjóðernisleg hleðsla þjóðkirkjuhugtaksins ófrjó og hana ber að forðast. Í landinu býr nú góðu heilli fólk af fleiri en einu þjóðerni. Ísland stefnir í að vera fullgildur félagi í heimsþorpinu en ekki einangrað frá því. Við verðum að læra að vera opnari og umburðarlyndari fyrir öllum sem hér vilja búa og fljótari til að veita þeim fulla aðild að samfélagi okkar. Þar ætti þjóðkirkjan að vera fremst í flokki. Forliðurinn í þjóðkirkjuhugtakinu má því ekki fela í sér skírskotun til þeirrar þjóðerniskenndar sem hefur verið svo ríkjandi meðal okkar síðan í sjálfstæðisbaráttunni á 19. öld. Þjóðkirkjan á að vera kirkja allra landsmanna í þeim mæli sem hver og einn kýs. Í þessu efni ætti að túlka þjóðkirkjuhugtakið í 62. gr. stjskr. í ljósi 63. gr. sem fjallar um trúfrelsið. Þar er nú vissulega rætt um „alla“ en áður var þar kveðið á um „landsmenn“. Eins og allir njóta trúfrelsis á þjóðkirkjan að þjóna öllum sem til hennar leita og vera málsvari allra sem á stuðningi hennar þurfa að halda. Þjóð í þjóðkirkju ætti því að merkja almenningur, fólkið í landinu, hvaðan sem það er, hvaða tungu sem það talar, hvernig sem það er á litinn. Í þjóðkirkjunni eiga öll sem það vilja að finna sig heima.
Hlutverk meðal þjóðarinnar Hér að framan var fjallað um úthverfa vídd þjóðkirkjuguðfræðinnar. Hún snýst um hvernig þjóðkirkjan tengist umhverfi sínu og höfðar til þess, þjóðarinnar, samfélagsins, alls almennings í landinu: Er hún opin eða lokuð þjóðernislega séð? Hér vaknar önnur spurning: Hvernig skynjar og skilur þjóðkirkjan hlutverk sitt í samfélaginu? Er hún varðhundur þjóðlegra hefða og þjóðlegra gilda; þjóðlegt langtímaminni samfélagsins og veislustjóri þess á þjóðlegum hátíðum? Eða er hún gagnrýnandi afl sem andæfir þjóðhyggju en stuðlar að samhyggð og samstöðu út fyrir þjóðleg mörk og mæri hvort sem er innanlands eða á erlendum vettvangi? — Í þessu sambandi ber að gæta þess að kirkjur og raunar trúarbrögð heims hafa einstæða möguleika á að tryggja alþjóðleg tengsl, jafnvægi og frið ef þau leggja rækt við það besta í hefðum sínum og heimfæra það upp á aðstæður í samtímanum. Auðvitað ber svo að gæta þess að hugsanlega getur þjóðkirkjan sameinað þetta hvort tveggja: ræktarsemi við það jákvæðasta sem þjóðlegar hefðir fela í sér og geta helst lagt til heimsmenningarinnar og samstöðu með öllum sem þurfa á hjástoð kirkjunnar að halda óháð þjóðerni.
Þolandi eða gerandi? Þjóðkirkjuheitið kallar þó einnig fram aðrar og innhverfari spurningar. Hvort er þjóðin þolandi eða gerandi, frumlag eða andlag, í þjóðkirkjunni? Þessari spurningu svarar kirkjan með þeirri stefnu sem hún markar sér á sviði stjórnar og starfshátta. Þar sem þjóðin er andlag eða þolandi í kirkjulegu starfi lítur kirkjan á þjóðina sem markhóp, viðfangsefni, viðtakanda og í ýktustu myndum vandamál — jafnvel andstæðing. Þetta gerist í kirkjum sem einangrast frá þjóð sinni, almenningi, landsmönnum, öllum. Í slíkum kirkjum eru það fáir sem ráða, velja, kjósa eða taka ákvarðanir fyrir marga. Þar deila og drottna embættismenn, fagmenn og sérfræðingar. Þar myndast tvær fylkingar: kirkjueigendur og hinir. Táknmynd slíkrar kirkju er turn og allar boðleiðir eru brattar. Þar sem þjóðin er frumlag eða gerandi heyrast raddir allra. Öll skipta máli. Í sameiningu leita leikir og lærðir bestu leiðarinnar til að byggja kirkju Krists á hverjum stað og hverri stundu, í þeim sporum sem við erum stödd í hverju sinni. Boðleiðirnar eru stuttar, greiðar og flatar. Táknmynd slíkrar kirkju gæti verið torg.
Kirkja og þjóð Framtíðarstaða þjóðkirkjunnar veltur á tengslum kirkju og þjóðar. Eru kirkjan og þjóðin á sömu vegferð, bæta þær hvor aðra upp, styðja hvor aðra og kalla fram það besta hvor í annarri? Eða horfa þær hvor í sína áttina — önnur fram á veg en hin um öxl? Á nýbyrjuðu kirkjuári er íslensku þjóðkirkjunni hollt að velta fyrir sér hvernig hún skilur fyrsta atkvæðið í heiti sínu. — Það er margt sem hangir á þeirri spýtu.