Nú er mikið rætt um efnahagsmál. Helstu túlkendur veruleika Íslendinga um þessar mundir eru hagfræðingar. Hlutverk fræðimanna - á hvaða sviði sem er í nútíma samfélagi - er að túlka veruleikann og skiptast á skoðunum um hann. Og öll umræða mótast að miklu leyti af landslaginu í innra lífi hvers og eins. Þar á ég við grundvallarlífsafstöðu þess sem mælir. Hver er til að mynda afstaðan til sannleika og réttlætis, lífsgæða og skiptingar þeirra? Fullyrða má að afstaða til grunngilda hafi áhrif á niðurstöðu allra sem taka til máls í hvaða máli sem er. Þannig mótar til að mynda kristin lífssýn skoðanir margra Íslendinga.
Á síðustu tveimur áratugum var gerð mjög afdrifarík tilraun til að breyta grunngerð þjóðfélagsins og afstöðu fólks til verðmætasköpunar og skiptingar gæða lands og lífsgæða í víðum skilningi. Margir telja að þessi tilraun hafi byrjað með lögum um fiskveiðar þegar fiskveiðikvóta var úthlutað til fárra einstaklinga og fyrirtækja. Þetta var aðeins byrjunin. Fleiri breytingar fylgdu í kjölfarið. Sumir ganga svo langt að segja að lénsskipulag hafi verið endurvakið á Íslandi á þessum tíma. Nú er þessi tilraun fullreynd. Hún endaði með ósköpum. Kostnaður hefur ekki en verið reiknaður til fulls en hann er gífurlegur og leggst með mismunandi þunga á landsmenn. Skuldir okkar eru stórar og þjóðin sögð á barmi gjaldþrots. Í þeim efnum erum við öll á sama báti enda þótt skaði hvers og eins kunni að vera mjög misjafn. Allur almenningur, venjulegt launafólk, hefur orðið fyrir miklum skaða. Eignir fólks í svonefndum skuldabréfa- og peningamarkaðssjóðum hafa hugsanlega tapast að stærstum hluta. Til viðbótar þessu tapi er svo vandi þeirra sem skulda misháar upphæðir vegna íbúðarkaupa og í sumum tilfellum óhóflegrar neyslu, til dæmis vegna bílakaupa. Íbúðasjóðslánin vaxa og hækka að ekki sé nú talað um myntkörfulánin sem tútna út og þrútna.
Hvað er til ráða? Í stuttum pistli verður slíkt ekki rætt nema á mjög svo ágripskenndan hátt en mér koma í hug ævaforn lög sem birt eru í Gamla testamentinu um skuldugt fólk. Þar segir að sjöunda hvert ár skuli gefa upp allar skuldir og leysa menn úr ánauð. Í sömu lögum er talað um náðarárið - árið að loknum 7×7 árum eða hið fimmtugasta - þegar allir stórsamningar voru látnir ganga til baka (5. Mós 15. kp og 3. Mós 25. kp). Menn gátu skv. þessum lögum ekki átt land lengur en í fimmtíu ár. Þá varð að skila því. Þannig var komið í veg fyrir óeðlilega auðsöfnun fárra einstaklinga og ánauð fjöldans.
Hvað verður nú um skuldir almennings, hækka þær bara og vaxa vegna verðtryggingar annars vegar og lágs gengis krónunnar hins vegar, lánadrottnum til hagsbóta en skuldurum til skaða? Er ekki kominn tími til að afnema verðtryggingu lána og taka í það minnsta mið af fornum aðferðum til að koma á réttlæti og létta þar með af fólki illbærilegu skuldaoki? Þarf ekki að núllstilla hagkerfið og leysa fólk úr ánauð? Getum við ekki sem samstæð þjóð, eins og ein fjölskylda, tekið þá ákvörðun að veðskuldir fólks til að mynda vegna eigin íbúðarhúsnæðis verði lækkaðar til muna, að verðtryggingin verði aflögð og hluti skulda gefinn eftir, hugsanlega til jafns við það sem tapaðist í fyrrgreindum sjóðum?
Er ekki hægt að finna einhverja réttláta leið til þess að bæta kjör fólksins í landinu án þess að það verði úthrópað sem einhver úreltur ismi? Getum við ekki á grundvelli kristinna gilda fundið leið til að standa saman og stuðla að raunverulegri sáttargjörð í landinu með réttlæti og jöfnuð, kærleika og frið að leiðarljósi? Takist okkur að finna réttláta leið út úr vanda þjóðar okkar rennur án efa upp nýtt og gott ár sem líkja má við náðarár að fornum sið.