Fyrir meir en fjörutíu árum sá ég í dönsku blaði smælki þar sem gert var góðlátlegt grín að nágrannaþjóðunum og þar mátti lesa eftirfarandi klausu: „Íslendingar hafa ákveðið að fylgja fordæmi Svía og taka upp hægri umferð. En Íslendingar ætla að framkvæma þessa breytingu í áföngum: Byrja á trukkunum!“ Einhverra hluta vegna kemur þessi danska skrítla mér í hug þegar ég horfi á það sem er að gerast í íslensku samfélagi nú. Það er eins og gengið sé út frá því að reglurnar nái ekki til allra, að eitt gangi ekki yfir alla. Hagsmunir fjármagnsins hafa forgang.
Nú er það svo með umferðarlög og reglur að þær hafa almennt gildi og ná til allra vegfarenda. Hver sá sem fer um götur og stræti verður að geta treyst því. Skilti og merkingar minna á boð og bönn til að greiða fyrir umferð og afstýra árekstrum og slysum. Hversu margar sem umferðarreglur eru þá er víst að allar eru þær bornar uppi af einni frumreglu sem öllum er ætluð, hvert svo sem farartækið er og ferðamátinn. Sem er: Sýnið tillitssemi, aðgát með tilliti til aðstæðna og annarra vegfarenda. Gildir ekki hið sama um siðgæði mannlegra samskipta og samfélagsins yfirleitt? Í umferðinni vitum við að lögreglan er hugsanlega á næsta leiti og maður getur átt á hættu að vera gripinn sé ekið of greitt eða með öðrum hætti brotið gegn umferðarreglunum. Að baki umferðarlögum og reglum er vald samfélagsins til að framfylgja þeim og refsa þeim sem þau brjóta. En hvað með umferðarreglur lífsins, siðaboð og almenn viðmið samfélagsins? Hvaða vald er á bak við það?
Allir telja sig þrá frið, og þó er ófriður hvert sem litið er. Átök og illdeilur í stjórnmálum, átök á vinnustöðum, óeining og deilur milli hjóna og milli foreldra og barna, ósætti systkina veldur upplausn, þjáningum og verður einatt tilefni ofbeldis og voðaverka. Einelti er vandamál víða í skólum og á vinnustöðum, skemmdaverk af ýmsu tagi, svo sem veggjakrot og rúðubrot er alvarlegt vandamál og spilla samfélaginu.
Agaleysi barna og unglinga þykir mikið hér á landi, skrílmenning með tilheyrandi drykkju og afskiptaleysi foreldra og samfélagsins yfirleitt, hefur hvað eftir annað verið viðfangsefni erlendra fjölmiðla. Hér hefur viðkvæðið og frumreglan um langan aldur verið: „Ég er á móti boðum og bönnum.“ Ekki vantar samt vandlætingasemi skoðanamótendanna, siðavendni fjölmiðlanna sem umsvifalaust afhjúpa þau sem ekki standast þær kröfur sem almenningsálitið setur þeim, og dæmir út í ystu myrkur og þá er enga miskunn að finna. En hver eru viðmiðin og hvaðan eru þau runnin?
Við höfum horft upp á hrun í íslensku samfélagi, hamfarir af manna völdum. Við horfðum upp á það hvernig sjálfsánægjan, sjálfsréttlætingin, agaleysið og oftraustið varð okkur að falli. Fullvissan um eigin yfirburði, siðgæðislega, trúarlega, menningarlega yfirburði hefur oft leitt þjóðir í ógöngur, og valdið hruni siðmenninga. Við höfum lent í ógöngum.
Ummæli Íslendingasögu Sturlu Þórðarsonar um skálmöld sinna tíma eiga vel við það sem hér gerðist:„Lifði hver sem lysti en engi þorði um að vanda né satt að mæla.“ Gróðafíkn og ágirnd var leidd til öndvegis sem aflvaki góðra hluta. Hin „tæra snilld“ íslenskra athafnamanna, áhættusækni og ofsaakstur á markaðnum dró samfélagið allt niður með sér. Stjórnvöld brugðust augljóslega. Enda hafði sannarlega verið slakað á öllum hömlum og viðnámi í löggjöf og eftirliti. Trukkarnir nutu forgangs, svo vísað sé til dönsku skrítlunnar. Þeim erlendum sérfræðingum og fjölmiðlum sem höfðu uppi varnaðarorð um íslenskt efnahagslíf sendu íslenskir ráðamenn tóninn. Þeim innlendu vökumönnum sem vöruðu við var iðulega mætt með yfirlæti og gert lítið úr kunnáttu þeirra og skynsemi: „Þetta eru bara klisjur“ var viðkvæðið. Ofdrambið varð okkur að falli, trúin á Mammon varð okkur að falli.
„Oftraustið er oft að meini, um það sagan vitni ber.“ Það staðfestir reynsla kynslóðanna. Og hvað það varðar þá gildir viðvörun postulans:„Sá er hyggst standa, gæti því vel að sér að hann falli ekki..“(1.Kor. 10.12) Nú ríður á að við stöndum í fæturna, að við festumst ekki í fortíðinni heldur vinnum úr reynslunni til góðs fyrir samfélag okkar, þjóð og land til framtíðar. Styrkja þarf stofnanir og setja reglur til að tryggja eftirlit, svo efla megi traust og koma í veg fyrir að sagan endurtaki sig. En ekki er síður mikilvægt að vinna að aukinni siðvitund, sjálfsaga, heilindum og heiðarleika í samfélaginu. Án slíks duga nefnilega engar reglur eða eftirlitsstofnanir, hversu vel til er vandað.