Þegar Strákarnir okkar skora sigurmarkið á lokasekúndunum í þýðingarmiklum leik sprettum við upp úr sjónvarpssófunum, lyftum höndum, hrópum og hoppum. Við gerum þetta ósjálfrátt. Dansinn er nefnilega alls ekki alltaf meðvitað og útspekúlerað hliðar-saman-hliðar fyrirbæri. Í dansinum missum við tökin á okkur sjálfum. Dans er alltaf ákveðið sjálfræðisafsal. Tónlist, taktur og ryþmi stjórna okkur. Dans og trans eru nátengdir.
Dansinn hreyfir ekki bara við einstaklingum. Stórir hópar hreyfast í dansinum nánast eins og einn maður. Dansinn gefur hópnum eina sál. Þess vegna er dansinn gjarnan trúarlegur. Í trúnni er til allsherjarregla, þar er til staðar einhvers konar æðri máttur. Í trúarlegum dansi er gefið til kynna að maðurinn sé í takti við þennan æðri mátt. Í fornri indverskri speki er sagt að Guð sé dansarinn en við mannfólkið dansinn hans. Dansinn felur í sér harmóníu, samræmi. Í honum birtist samræmi alheimsins og taktur eilífðarinnar. Að því leyti er dansinn forsmekkur þeirra tíma er sköpunin öll smellur í sama taktinn og er þátttakandi í sama dansinum.
Dansinn getur líka verið í takti sem er okkur ekki heilnæmur og hann er hægt að stíga við undirleik illra afla. Sú var raunin með sennilega frægasta dans Biblíunnar, dansinn í kringum gullkálfinn. Hann er tákn þeirrar efnishyggju sem tröllriðið hefur vestrænum samfélögum, þar á meðal okkar, með geigvænlegum afleiðingum. Dansinn í kringum gullkálfinn er tákn þess lífsviðhorfs, að efnisgæði tryggi hamingju manna og að hún sé föl fyrir peninga. Sá gullkálfsdans sem við Íslendingar stigum og erum sennilega enn að stíga, því hljómsveitin er ekki hætt að spila, lýsir sér í því að það heilbrigða og góða og sanna er troðið undir okkar dansandi fótum.
Dansinn kringum gullkálfinn er harður dans. Þar hugsar hver um sig, hamast á gólfinu, stjakar við öðrum til að ná sér í pláss og enginn biðst afsökunar þótt hann felli aðra í æðinu.
Í ljóði frá 4. öld er dansinn lofaður. Höfundurinn er ókunnur.
Ég lofa dansinn því hann frelsar manninn frá þyngslum hlutanna og kemur einstaklingnum í höfn samfélagsins. Ég lofa dansinn sem allt styrkir og glæðir, heilsu, tæran anda og leikandi sál. Dansinn er umbreyting rýmis, tíma og þess manns sem er í stöðugri hættu að hrörna og verða ekkert nema heili, ekkert nema vilji eða ekkert nema kennd. Dansinn styrkir manninn sem heild, þann mann sem er rótfastur í miðju sjálfs sín og er ekki gagntekinn af græðgi í manneskjur og hluti eða af djöfulskap sjálfshyggjunnar. Dansinn glæðir hinn frelsaða og leikandi mann, í jafnvægi kraftanna. Ég lofa dansinn! Ó, maður, lærðu að dansa! Annars hafa englarnir á himnum ekki hugmynd um hvað þeir eigi að gera við þig.
Myndin með pistlinum er tekin í dansmessu í Akureyrarkirkju á fyrsta degi kirkjulistaviku sunnudaginn 8. maí. Myndasmiðurinn er Þórhallur Jónsson.