Náð sé með yður og friður frá Guði, föður vorum, og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Hér í Kardimommu okkar líf er yndislegt, líða allir dagar hjá í kyrrð og ró og spekt. Bakarinn hnoðar kökur og skóarinn smíðar skó, ja, skyldi maður ekki hafa nóg?
Þannig hefst Kardimommusöngurinn, þjóðsöngur íbúanna í Kardimommubæ Torbjörns Egners, sem leikfélögin okkar hér á Egilsstöðum sýna nú við miklar vinsældir barna og fullorðinna eins og við mörg höfum notið.
Kardimommubærinn er fyrirmyndarsamfélag. Hann er tilraun til að lýsa hinu fullkomna þjóðfélagi þar sem íbúarnir lifa saman í gleði og sátt, hver hefur sitt hlutverk og hið eina sem virðist geta raskað ró fólks eru þrír vitgrannir smáglæpamenn og geðstirð en söngvinn frænka!
Kardimommubærinn er líka útópía: það er draumsýn; hugmynd um samfélag sem mannleg reynsla sýnir okkur að geti ekki verið til í raunveruleikanum. Hann er hvergi til á landakortum, heldur aðeins í hugum höfundarins - og svo okkar sem skemmtum okkur í leikhúsinu og vitum að lífið þar í bæ er einfaldlega of gott til að geta verið satt!
Í dag höfum við einmitt safnast saman hér í kirkju Krists, á páskadagsmorgni, til að fagna því, sem eiginlega er líka of gott til að geta verið satt - en er það samt.
Við söfnumst hér saman um ritningartexta og frásagnir sem flytja okkur þann boðskap, sem mannleg reynsla segir okkur að hljóti að vera fjarri veruleikanum.
En sá er munurinn á gleðifréttum páskanna og Kardimommubæjarins, að páskaboðskapurinn byggist á orði Guðs.
Frásögnin um upprisu Jesú Krists hefur ekki orðið til í hugarheimi eða á teikniborði manna.
Hún er orð þess, sem hefur allt vald á himni og á jörðu.
Það er almáttugur Drottinn sem talar til okkar á þessum morgni og segir við okkur: Ég er upp risinn frá dauðum. Ég er sterkari en allt illt. Ég mun þerra tárin og afmá dauðann að eilífu.
Og þess vegna er páskaboðskapurinn ekki útópía, ekki bara draumsýn um lífið eins og það ætti að vera eða eins og við myndum vilja hafa það.
Gleðifrétt páskanna er sannleikur Guðs, sannleikur sem hefur áhrif á líf okkar allt.
Hér erum við komin að sjálfum kjarnanum í trú okkar kristinna manna. Þetta er grundvallaratriðið, sem allt stendur og fellur með.
Einn af ritningarlestrum þessa páskamorguns, úr 1. Korintubréfi, geymir þann texta, sem er sennilega elsta trúarjátning kristinna manna. Þar skrifar Páll postuli söfnuðinum í Korintu, sem hann hafði sjálfur stofnsett skömmu áður, í kringum árið 50 eftir Krist. Hann minnir fólkið á grundvallaratriði trúarinnar, sem hann hafði boðað því.
Og það er þetta: "að Kristur dó vegna synda okkar samkvæmt ritningunum, að hann var grafinn, að hann reis upp á þriðja degi samkvæmt ritningunum og að hann birtist Kefasi, síðan þeim tólf."
Af þessum texta komumst við í fyrsta lagi að því, að dauði Krists varð ekki af tilviljun heldur höfðu spámenn Drottins talað um hann mörgum öldum fyrr.
Í annan stað segir textinn okkur að dauði Krists varð ekki að tilefnislausu. Hann var nauðsynlegur vegna synda okkar mannanna.
Og í þriðja lagi var dauði hans enginn sýndardauði, heldur svo raunverulegur að líkami Krists var grafinn.
En umfram allt segir textinn okkur það, að gröfin hélt ekki Drottni okkar. Hann vann sigurinn á hinum ósigranlega, á dauðanum sjálfum.
Páll segist ekki aðeins hafa kennt Korintumönnum þennan boðskap, heldur hafi hann einnig meðtekið hann sjálfur. Á tímum, þar sem fæstir kunnu að lesa eða skrifa, virðist þessi trúarjátning um dauða og upprisu Jesú því hafa verið varðveitt í munnlegri geymd sem kjarni trúarinnar á hann - og verið tekin að ganga kristinna manna á meðal, jafnvel strax þremur til fimm árum eftir upprisuna.
Skömmu fyrir páska sagði ég börnunum í TTT-starfinu, 10-12 ára starfi Egilsstaðakirkju, þessa sögu af krossfestingu og upprisu Jesú með myndum. Það var áberandi hvað krakkarnir hlustuðu vel á páskasöguna, voru ein eyru og veittu jafnvel smáatriðum hennar mikla eftirtekt og áhuga.
Hér er líka á ferðinni bæði mögnuð og dramatísk frásögn, þar sem undur Guðs breytir vonbrigðum í von og snýr sorg í gleði.
En það var einnig eðlilegt og heilbrigt, þegar einn drengurinn í TTT rétti upp hönd þegar hann var búinn að heyra söguna, og spurði í einlægni: "Hvernig getur maður vitað, að þetta sé satt? Hvernig getur maður vitað, að Jesús hafi í alvörunni risið upp frá dauðum?"
Já, hvernig getum við þekkt muninn á draumsýn Kardimommubæjarins og vonarboðskap páskanna?
Í bréfinu til Korintumanna fæst Páll postuli einnig við þessa spurningu, sem í einhverri mynd hafði kviknað hjá fólki í söfnuðinum. Hann minnir það á að tóma gröfin hafi ekki verið það eina, sem vitnaði um páskagleðina. Eftir upprisuna hafi Kristur nefnilega birst fjölda manna sem Páll telur upp. Hann nafngreinir marga þeirra og segir flesta þeirra vera enn á lífi þegar hann skrifi þessi orð.
Og síðan segir Páll: "En síðast allra birtist hann (þ.e. Kristur) einnig mér."
Sjálfur var Páll í eigin persónu ef til vill skýrasti vitnisburðurinn sem Korintumenn gátu fengið um sannleiksgildi upprisunnar. Hann, sem ofsótti kristna menn áður hatrammlega, gerðist boðberi trúarinnar af sama krafti og ákafa og hann hafði áður verið andstæðingur hennar. Hann lagði líf sitt og limi í sölurnar vegna þess að hann vissi, að Kristur var upprisinn.
Hvernig getum við vitað að þetta sé satt? spurði drengurinn mig svo skynsamlega um upprisuna.
Við getum bent á vitnisburði fjölda samtíðarmanna Jesú, svo og á trúarkjark fylgjenda hans.
Við getum bent á tilvist kristinnar kirkju svo löngu eftir þessa atburði, kirkjunnar sem hefur upprisuna að hornsteini sínum.
Við getum líka bent á sögulegar staðreyndir sem sýna okkur hve ólíklegt það er að lærisveinarnir hefðu farið að spinna upp frásögnina af upprisunni. Þannig var t.d. vitnisburður kvenna talinn ómarktækur á þessum tíma og því hefði verið afar heimskulegt að búa til sögu um að konur hefðu komið að tómri gröf Jesú, eins og raunin var.
En þrátt fyrir þetta allt lendum við alltaf á sama staðnum að lokum.
Við lendum á þeim stað þar sem páskaboðskapurinn gerir þá kröfu til okkar að við tökum trúarstökkið; stökkvum frá kaldri rökhyggjunni út í gleði trúar og vonar, tökum flugið frá takmörkum mannlegrar hugsunar út í gleði Guðs ríkisins og fögnum í hjörtum okkar yfir því að Kristur er upprisinn.
Þess vegna hljómar páskaboðskapurinn betur en nokkur Kardimommusöngur!
Þess vegna safnast kristið fólk saman um víða veröld á þessum helgasta morgni ársins, í dag eins og það hefur gert í gegnum aldirnar.
Þess vegna hljóma orð trúarinnar á þessum morgni um allan heim, eftir því sem sólarupprásin færist yfir jarðarkringluna, vekur fylgjendur Krists og kallar til hátíðar þar sem þau hljóma, þessi fagnaðarorð:
Kristur er upprisinn. Kristur er sannarlega upprisinn. Hallelúja. Amen.