Það fór nú sjálfsagt ekki framhjá neinum þegar hæsti maður heims kom til landsins á dögunum, í kringum hann var mikið fjölmiðlafár enda ekki oft sem menn er slaga hátt upp í þrjá metra ganga um götur Reykjavíkur. Heimsóknin varð þess valdandi að sérstakur stóll var smíðaður inn í hótelherbergi hans, sem var svo ævintýralega stór að sjónvarpsfréttamaðurinn sem settist í hann, meðal maður á hæð dinglaði fótunum fram af sætisbrúninni eins og barn á fyrsta ári, það var dálítið skondin sjón. En ég veit samt ekki alveg hvað mér fannst um þessa heimsókn, ef við hugsum um veruleika þessa manns þá er hann mjög tragískur. Í fyrsta lagi eru það alvarleg veikindi sem verða þess valdandi að hann stækkar svona óeðlilega mikið, í öðru lagi ber hann sjálfan sig ekki uppi og í þriðja lagi þráir hann ekkert frekar en að eignast konu sem gefur okkur vísbendingu um að hann langi í hjarta sínu fyrst og fremst til að vera eðlileg manneskja. Einhverjir geta komið með þau mótrök að hann velji sér sjálfur að vera sýningargripur, en þá er hæglega hægt að spyrja á móti hvort hann hafi val um eitthvað annað? Hvaða möguleika hefur hann í lífinu, aðra en að vekja athygli hvert sem hann kemur? Þið munið kannski þegar Risessan kom hingað á listahátið fyrir tveimur árum, risastóra brúðan sem gnæfði yfir borgina og hræddi líftóruna úr litlum börnum, maður fékk eitthvað kikk útúr því að vera í návígi við hana, allt í einu var maður svo smár og varnarlaus a.m.k þangað til maður mundi eftir að hún væri bara brúðustelpa. Yfir mig helltis hins vegar alveg öfug tilfinning þegar ég sá stóra manninn í sjónvarpinu, mér fannst hann vera svo varnarlaus gagnvart ágengum augum samferðamanna sinna og líka gagnvart afstöðunni sem án efa býr í hjörtum okkar allra þegar við horfum á hann, þeirri afstöðu að hann sé ekki eins og við hin. Guðspjall dagsins fjallar um að vera stór, þó ekki í sentimetrum heldur í hjarta sínu. Við vorum kannski ekkert sérstaklega stór þar sem við góndum á tyrkjann stóra með sambland af meðaumkun og furðu, við vorum auðvitað mannleg en ekkert sérstaklega stór. Í guðspjalli dagsins sem kemur úr fjallræðunni, einum elsta texta guðspjallanna er Kristur að hvetja okkur sem kirkju til að vera í fararbroddi, kirkjan samfélag kristinna manna er salt jarðar, kölluð til þess að vera virk í orði og verki að fyrirmynd Jesú frá Nasaret. Það þýðir að kirkjan á að vera hugrökk, stór, réttlát, hún á að sýna frumkvæði og hún á að vera öruggt skjól. “þannig lýsi ljós yðar meðal mannanna að þeir sjái góð verk yðar og vegsami föður yðar sem er á himnum.” Kirkjan á að starfa þannig að manneskjur beini þakklæti sínu til Guðs og eignist trú sem enginn maður megnar að taka. Þess vegna þarf kirkjan að starfa með aðeins eitt markmið í huga og það er að standa vörð um manneskjur, ekki síst þegar ógnin beinist innan frá. Það dásamlega við kirkjuna er að þar á enginn neitt nema Guð og þess vegna ber okkur ekki að hlýða öðru en því sem er Guði þóknanlega, því sem Guð opinberar í Jesú Kristi og þess vegna er siðvitund kirkjunnar eins og hún opinberast í Kristi orði hans og verki ofar öllum mannasetningum og lagasetningum, það er bara þannig. Líkingin um saltið er mjög áhugaverð og sterk, í fyrsta lagi er gömul og viðurkennd aðferð að nota salt til þess að varðveita mat sem hættir til að skemmast og hins vegar er saltið notað til þess að draga fram bragð eða bragðbæta matvæli. Erindi kirkjunnar er einmitt ekki bara að ganga inn í aðstæður þegar skaðinn er skeður heldur líka að varna því að hann verði. Erindi kirkjunnar er að varðveita manneskjur frá skemmdum og þess vegna leggur kirkjan metnað sinn og orku í að sinna börnum og unglingum í raun framar öllu. Við vitum að reynsla okkar í æsku mótar framtíð okkar alla. Þau gildi sem við erum alin upp í á mótunarárunum grópast mjög sterkt í siðvitund og sálarlíf okkar,.oft án þess að við séum meðvituð um það. Þess vegna er starf með börnum og unglingum eitt það viðkvæmasta og vandasamasta sem við tökumst á hendur. Í raun er fátt sem ég undirbý mig betur fyrir en t.d. fermingarfræðslan þar sem ég fæ það dýrmæta og ábyrgðarmikla hlutverk að tala við 13 ára unglinga um lífsgildin, siðferði, við tölum um kynlíf og í því samhengi um sjálfsmynd, sjálfsvirðingu, mörk, jafningjasamskipti, kynhneigð ofl og áður en ég einhendi mér út í þessar umræður bið ég Guð og heilagan anda að stýra hugsun minn og fer markvisst í gegnum mínar eigin skoðanir áður en að tímanum kemur, og samt er ég búin að starfa við þetta í mörg ár. Það er bara fátt sem felur í sér meiri ábyrgð, veistu það? Að prédika fyrir framan fullorðið fólk eins og ég er að gera núna felur ekki í sér sömu ábyrgð vegna þess að hér erum við í jafningjasamskiptum og ég geri ráð fyrir því og ætlast til þess að þið takið við hugrenningum mínum með gagnrýnni hugsun, ég get ekki gert ráð fyrir því þegar ég tala við börn og unglinga, ég verð alltaf að gera ráð fyrir því að þau trúi og treysti öllu sem ég segi. Þess vegna verður kirkjan alltaf að vera öruggur staður fyrir börnin og unglingana að þau finni að í kirkjunni ráði engar aðrar hvatir en þær sem heilagur andi stjórnar og Kristur boðar og Guð skapar. Helgina 16.til 18.október fór ég ásamt hópi unglinga héðan úr kirkjunni á landsmót æskulýðsfélaga í Vestmannaeyjum, svona mót erum haldin árlega og á þau safnast æskulýðsfélög kirknanna hvaðanæva af landinu. Í ár var metþátttaka tæplega 600 unglingar voru skráðir en 150 helltust úr lestinni á síðustu stundu vegna flensunnar. Á mótinu tókust krakkarnir m.a. á við náttúru Vestmannaeyja en það sem kannski stendur upp úr í mínum huga eru hvatningabréf sem þau skrifuðu sjálf til áhrifamanna og stofnanna í samfélaginu, bæði til að þakka það sem vel er gert og einnig til að hvetja til betri starfa. Bréfin voru mikil opinberun fyrir okkur leiðtogana bæði vegna þess að þau lýstu svo mikilli bjartsýni og jákvæðni sem kom svo þægilega á óvart í öllum heimsendaspám fjölmiðlanna. Þau sendu m.a. Rauða krossinum bréf þar sem þau þökkuðu allt það sem sú hreyfing hefur unnið og töldu upp þau verkefni sem þau þekktu á þeirra vegum. Nú svo skrifuðu þau Davíð Oddssyni bréf og báðu hann um að hafa fleiri jákvæðar fréttir á forsíðu Moggans þannig að fólki svelgdist ekki á morgunkaffinu dag eftir dag og svo mætti hann líka nýta sér þá gagnrýni sem hann fengi á uppbyggjandi hátt. Geir H Haarde fékk líka bréf þar sem honum var óskað góðs bata og skipstjórinn á Herjólfi fékk líka hvatningar og þakkarbréf þar sem þau þökkuðu honum umhyggjuna á leiðinni til Eyja, en hann kom oft og vitjaði þeirra sem þjáðust hvað mest af sjóriðu. Já þessi bréf voru okkur leiðtogunum opinberun vegna þess að í þeim birtist engin heift, bara þakklæti jákvæð hvatning og húmor, Jón Ásgeir fékk meira að segja bréf sem fól eingöngu í sér hvatningu um að hann fengi sér nú nýja hárgreiðslu. Mér fannst þau svo stór börnin eftir að ég las bréfin þeirra og það var mér áminning um að beina ratsjánni burt frá reiðinni og óttanum sem hefur oft læst klónum í hjartavöðvann. Ofan á þetta kemur svo bara fram fagleg rannsóknarniðurstaða á dögunum um að börnum og unglingum líði betur í dag en fyrir tveimur árum og hvers vegna er það? Jú vegna þess að líf margra hefur einfaldast svo mikið, þá á ég ekki við að það sé endilega auðveldara en um leið og lífstakturinn hægist þá einfaldast lífið og það er það sem börnin þrá. Sonur minn sem er 7 ára hann dreymir t.d. um það að stórfjölskyldan búi öll í sama húsi svo hann geti alltaf rambað á milli þegar honum hentar og eytt sem mestum tíma með öllum, ömmum, öfum, frænkum og frændum, hann talar oft um þetta og ég er alveg viss um að hann er ekki eina barnið sem dreymir um þetta. Allar hans þrár eru ekta á meðan önnur hver þrá í minu hjarta er hégómi en þegar ég staldra við og set mig inn í drauma hans þá finn ég frið, það er svo merkilegt að allt sem hann í raun þráir er það sem getur líka gert mig hamingjusama, fyrir utan kannski að stofna pizzustað eins og hann stefnir á að gera í framtíðinni. Hæsti maður heims fékk þá athygli sem hver maður í meðalhæð gæti vel hugsað sér að njóta en samt átti hann bara eina ósk sem hann tíundaði allstaðar í öllum viðtölum, og það var að finna ástina, nokkuð sem aragrúi manna í meðalhæð eiga. Mér fannst koma hans til landsins mikil prédikun því hún varpaði skýru ljósi á það hvað það þýðir í raun að vera stór. Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen
Stórir menn
Flokkar