Bandaríkin d. 4. apríl 1968
„Ég á mér draum...“ þessi velþekktu orð frá ræðu í Wasington árið 1963 draga saman líf sem helgað var baráttunni fyrir réttindum og jafnræði allra íbúa Bandaríkjanna. Martin Luther King fæddist árið 1929 í suðurríkjunum. Hann varð prestur í baptistakirkjunni, doktor í guðfræði, nafntogaður prédikari og óskoraður leiðtogi mannréttindabaráttunnar. Umfram allt var hann undir áhrifum frá Mahatma Gandhi sem vildi breyta samfélaginu með friðsamlegum aðferðum. King skipulagði mótmælagöngur og friðsamlegar aðgerðir til að þvinga fram umbætur svo sem kosningarétt blökkumanna. Árið 1964 fékk hann friðarverðlaun Nóbels. Martin Luther King hélt fast við friðarhyggju sína á meðan ýmsum hreyfingum óx fiskur um hrygg meðal blökkumanna sem sáu ofbeldi sem nauðsynlegt til að ná markmiðum jafnréttisins. Hann varð sjálfur fórnarlamb ofbeldisins, skotinn úr lausátri í Memphis.
Andi Drottins er yfir mér því að Drottinn hefur smurt mig. Hann hefur sent mig til að flytja fátækum gleðilegan boðskap, til að græða þá sem hafa sundurmarin hjörtu, boða föngum lausn og fjötruðum frelsi, til að boða náðarár Drottins og hefndardag Guðs vors, til að hugga þá sem hryggir eru og setja höfuðdjásn í stað ösku á syrgjendur í Síon, fagnaðarolíu í stað sorgarklæða, skartklæði í stað hugleysis. Þeir verða nefndir réttlætiseikur, garður Drottins sem birtir dýrð hans. Jes. 61.1-3
Píslarvottar vorra tíma. Lauslega byggt á bók Jonas Jonsson: Vår tids martyrer.