Jólanótt

Jólanótt

Guðsþjónusta er samfélag við Guð og samfélag við hvert annað. Guð talar í orðinu, við megum svara í sálmasöngnum og þannig játa trú okkar ef við viljum það. Þegar við biðjum, þá erum við undir opnum himni Guðs og hann svarar okkur með blessun sinni og í kvöld og í nótt með jólafriðnum.
fullname - andlitsmynd Jón D Hróbjartsson
24. desember 2009
Flokkar

En það bar til um þessar mundir að boð kom frá Ágústusi keisara, að skrásetja skyldi alla heimsbyggðina. Þetta var fyrsta skrásetningin og var gerð þá er Kýreníus var landstjóri á Sýrlandi. Fóru þá allir til að láta skrásetja sig, hver til sinnar borgar. Þá fór og Jósef úr Galíleu frá borginni Nasaret upp til Júdeu, til borgar Davíðs, sem heitir Betlehem, en hann var af ætt og kyni Davíðs, að láta skrásetja sig ásamt Maríu heitkonu sinni sem var þunguð. En meðan þau voru þar kom sá tími er hún skyldi verða léttari. Fæddi hún þá son sinn frumgetinn, vafði hann reifum og lagði hann í jötu af því að eigi var rúm fyrir þau í gistihúsi. En í sömu byggð voru hirðar úti í haga og gættu um nóttina hjarðar sinnar. Og engill Drottins stóð hjá þeim og dýrð Drottins ljómaði kringum þá. Þeir urðu mjög hræddir en engillinn sagði við þá: „Verið óhræddir, því, sjá, ég boða yður mikinn fögnuð sem veitast mun öllum lýðnum: Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs. Og hafið þetta til marks: Þér munuð finna ungbarn reifað og liggjandi í jötu.“ Og í sömu svipan var með englinum fjöldi himneskra hersveita sem lofuðu Guð og sögðu: Dýrð sé Guði í upphæðum og friður á jörðu og velþóknun Guðs yfir mönnum. Þegar englarnir voru farnir frá þeim til himins sögðu hirðarnir sín á milli: „Förum beint til Betlehem að sjá það sem gerst hefur og Drottinn hefur kunngjört okkur.“ Og þeir fóru með skyndi og fundu Maríu og Jósef og ungbarnið sem lá í jötu. Þegar þeir sáu það skýrðu þeir frá því er þeim hafði verið sagt um barn þetta. Og allir sem heyrðu undruðust það er hirðarnir sögðu þeim. En María geymdi allt þetta í hjarta sér og hugleiddi það. Og hirðarnir sneru aftur og vegsömuðu Guð og lofuðu hann fyrir það sem þeir höfðu heyrt og séð en allt var það eins og þeim hafði verið sagt.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Kæri söfnuður, - Guð gefi okkur öllum Gleðileg jól! Það er gott að sjá ykkur öll hér í kvöld, vita að við erum hér öll í sama tilgangi, að taka á móti jólunum, boðskap jólanna, sem kemur til okkar m.a. í jólatextunum, jólasálmunum, bænunum. Guðsþjónusta er samfélag við Guð og samfélag við hvert annað. Guð talar í orðinu, við megum svara í sálmasöngnum og þannig játa trú okkar ef við viljum það. Þegar við biðjum, þá erum við undir opnum himni Guðs og hann svarar okkur með blessun sinni og í kvöld og í nótt með jólafriðnum. Þegar við biðjum, þá erum við að opna hjarta okkar, opna fyrir áhrifum Guðs inn í líf okkar.

Einn af aðventutextunum sem hljómað hafa í kirkjum heimsbyggðarinnar á aðventu hljóðar svo:

Sjá, ég stend við dyrnar og kný á, ef einhver heyrir raust mína og lýkur upp dyrnunum, mun ég fara inn til hans og neyta kvöldverðar með honum og hann með mér.

Hver talar? - jú það er Undraráðgjafinn, Guðhetjan, Eilífðarfaðirinn, - Friðarhöfðinginn, sem Jesaja spámaður vitnaði um.

Öll þessi heiti fékk jólabarnið löngu áður en hann kom í heiminn, hvert og eitt þeirra er þrungið innihaldi. Það er einmitt þetta innhald sem hann vill fá að koma til skila, inn í hjarta okkar, inn í líf okkar. Það segir svo fallega, að hann vilji neyta kvöldverðar með okkur og við með honum. Öll vitum við hvað það er, að neyta kvöldverðar með fjölkskyldu og vinum, þar verður samfélagði mjög náið, persónulegt, innilegt, gefandi á alla lund. Við kvöldmáltíðarborðið á sér gjarnan stað innihaldsrík umræða, við fáum fréttir, við förum yfir liðinn dag, tökumst ef til vill á um málefnin, sættumst, - við nærumst líkamlega og andlega.

Undraráðgjafinn vill umfram allt gefa okkur sitt himneska brauð, sem hann kom með af himni. En Jesús sagði einmitt einhverju sinni: Ég er hið lifandi brauð sem kom niður af himni til að gefa heiminum Líf. Þetta ”lifandi brauð” vill hann bera inn í húsið okkar, til að gefa okkur góð ráð, kenna okkur um gildin sem duga í baráttu lífsins, upplýsa okkur um Sannleikann, sem gerir okkur frjáls.

Sjá, ég stend við dyrnar og kný á! Jólagesturinn er kominn með allt þetta og miklu meira. “Barn er oss fætt, sonur er oss gefinn!”

Það var þröngt í Betlehem þegar barnið fæddist, það var hvergi gistingu að fá. Litla fjölskyldan hefur án efa knúð dyra víða, áður en hún fann fjárhúsið, jötuna lágu. ... “ef einhver heyrir raust mína og lýkur upp dyrnunum.” Hann ryðst ekki inn, hann stendur við dyrnar þangað til við ljúkum upp eða vísum honum frá. Það eru ýmsir sem hafa vísað honum frá, mannkynssagan ber þess glögg merki, en hann kemur alltaf aftur, það, er m.a. hluti af fagnaðarerindi jólanna, hann kemur aftur og aftur.

Það hafa svo sannarlega skifst á skin og skúrir í sögu mannkynsins, góð tímabil og vond tímabil, stórveldi góð og ill hafa orðið til, en hrunið aftur til grunna, stríð, styrjaldir já margvíslegir erfiðleikar hafa einkennt söguna. Og hér hjá okkur hefur mikið gengið á, eins og öllum er ljóst, undirstöður þjóðfélagsins hafa skolfið, það hefur hrykkt í svo um munar. Ástandið hefur vissulega fengið okkur til að doka við, spyrja spurninga, endurmeta gildin, - þetta hefur verið gert með ýmsu móti. Opnir fundir og samkomur hafa verið haldnar, stærsti fundurinn líklega þjóðfundurinn í Laugardalshöllinni í nóvember. Þar var leitað að gildum, gerð könnun á því hvernig fólk sér forgangsröðun gildanna.

Útkoman var athyglisverð, því hin góðu gildi spruttu upp á yfirborðið, heiðarleiki, réttlæti, kærleikur o.fl. flest gildi sem Friðarhöfðinginn kenndi á sínum tíma og fylla síður heilagrar ritningar. Þetta sýnir mér, að menning okkar byggir á grunni, sem verður ekki tekinn frá henni og sem kemur í ljós þegar á reynir, þegar farið er að grafa og athuga undirstöðurnar.

Þá hefur komið í ljós á nýafsstaðinni aðventu, að fólk hefur í auknum mæli sótt aðventusamkomur, tónleika og guðsþjónustur. Kirkjan okkar hér hefur fyllst aftur og aftur, stundum tvisvar – þrisvar á dag um helgar, mörg þúsund manns hafa notið kyrrðarinnar, notið þess að íhuga hin kristnu gildi, biðja og syngja Guði lof og dýrð. - Þetta er þakkarvert.

Og enn erum við hér í þéttsetinni kirkju til að efla okkur í trúnni, voninni og kærleikanum, - það kemur ekkert í stað þessara gilda, þau opna fyrir hið góða fagra og fullkomna.

Einhverju sinni las ég vitnisburð fanga, sem hýrðist inn í kelfa sínum langa daga og vikur. Einn daginn sem oftar kom fangavörðurinn, knkúði dyra og kom inn til hans, fanginn lá enn í fleti sínu og herbergið alveg myrkvað. Dyrnar opnuðust og ljósgeislinn frá ganginum fyllti herbergið. Hann horfði á ljósið og komast að því, að ljósið er sterkara en myrkrið. Skugginn úr kelfa hans fór ekki út á gang og myrkvaði hann heldur öfugt, ljósið sigraði myrkrið. Fanginn sagði frá þessu síðar og vitnaði um þetta sem sterka prédikun, sem gaf honum styrk og von við þessar aðstæður. Einföld reynsla, - en samt frábær staðreynd. Ljósið er gífurlega sterkt tákn, enda oft tengt Guði og því sem Guðs er. Ljósastikurnar hér í kór kirkjunnar, sem Leirlistafólk hefur gert og sýnir hér allan þennan mánuð, fallegt handverk og frábær vitnisburður um mátt ljóssins. Eitt af því sem er svo stórkostlegt við kertaljósið er, að þótt þú tendrir ljós af ljósi, þá dofnar ekki það sem af er tekið, ljósmagnið er hið sama og koll af kolli. Ég er ljós heimsins, sagði Jesús, og bætti við um lærisveina sína og kirkju sína: Þér eruð ljós heimsins, þér eruð salt jarðar... Á jólanótt varð bjart á Betlehemsvöllum, jólastjarnan skein skært og englakórinn söng: Dýrð sé Guði í upphæðum og friður á jörðu og velþóknun Guðs yfir mönnunum.

Þessi birta hefur náð okkur hér í kvöld og við skulum taka hana með okkur og tendra hana hvar sem við komum, þannig að jólaljósið, ljós trúar, gleði, góðvildar, umhyggju, vonar, kærleika verði bjartara en nokkru sinni.

Dýrð sé Guði, föður syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er enn og verður um aldir alda. Amen.