Angistarfullt tómið sverfur að henni, skerandi hungrið nýstir merg og bein, hún heyrir hjartað orga á safaríkan skyndibita og hleypur í örvæntingu að næsta sjálfsala. Hundraðkallinn skoppar inni í maskínunni, hún sleikir út um, peningurinn skilar sér. Hún reynir enn og aftur, ekkert gengur upp en samt skynjar hún að eitthvað liggur í loftinu. Djúpt undir orgar hún af hungri, ljónynja í leit að næringu.
Hún grípur um hverkar, strýkur sér um kviðinn á lostafullan hátt, upp brjósið yfir þornaðar varirnar og sleikir fingurinn. Þá dropar úr lofti, fyrst einn, svo annar, hún lítur upp, opnar munninn teygir fram tunguna og drekkur í sig himininn, gleypir skýin og kjamsar á dreggjum hverfandi sólargeisla. Munnurinn fyllist himneskum táknum og kviðurinn eilífri orku. Hún orgar af alsælu hið innra, uppsvelgist í umvefjandi núi.
Hárin rísa, hugurinn vaknar, hvaðan kom henni hungrið? Hvers hefur hún leitað og hvar? Hún réttir fram hendur, droparnir kitla lófa hennar, vekja næmi skynjunar, opna orkustöðvarnar. Í hverjum dropa heill heimur fyrirheita um líf. Hún teiknar hring með vísifingri í hægri lófann, lyktar af orkunni, lepur með tungunni. Kyngir, fyrst skynjuninni, svo viskunni, fullkominni uppskrift að nýju upphafi, tilgangi.
Eftir áralanga leit, gjörsamlega úrvinda af móðurlegum gælum yfir óteljandi ungum, sem komu og fóru um líf hennar og lendur, fann hún það hér við bilaðan sjálfsala á torgi hinna týndu. Það var þá aldrei hulið, andlega brauðið, en leyndist eftir allt í einum litlum dropa, næring að ofan, uppsoguð efni í æðakerfið. Hún teygði úr sér, ynjan hið innra, hljóp af stað, fagnandi, öskrandi fullnægð í eilífðinni sem hún fann, sem hana fyllti.
- o -
Hugleitt út frá Jóh. 6. 26-27: ,,Jesús svaraði þeim: ,,Sannlega, sannlega segi ég yður: Þér leitið mín ekki af því, að þér sáuð tákn, heldur af því, að þér átuð af brauðunum og urðuð mettir. Aflið yður eigi þeirrar fæðu, sem eyðist, heldur þeirrar fæðu, sem varir til eilífs lífs og Mannssonurinn mun gefa yður".