Það er ekki ný sannindi að ég var á gangi um Elliðárdalinn á góðviðrisdegi um daginn. Það var sem Guð hafi líka ákveðið þanndaginn að ganga stífluhringinn. Ég fann ekki fyrir honum fyrr en hann hvíslaði að mér að hægja á göngunni og sjá hann í puntustránum svo smá og veikburða og kinkuðu kanvíslega kolli þegar ég gekk framhjá með ljóð og tónskáldið Bubba Mortens í eyrunum. “Bubbi var í sex skrefa fjarlægð” og ég – ég var í “Paradís. ” Guð hvíslaði að vitund minni að hann væri í blómunum sem björt horfðu á mig og mig langaði að taka undir með Bubba í laginu “Vonin, vonin blíð vertu mér hjá…” hefja upp raust mína í viðlaginu en ég þorði því ekki því einhver annar gat verið mér hjá og heyrt eitthvað allt annað en vonina blíðu sem við geymum í hjarta og Guð hvíslaði með hægum hlýjum andvara að það gerði ekki til því ég ætti stundina skuldlaust.
Enn var Bubbi í “sex skrefa fjarlægð” en samt svo nærri og enn nærri var Guð að reyna ná athygli minni í hverju skrefi sem ég tók. Ganga stífluhringinn í Elliðarárdalnum umvafin sumarsins glaðlyndu dögum og eða þegar fýkur í dagana þótt sumar sé og úrillir hreyta í okkur hryssingslegum ónotum – og tilveran þarf að hafa sig alla við að halda sínu skrefi sem ekki endilega bera með sér eitthvað nýtt og við finnum til einhvers leiða sem leiðir af sér ekkert annað en “svarta hunda” eins og Bubbi var tekin til við að syngja í eyru mín.
Hógvær og lítillát kyrrðin draup af hverju strái og áin rann endalaus til sjávar komin langan veg og átti langt eftir að fara til að sameinast hringrás eilífðar. Ég um stund var hluti af henni-eilífðinni, svo smár og umkomulaus frammi fyrir því sem ég gat ekki fært í orð. Þótt ég gjarnan vildi, en vissi sem svo að þau hefðu ekkert að segja í augnablikið sem átti leið hjá eins og frjókorn að finna sér hentugan stað til að vera á þótt ekki til annars en að hvílast um stund.
Sannleikurinn er sá að ég uppgvötaði um daginn á göngu minni að ég veit ekki neitt. Ég uppgvötaði það á endurnýjaðan hátt á göngu minni um Elliðarárdalinn. Allt sem ég segi, allt sem ég hugsa, allt sem ég læt frá mér fara í orði og riti er aðeins veik viðleytni mín til þess að uppgvöta veröldina sem ég er hluti af og leiði stundum hjá mér. Leyfi mér að spegla mig í henni til þess mögulega að sjá og skynja eitthvað nýtt.
Þarna á göngu minni var eins og ég fengi hugljómun að ég er agnasmár hluti einhvers meira og ærða og það er gott-ekki aðeins veraldarinnar vegna - heldur og það að ég get í því skjóli veitt mér þann munað að þurfa ekki að svara fyrir eitthvað sem ég er ekki. Það segir samt ekki að ég megi ekki bæta við veikum orðum og hugsunum í það samfélag sem ég lifi í. Reyna ekki af eigin mætti að skilja hana um leið vita það að ég mun aldrei gera það til fulls. Því til hvers væri lifað ef skilningurinn væri til alls?
Til hvers væri lifað ef ekkert væri nýtt að sjá og uppgvöta, jafnvel þótt uppgvötunin væri ekki ný – en er samt eins og að sækja hana heim eftir mislanga dvöl frá henni. Hvað með það þótt maður sjái sín eigin spor á förnum vegi og uppgvöta að maður hafi verið þar áður? ég spyr því ég veit ekki svarið.
Það er þarna einhverstaðar svarið. Aðeins að við gefum okkur tíma til að hlusta, skynja. Mér segist svo hugur að það er nær en maður ætlar. Það eru heldur ekki ný sannindi.